Allir bílar tengdir öllum. 740 kílómetra kennslustund.

Eftir 740 kílómetra og átta klukkustunda langa samfellda kennslustund í akstri í hraðri umferð í gær kveikir fyrirsögnin "bíllinn tengdur" á mbl.is frétt sérstök hughrif Íslendingsins, sem kynnist aðeins tengslum bílstjóra á þjóðvegum svo gagn sé að með því að aka eftir þjóðvegum erlendis. 

Í slíkum akstri frá Brussel í Belgíu suður til Macon í Suður-Frakklandi lærist smátt og smátt, að allir bílstjórarnir á leiðinni fylgjast grannt hver með öðrum, ekki aðeins fram á við, heldur ekki síður með því að vera á stanslausum verði aftur fyrir sig. 

Á löngum kafla leiðarinnar, þar sem hámarkshraðinn er 130 km/klst, getur hraðamismunur bílanna verið allt að 60 kílómetrar á klukkustund í brekkum.  

Heima á Fróni myndi slíkt valda sífelldumm vandræðum og hættu, en ekki hér í landi, nema að Íslendingur eins og ég sé á ferð. 

Aldeilis frábært er að fylgjast með því hvernig hægfarari bílstjórar á undan manni fylgjast með manni i baksýnisspeglum sínum og færa sig til, jafnvel fleiri en einn í einu, til þess að búa til sem greiðasta óg hættuminnsta leið fyrir alla. 

Að sama skapi stendur maður sjálfan sig, óvaningurinn norðan frá heimsskautsbaug, að því að valda óþarfa töfum með sofandahætti, sem hefur veirð áunninn í áratuga stjórnlítilli umferðinni heima. 

740 km? Ekki hætta á að verða syfjaður?  Síður, ef allan tímann er verið að leysa jafnóðum viðfangasefni varðandi umferðina framundan, fyrir aftan og til hliðar. 

Tveimur dögum áður en ég fór að heiman datt mér í hug á drjúgri leið á Honduvespuhjóli mínu að telja hvernig stefnuljós voru gefin í hringtorgunum og gatnamótunum á leiðinni. 

Fljótlega kom í ljós að talningin var auðveld. Af um tveimur tugum bíla í stefnubreytingum, gaf ENGINN stefnuljós.  Það voru ALDREI gefin stefnuljós.  

Í ÖLL skiptin þurftu þeir aðrir ökumenn sem stefnuljósagjöfin hefði auðveldað för, ýmist að kveljast í óvissu eða að tefjast.  

 


mbl.is Bíllinn tengdur fjölskyldu mannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í fyrsta skiptið og ekki í það síðasta.

Sumir segja að Donald Trump hafi komið með hressandi andblæ inn í steingelda og spillta stjórnmálaumræðu.

Eftir hálft ár í embætti verður vart komið tölu á þau skipti, þar sem hann hefur hraunað yfir áheyrendur sína með því að gera sjálfan sig og sína harkalegu pólitík að algeru aðalatriði við tækifæri þar sem enginn hefur áður tíðkað slíkt. 

Má þar nefna gusuna sem hann lét vaða yfir starfsfólk leyniþjónustunnar þegar hann hélt ræðu af þessu tagi yfir henni strax eftir embættistöku sína. 

Þar var að vísu ekki um að ræða mjög fjölmenna samkomu en öðru máli gegnir um meira en aldargömul milljóna fjöldasamtök ópólistískra mannbótarhreyfinga, sem ávallt hafa rakt ríka áherslu á að halda sig utan við pólitískt vopnaskak.

En enginn ætti að verða hissa á því þótt hann muni halda þessu áfram, svo að skátauppákoman verði hvorki fyrsta skiptið né það síðasta þar sem hann hagar sér svona.

Maðurinn er nefnilega svo sannfærður um ágæti ruddalegrar hegðunar sinnar að hann mun snúa laginu "My way", sem hann lét leika við innsetningu sína í embætti, upp í réttlætingu á hverju einu sem hann gerir.

Raunar var hann dálítið óheppinn í innsetningunni með þann hluta lagsins, sem heyrðist greinilegast í útsendingunni og fjallar um að endalokin séu nærri þegar hann stendur andspænis falli leiktjaldanna í síðasta sinn.  


mbl.is Skátar biðjast afsökunar á Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Belgískur snúður segir sögu.

Við hjónin keyptum snúð hér í Brussel í gærkvöldi. Fyrir mann, sem átti föður sem var bakarameistari og afa sem líka var bakaarameistari, sagði þessi snúður talsverða sögu. 

Tilhlökkunin til að snæða þennan belgíska snúð var snarlega kæfð þegar bragðað var á honum. 

Hann var á alla lund óráveg frá snúðunum heima bæði hvað snerti bragð og stinnleika. 

Þegar pabbi var í bakstrinum fékk maður langan fyrirlestur um það, hvers vegna snúðarnir og vínarbrauðin hans og afa voru jafn góð og raun bar vitni. 

Ekkert mátti til spara til að gera afurðirnar eins góðar og mögulegt væri. 

Það byggðist á ströngu efnisvali og verkferli, nákvæmu í smáatriðum, meðal annars bandarísku gæðahveiti, nákvæmu vali á vali og meðferð annarra efna og smámunasemi í meðhöndlun á bakstursborðinu, þar sem til dæmis vínabrauðslengjan var "opnuð" með því að slá bakarahnífnum í hana og mynda ótal raufar í deigið. 

Bragðið, þetta sæta bragð hins volga snúðs eða vínarbrauð, varð að vera ósvikið. 

Ekkert af þessu var til staðar í hinum belgíska snúð, sem lait svo vel út, en var gersneyddur bragði og mýkt. 

Skýringarnar gætu verið nokkrar.

Kannski var einhver hollustureglugerð búin að eyðileggja snúðinn. Kannski hafði einhvern tíma verið fyrir hendi þekking og geta til þess að gera almennilegan snúð. 

Næst þegar ég kem til Danmerkur, ef til þess kemur, verður hægt að bragða á dönskum snúð til að sannreyna hvort Danirnir kunna þetta enn og fá að gera það á sinn einstaka hátt. 

Við vitum svo sem að hvítasykursfíkn er talin mikil vá í nútímasamfélagi, en það á ekki að verða til þess að sykurkennt bragð sé bannfært, - magnið sem innbyrt er, hlýtur að skipta mestu máli. 

Það var aldrei ætlun okkar hjónanna hér í Brussel að liggja í snúðaáti, - heldur aðeins að fá smá bragð. 

En aðalatriðið gæti verið að eitt af því sem dönsk yfirráð og áhrif á Íslandi innleiddi, var afburða þekking og reynsla í matar- og kökugerð. 

Það á við um fleiri iðngreinar. 

Hinn afi minn múrari og kunni upp á hár að handleika múrsteina og hvaðeina upp á danskan máta. 

Á heimili hans hékk mynd af honum standandi við "sveinsstykkið", myndarlegan múrvegg, hlaðinn á danska mátann. 

Hugsanlega eina múrvegginn sem hann hlóð á ævinni. 


Góðir hlutir gerast hægt.

Árangur íslenska karlalandsliðsins á EM var ekki byggður á stuttum undirbúningstíma.

Undirstaðan var lögð mörgum árum fyrr í rækt við yngri flokkanna og ekki síðst unglingalandsliðið sem varð snemma að stjörnuliði við það að fá verðug verkefni erlendis og þroskast síðan yfir í frábært aðallandslið.

Þessi bakgrunnur er ekki enn fyrir hendi í kvennaknattspyrnunni og það tekur mörg, mörg ár að endurtaka leikinn með karlalandsliðiðið hjá stúlkunum.

Leggja þarf sömu rækt við uppbygginguna frá yngri flokkunum hjá stelpunum og verkefnum og uppbyggingu unglingalandslið og gert var hjá strákunum.

Allt starfið og baráttan í þátttökunni á EM kvenna var til fyrirmyndar, en það var ekki hægt að ætlast til þess að komist yrði lengra að þessu sinni.

 

 

 

og verðugum verkefnum unglingalandsliðs.


Þótti orðinn ljótur og púkalegur fyrir 45 árum.

Fiat 500. R-10803Í tengslum við frétt á mbl.is um 60 ára afmæli Fiat 500, má geta þess að hann var framleiddur í um 3,7 milljónum eintaka á árunum 1957-75, sem var geysimikið á þeim tíma.Fiat.Fagrid.

 Undir 1970 þótti bíllinn það gamaldags og púkalegur, að ákveðið var að framleiða hann með nýrri yfirbyggingu undir heitinu Fiat 126.

Allur undirvagn, driflína og kram var samt að mestu óbreytt, hjólhafið áfram 1,84 og vélin einungis boruð lítillega út til að auka aflið úr 18 hestöflum í 23. 

Fiat 126 var svipaður 127, með kantað útlit og nef í anda "forward look" Virgils Exners hjá Chrysler, en það byggðist á því láta framendann vera líkt og að bíllinn væri að falla fram fyrir sig af ákafa við að komast áfram.

Þetta útlit var slæmt fyrir loftmótstöðuna, en þeir sem muna kannski eftir BMW bílum allt fram til 1990, þekkja þetta.

En þá breyttist bílatískan og þegar farið er á Ebay til að leita að jafngömlum og álíka mikið eknum Fiat 500 og Fiat 126, er 500 bíllinn tvisvar til þrisvar sinnum dýrari, og 126 virðist þykja jafn púkalegur og gamaldags og Fiat 500 um 1970.

Nú þykir Fiat 500 eitthvert fallegasta verk hönnuðarins Danti Giacosa.

Alls voru framleiddir um 8 milljónir af 500 og 126 bílum.


"Nú er besta barnið sótt..." "Höfum í búri einn skeggjaðan..."

Nýjasta tækni gerir það mjög ólíklegt að mannkynið geti dáið út vegna ófrjósemi, eins og greint er frá í tengdri frétt á mbl.is. 

Nefna má tvö ljóðræn dæmi í þá veru að sefa áhyggjur. 

Þegar fyrsta íslenska konan átti viðskipti við danskan sæðisbanka var því slegið upp sem stórfrétt í DV hve vel hún lét af þessum viðskiptum sínum. 

Séra Emil Björnsson var þá fréttastjóri og var slyngur hagyrðingur. 

Á fréttafundi kastaði hann fram þessari stöku: 

 

Hreðjum Íslands hrakar ótt

hermir konan unga. 

Nú er besta barnið sótt

beint í danska punga. 

 

Í tví- og kappsöng kvenna og karla hér um árið á skemmtunum hjá mér flugu skeytin á milli kynjanna í fjöldasöngnum "Kynin kljást". 

Viðureignin var tvísýn þar til konurnar gripu til úrslitaráðsins, svo hljóðandi:  

 

Með frjóvgunartækninni öruggt það er 

að úrelta gerum við karlana hér.  

Við höfum í búri einn skeggjaðan skarf

og skreppum í ísskápinn ef að með þarf.

 

Þegar fyrsta 

 


mbl.is Mannkynið gæti dáið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr öskunni í eldinn?

Það hittist skemmtilega á að fara utan frá Fróni einmitt þegar mesta hitabylgja og veðurblíða sumarsins er skollin á.  27,7  stiga hiti er svo sem ekki alveg sá hiti sem þarf að vera þægilegastur. 

En svo sér maður hér í Leifsstöð fréttir af ástandinu á svæðinu, sem leiðin liggur til; Suður-Frakkland. 

Það hafa hitar verið meiri og geysa þar nú skógareldar. 

En förin var ákveðin fyrir löngu löngu vegna viðburðar en ekki vegna þess að þetta sé endilega rétti tíminn til að fara utan, eins og formenn kölluðu það og var auðvitað jafn rétt þá og það er nú. 


mbl.is 27,7 stig – hitamet sumarsins slegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að friðlýsa öll lónin og jökulöldurnar.

Fagna ber friðlýsingu Jökulsárlóns og móta djarfa stefnu til að stækka Vatnajökulsþjóðgarð. 

Á sama hátt og það væri hlægilegt ef mörk Vatnajökulsþjóðgarðs færðust inn á við jafnharðan og jökullinn hopar í hlýnandi veðurfari, ættu þessi mörk að verða dregin við þá línu þar sem jökullinn náði lengst um aldamótin 1900, víðast hvar árið 1890.  

Innan þjóðgarðsins yrðu þá fyrirbæri eins og svonefndir Hraukar norðan Brúarjökuls og Eyjabakkajökuls, sem aðeins finnast á Íslandi, einkum Sauðárhraukar og Hraukarnir í Kringilsárrana.

Í þá síðarnefndu hafa vísindamenn tekið snið, sem sýnir, að Brúarjökull óð svo hratt fram 1890 og dró sig svo hratt til baka, að ekki gafst tími fyrir jökulinn til að byggja upp venjulegar háar öldur, heldur skildi hann eftir eins konar rúllutertu, þar sem gróðurlög og öskulög þekktra eldgosa voru eins og krem og tertulög. 


mbl.is „Íslendingar allir eiga þessa náttúruperlu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rímar við fullt Háskólabíó um hásumar.

Greinilegt er að Flokkur fólksins hefur reist fylgisbylgju á þeim meðbyr sem lýsti sér í húsfylli á fundi í Háskólabíói um daginn, sem bar heitið Sumarþing. 

Fyrir tilviljun heyrði ég viðtal við Ingu Sæland formann flokksins í útvarpi á ferð um landið þar sem hún útskýrði þennan meðbyr meðal annars með að vitna í ánægjutal fjármálaráðherra varðandi það að meðallaun hér á landi væru nú 712 þúsund krónur á mánuði. 

Þegar það væri skoðað, að strax og einstaklingur fái meira en 146 þúsund krónur á mánuði, sé byrjað að taka skatt af laununum, blasti við óviðunandi gjá á milli þeirra sem minnst mættu sín og þeirra, sem hefðu margföld laun á við láglaunastéttirnar. 

Fylgisbylgjur vegna þessara mála hafa oftast komið á útmánuðum í aðdraganda kosninga. 

Þannig reis svipuð bylgja og enn stærri í upphafi árs 2007 í aðdraganda Alþingiskosninga hvað varðaði framboð aldraðra og öryrkja. 

Sú bylgja fjaraði út og ekkert varð af framboðinu, enda voru viðbrögð þáverandi stjórnmálaflokka þau að taka málin upp í kosningastefnuskrár sínar. 

Eins og svo oft áður voru loforðin að mestu gleymd eftir kosningar. 

Í þetta skiptið er svo að sjá, að fylgisaukning Flokks fólksins bitni ekki mikið á núverandi stjórnarandstöðuflokkum, heldur fyrst og fremst á litlu flokkunum í ríkisstjórninni. 

En þegar litið er yfir sögu síðustu níu ára í íslenskum stjórnmálum, virðist litlu hafa skipt hvaða flokkar voru í stjórn á þessu tímabili. 

Íslenskir stjórnmálaflokkar ættu að íhuga vel stöðuna í þessum málum, ekki til þess að taka upp fögur loforð í stefnuskrár sínar, heldur til þess að láta verk fylgja orðum. 


mbl.is Stærri en BF og Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu mennirnir vissu þetta.

Ef lofthiti fylgdi sólargangi væri hlýjast að meðaltali í kringum 20. júní hér á landi. En vegna tregðu í hitabreytingum tefjast árlegar hitasveiflur um einn mánuð. 

Þannig er að meðaltali kaldast á hverju ári seint í janúar í Reykjavík og jafnvel síðar inn til landsins norðan- og austanlands. 

Og að sama skapi er hlýjast að meðaltali í kringum 20. júlí, mánuði eftir sumarsólstöður, eins og nú gæti verið að gerast. 

Gamla tímatalið íslenska miðast við þetta og í almanakinu var miðsumar í fyrradag og heyannir hófust í gamla daga. 

Ég man þá tíða þegar ég var í sveit um miðja síðustu öld að allt sumarið fór í kapphlaupið við að slá og ná inn heyjum sumarsins, og stóð slátturinn eitt sumarið alveg fram í miðjan september og farið upp fyrir túnið og slegin svonefnd Kvíabrekka fyrir ofan bæinn. 

Einnig náð inn útheyi af landi utan túnsins niðri á sléttlendinu niður af bænum, þótt þau hey væru afar næringarlítil. 

Nú má sjá víða hvernig vel vélvæddir bændur klára mestallan heyskapinn á undra skömmum tíma, jafnvel heilan slátt á viku eða tiu dögum. 

Í lok júlí hefur sólin sigið nokkrar gráður og kemst meira en sex gráður undir sjóndeildarhringinn um miðnæturskeið í Reykjavík, en talsvert seinna á norðurhluta landsins. 

"Nóttlaus voraldarveröld" orti skagfirska skáldið, sem alltaf var með hugann á Íslandi, þótt hann lifði mestan sinn aldur í Vesturheimi. 

Og tvisvar síðustu daga hefur hitinn farið yfir 20 stig á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum í 660 metra hæð yfir sjávarmáli. 


mbl.is 24,9 stiga hiti í Húsafelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband