Þegar örlög fárra hafa meiri áhrif en örlög milljóna.

Eftir að Seinni heimsstyrjöldinni lauk voru birtar myndir af hrúgum af illa leiknum líkum þeirra, sem drepnar voru í helförinni og talan 6 milljónir þar með. 

Þetta hafði að vísu mikil áhrif, en þó hafði sjónvarpsþáttaröðin um Helförina mun meiri áhrif. 

Í henni var fylgst með afmörkuðum hópi, einstaklingum og nánustu ástvinum þeirra. 

Hvernig mátti það vera að það hafði mun meiri áhrif en haugarnir af líkum og líkamsleifum fyrst eftir styrjöldina? 

Ástæðan er sennilega sú að áhrifin eru meiri eftir því sem farið er nær einstaklingunum sjálfum, þannig að einskonar persónuleg tengsl myndast á milli þolendanna og almennings.

Dagbók Önnu Frank, eins einstaklings, hafði gríðarleg áhrif á sínum tíma, var sett á svið í leikhúsum og í kvikmynd. Allir gátu sett sig í spor Önnu og fjölskyldu hennar. 

Hér á síðunni hefur áður verið minnst á það hvað Geysisslysið hafði mikil áhrif á alemnning haustið 1950, mun meiri en margfalt stærri slys.

Ástæðan var líklega sú, að þá fimm daga sem áhöfnin var týnd, lærði fólk nöfn allra um borð og var þar með komið eins og inn á gafl hjá þeim.

Og einu sinni enn koma orð Stalíns upp í hugann: Þegar einn maður er drepinn er það morð, en þegar milljón er drepin er það tala. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Lést Anne Frank mánuði fyrr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaðið yfir alla. Draumur um risalínu frá Hornafirði vestur um Fjallabak.

Varla líður sú vika að ekki berist fréttir af fyrirætlunum Landsnets, þar sem enginn hluti landsins er undanskilinn, allt frá ysta hluta Reykjanesskagans, þversog kruss um hálendið og um byggðir.

Fyrirtækið stendur ekki við loforð eins og dæmið með spennistöðina við Hamranes sýnir glöggt og tregðast við það út í hið endalausa við að leggja línur í jörð.

Fyrirtækið heldur því fram að verið sé að "tryggja afhendingaröryggi til heimilanna og fyrirtækja landsmanna" með lagningu þessara risalína þótt augljóst sé að þetta er einungis birtingarmynd hinnar takmarkalausu virkjana-og stóriðjustefnunnar, sem enn lifir jafn góðu lífi og hún gerði fyrir áratug.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur lýst því yfir að það verði ekki spurning um hvort heldur hvenær sæstrengur verði lagður til Skotlands.

Í tengslum við það eru ekki aðeins uppi áform um risalínur þvers og kruss um hálendið heldur er líka í ráði að vegna þess að sæstrengurinn komi á land á Hornafirði verði lögð þaðan risaháspennulína um Suðursveit, Öræfasveit og Skeiðarársand en síðan liggi línan um suðurhálendið í gegnum Friðland að Fjallabaki til virkjananna við Tungnaá og Þjórsá.

Í skoðanakönnunum Önnu Þóru Sæþórsdóttur kemur fram að ekkert trufli eins upplifun útlendinga af ósnortinni íslenskri náttúru og háspennulínur, en meira en 80% erlendra ferðamanna koma til Íslands til að upplifa hana ósnortna.

En að sjálfsögðu stefnir Landsnet að því að gefa því langt nef og vaða yfir allt og alla.  

 


mbl.is Skora á bæjarstjórn að synja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk gúglar ekki til sín lífsreynslu og þroska.

Áberandi munur er á viðhorfi fólks til aldurs hjá tækniþjóðfélögum vesturlanda og þjóðfélögum í þróunarlöndunum. 

Á vesturlöndum er einblínt á þá staðreynd að um 25 ára aldur telst líkamleg og andleg geta einstaklinga mest og fari smám saman dvínandi þar sem eftir er ævinnar.

Í austurlöndum eru reynsla og þroski hinna eldri í hávegum höfð og þeir njóta mestrar virðingar, svo að manni sýnist stundum, litaður af æskudýrkun vesturlanda, að það geti verið um of.  

Lítið dæmi um neikvæðu síbyljuna um aldurinn er sífelld endurtekning á því hve íþróttafólk er orðið gamalt strax um þrítugt. 

Sífellt er talað um Eið Smára Guðjohnsen sem "gamla manninn" og er það að vísu skiljanlegt þegar miðað er við óvenju ungan meðalaldur annarra landsliðsmanna.

En Eiður sýndi svo um munaði þegar "gamla manninum" var kippt inn í liðið hvers virði gamli maðurinn var. 

Þetta sífellda tal í neikvæðum tóni um miðaldra og gamalt fólk hefur smitandi áhrif, og eitt dæmi um það er að fólk yfir fimmtugu skuli ekki vera haft í meiri metum sem starfskraftar er raun ber vitni.

Sömuleiðis það hvernig fólk yfir sjötugu, að ekki sé nú talað um sístækkandi hluta þjóðarinnar sem er yfir áttrætt, er næstum algerlega afskrifað, til dæmis í skoðanakönnunum þar sem fólki yfir áttrætt er skipað í flokk með börnum að því leyti, að því sé ekki treyst til að hafa marktækar eða gildar skoðanir.

Á erlendum málum eru fréttir nefndar "news" eða "nyheder" sem vísar til þess að eitthvað nýtt þurfi að felast í þeim.

Því brá mér í brún að sjá hvernig reyndum frétta- og blaðamönnum var eins og sópað út af fjölmiðlunum í Hruninu.

Eitt sinn þegar ég kom á fréttastofu RUV var aðeins einn fréttamaður á vakt hjá RUV sem var eldri en fertugur.

Ef hann hefði ekki verið á vakt hefðu hinir ungu í mörgum tilfellum ekki vitað, hvort eitthvað "nýtt" eða einstakt fælist í álitaefnum dagsins.

Oft þarf að hafa hraðar hendur í frétta- og blaðamennsku og þá er ómetanlegt að reynslubolti geti lagt á það mat samstundis án þess að það þurfi að fara að gúgla út og suður.

Atvinnurekendur geta treyst því að fólk yfir fimmtugt þurfi ekki á fæðingarorlofi að halda.

Þátturinn 60 mínútur er gott dæmi um það hve mikils virði reynsla og aldur geta verið.

Ekki er annað að sjá að sjónvarpsfólkið þar sé vel við aldur, - á tímabili var sjálfur stjórnandinn kominn vel á áttræðisaldur en samt gefur þetta fólk ekkert eftir í því að leysa af hendi krefjandi og erfið verkefni í öllum heimshlutum.

Í gærkvöldi var ég að horfa á smá þátt á Youtube um Sean D. Tucker. Á flugsýningu í Oskosh í Bandaríkjunum fyrir rúmum áratug hreifst ég afar mikið af frammistöðu hans í listflugi á sýningunni.

Síðan þá hefur hann orðið enn betri ef eitthvað er og er viðurkenndur sem magnaðasti sýningarflugmaður í listflugi í heiminum. Þarf ekki annað en að sjá dæmi um það á Youtube hvernig hann stendur framar öðrum til að átta sig á snilld hans.

En samt er hann nú kominn á sjötugsaldur og er í líkamlegu formi á við fremstu íþróttamenn, eins og sést á því hvernig hann æfir stíft 340 daga á ári í líkamsræktarstöð, svo að hann er með "skorinn", vöðvastæltan og eins og tálgaðan skrokk.

Miklu skiptir að vera sem léttastur, því að hann verður að standast 9,5 líkamsþyngdir í dýfum og 7,5 líkamsþyngdir í dýfum á hvolfi. Hann æfir flugæfinga sínar líka helst daglega til þess að öðlast sem mesta reynslu og þroska.      


mbl.is Fólk um fimmtugt bestu starfskraftarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldatilfærsla?

Það er út af fyrir sig gott að bílafloti landsmanna sé endurnýjaður hraðar en verið hefur undanfarin ár. Bílaflotinn varð eldri fyrst í kjölfar Hrunsins og það er ekki gott. 

Með hverju árinu verða bílar sparneytnari, miðað við stærð og þyngd, og einnig öruggari og því fengur að því að fá þá inn í bílaflota okkar. 

Sem dæmi má nefna að í Toyota iQ, sem er aðeins 2,99 metra langur, er með níu öryggisbelgi og -gardínur og fær fullt hús, 5 stjörnur í árekstraprófunum. 

Fróðlegt væri að vita hve mikinn þátt skuldaleiðréttingin á í fjölgun bíla og enn fróðlegra væri að vita hve hátt hlutfall nýju bílanna er keyptur með allt að 90% láni, sem voru og eru óspart auglýst. 

Í þeim tilfellum er skuldaleiðréttingin kannski frekar skuldatilfærsla en lækkun skulda og ákaflega íslenskt fyrirbæri. 


mbl.is Mikil aukning í sölu lúxusbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir atvinnuflugmenn verða að gefa fluglæknum allt upp.

Íslenskir atvinnnuflugmenn verða að gefa trúnaðarlæknum Flugmálastjórnar allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi ástand sitt. Eftir 40 ára aldur er farið yfir þetta í ítarlegri læknisskoðun tvisvar á ári, þar sem útfyllt er hverju sinni heilmikil og flókin skýrsla um málið. 

Þessar upplýsingar eru margar og sumar þeirra ansi nærgöngular, en starfsheiti fluglæknanna, "trúnaðarlæknar", segir sína sögu um eðli málsins.

Meðal þess sem upplýsa þarf um eru sjúkdómar í fjölskyldunni, þ. e. hjá þeim standa allra næst flugmanninum og gætu varðað það að flugmaðurinn eigi hættu á að fá arfgenga sjúkdóma.

Upplýsa þarf meðal annars um meðalanotkun, innlagnir á sjúkrahús og ýmsa sjúkdóma eða líkamlega veikleika á æviferlinum, neyslu áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna.  

Lengi vel gat ég krossað við nei í öllum þessum tilfellum, en þó hef ég orðið að krossa við já í einni spurningunni í bráðum 50 ár.

Þar er spurt: "Neitað um líftryggingu?" og svarið er "já."

Forsaga málsins var þessi:  24ra ára gamall ætlaði ég mér, þá orðinn þriggja barna faðir, að kaupa mér líftryggingu. Ég hafði alla tíð haldið mér í góðu líkamlegu formi og meðal annars keppt í 100, 200 metra og 400 metra hlaupum, en síðastnefnda greinir krefst úthalds ekki síður en snerpu og hraða.

Púlsinn mældist 44 og efri mörk blóðþrýstins voru nálægt neðri mörkum hjá meðalmanninum.

Þessar tölur voru fyrir utan rammann um það eðlilega og var mér því neitað um líftrygginguna, var sem sagt í of góðu formi!

Enn í dag eru þessar tölur mun lægri en hjá meðaljóninum, en ég man hvað Úlfari heitnum Þórðarsyni þáverandi trúnaðarlækni fannst þetta fyndið.

Ekki harma ég þessa neitun, því að ég er búinn að græða milljónir á því að hafa sloppið við að greiða iðgjöldin af þessari tryggingu.

 

 


mbl.is Vekur spurningar um trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stútfull af sandi" að sjálfsögðu.

Það ætti í raun og veru ekki að vera nein frétt að Landeyjahöfn sé "stútfull af sandi" svo miklir sem sandflutningarnir eru, hafa verið og verða með suðurströndinni. 

Austar við ströndina, við Vík, hefur sjór verið að brjóta niður fjöruna sem hefur færst innar, og til þess að ráða bót á því var gripið til gamalþekkts ráðs, sem notað hefur verið um allt land, að búa til grjótgarða sem teygðu sig út fyrir ströndina á svipaðan hátt og varnargarðarnir við innsiglinguna í Landeyjahöfn. 

Slíkir garðar, sem skaga út frá strönd eða árbakka aurugrar ár, drepa strauminn eða trufla hann svo að sandur eða leir í honum verður kyrrstæðari eða í hvirflum, sekkur til botns og hækka hann á svæðinu við garðana, svo að það verður smám saman "stútfullt af sandi." 

Nú eru að verða fimm ár frá gosinu í Eyjafjallajökli og því æ langsóttara að kenna flóðinu úr honum um síhækkandi sandbotn við mynni Landeyjahafnar. 

Það fyrirbæri var fyrirsjáanlegt. 


mbl.is Höfnin er „stútfull af sandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver erfiðustu og illvígustu málin snerta erfðarétt.

Einhver erfiðustu lögfræðilegu deilumálin og jafnframt þau dapurlegustu, eru sum mál sem snerta erfðarétt.

Þau eru svo erfið meðal annars vegna þess að þau snerta tilfinningarleg atriði og valda þess vegna meiri sárindum og misklíð á milli ástvina hins látna en ella.

Einnig líta þau út í frá oft út fyrir að eiga rót í græðgi þótt slíkt sé ekki nærri alltaf raunin. 

Gott ráð heyrði ég eitt sinn varðandi skiptingu erfðagóss, sem hefur komið að gagni. 

Það felst í því, til dæmis þegar um systkin er að ræða, að öllum eigum hins látna er skipti í jafn marga og álíka verðmæta hluta og systkinin eru. 

Einnig sé samsetning hlutanna svipuð innbyrðis. Áður en skipting í hluta fer fram er til í dæminu að einstaklingarnir, sem í hlut eiga, fái hver um sig að óska eftir munum, sem hafa sérstakt tilfinningalegt gildi fyrir viðkomandi.

Oft eru það munir, sem hafa eingöngu mikið gildi fyrir einn en ekki aðra. 

Þegar hlutar dánarbúsins liggja fyrir, álíka samansettir, er síðan einfaldlega dregið um hvernig hlutarnir skiptist og kveðið á um að allir hlutaðeigandi sætti sig við útkomuna úr því.  

Að því búnu sé aðilum frjálst að skiptast á einstökumm munum á nokkurs konar skiptimarkaði, en fyrirfram sé um það sameiginlegur vilji að láta ráðstöfunarréttinn á þeim vera algerlega á valdi þess sem hlaut hann í hlutkestinu og að þess vegna geti svo farið að enginn versli með neitt. 

 

Ég veit um nokkur dæmi þess að þessi aðferð hafi gefist vel og verið sú eina, sem virtist framkvæmanleg.  


mbl.is Vilja öll fá eigur Williams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Maestro!"

Þegar síminn hringir hjá Gunnari Þórðarsyni, hann lyftir tólinu að eyranu og heyrir aðeins sagt í símann: "Maestro!" veit hann hver er í símanum.

Ég tók upp þetta ávarp fljótlega eftir að við kynntumst og fórum að vinna saman fyrir hálfri öld. Samband okkar og vinátta varð strax náin við textagerð fyrir plötur Hljóma auk þess sem við gátum varla þverfótað fyrir hvor öðrum, ef svo má að orði komast, á skemmtunum þess tíma. 

Það eru ekki aðeins ótvíræðir yfirburðir Gunnars á tónlistarsviðinu sem gera hann svo sérstakan í mínum huga, heldur ekki síður ljúfmennskan og fagmennskan sem hann sýnir í samvinnu og viðkynningu. 

Þótt Gunnar leggi metnað í verk sín er varla hægt að hugsa sér yfirlætislausari og hógværari mann. 

Breidd Gunnars í tónsköpun og viðfangsefnum er líkast til einsdæmi meðal tónskálda og tónlistarmanna.

Þegar ég lít til baka yfir 56 ára samstarf við tónlistarmenn skiptast þeir í tvennt. 

Annars vegar undirleikarar mínir á skemmtunum, þar sem samstarfið við Hauk Heiðar Ingólfsson síðan 1962 hefur verið mest og nánast. 

Hins vegar eru útsetjarar laga minna, sem fært hafa útsetningarnar í búning, ýmist að mestu einir eða með fleiri hljóðfæraleikurum.

Þegar allt er talið saman í hálfa öld er hlutur Gunnars Þórðarsonar langstærstur.  

Þessum snillingi og ljúflingi sendi ég þakkir og árnaðaróskir í tilefni af verðskuldaðri viðurkenningu. 

Heill þér, Maestro! 


mbl.is Gunnar hlaut Gullna hanann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klæðnaðurinn og svefnpokinn ráða úrslitum.

Frásagnir fólks af því hvernig því hefur gengið að sofa í tjaldi eða snjóhúsi í vetrarveðri eru misjafnar. 

Ég er einn þeirra sem fell í afar djúpan svefn ef ég á að hvílast vel. Við það hægir á líkamsstarfseminni og maður verður mjög viðkvæmur fyrir kuldanum, hrekkur stundum upp hríðskjálfandi.

Eftir mörg hundruð nætur í svefni útivið í allt að 20 stiga frosti lærist þó ýmislegt.

Besti lærdómurinn fékkst í ferð yfir Grænlandsjökul 1999. Þá var sofið í tjöldum eða bílum í allt að 3000 metra hæð og 25 stiga frosti.

Arngrímur Hermannsson leiðangurstjóri hokinn af reynslu í þessum efnum, tók heldur betur til hendi í útbúnaði mínum, svo að ég varð að endurnýja hann frá grunni.

Undirfatnaðurinn var höfuðatriði, þurr og loftmikil ull. En svefnpokinn var þó mikilvægastur.

Ég man ekki lengur hvar ég keypti hann, en Arngrímur taldi eina gerð vera langbesta og að ég fengi ekki að vera með í ferðinni nema fá mér slíkan poka.

Ég kveinaði yfir því hvað pokinn væri dýr en Addi sagði, að maður keypti aðeins einu sinni svefnpoka fyrir ævina og að annar poki kæmi ekki til greina.  

Þetta dugði vel og var dýrmæt reynsla.

Þegar ég flutti búferlum á milli hverfa árið 2000 týndist Grænlandssvefnpokinn í flutningunum og ég fór því að nota þann gamla áfram.

Gekk á ýmsu í útilegunum sem voru sumar að vetrarlagi og í miklu frosti á hálendinu og uppi á Vatnajökli og ég afar kulsækinn. 

Fyrir rúmu ári flutti ég aftur búferlum, og þá fann ég Grænlandspokann og byrjaði að nota hann.

Og hvílíkur munur! Svo mikill, að ég dauðsá eftir því að hafa ekki farið í rækilega leit að honum eða finna ráð til að kaupa jafngóðan að nýju, þótt hann væri dýr.  

 


mbl.is Fimm tíma að sofna í snjóhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hverju reiddust goðin...?

Þegar heiðnir menn sögðu á Alþingi við kristnitökuna árið 1000 að goðin væru reið, því að hraun í gosi á Hellisheiði stefndi niður bæ eins hálfkristna goðans að Hjalla í Ölfusi, svaraði Snorri goði: "Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?"

Á svipaðan hátt mætti spyrja nú: Hverju reiddust forráðamenn annars af tveimur fyrirtækjum sem var búið að leggja fé í að fá leyfi fyrir rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu en hætti nýlega við?

Varla Samfylkingunni, löngu fyrir landsfund hennar.

Og hverju reiddust kínversku fyrirtækin sem voru búin að tilkynna um stórfellda olíuleit við Grænland en hafa nú hætt við og það svo rösklega að Grænlendingar hafa afskrifað olíuleit í sinni lögsögu?

Varla gátu þeir reiðst Samfylkingunni þá?

Menn tala um óskiljanlega stefnubreytingu hjá Sf.

En það er ekkert óskiljanlegt við hana.

Allir íslensku stjórmálaflokkarnir höfðu í meira en fimmtán ár fylgt fram stefnu í olíumálum Íslendinga án þess að nokkur bitastæð umræða færi fram um það innan flokkanna eða almennt í þjóðfélaginum.

Það átti að skjóta fyrst og spyrja helst aldrei.

Í fyrra gerðist hins vegar það að Samfylkingin stóð fyrir vönduðu málþingi um olíumálin frá sem flestum sjónarhólum. Þetta var fyrsta slíka málþingið af þessu tagi um þetta víðfeðma efni, en fjölmiðlar höfðu ekki áhuga á því. 

Á málþinginu héldu sérfræðingar á ýmsum sviðum fróðleg erindi, sem opnuðu alveg nýja heildarsýn á málið þótt sjónarhólarnir væru mismunandi.

Einn sérfræðinganna var að vísu enn greinilega áhugasamur um olíufundi og sagði til dæmis, að því miður hefði engar olíulindir fundist á Skjálfandaflóa!

Ég hef áður rakið hér á síðunni helstu rökin fyrir því að taka strax breytta afstöðu til framtíðar varðandi þá draumsýn að Ísland verði olíuríki með tilheyrandi "heimshöfn" í Finnafirði, jarðgöngum og hraðbrautum um þvert hálendið til Reykjavíkur og þar með ríkasta land í heimi.

Staðreyndirnar er ljósar:

Fyrirtækið sem hætti við á Drekasvæðinu hefur líklega gert það vegna þess að vinnslukostnaður á Drekasvæðinu yrði minnst þrisvar sinnum meiri en í Arabalöndunum og langt fyrir ofan söluverðið.

Sádi-Arabar stjórna sem fyrr ferðinni í olíumálum heimsins og fyrir liggur að þeir eiga enn í jörðu upp undir 20 ára olíubirgðir og nýtanlegar birgðir í heiminum eru heldur meiri. 

Þegar þessar birgðir verða búnar lýkur olíuöldinni óhjákvæmilega og menn neyðast til orkuskipta í tæka tíð. Sádarnir hafa unnið góða heimavinnu í því máli og stjórna nú orkuverðinu á þann hátt að þeir verði í lok olíualdar nákvæmlega á þeim punkti að hafa notað olíubirgðir sínar þegar aðrir orkugjafar taka við. 

Aðrir orkugjafar eru á vaxandi siglingu um þessar mundir með nýrri tækni varðandi nýtingu sólarorku og fleiri endurnýjanlegra orkugjafa auk rafvæðingar samgöngutækja.

Íslendingar sem matvælaframleiðsluþjóð og með viðskiptavild vegna meintrar forystu í nýtingu hreinna og endurnýjalegra orkugjafa, yrðu í hróplegri mótsögn við sjálfa sig ef þeir stefndu einbeittir að því að leggja fram meiri skerf á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð til þess að framleiða óendurnýjanlega orku með stórfelldum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og taka um leið þá áhættu sem fylgir olíuvinnslu af margfalt meira dýpi en áður hefur þekkst.

Ekki hvað síst yrði þetta slæmt fyrir okkur vegna nýrra skuldbindinga okkar í loftslagsmálum.

Það var fullkomlega rökrétt ályktun hjá Sf að móta framtíðarstefnu í samræmi við þetta.

Heyrst hafa raddir um það að það sé skaðlegt að breyta um stefnu og upplýsa um stöðu mála vegna þess að það fæli þá, sem þegar hafa hafið samstarf við okkur, frá því að skipta við okkur.

Við eigum sem sagt að þegja um það sem við teljum okkur vita sannast og réttast og halda áfram eins og ekkert nýtt hafi komið fram. Stunda áfram áunna fáfræði. 

En er ekki það einkennileg mótsögn að halda því fram að það réttasta sem maður geri sé að halda fram því sem maður telji rangt og reyni að koma í veg fyrir að aðrir viti að það sé rangt?    

Væri það ekki eitthvað sem mætti "furða sig á"?


mbl.is Furðar sig á stefnubreytingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband