"Sérstaklega önnur og þriðja kynslóð múslima."

Í að minnsta kosti einni af ræðum Donalds Trumps í kosningabaráttunni sagðist hann ætla að margefla leyniþjónustu og lögreglu í Bandaríkjunum til þess fylgjast ekki aðeins með komum múslima og íbúa múslimaríkja og Arabaríkja til Bandaríkjanna, heldur jafnvel enn frekar þeim múslimum, sem búa þegar í Bandaríkjunum. 

Trump fullyrti að 2. og 3ja kynslóð múslima væru svo hættulegar, að fylgast yrði sérstaklega með þeim í komandi lögregluríki. Mátti skilja á honum að þetta væri varasamara fólk vegna þess að þæð væri fætt og uppalið í Bandaríkjunum.  

Nú sjást þess þegar merki að byrjað sé á því að sækja að þessu fólki, og að loforð Trumps verði efnt, úr því að maður, sem fæddur var í Bandaríkjunum fyrir 44 árum og uppalinn þar, er settur undir sérstaka smásjá, stöðvaður og sviptur frelsi í tvær klukkustundir fyrir þær sakir einar að heita sama nafni og heimsfrægur faðir hans, einhver þekktasti Bandaríkjamaður síðustu aldar. 

Í dag má sjá af sjónvarpsumfjöllun af fjöldafundi Trumps að hann segist aðeins vera í starfi fyrir Bandaríkjamenn eina en alls ekki sem heimsborgari eða einstaklingur sem tilheyri mannkyninu, heldur eingöngu Bandaríkjamaður og ekkert annað. 

Veröldin utan Bandaríkjanna komi honum ekki við, aðeins Bandaríkin og æskilegir þegnar þeirra. 

Því að enda þótt Múhammad Ali yngri sé fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum nægir það ekki til þess að hann geti treyst því að vera áfram frjáls maður í landi frelsisins. 

Maður var að vona að bloggpistill minn fyrir viku um það að hæpið væri að ég fengi að ferðast til komandi dýrðarríkis Trumps vegna nafns míns, mætti skilja sem hálfkæring. 

En úr því að fæddur og uppalinn Bandaríkjamaður er litinn illu auga vegna nafns síns, er hugsanlega mun líklegra að útlendingar með því hræðilega nafni Omar verði teknir í bakaríið ef þeir voga sér að ætla að heimsækja Guðs eigin land. 

 

 

 


mbl.is Sonur Muhammad Ali stöðvaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf ádrepa.

Lítil saga úr umferðinni sem mér var sögð fyrir nokkrum dögum: Maður nokkur sat í hægra framsæti bíls hjá dóttur sinni, sem var í æfingarakstri. Þau stönsuðu á rauðu ljósi, en þegar aka átti af stað, drapst á bílnum. 

Fát kom á stúlkuna og tók brot úr mínútu að koma bílnum í gang. En sá tími nægði fyrir mann á bíl fyrir aftan til þess að rjúka út úr þeim bíl, þrífa upp hurðina hægra megin á bílnum fyrir framan og kýla föður stúlkunnar svo að hann hreinsaði úr honum allar tennur og beinbraut hann í ofanálag. 

Önnur persónuleg saga, sem ég sagði hér á blogginu fyrir níu árum án þess að hún hefði hin minnstu áhrif:

Ég á leið af bílasýningu hjá Öskju á pínulitlum fornbíl, NSU Prinz.

Bensíngjöfin bilaði þegar ég var nýlagður af stað, svo að ég ók utarlega á vegarbrúninni í vesturátt á Vesturlandsveginum á lítilli ferð. 

Þessi minnsti bíll landsins truflaði í engu umferðina sem var ekki mikil og gekk greiðlega,því að klukkan var að nálgast ellefu. Það var bjart sumarkvöld. . 

Þá kom bíll akandi framúr mér og stansaði um það bil hundrað metra fyrir framan mig. 

Út úr bílnum snaraðist maður og hljóp með hnefann á lofti í átt að mínum bíl. 

Þegar hann nálgaðist sá ég að hann var þrútinn af bræði svo að blóðhlaupin augun stóðu sem á stilkum, og af því að ég var með opinn glugga mín megin heyrði ég að hannn öskraði froðufellandi rétt í þann mund sem hann kom a bílnum: "Ég skal drepa þig, helvítið þitt!!" 

Sem betur fór er þessi bíll minn jafn snöggur og léttur í stýrinu og reiðhjól, þannig að á réttu augnabliki, þegar maðurinn var að komast að bílnum, svipti ég honum til vinstri svo að maðurinn lenti hægra megin við bílinn í stað þess að lenda mín megin. 

Hann framkvæmdi hins vegar hótun sína, því að kýla með hnefanum í gegnum hliðarrúðuna hægra megin svo að hún brotnaði og glerbrotin flugu um allan bílinn. Hefði hann slegið mín megin hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. 

Ég hélt ferðinni áfram og sá manninn koma hlaupandi á eftir bílnum en sem betur fer virtist hann ekki hafa úthald í að draga mig uppi og stansaði.  Var hugsanlega með blóðuga hönd og búinn að rasa út. 

Ég hélt áfram ferðinni og fór niður í Útvarpshús, þaðan sem ég hafði komið á bílnum. 

Sá hinn bílinn og hinn óða mann ekki aftur. 

Mér var svo brugðið við þessa óhugnanlegu lífsreynslu að ég gat engan veginn munað af hvaða gerð bíll árásarmannsins, eða árásarmannanna var, því að hugsanlegt er að brjálæðingurinn hafi verið farþegi. 

Það er vitað að ofstopafólk leikur lausum hala í okkar kæru borg og kemst upp með að lemstra fólk, valda örkumlum og drepa, ef svo ber undir.

Við vitum að hver sem er getur hvenær sem er orðið fyrir svona árásum. Mitt atvik gerðist um ellefuleytið á björtu vorkvöldi. 

Orð Runólfs í tengdri frétt eru orð í tíma töluð, orð, sem hafa verið sögð árangurslaust aftur og aftur um margra ára skeið.

Fólk hrekkur aðeins við þegar besti leikmaðurinn í handboltalandsliðinu okkar er barinn svo illa að tilefnislausu í miðborg Reykjavíkur að hann getur ekki beitt sér á stórmóti á eftir.

En strax á eftir fellur allt í sama farið. Æi, svona er nú bara Reykjavík og hvað með það? 


mbl.is „Ég hef sjaldan upplifað verri daga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboðin: Þið hafið verra af ef þið hlýðið okkur ekki!

Nú þykir ýmsum það vera að renna upp fyrir sér, hvers vegna Donald Trump dáist að Vladimir Pútín og vill, í ljósi þess að hann verði honum fremri, fara fram úr Pútín í að segja fjölmiðlum stríð á hendur. 

Pútín hefur aldrei gengið svo langt að kalla fjölmiðla "óvini þjóðarinnar" og raunar minnist ég þess ekki að nokkur þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum hafi skilgreint fjölmiðla með svona orðum síðustu 70 ár, ekki einu sinni Franco, Salazar eða gríska herforingjastjórnin. 

En sú skilgreining að óæskilegir fjölmiðlar séu "óvinir þjóðarinnar" býr til sóknaráætlun, sem er pottþétt: 

Ef þeir fjölmiðlar sem nú er bægt frá því að fjalla um málefni sem á að ræða um á "opnum" blaðamannafundi, reyna að andmæla eða andæfa þessari kúgun og grímulausu ritskoðun, er þessi mótspyrna túlkuð sem svo, að þessir fjölmiðlar sýni og sanni með þessu að þeir séu "óvinir þjóðarinar" og óvinir Trumps, því að eins og franskur einvaldskonungur sagði forðum: "Ríkið, það er ég", er hugsun Trumps sú sama: Þjóðin, það er ég.

Fjölmiðlunum er komið út´í horn, þar sem eina undankomuleiðin frá því að vera bannfærðir er að falla á kné og kyssa á vöndinn. 

 


mbl.is Völdum fjölmiðlum meinaður aðgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAGA: Að drepa alla rússnesku þjóðina oftar en Rússar kála Bandarísku þjóðinni!

Talið er að kjarnavopnin, sem Rússar búa yfir, geti drepið alla Bandaríkjamenn margsinnis. 

Förum varlega og segjum að vopnin geti drepið Bandaríkjamenn tvisvar. 

Þá rís upp Donald Trump og vill, að það sé ekki talið nóg að Bandaríkjamenn geti líka drepið alla Rússa tvisvar, heldur þrisvar! Bandaríkin yrðu að hafa afgerandi forystu í þessu máli. 

Þarna sést ein af forsendunum fyrir MAD (Mutual Assured Destruction) sem hefur verið grundvallarkenningin á bak við kjarnavopnakapphlaupið.

MAD, eða GAGA í íslenskri þýðingu, (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra"), felst í því að hvor aðili um sig sannfæri hinn um að hann muni ekki hika við að fara út í gereyðingarstríð sem eyði öllu lífi á jörðinni. Annars virkar hótunin ekki!  

Og nú þurfa Kanarnir helst að geta drepið alla Rússana oftar en Rússarnir geti drepið Kanana!

Yndislegt að hafa eignast svona töff leiðtoga vestrænna þjóða!  


mbl.is Trump vill efla kjarnorkuvopnabúrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plús: Endurupptaka gerð möguleg. Mínus: Að taka mál Erlu ekki með.

Sambandið á milli ungrar konu og nýfædds barns er líklega dýpsta, tilfinnigaríkasta og viðkvæmasta samband á milli tveggja einstaklinga, sem hægt er að ímynda sér. 

Og aðeins konur geta vitnað um slíkt samband. 

Þótt ákvörðunin um að gera endurupptöku mögulega marki tímamót í íslenskri réttarfarssögu, er sá ljóður á, að mál Erlu Bolladóttur skuli ekki verða endurskoðað líka. 

Öll kurl eru ekki komin til grafar um svívirðilega meðferð hins karllæga lögregluríkis gagnvart Erlu, sem fylgt var eftir í gegnum alla rannsóknina og málsmeðferð fyrir dómstólum. 

Forsendurnar fyrir dómnum yfir henni á sínum tíma voru augljóslega rangar vegna þess hve málsmeðferðin öll var hræðileg frá upphafi og bjagaði alla möguleika til að leggja rétt mat á aðstæður hvers sakbornings fyrir sig, ekki síst Erlu. 


mbl.is Farþegi í bíl sem ekið var á Guðmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurupptaka nú, - annars glatast gögn!

Nú er liðinn það langur tími frá því að Guðmundar- og Geirfinnsmálin voru afgreidd á algerlega ófullnægjandi hátt, að mikilvæg vitni, sem verður að tala við, eru orðin það öldruð, að það er annað hvort að fá vitnisburð þeirra nú eða aldrei. 

Fimm slík vitni hafa haft samband við mig í trúnaði, tvö fyrir rúmum áratug, og þrjú eftir að bókin "Hyldýpið" kom út síðastliðið sumar. 

Eitt vitnið er þegar látið, en nýjustu þrjú vitnin eru á lífi. Vitnisburður eins þeirra kann að hafa mikil áhrif á málið. 

En það er sameiginlegt þessum vitnum, að ef þau stíga fram, tengist vitnisburður þeirra öðrum smærri sakamálum frá árunum 1974-1977. 

Mikilvægasta vitnið áræðir ekki að stíga fram vegna þessa og þeirrar óvissu, sem ríkir um meðferð málsins. Öðru máli myndi gegna ef málið yrði tekið upp og nýir rannsakendur hefðu frumkvæði að því að ræða við vitnið, og þá helst með því fororði, að smærri sakamálin yrðu afgreidd með sama hugarfari og gert var í vinnu Sanneiksnefndarinnar í Suður-Afríku á sínum tíma. 

Það, að aldrei var rætt við mikilvægasta vitnið, mun að vísu hugsanlega koma fram síðar að því látnu, ef ekki verður rætt við vitnið nú, og þá mun það verða undrunarefni, af hverju aldrei var rætt við þetta lykilvitni. 

Líklegasta skýringin yrði sú, að framburður þessa vitnis hefði raskað þeirri "rörsýn" sem rannsakendur og ákærendur höfðu og sveigði allt starf þeirra í þá átt að komast að fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. 

P.S.  Nú er greint frá því á ruv.is að endurupptökunefnd hafi heimilað endurupptöku máls Tryggva Rúnars Leifssonar. Jafnvel þótt þetta verði eina endurupptakan er þetta risaskref í málnu. 


mbl.is „Manns saknað í Keflavík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir brúka bara syndugan kjaft.

Það er athyglisvert að hlusta á mismunandi málflutning fulltrúa Umhverfisstofnunar og fulltrúa United Silicon, svo gersamlega ólíkur er hann hjá þessum aðilum deilunnar um mengunarmálin. 

Fulltrúi Silicon fullyrti að mengunin hefði aldrei farið yfir tilskilin mörk og að engar úrbætur þyrfti að gera, því að það hefði verið gert. 

Hjá Umhverfisstofnun er hins vegar veitað hótun um að stöðva reksturinn "ef ekki verði ráðist í tafarlausar úrbætur í mengunarmálum." 

60 íbúar kvarta sáran yfir óviðunandi loftgæðum og þá getur bara þrennt komið til greina: 

1. Þeir ljúga bara allir saman. 

2. Mengunarkröfurnar eru svo litlar, að þetta ástand er eðlilegt og Íslendingar geti bara sjálfum sér um kennt að hafa ekki gert sér grein fyrir því hvers eðlis þessi yndislega og langþráða stóriðja væri.

3. Mælingarnar á menguninni eru ekki réttar.

En það er ekki nýtt að talsmenn stjóriðju og virkjana fyrir hana brúki syndugan kjaft.

Talsmenn gufuaflsvirkjananna á ysta hluta Reykjanesskagans hafa alla tíð þrætt staðfastlega fyrir að í þeim felist rányrkja, hvað þá stórfelld.

Sá síðasti sem ég hitti, fullyrti nýlega að svæðið væri ekki aðéins í jafnvægi, heldur streymdi inn á það meira af orku en af því væri tekið.

Síðan sér maður í fréttabréfi Landmælinga Íslands að nýjustu mælingar af Gufuaflsvirkjanasvæðanna á Reykjanesskaganu sýni allt að 18 sentimetra lækkun lands og umsögnin um það er einföld: "Ekki er ólíklegt að það tengist virkjunum á þessum svæðum"

Og svo fréttir maður rétt si svona, að Svartsengisvirkjun gangi bara á 75-80% af aflinu, sem uppsett var fyrir túrbínurnar.

Allir vita núna loksins nákvæmlega hvernig hliðstætt ástand er á Hellisheiðarsvæðinu.    

 

 


mbl.is Hóta að stöðva rekstur United Silicon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Look, what´s happening yesterday evening in Sweden!"

Nú eru komin fram óræk gögn um það hvernig búið var til með prettum viðtal, sem var aðal uppistaðan í þeirri mynd á stöðinni Fox sem Trump Bandaríkjaforseti hafði séð og hafði fræg áhrif á hann.

Ljósmyndarinn, sem tók myndina, er búinn að skoða frumupptökuna og staðfestir það sem lögreglumennirnir tveir sögðu um þessi óheiðarlegu vinnubrögð.

Þarna er dæmi um það sem Trump hefur kallað "alternate truth" eða "alternate facts" (á íslensku "sannlíki") og á að vera hið rétta, en annað, sem ekki passar við það eru "falsfréttir."

Í eftirá skýringunni hjá fylgjendum Trumps var sagt að þetta hefði hann átt við, en ekki eitthvert hryðjuverk sem hefði gerst kvöldið fyrir ræðuna.

Og núna liggur fyrir hverni þessi "sannleikur" forsetans varð til. Fróðlegt.  


mbl.is Frétt Fox lygi og útúrsnúningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi getur vont versnað.

Það eru fimm ár síðan vitað var með vissu, að vá steðjaði að lífríki Mývatns og að vatnið yrði sett á svonefndan rauðan lista. 

Viðbrögð nýrrar ríkisstjórnar, sem tók við batnandi hag þjóðarbúsins 2013 voru þau að draga úr framlögum til þeirra aðila sem þyrftu að standa fyrir aðgerðum til að bregðast við þessu ástandi. 

Á þessum tíma skrifaði ég tvær blaðagreinar í Fréttablaðið um hernaðinn gegn náttúruverðmætum Mývatnssveitar, sem nú væri að fá á sig nýja mynd í viðbót við fyrri aðgerðir á virkjanasvæðum austan vatnsins. 

Í fyrra var svo komið vegna hnignunar lífríkis vatnsins, að þáverandi umhverfisráðherra setti á fót nefnd til að athuga ástandið og gera tillögur til úrbóta. Ekkert er farið að gera til úrbóta.

En lengi getur vont versnað. Nú liggur fyrir að búið hefur verið svo um hnúta að Umhverfisstofnun hefur í raun nær ekkert vald til að beita sér með neinum árangri í því skyni að hafa í heiðri lögu um verndurn Laxár- og Mývatnssvæðisins.

Ef stofnunin hefði svipað vald og Fiskistofa væri fyrir löngu búið að kæra umhverfissóðana, senda lögreglu til að stöðva framferði þeirra og láta dæma þá fyrir spjöll sín. 

En hvorki Umhverfisstofa né Landgræðsla Íslands geta í raun gert neitt nema senda bréf með áminningum og áranguslausu eða árangurslitlu nöldri.

Skammgróðapungar á svæðinu fara sínu fram, án leyfisveitinga, reisa hótel og mannvirki að eigin vali og fara í kringum lög og reglugerðir eins og ekkert sé.

Heilbrigðiseftirlitið er brandari, - sýnir fyllstu meðvirkni í raun og gróðapungarnir segja fullum fetum, að það sé engin ástæða til þess að virtar séu skuldbindingar Íslands í Ríó-sáttmálum um að náttúran sé ævinlega látin njóta vafans.  

Hámark ósvífninnar er síðan að græða á auglýsingum um það að hótel séu íðilgræn um umhverfisvæn vegna umhyggju eigendanna fyrir verndun vatnsins á sama tíma sem saur er dælt í það og reistar hiklaust nýjar byggingar án samráðs við Umhverfisstofnun.

Skammgróðagræðgin er svo mikil, að mönnum er skítsama, - orðið skítsama er rétta orðið - um það þótt þeir og afkomendurnir muni í framhaldinu getað tapað margfalt meira fé en þeir græða í augnablikinu.    


mbl.is Leyfislaus skolphreinsun við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af ótal dæmum um skammtímagræðgina.

Daglega sjáum við fréttir um stóra orðið, sem ræður öllu í þjóðfélagi okkar: GRÆÐGI, - með stórum stöfum. 

Í Fréttablaðinu er sagt frá því hvernig orkan á upphaflega vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar hefur fallið um 78 megavött af 303 á rúmum áratug af því að í upphafi var vaðið þar fram í taumlausri skammtímagræðgi og viðhöfð það sem hefur verið nefnt "ágeng orkuvinnsla", en það er annað orð yfir það sem ekki má nefna: Rányrkja. 

Bent var á þetta árið 2007 í fyrsta bloggpistlinum af tæplega tíu þúsund, sem hafa verið skrifaðir þessari bloggsíðu, en í hvert skipti sem þessi óþægilegi sannleikur kemur fram, er hrópað annars staðar hundrað sinnum að þetta sé "endurnýjanleg orka." 

"Litla fréttin" frá Grundarfirði, segir sína sögu um skammtímagræðgina og gullæðinu í kringum stórvaxandi straum erlendra ferðamanna til landsins. 

Af því að mikill gróði felst í því að leigja íbúðarhús til ferðamanna er svo komið víða, að þeir, sem ættu að njóta góðs af ferðamannastraumnum, hrökklast í burtu til að rýma fyrir erlendum leigjendum, sem borga betur. 

Nú hefur á skömmum tíma myndast mesta húsnæðisekla hér á landi í 75 ár, eða síðan svipuð græðgi greip landann í gullæði stríðsáranna. 

Þrátt fyrir að erlendir ferðamenn hafi mokað 534 milljörðum inn í þjóðarbúið á síðasta ári, örlar ekki á því að við hinir innfæddu tímum að leggja neitt af mörkum til að byggja upp innviði fyrir þjónustu við hinn stóraukna ferðamannastraum. 

Og í Kastljósi í gærkvöldi mátti sjá hvernig þeir, sem græða á ferðamönnum við Mývatn, auglýsa vatnið sem einstæða náttúruperlu og starfsemi sjálfra sín sem íðilgræna á sama tíma sem hið fræga lífríki vatnsins hefur verið á rauðum lista í fimm ár og að allan þann tíma hafa þeir, sem helst eiga að standa vörð um það, stundað það linnulaust að brjóta lög og beygja á alla lund til að komast hjá því að gera lágmarks ráðstafanir til að bjarga vatninu frá dauða. 


mbl.is Gætu þurft að flytja úr bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband