Stærstu málin kalla á stærstu myndirnar.

Það má færa rök að því að Guðmundar- og Geirfinnsmálið sé magnaðasta sakamál Íslandssögunnar. 

Það sprettur fram á mesta óróa- og ólgutíma síðustu aldar og er skilgetið afkvæmi hinna ofsafengnu átaka í þjóðlífinu, sem snertu alla, allt frá ráðherrum og þingmönnum og niður í undirheima og hippabyltingu. 

Á áttunda áratugnum voru þéringar til dæmis drepnar á örfáum árum. 

Djúptæk sefjun var drifkrafturinn á bak við þetta mál, sem var og er enn of stórt til að geta dáið og er nú á því stigi, að það er annað hvort núna eða ekki, sem það verður að afgreiða það. 

Mér er til dæmis persónulega kunnugt um þrjú lykilvitni, sem eru orðin það öldruð, að ekki má dragast lengur að tala við þau. 

Sérstaklega er eitt þeirra mikilvægt og útilokað annað en að einhver muni reka augun í það, þótt síðar verði, að ekki var talað við það. 


mbl.is Framleiðir þætti um Guðmundar- og Geirfinnsmálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran hefur ekki notið vafans öldum saman.

Íslendingar undirrituðu Ríó sáttmálann 1992 og þar með þá meginreglu að þegar vafi leiki á um einstök umhverfismál varðandi framkvæmdir og áhrif þeirra á umhverfið, skyldi náttúran njóta vafans og sjálfbær þróun, andstæða rányrkju, vera í hávegum höfð.  

Íslendingar hafa síðan safnað sér efni í langan og ljótan lista í þessum efnum.

Þeir sem stjórna framkvæmdunum fara sínu fram, bæði í smáu og stóru, og treysta á það að eftirá verði ekkert gert.

Af þeim toga er stórbreyting United Silicon á verksmiðjuhúsum sínum í trássi við Skipulagsstofnun og alger þöggun um mögulega skítafýlu af verksmiðjunni.  

Á meðan Kárahnjúkamálið stóð sem hæst voru byggðar tvær smávirkjanir, sem áttu að sæta stærðartakmörkunum, Múlavirkjun á Snæfellsnesi og Fjarðarrárvirkjun við Seyðisfjörð.

Báðar voru hafðar stærri en leyfilegt var, einkum Múlavirkjun, en ekkert var aðhafst.

Að ferðamönnum, sem komu á virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar, meðan á framkvæmdum þar stóð, var staðfastlega haldið fram af þeim sem svöruðu spurningum um hana, að Töfrafoss / Kringilsárfoss, stærsti fossinn á norðurhálendinu, myndi ekki fara á kaf í lónið í hæstu stöðu þess.

Ekkert þýddi að reyna að leiðrétta þetta með því að vitna um mat á umhverfisáhrifum þar sem sagði beinlínis að fossinum myndi drekkt.

Síðan kom auðvitað í ljós að fossinn fer ekki einasta á kaf miðsumars, heldur nær lónið talsvert inn fyrir hann.

Sagt var í matinu á umhverfisáhrifum, að Stuðlagáttin, fossagljúfrið fyrir neðan Töfrafoss, myndi fyllast upp af sandi á einni öld.

Það var strax búið að fyllast upp á tveimur árum.

Verkfræðistofa var fengið til að fullyrða, að flugvélar yrðu notaðar til að dreifa rykbindiefnum til að hefta stórfellt leirfok úr þurru lónstæðinu fyrri hluta sumars, en ekki aðeins leikmönnum er ljóst, að þetta er gersamlega út í hött, heldur staðfesti landgræðslustjóri það í myndinni "Á meðan land byggist" og fékk bágt fyrir.

Nú nýlega kom fram í fréttum hvernig menn stunda það við Mývatn að túlka ekki aðeins allan vafa lífríki vatnsins í óhag, heldur svíkjast beinlínis um lögboðnar aðgerðir og leyna aðgerðarleysinu. 

 

Já, listinn er ekki aðeins langur, heldur orðinn bráðum 300 ára gamall hér á landi, allt frá því að fyrsta fjárpestin af nokkrum var flutt til landsins með hrikalegum afleiðingum, enda allur vafi í þeim efnum hafi þá og allt tíð síðan, líka með minknum og eldislaxinum, hafi alltaf verið og sé enn túlkaður náttúrunni í óhag.     


mbl.is Mat á umhverfisáhrifum hugsanlega endurskoðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið líka haldið græðgi?

"Loforðið svikið á örfáum mánuðum" segir einn af þeim landsbyggðarmönnum, sem segja Sjálfstæðisflokkinn hafa lofað því fyrir kosningar, nánast einn flokka, að hrófla ekki við sköttum ferðaþjónustunnar. 

Einn af helstu ferðaþjónustufrömuðum eystra og einnig farmarlega í Sjálfstæðisflokknum, hefur nú sagt sig úr flokknum vegna mikillar óánægju með hækkun virðisaukaskatts. 

Það hefur stundum verið talað um gullgrafaraæði og græðgi í kringum ævintýrarlegan vöxt ferðaþjónustunnar, en síðan má spyrja, hvort ekki sé ákveðin græðgi fólgin í því af hálfu handhafa ríkisvaldsins að ætla sér að ná það miklu fé af ferðaþjónustunni að hægt sé að lækka virðisaukaskattinn yfir línuna.

Hækkun skatta á ferðaþjónustuna væri síður umdeilanleg ef það myndi bitna jafnt á hana alla.

En auðséð er að hún bitnar einstaklega illyrmislega úti á landi og gengur þvert gegn þeirri stefnu, sem talað hefur verið um að fylgja, þ. e. að dreifa ferðafólkinu betur til þess að auðveldara verði að verja náttúruperlurnar, sem verða fyrir mestum átroðningi.  


mbl.is Loforðið svikið á örfáum mánuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðslur gera frekar gagn en málþóf.

Málþóf á Alþingi mætti stytta með því að beita sérstakri grein um hana í þingskaparlögum. En engin ríkisstjórn í mörg ár hefur árætt að beita greininni, greinilega vegna þess að stjórnarflokkarnir hverju sinni hafa óttast, að slíkt myndi síðar veita fordæmi gegn þeim sjálfum, ef þeir lenda síðar í stjórnarandstöðu. 

Í heimildamynd um Jóhönnu Sigurðardóttur kom þetta greinilega í ljós. 

Ákvæði um þjóðaratkvæði hafa það fram yfir málþóf, að með þeim er hægt að finna lögbundinn og vel ígrundaðan farveg fyrir aðhald sjálfrar þjóðarinnar, sem allt vald í lýðræðisríki á að spretta frá.

Hins vegar stefnir það málum oft í ógöngur, ef tilviljanakennt og ítrekað málþóf er notað. 

Sérkennilegt er að sjá þá skoðun að þjóðaratkvæðagreiðslur séu af hinu illa, ekki síst hjá mönnum, sem sjálfir voru svo hrifnir af þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave. 


mbl.is Níu í fullri vinnu við málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlegur ávinningur, oft mælanlegur í peningum.

Á yfirborðinu sýnist líkamleg þjálfun snúast fyrst og fremst um einhvers konar dýrkun á þeim efnislegu gæðum, sem felast í stæltum líkama. 

Tilsýndar sýnist það jafnvel afar fábreytileg iðja og tímasóun. 

En þetta er ekki svona. 

Langflestir, ef ekki allir, sem iðka hreyfingu og stælingu líkamans kannast við það, hve mikið sá tími gefur það andlega sem eytt er í þetta.

Sjálfur hef ég reynt það á eigin skinni alla tíð, hve margar góðar hugmyndir spretta fram á þeim mínútum og klukkstundum, sem á yfirborðinu sýnast vera eingöngu notaðar til að sprorna gegn hrörnun og viðhalda þreki.

Jafnvel þótt hreyfingin sé af þeim toga, að maður sé tiltölulega léttklæddur, geta þessar hugmyndir, til dæmis um gefandi viðfangsefni og atriði í hugmyndarlega sköpun orðið svo margar, að það sé ágætt að hafa meðferðis lítinn penna og pappírssnifsi til að krota þær niður á, ef þær eru mjög margar.

Eða að þjálfa hugann með því að læra þær utanað jafnóðum.

Og meira að segja má mæla gildi slíkra atriða í beinum peningum. 

Þegar upp í hendurnar á mér barst rafreiðhjól fyrir þremur árum hélt ég fyrst, að vegna þess hve ég átti þá orðið heima langt frá vinnu- og viðskiptatöðum mínum í 7-10 kílómetra fjarlægð myndi tíma"eyðslan" verða of mikil við það að nota hjól í stað bíls.

Útreikningur sýndi að meða"tap" á tíma var 10 mínútur hvora leið.

En síðan áttaði ég mig á því að ef þessar 20 mínútur samtals voru reiknaðar sem lágmarksþörf fyrir daglega líkamlega hreyfingu hvort eð er, var tíma"eyðslan" í raun engin.

Í fyrra fékk ég mér síðan létt vespuvélhjól, sem hefur minnkað ferðakostnað og kolefnisfótsporið um 70 prósent, miðað við bíl.

Og útreikningur sýnir, að þær auka fjórar mínútur sem það tekur að ferðbúast vinnast upp með tímasparnaði á ferðaleiðinni og við það að þurfa aldrei að tefjast við að leita að bílastæði.

Mestur er tímasparnaðurinn á álagstímum þegar umferðarteppur eða tafir myndast, og hjólið hefur nýst á ferðum um allt land, vegna þess að það getur verið á fullum þjóðvegahraða.

Útivistin er hressandi og hreyfingin meiri en þegar setið er undir stýri á bíl.  


mbl.is Ekki nóg að svitna, andinn þarf líka sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammsýni að stórum hluta samanber "bakpokalýðinn" hér um árið.

Það gerur verið tvíbent að sækjast eingöngu eftir ríkum viðskiptavinum, þótt það megi reikna út ágóða af því að hver þeirra eyði meira fé en hinir fátækari. 

Aldrei er góð vísa of oft kveðin, því að tvö dæmi, sem áður hafa verið nefnd hér á síðunni, sýna hið gagnstæða.

Hið fyrra dæmið er hliðstætt því sem nú á að stefna á, að gera Íslandsferðir svo dýrar, að fæli fátækari ferðamenn frá og einnig ferðamenn, sem vilja fara víðar en um Gullna hringinn.

Þegar ungt fólk fór að ferðast víðar um heiminn á síðari hluta síðustu aldar, var oft talað í niðrunarskyni um "bakpokalýð," sem væri óæskilegur, af því að það græddist svo lítið á honum.

Ég tók einn slíkan upp á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar á miðjum áttunda áratugnum og fékk skömm í hattinn fyrir það hjá sumum, sem ég álpaðist til að segja frá þessu.

Þetta var fátækur þýskur jarðfræðistúdent, sem síðar varð virtur prófessor og vísindamaður og hefur lengi komið árlega til landsins með tugi nemenda sinna!

Það hefur margsinnis verið bent á nauðsyn þess að dreifa ferðafólki betur um landið, en nýja fælingaraðferðin hefur þveröfug áhrif. 

Hitt dæmið er bandaríski bílaiðnaðurinn um 1970, en stjórnendur á þeim bæ töldu óráðlegt að framleiða litla bíla, af því að það var svo lítill gróði af hverjum þeirra.

Þess vegna fóru bílarnir bandarísku stækkandi jafnt og þétt fyrstu áratugina eftir stríð og mesta áherslan var lögð á stærstu drekana.

Japanskir bílaframleiðendur gerðu hins vegar áætlun: Að framleiða ódýra, en gangvissa, sparneytna og viðhaldslitla bíla, sem hippar og annar "bakpokalýður" Bandaríkjanna hefði efni á að eignast.

Japönsku framleiðendurnir vissu, að stærstur hluti þessa markhóps myndi einfaldlega eldast og komast í vel launuð störf.

Þeir gættu þess því að stækka bílana, sem voru í boði, í samræmi við það og treystu á að góð reynsla "krakkalýðsins" af litlu bílunum yrði hvatning til þess að þetta fólk keypti smám saman stærri og dýrari bíla.

Þetta var megingaldurinn á bak við "innrás" japanskra, þýskra og síðar kóreskra bíla inn á bandaríska bílamarkaðinn, sem bandaríski bílaiðnaðurinn hefur átt svo erfitt með að finna svar við, að Donald Trump sér engin önnur viðbrögð en að snúa klukkunni til baka með höftum til þess að gera "America great again."  


mbl.is Færri ferðamenn með hærri skatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eina sem hann sagði að væri "hundrað prósent öruggt."

Donald Trump lofaði mörgu í kosningabaráttunni og tilgreindi meira að segja hverju hann ætlaði að vera búinn að ljúka á fyrstu hundrað dögunum í embætti. 

Það eina af því sem hann kvaðst myndu gera og notaði orðalagið "hundrað prósend öruggt" var að reisa múrinn mikla á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. 

Nú er hann búinn að draga þetta í land líka og enginn veit hverjar efndirnar verða eða hvenær. 

Trump nefnir það helst nú, að múrinn eigi að stöðva flæði fíkniefna til Bandaríkjanna. 

Þótt hann hafi sjálfur efnast á því að lifa og hrærast í umhverfi framboðs og eftirspurnar, virðist hann halda að það sé aðeins framboðið á þessum efnum, sem viðhaldi flæði fíkniefna. 

Að sönnu er viðurkennt að neyslan er að jafnaði meiri eftir því sem auðveldara er að ná í fíkniefni, en mestu máli skiptir þó eftirspurnin. 

Það er hún fyrst og fremst sem knýr framboðið og gerir útvegun fíkniefna ábatasama. 

En í býsna einhæfri sýn sinni á "America great again" er hann iðinn við að kenna öllum öðrum en Bandaríkjamönnum um ástand mála í landi þeirra og finna erlenda blóraböggla.

Í afar eftirminnilegri kveðjuathöfn um Muhammad Ali flutti Billy Crystal snilldarávarp um þann merka mann.

Hann minnist þess hvernig Ali liðsinnti honum sem rétttrúuðum Gyðingi þótt Ali væri Múslimatrúar, og það jafnvel í Ísrael.

Lokaorð Crystals um Ali voru meðal annars þau, að Ali hefði reynt að byggja brýr en ekki múra á milli fólks. 


mbl.is Hættur við að fjármagna vegginn í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkt og samkeppnislag í Eurovisionstíl um ástina og gildi hennar.

Setjum sem svo að ákveðið væri að láta gera fallegt og aðlaðandi Eurovisionlag með texta um ástina og gildi hennar, og að samkeppni væri um samningu og flutning lagsins. 

Hvaða lag skyldi verða hlutskarpast?

Eitthvað lag, sem væri með nafn, sem vísaði að engu leyti til yrkisefnisins?

Lag, sem keppti við önnur lög með skárri nöfnum, markvissari eða betri texta, en þó fyrst og fremst betri lög, með betri flytjendum?

Að sjálfsögðu færi lagið með nafnleysunni hallloka og því yrði hafnað, hversu góð sem meining aðstandenda þess væri.  Af því að flutningurinn skilaði ekki því sem stefnt var að.   

Heitið Samfylking var andvana fædd vegna þess að upphaflegir aðilar að hugmyndinni klofnuðu strax í gamankunnar tvær fylkingar vinstri manna og að orðið sjálft sagði ekkert út af fyrir sig um það hvers kyns flokkur þetta væri. 

"Útskýringar fást hjá dyraverði" sögðum við stundum í sumarbyrjun í Sumargleðinni, þegar við voru að prófa nýja brandara sem gerðu sig ekki eins úti á landi og þeir höfðu gert í Reykjavík um veturinn. 

Samfylkingin byggðist á þeirri útgáfu af alþjóðlegri hreyfingu lýðræðislegrar jafnaðarstefnu, sem hefur nýst einna best á Norðurlöndunum og Gylfi Þ. Gíslason kallaði blandað hagkerfi. 

Að vinsa það skásta úr kapítalismanum (frjálshyggjunni) og sósíalismanum (félagshyggjunni) og nýta reynsluna. 

Á Íslandi hafði sú reynsla til dæmis leitt til þess að tilraunin með þjóðnýtingu sjávarútvegfyrirtækja mistókst. 

Nafnið Samfylkingin sagði út af fyrir sig nákvæmlega ekki neitt um eðli flokksins og ef þekking þeirra sem áttu að kjósa flokkinn fór að dofna, þurfti úrskýringar hjá dyraverði. 

Heitið Jafnaðarmenn hefði hins vegar sagt meira eða jafnvel nafnið Sósíaldemókrataflokkurinn. 

Flokkurinn hóf feril sinn á því að "gera sig stjórntækan".

Flokksmenn, einkum þingflokkurinn, voru í nafni þess beygðir til þess að samþykkja verstu aðför gegn jafnrétti kynslóðanna, ofríki gegn komandi kynslóðum, sem hægt var að fremja á Íslandi, en það var Kárahnjúkavirkjun, sem 1. áfangi Rammaáætlunar sýndi fram á að var stærsta mögulega framkvæmd Íslandssögunar með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum. 

Með þessu var "Samfylkingin" klofin í herðar niður í máli, sem var risastórt hjá flokki sem vildi kenna sig við jafnaðarstefnu og mannréttindi, því að troðið var á mannréttindum óborinna Íslendinga með hinum hrikalegu óafturkræfu umhverfisspjöllum. 

Að vera stjórntækur bar Samfylkinguna beint í faðm flokks íslenskrar nýfrjálshyggju sem stefndi efnahagslífi þjóðarinnar lóðbeint niður í mesta efnahagshrun Íslandssögunnar. 

Samfylkingin tók með Vinstri grænum að vísu að sér risavaxna rústabjörgun og endurreisnarstarf, sem var hins vegar þess eðlis að það var ekki hægt að gera neinum til geðs. 

Það var meira að segja ráðist að kjörum aldraðra og öryrkja. 

Auðvelt var að gera einstök mistök eins og að lesa ekki rétt í hvernig ætti að taka á Icesavemálinu.

Einnig halda endalaust áfram við það að setja ESB-aðild í fyrsta sæti, þegar séð varð smám saman, að réttast yrði að halda því til hlés miðað við ríkjandi aðstæður í Evrópu. 

Hrunið leiddi af sér almennt vantraust á stjórnmálum og ólgu, sem kom Besta flokknum á tímabili upp í meirihlutafylgi í Reykjavík í skoðanakönnunum. 

Nú stefna leifar þeirrar hreyfingar á stundum í pilsner-tölu í skoðanakönnunum. 

Vinstri grænir eru núna stærstir á vinstra arminum af einfaldri ástæðu: Þeir syngja og flytja hið pólitíska "Eurovision" samkeppnislag um ást, jafnrétti og sjálfbæra þróun betur en þeir, sem þó voru í upphafi spyrtir við hugmyndina að laginu öðrum fremur. 

Margir fleiri vilja syngja svipað lag, og kosningatölur og skoðanakannanir sýna að þeir gera það einfaldlega betur. "Dómur almennings liggur fyrir" segir fyrrverandi forystumaður réttilega. 


mbl.is „Dómur almennings liggur fyrir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar fréttir á degi umhverfisins af illri meðferð jarðargæða.

Orðtakið "lengi tekur hafið við" túlkar almenna hugsun í hegðun mannkynsins sem gerir núlifandi kynslóðir jarðar ábyrgar fyrir einhverjum mestu vandkvæðum í lífsbaráttu jarðarbúa, sem yfir þá hafa dunið. 

Giskað hefur verið á af vísindamönnum, að eins og jarðarbúar haga sér núna, þyrfti margar jarðir til þess að gera aflétta rányrkju í nýtingu helstu auðlinda hennar.

Í neyslunni sem skapar þetta ástand, erum við Íslendingar fremstir í flokki, þannig að ef allir jarðarbúar höguðu sér eins og við, þyrftu jarðirnar að vera 19. 

 

Óheyrilegur vöxtur plastúrgangs í öllum höfum og á öllum ströndum jarðarinnar getur ekki gengið svona lengur, og þegar er svo komið, að héðan af munu engar nýjar olíulindir finnast, sem er jafn ódýrt að nýta og þær, sem senn fara að ganga til þurrðar.

Önnur frétt dagsins er að nú stefnir í enn nýtt hitamet á Indlandi og að ekkert lát er á hlýnun lofthjúps jarðar.

Á Degi umhverfisins eru jarðarbúar minntir á óábyrga hegðun sína gagnvart móður jörð, sem er brot gegn komandi kynslóðum.  


mbl.is Plast í sjó vanmetið um 80%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firring, jafngömul mannkyninu.

Yfirgengileg auðæfi, bruðl, sóun, munaðarlíf, dans í kringum gullkálf, alger firring, allt eru þetta fyrirbæri sem hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda.

Lýsing Ashle Mears á lifnaðarháttunum í því samfélagi sem skapast hefur meðal hinna örfáu ofurríku, sem vita ekki aura sinna tal, sem hún gat smeygt sér inn í, og greint er frá á mbl.is, er hrollvekjandi, vegna þess að þetta fyrirbrigði er stundað á okkar tímum upplýsingar og viðleitni til kjarabóta alls almennings, en ekki á tímum alræðis aðalsins í Evrópu fyrr á öldum. 

Að sönnu er mikilvægt fyrir venjulegt fólk að geta gert sér dagamun af og til, en af lýsingu Mears á bílífi og firringu "eina prósentsins" svonefnda má ráða, að hjá því er búið að fletja svo út bruðlið, að það er orðið erfitt fyrir það að gera sér dagamun, því að allt hið stærsta og afbrigðilegasta er orðið að hversdagslífi, sem er ofar skilningi þorra fólks.

Um aldir hefur hugsuðum og vitru fólki verið ljóst, að hamingjan fæst ekki með því að eiga óendanleg auðæfi, heldur jafnvel þvert á móti.

Og sem betur fer, er að finna auðugt fólk, sem berst ekki á, heldur reynir að verja auði sínum ó góð og nytsamleg málefni. 

 

En lifnaðarhættirnir, sem stærstur hluti "eina prósentsins" sem á helming auðæfa jarðar, stundar, eru ekki aðeins sóun sem bitnar á öðrum, heldur má efast um að þetta líferni færi því sjálfu í raun neitt í samræmi við eyðsluna og bruðlið.     

 

 


mbl.is „Allir sammála að þetta er fáránlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband