Enn eitt dæmið um verðmæti sem hugvit skapar.

Aðdragandinn að uppgangi fyrirtækisins Arctic Trucks er orðinn að minnsta kosti 25 ár.

Á níunda áratugnum urðu miklar framfarir í gerð jöklajeppa, sem byggðust að mjög miklu leyti á tilkomu 38 tommu radial dekkja og 44 tommu dekkja af gömlu gerðinni.

Tvö bílaumboð, Toyota og Bílabúð Benna, voru framarlega í því að láta breyta bílum og Toyota var farið að bjóða kaupendum jeppanna hjá fyrirtækinu upp á slíkar breytingar á skipulegan hátt.

Snillingar á borð við Frey Jónsson voru tæknilegir bakhjarlar að þessum breytingum, því að því fer fjarri að þær snúist bara um að troða hinum stóru hjólbörðum undir jeppana.

Smám saman varð sterfsemin umfangsmeiri og af þessum grunni spratt fyrirtækið Arctic Trucks sem er sífellt að treysta starfsemi sína og framleiðslu með bættri og þróaðri tækni, byggða á hugviti og reynslu.

Landvinningarnir geta verið óþrjótandi, allt frá Suðurheimskautslandinu til eyðimarka í Arabalöndum.

Starfsemi Arctic Trucks byggist sameiginlegu einkenni skapandi greina, virkjun hæfileika og sköpunarmáttar mannsheilans.

Skapandi greinar gefa nú tugi milljarða inn í þjóðarbúskapinn á hverju ári hafa það fram yfir margar framleiðslugreinar að vaxtarmöguleikarnir geta verið óendanlegir svo framarlega sem hægt er að finna vinnuafl til að vinna úr þeim.  


mbl.is Arctic Trucks verði bílavörumerki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verslað með tugi landa eftir hentugleikum.

Þjóðir sem ráða yfir smáþjóðum víla ekki fyrir sér að versla með þær minni eftir því sem vindurinn blæs.

Stundum líkist þetta uppboði þegar stórveldin kalla saman alþjóðlega fundi til þess að "leysa vandamál á friðsamlegan hátt", til dæmis á fundum Bandamanna í Seinni heimsstyrjöldini.

Þá var ríkjum Evrópu skipt upp í áhrifasvæði, og í sumum ákveðið um skiptingu áhrifa innanlands í prósentutölum, til dæmis í Júgóslavíu.

Stalín lyfti ekki litla fingri þegar Bretar hjálpuðu til við að bæla niður uppreisn kommúnista í Grikklandi eftir stríðið og þrátt fyrir mótmæli stjórnuðu Rússar í raun ríkjum Austur-Evrópu að vild í 45 ár eftir stríðið og bældu niður uppreisnir í Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu og Póllandi án þess að þurfa að hafa áhyggjur af hernaðaríhlutun Vesturveldanna.

Síðast núna á fundinum um Sýrland voru þau ríki, sem taka beinan þátt í átökunum í Sýrlandi að reyna að komast að samkomulagi um hvernig völdum eða valdaleysi Assads forseta landsins yrði háttað.

Íslendingar voru svo heppnir 1918 að Danir voru í ákveðnum verslunarhug, rétt eina ferðina enn.

Þeir voru tilbúnir til að gefa Íslendingum kost á að fá fullveldi gegn því að íbúar Slésvík-Holstein fengju sjálfir að ákveða, hvort þeir tilheyrðu Þýskalandi eða Danmörku.

Gæfa Íslendinga hvað varðaði það að eiga Jón Sigurðsson var ekki einungis sá málatilbúnaður sem hann stillti upp og sú forysta sem hann veitti í sjálfstæðisbaráttunni.

Jón var nefnilega afar mikilvægur fyrir Dani sjálfa og sjálfsímynd þeirra vegna yfirburða þekkingar sinnar á norrænni menningu og menningararfi, þar sem Íslendingar höfðu gegnt lykilhlutverki við varðveislu hans.

Íslensk tunga og menningararfur var á við tugþúsundir hermanna.

Danskur maður, Rasmus Kristján Rask, var á krítisku tímabili helsti baráttumaður fyrir varðveislu íslenskrar tungu og menningar og enskur maður beitti sér fyrir varðveislu íslenska hundsins.

Ekki þarf annað en að líta á ástand og stöðu mála á Orkneyjum og Hjaltlandi til að sjá hvaða örlög hefðu beðið Íslendinga undir breskri stjórn.

  


mbl.is Ísland ítrekað falboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglingalag í efsta flokki.

Á þeim tíma sem lagið Bohemian Rhapsody fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina voru elstu börnin okkar Helgu komin á táningsaldur eða á leiðinni inn í táningsárin og framundan var rúmur áratugur í heimilislífinu með kunningjahóp þeirra á þessum viðkvæma aldri sem heimilisvini.

Það var ekki hægt að komast hjá því að verða var við hve mikil áhrif lagið hafði á unglingana sem voru á erfiðustu mótunarárum sínum og stundum álíka ringluð og óskiljanleg og textinn í laginu.

Ég er ekki frá því að þetta lag sé í efsta flokki sem unglingalag vegna þess hve áhrifamikið það er fyrir tilfinningalífið á þessum mikilvæga og viðkvæma aldri.


mbl.is Óskiljanlega lagið sem allir elska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðir hugann að Halldóri Laxness.

Þegar ævisaga Halldórs Laxness er lesin kemur eitt afar merkilegt atriði smám saman í ljós: Hve óhemjum miklum tíma og fyrirhöfn skáldið eyddi í ferðalög og samskipti við áhrifamikil skáld, útgefendur og menningarfrömuði á mikilvægustu stöðunum í listaheiminum.

Þetta var þeim mun erfiðara en ella fyrir þá sök, hve afskekkt Ísland var og tók langan tíma að sigla fram og til baka til og frá landinu.

Þetta sýnir, að Halldór gerði sér grein fyrir þeirri óumflýjanlegu staðreynd, að hann yrði að ná sér í sambönd og fylgjast sem allra best með í heimi bókmennta og lista ef hann ætlaði sér að sinna köllun sinni til fulls og ná sem allra lengst á þeirri braut.

Það hlýtur ævinlega að myndast togstreita hjá skapandi listamönnum milli þess að sökkva sér ofan í listsköpun sína svo að hún fá sem mest flug, en eyða jafnframt tíma og fyrirhöfn í umgjörðina utan um listamannsstarfið og allt áreitið utan frá, sem því fylgir.


mbl.is Þetta var orðin tóm vitleysa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð ummæli Baltasar Kormáks og fleiri.

Athyglisvert viðtal við Baltasar Kormák var á einum fjölmiðlinum á dögunum, þar sem hann lýsti framferði deiliskrársíðunnar Deildu.

Má furðu gegna að ekkert skuli hafa verið gert í ljósi þeirrar vitneskju sem liggur fyrir um athæfi eiganda síðunnar og að kæra á hendur honum liggi ósnert hjá lögreglu.

Vitað er hver eigandinn er og að hann hagnast drjúgum á því að selja hinn þjófstolna varning, kvikmyndir af ýmsu tagi.

Ágúst Guðmundsson hefur lýst því hvernig milljóna fjárfesting hans í kvikmynd varð deilisíðum að féþúfu og ollu Ágústi stórtjóni.

Laddi lagði í milljóna kostnað við að taka sína stórgóðu sýningu í Hörpu upp á myndband og hugðist selja það til að borga þennan kostnað.

En þessu kvikmyndaefni var umsvifalaust stolið og dreift, og höfundur og framleiðandi þessa myndefnis ekki aðeins rændir afrakstri af framtaki sínu heldur hýrudregnir að stórum hluta.


mbl.is Rétthafasamtök kæra lögregluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var Cadillac "standard of the world." Langt er síðan.

Á árunum 1930-52 var Packard það sem Bandaríkjamenn kölluðu "standard of the world", vinsælasti þjóðhöfðingjabíll heims. Í Íslandi var síðasti forseta-Packardinn keyptur árið 1957, og var þá ekki lengur ekta Packard, heldur soðinn upp úr dýrustu gerð Studebaker og stundum nefndur Packard-Baker vestra.

Cadillac tók við frá 1953 en það fór strax að falla á dýrðina á sjöunda áratugnum og Benz S tók endanlega völdin fyrir um 30-40 árum og hefur haldið þeim sessi í harðri samkeppni oft á tíðum, til dæmis frá Lexus 400 um 1990.

Allar atrennur Cadillac til að ná aftur fyrri sessi hafa verið dæmdar til að mistakast og erfitt að sjá að hestaflahamfarahlaup muni geta breytt því.


mbl.is Öflugasti kádiljákurinn til Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin langdregnu stríð.

Því miður er reynslan oftast sú, þegar öflugir bakhjarlar stríðandi fylkinga viðhalda hernaðarmætti skjólstæðinga sinna í staðbundnum stríðum, að þau dragast óhæfilega á langinn, og að eftir á sjá menn, að úrslitin höfðu verið nokkuð fyrirsjáanleg og mestallur stríðsreksturinn því "óþarfur".

Í Kóreustríðinu 1950-53 var nokkkuð fyrirsjáanlegt, að stríðið myndi enda með þrátefli, og að ætlun Vesturveldanna annars vegar eða Sovétríkkjanna hins vegar að þeirra skjólstæðingur ynni sigur, gekk ekki upp í þess tíma hernaðarástandi, því að annars var hætta á að beitt yrði kjarnorkuvipnum með ófyrirsjáanlegum og stórfelldum afleiðingum.

Formlega stendur Kóreustríðið enn og mun halda áfram að gera það á meðan Kínverjar geta ekki sætt sig við að valdhöfum í Norður-Kóreu verði steypt.

Þrjóska og óbrjótanlegur sjálfstæðisvilji Víetmama leiddi til þess að fyrirsjáanlegt nátti vera að jafnvel máttur mesta hernaðarveldis heims yrði í fjötrum.

Stríðið stóð tíu árum lengur en "þurft" hefði til að leiða þessa staðreynd fram.

Átökin í Líbanon stóðu meira og minna í meira en áratug og virtust á tímabili ekki geta tekið enda.

Því miður eru líkur á að í Sýrlandi verði hlutskipti þjóðarinnar enn verri. Stuðningsþjóðir stríðandi fylkinga eiga nóg af hergögnum og möguleikum til stuðnings til þess að dæla inn eldsneytinu fyrir stríðshörmungarnar.


mbl.is Allra augu beinast að Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er engin leið að hætta..."

"Það er engin leið að hætta" sungu Stuðmenn á sínum tíma þegar þeir límdu þessa setningu um Popplag í G-dúr inn í hausana á aðdáendum sínum.

Þótt mörgum hætti til að reyna að trúa öðru er ekki hægt að láta sem ýmsar yfirlýsingar ráðamanna séu ekki raunverulegur ásetningur sem verði framkvæmdur.

"Íslandsbanki seldur innan 2 ára" er ein slík yfirlýsing og þar með má búast við að sama muni gilda um aðra banka.

Bankarnir voru seldir 2002 og á árinu 2015 er engin leið að hætta.

"Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær sæstrengur verður lagður milli Íslands og Bretlandseya" sagði forstjóri Landsvirkjunar á fundi fyrirtækisins fyrir tveimur árum.

Nú er búið að hnykkja á þessu á fundi með David Cameron og eftir það verður engin leið að hætta.

Það er sem sé hamast við að negla það og fullyrt að annað muni gilda hér en í Noregi þar sem orkuverð til innanlandsnota hækkaði um 40% með tilkomu sæstrengs.

Forstjóri Landsvirkjunar tekur gjarna samanburð við fiskútflutning og hækkun fiskverðs innanlands eftir að farið var að fljúga með fiskinn til útlanda, en láist að geta þess að fiskneysla er aðeins lítilll hluti af neyslu almennings hér á landi, en enginn kemst hjá því að kaupa raforku.

"Ríkisstjórnin styður það einróma að reisa álver í Helguvík" var ein allra fyrsta yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar.

Hún hefur ekki verið dregin til baka og auðvitað er engin leið að hætta því að láta reisa hér risaálver, sem munu ásamt sæstrengnum kveða upp dauðadóm yfir íslenskum náttúruverðmætum, sem ósnortin eru orðin að helstu auðlind landsins en verða það ekki lengi meðan popplag ráðamanna í G-dúr verður sungið, af því að það er engin leið að hætta.


mbl.is S&P: Íslandsbanki seldur innan 2 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er nefnilega vitlaust gefið."

Það var fáheyrt á sínum tíma þegar skuldbindingar ríkissjóðs varðandi lífeyri voru fluttar frá ríkinu yfir á nýstofnað RUV ohf.

Þarna var farið öðruvísi að en við einkavæðingu annarra ríkisstofnana, en fyrir bragðið gátu þáverandi stjórnvöld losað ríkið við dágóð útgjöld og sýnt fram á betri afkomu ríkisins sem þessu nam.

Ef þetta hefði ekki verið gert, væri staða RUV allt önnur og betri nú en hún er.

"Það er nefnilega vitlaust gefið" sagði Steinn Steinarr í ljóði sínu og eiga þauk orð vel við í þessu máli.

Enn er hafinn söngurinn um að leggja Ríkisútvarpið niður eða einkavæða það og menn láta eins og útvarpsgjaldið hér á landi sé eitthvað alveg sérstakt og einstaklega hátt.

Þó er það lægra á hvern skattborgara en í nágrannalöndum okkar, meðal annars Bretlandi, þar sem hagkvæmni 200 sinnum fjölmennara þjóðfélags ætti að auðvelda Bretum að slá Íslendingum við.

Nú er Íhaldsflokkurinn einn við völd í Bretlandi en ekki heyrist að þar á bæ séu menn orðnir æstir í að leggja BBC niður.

Hefði verið fróðlegt að einhver hefði spurt David Cameron hvort einkavæðing eða slátrun BBC væri ekki efst á lista hjá flokki hans.  


mbl.is Skuldir RÚV nærri 7 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr vöndu að ráða.

Fyrir örfáum misserum var oft notað orðið "svartagallsraus" um þá skoðun sumra glöggra manna, að mannkynið stefndi inn í sívaxandi vandamál vegna óróa og upplausnar sem skapaði stóraukinn flóttamannavanda víða um álfur, jafnvel þar sem menn sáu enga eða litla hættu á að slíkt gerðist.

Svona ástand af völdum afleiðinga loftslagsbreytinga af mannavöldum mun skapast víða ef ekkert verður að gert, og því miður hefur tíminn frá Ríó-ráðstefnunni 1992 verið látinn renna úr greipum að mestu, alls 23 mikilvæg ár.

George Bush, varkár forseti Bandaríkjanna 1991, stóðst þá freistingu að breyta samstilltum aðgerðum alþjóðasamfélagsins gegn innrás valdagráðugs skjólstæðings síns í Írak inn í nágrannaríkið Kuveit í herferð til að steypa honum og gera stjórnmálalega og trúarlega byltingu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sonur hans aðhafðist þveröfugt, og sú aðgerð, innrásin í Írak 2003, auk stuðnings við að steypa af stóli Gaddafí í Líbíu og Assad í Sýrlandi, hefur ekki aðeins skapað allt annað og verra ástand í þessum heimshluta en nokkurn óraði fyrir, heldur er löndunum handan Miðjarðarhafsins mikill vandi á höndum vegna dæmalauss flóttamannastraums.

Þar er úr vöndu að ráða og skiptir litlu í því sambandi hvert skipulag er á málum einstakra ríkja, - flóðbylgja flóttamannanna berst þangað inn af landfræðilegum ástæðum og hefði gert það hvort eð er.

Á blogginu hér heima má hins vegar sjá menn bölsótast yfir vonsku ESB í málinu og þjóðum þess, í í sumum tilfellum fer sami bloggarinn létt með að núa ESB um nasir að vilja endurreisa ofstopa nasista við að "hreinsa" álfuna, en líka að stunda skaðlega og barnalega aumingjagæsku.

Hjá öðrum bloggara er hiklaust alhæft að flóttamennirnir séu "múslimaskríll"  og "vanir hryðjuverkamenn."

Enn sem komið er eru flóttamennirnir einn þúsundasti af íbúafjölda ESB og því ætti það ekki að vera með öllu óviðráðanlegt að þjóðir álfunnar standi sameiginlega að því að leysa flóttamannavandann.

En samt er úr vöndu að ráða.


mbl.is Vaxandi áhyggjur af Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband