Hvílíkur harmleikur!

Mistaka- og syndaregistur bandarísku leyniþjónustunnar og ráðgjafa bandarískra stjórnvalda er langur og ljótur. 

1960 höfðu Bandaríkjamenn staðið uppi sem sigurvegarar í öllum styrjöldum sem þeir háðu allt frá stofnun ríkis þeirra, eða í tæplega tvær aldir. 

Á slíkri samfelldri og óralangri sigurbraut er alltaf af hætta á því að ofmetnaður taki völdin á kostnað yfirvegunar og stöðumats.

Sú varð raunin í Víetnam, þar sem Bandaríkjamenn, sem sjálfir höfðu brotist undna nýlenduoki Breta, var gersamlega um megn að skilja þjóðarsál Víetnama og undirrót baráttu þeirra við Frakka og síðar Bandaríkjamenn, en þessi frumdrifkraftur var þjóðerniskennd þjóðar sem þráði að verða sjálfri sér ráðandi.

Þessi viðleitni Víetnama átti ekki aðeins við um andóf þeirra gegn áhrifum Bandaríkjamanna, heldur líka aldagamalt og gróið andóf þeirra gegn áhrifum og afskiptasemi hinna fjölmennu og voldugus nágranna þeirra í norðri, Kínverja. Enda lentu þeir í átökum við Kínverja á áttunda áratugnum. 

Bandaríkjamenn hlóðu undir gerspillta leppa sína í Suður-Víetnama og héldu að þetta módel, sem hafði reynst þeim notadrjúgt í Mið- og Suður-Ameríku, myndi virka í Víetnam.

En svo illa reyndist þetta í Saigon, að þeir neyddust meira að segja til þess að láta ráða lepp sinn, Ngo Diem Diem, af dögum, án þess að það breytti þó neinu um ástandið.

Þeir tóku það til bragðs í suðurhluta Suður-Víetnam að víggirða þorpin þar til þess að verja þau fyrir skæruliðum Vietkong.

Áhrif þess voru þveröfug til tilganginn, því að þorpsbúum fannst þeir hafa verið settir í fangelsi.

Þær staðreyndir að þrjár milljónir Vietnama féllu í stríðinu og að meira sprengjumagni var varpað yfir þetta eina land en í allri heimstyrjöldinni, - að það skyldi á tímabili hafa verið ætlunin að eyða með eitri þúsundum ferkílómetra af skógi til þess að skæruliðar Víetkon gætu ekki falið sig, napalm- og flísasprengjuárásir á þorp og bæi og margt fleira, segja sína sögu um tryllinginn, sem réði ríkjum í þessu hræðilega stríði, þar sem Bandaríkjamenn biðu sinn fyrsta ósigur og hann verðskuldaðan.

Réttlæting Johnsons Bandaríkjaforseta fyrir því að stigmagna svo stríðið 1964, að þegar hæst stóð voru meira en hálf milljón hermanna í bandaríska liðinu, átti að vera atburðarás á Tonkinflóa sem túlkuð var sem árás á Norður-Viethama sjó á Bandaríkjamenn.

Langlíklegast er að þessir atburðir hafi verið sviðsettir.

En þetta stríð var þó ekki að öllu leyti ósigur fyrir bandarísku þjóðina, því að segja má að hún hafi tapað því á heimavelli, það er, vegna hinna miklu og vaxandi mótmæla í Bandaríkjunum og einnig vegna þess að til voru fjölmiðlamenn bandarískir sem stóðu í lappirnar við að sýna hið raunverulega eðli og inntak stríðsins á áhrifamikinn og oft einfaldan hátt, þar sem ein ljósmynd gat sýnt meira en þúsund orð. 

Þegar Walter Cronkite sjónvarpsfréttamaður sagði eftir eftirminnilega umfjöllun um stríðið, sem hann gerði að aflokinni ferð á vígstöðvarnar 1968: "That´s the way it is", er sagt að Johnson forseti hafi fölnað við sjónvarpsskjáinn og sagt að nú væri einsýnt að hann gæti ekki boðið sig fram sem forsetaefni Demókrata í kosningunum sem í vændum voru um haustið.

Afl og kjarkur andófsins gegn stríðsrekstrinum var því ákveðinn sigur fyrir lýðræðis- og umbótaöflin í Bandaríkjunum og sigur fyrir þá "dynamik" sem bandarískt þjóðfélag býr stundum yfir.       


mbl.is Kom aldrei heim úr stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æfingasvæði fyrir marsfara fyrir 14 árum.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að myndavél sem nota á til að kanna landslag á Mars hafi verið reynslukeyrð hér á landi.

Það er nefnilega ekki nýtt að Ísland þyki heppilegt á ýmsan hátt sem æfingasvæði fyrir Marsferðir framtíðarinnar.

Bob Zubrin, helsti talsmaður þessara ferða, sem rætt var við í aðalefni tímaritsins Time um Marsferðir framtíðarinnar, kom hingað til lands fyrir 15 árum og ég var svo heppinn að geta flogið með hann austur að Kverkfjöllum og norður á Kröflusvæðið þegar hann var að sannreyna, að hér á landi gæti verið að finna gagnlegustu staðina fyrir æfingar í tengslum við ferðir til Mars.

Árið eftir kom sendinefnd frá Alþjóðlegum samtökum um ferðir til mars hingað til lands, valdi sér svæði í Gjástykki sem æfingasvæði fyrir Marsfara og þar og í þeirri ferð var gagnlegt að geta hitt fólk í innsta hring þessa máls, ræða við það og birta viðtöl og myndir. 

En það eru blikur á lofti varðandi þetta mál því að leynt og ljóst er stefnt að því að reisa gufuaflsvirkjun í Hellisheiðarvirkjunarstíl á sama svæði og sendinefndinni leist best á.

Nefnd um skipulag miðhálendisins hefur samþykkt einróma að vettvangur Kröfluelda, Leirhnúkur-Gjástykki, skuli verða skilgreint sem "iðnaðarsvæði."

Nærri má geta hvort Tunglfararnir hefðu farið í Öskju 1967 til að æfa sig fyrir ferð til Tunglsins, ef þeir hefðu þar orðið að klöngrast um svæði með stöðvarhúsi, skiljuhúsi, gufuleiðslum, borholum og virkjanavegum.

Þar að auki er í Gjástykki svæði skammt frá Marsæfingasvæðinu, þar sem á eina staðnum í heiminum má sjá ummerkin um það þegar nýtt Ísland kom upp í gjá, sem varð til þegar meginlandsflekar Ameríku og Evrópu færðust í sundur.

Í gjánni á Reykjanesi, þar sem er svonefnd "Brú á milli heimsálfanna" er hvergi að sjá nýtt land í formi hrauns, sem kom upp þegar flekarnir færðust þar í sundur og heldur ekki neinar samtíma heimildir, frásagnir, skrif eða myndir.

En allt þetta er fyrir hendi í Gjástykki.

Í mínum huga er eins og menn séu varla með öllum mjalla sem vilja vaða inn í Gjástykki með ígildi Hellisheiðarvirkjunar og eyðileggja með því á óafturkræfan hátt stórkostleg og einstæð náttúruverðmæti.

En þeir telja sig vera skynsamt hófsemdarfólk en mig og mín skoðansystkin öfgafólk, sem "vilji fara aftur inn í torfkofana."    


mbl.is Æfði fyrir Mars á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkindareikningur um tölu látinna?

Þannig vill til að mér áskotnaðist vitneskja um það fyrir tíu dögum að eftir ellefu daga verkfall væri kominn 2000 manna biðlisti í ómskoðanir hjá LSH. 

Hugsanlega er talan eftir tvöfalt lengra verkfall komin í 3-4000 þúsund og fyrir liggur að taka mun marga mánuði að eyða biðlistanum stóra og vonda. 

Í tilfelli sem ég þekki til er um að ræða nauðsynlega skoðun á 3-4 mánaða fresti til að fá fullvissu um hvort bólga á mjög óaðgengilegum stað í nýra geti verið illkynja.

Viðkomandi sjúklingur er í áhættuhópi þeirra sem áratugum saman unnu í reykjarkófi og á á hættu að fá krabbamein af þeim völdum. Fiá slíkur maður krabbamein í nýru, eru taldar eru 80% líkur á því að það sé af völdum reykinganna.

Umræddur sjúklingur hefur misst nokkra af bestu vinum sínum um aldur fram af þessum sökum og hefur þess vegna heyrt um þessa tölu.

Sem sagt: Það er ekki að ástæðulausu sem við svona ómskoðanir eru gerðar kröfur um lágmarkstíma á milli skoðana. Þetta er skilgreint sem "semi-akút" tilfelli, eða bráðatilfelli að hluta til.  

Nú ættu þegar að vera fyrirliggjandi tölur um áhættuna sem tekin er með því að virða lágmarksfrestinn á skoðunum að vettugi og þá erum við komin í skuggalegan líkindareikning, vegna þess hve sjúklingatalan er há og vegna þess að í sumum tilfellum getur tíminn milli skoðana þrefaldast eða jafnvell meira.

Telja má það rökstuddan grun vegna fjöldans og tímalengdarinnar að um sé að ræða líkindareikning um tölu látinna.

Og hver er hún þá? Einn, tveir, þrír, fjórir eða jafnvel fleiri?

Einn er einum of mikið. Ef talan er núll ætti ekki að vera ástæða til að hafa frestinn á milli skoðana í þeirri lengd sem hann er.

Deiluaðilar í málinu eru tveir: Launagreiðandi og launþegi. Launagreiðandi er þjóðin. Málið varðar því almannahagsmuni og líkindareikninginn þarf að framkvæma og upplýsa um niðurstöðuna. Öll gögn ættu að vera til. 

Hefur enginn áhuga á því? Er öllum andskotans sama um það hvort verið sé að spila rússneska rúllettu um líf og heilsu fjölda fólks?

Eða hugsa allir á biðlistunum það sama, líka sá, sem hugsanlega tapar á endanum í rúllettunni? Eitthvað á þessa leið: Líkindin á að ég tapi í þessari rúllettu eru svo lítil út af fyrir sig að ég nenni ekki að vera að spekúlera í þessu. Þetta kemur fyrir einhvern annan en mig.

   


mbl.is Erum að koma á þolmörkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo má böl bæta að benda á annað verra?

Já, víst hittir Marco Evaristti naglann á höfuðið þegar hann sakar Íslendinga um hræsni í náttúruverndarmálum. Bara fréttir undanfarinnar vitna um það og af yfirið nógu að taka.

Nú á til dæmis að mati Ólafs Arnalds, fremsta sérfræðings Norðurlanda í ástandi gróðurs og jarðvegs, sem er með Umhverfisverlaun Norðurlanda upp á það, að fara afturábak í 40 ár í meðferð á jarðvegi og gróðri landsins með því að rjúfa friðun Almenninga. þjó

Nú stefnir í að sú þjóðarskömm eigi að líðast áfram að láta viðkvæmar náttúruperlur stórskemmast vegna þess að þverpólitísk samstaða virðist um að læra ekkert af öðrum þjóðum í þeim efnum og samþykkja engin úrræði, sem duga. 

Að ekki sé talað um stærstu mögulegu umhverfisspjöll og neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif, sem möguleg eru hér á landi, sem framkvæmd voru í Kárahnjúkavirkjun, og þann einbeitta brotavilja í hernaðinum gegn landinu að tvöfalda núverandi rafmagnsframleiðslu, sem þó skapar þegar fimm sinnum meir raforku en við þurfum sjálf til eigin nota heimila og íslenskra fyrirtækja. 

Fyrir liggja áform um net virkjanamannvirkja allt frá Reykjanestá um Suðurland og Suðurhálendið og norður um hálendið gervallt allt til Leirhnjúks-Gjástykkissvæðisins. 

Afsakanir erlendra listamanna á framferði sínu gagnvart íslenskri náttúru eru samt sem áður aumkunarverðar og að engu hafandi. 

 


mbl.is Sakar Íslendinga um hræsni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nóg, heldur að bæta í.

Helstu hugmyndasmiðir Græðgisbólunnar og Hrunsins hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu. "Það þýðir ekki að hugsa smátt" er kjörorðið. Hljómar kunnuglega:

"Árangur áfram - ekkert stopp" var kjörorð í síðustu Alþingiskosningunum fyrir Hrunið og var þá átt við það, sem Hannes Hólmsteinn sagði um Græðgisbóluna, að vöxtur íslenska bankakerfisins væri ekki nógur, það þyrfti að bæta í!

Árið 2002 má kalla upphafsár þessa fyrirbæris, því að þá hófst sóknin á mörgum sviðum samtímis, enda "dugði ekki að hugsa smátt."

Bankarnir og fleiri ríkisfyrirtæki voru gefin einkavinum græðgisgauranna á silfurfati og vaðið út í langstærstu og verstu framkvæmdir Íslandssögunnar með þvílíkum umhverfisfórnum og spjöllum í "hernaðinum gegn landinu" að tók jafnvel því fram sem Nóbelskáldið varaði við í frægustu blaðagrein sinni 1970.

Ofstopamennirnir á þessu sviði hafa lag á að nýta sér þörf venjulegs fólks á bjartsýni og framsýni og klæða loftkastala sína og sápukúlur í skrumkenndar umbúðir þar sem dans í kringum gullkálfinn og skammgróðadýrkun á kostnað komandi kynslóða eru dásömuð.

"Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa" var einhvern tíma sagt og einni "gætið að liljum vallarins."

Ætli það sé ekki farsælast að íhuga æðruleysisbæn fíkla, þar sem ekki aðeins er brýnt fyrir fólki að reyna að breyta því sem hægt er að breyta en einnig að sætta sig við það, sem ekki verður breytt, - og biðja um vit til að greina þarna á milli.  


mbl.is Þýðir ekki að hugsa smátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæmin 1962-65 og 1990. "Bimm-bamm, bimm-bamm?"

1961 var harðvítugt verkfall sem endaði með 13% launahækkun og í kjölfarið var gengi krónunnar fellt um 13%. Báðir aðilar höfðu spilað út trompum sínum, allir höfðu tapað og verðbólgan hélt áfram. 

Hálfu öðru ári síðar stefndi í annað eins verkfall og einnig í það að ríkisstjórnin myndi setja lög á kjaradeilurnar. 

Ég man enn vel hve mikill uggur var í fólki yfir þeim enn stærri og verri átökum sem virtust óumflýjanleg þegar fylgst var með umræðum á Alþingi. 

Þá gerðist það að sæst var á það að gefa frest til þess að forðast ófarirnar, sem blöstu við, og leita eftir lausn. 

Hún fannst í júní 1964, var kölluð Júnísamkomulagið og síðan framlengd réttu ári seinna með öðru Júnísamkomulagið. Sagt var að trúnaður og vinátta milli oddvita launafólks og Bjarna Benediktssonar hefði gert þessa óvæntu lausn mögulega. 

Í grínvísusyrpu sem ég söng á útmánuðum 1965, lýsti ég hugsanlegum nýjum samkomulagsumleitunum Eðvarðs Sigurðssonar, formanns Dagsbrúnar og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra undir laginu "Bimm-bamm, bimm-bamm, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm.

Þetta var lag vinsæls barnaleiks þar sem börnin heimsóttu hvert annað, tvö og tvö, og hægt að nota textann orðréttan úr barnaleiknum, en í honum var valið hverju sinni, hvað í boði væri og hvað fengist að launum. 

Auðvelt var fyrir einn söngvara að setja hann á svið varðandi samskipti Eðvarðs og Bjarna, vegna þess hve auðvelt var að herma eftir Bjarna, sem hafði sérkennilega rödd, áherslur og tón. Orð Bjarna eru skástrikuð: 

"Bimm-bamm, bimm-bamm, bimmbi-rimmbi-rimmbamm!

Hver er að berja?, Bimmbi-rimmbi-rimm-bamm!

Það er hann Eðvarð, bimmbi-rimmbi-rimmbamm!

Hvern vill hann finna? Bimmbi-rimmbi-rimmbamm.

Elskulegan Bjarna sinn, bimmbi-rimmbi-rimmbamm. 

Hvað vill hann honum?, bimmbi-rimmbi-rimmbamm.

Leysa kjaradeiluna, bimmbi-rimmbi-rimmbamm. 

Hvað fær hann að launum?, bimmbi-rimmbi-rimmbamm. 

Annað júnísamkomulag, bimmbi-rimmbi-rimmbamm. 

Allt í lagi, all-right, bimmbi-rimmmbi-rimmbamm. 

Á þeim tíma sem lagið var sungið á útmánuðum stefndi að nýju í verkföll (það má finna á hljómplötu undir heitinu "Syrpa um allan fjandann.") þannig að spádómurinn um nýtt Júnísamkomulag var dálítið glannalegur.

En hann rættist samt.

Nú er það eina von okkar að reynslan frá árunum 1962-65 og síðan reynslan af Þjóðarsáttinni 1990 verði nýtt og búið til "einn eitt Júnísamkomulag".

Má biðja um Bimmbamm-bimmbamm aftur? Nýr Bjarni Ben er kominn til sögunnar. 


mbl.is Milljarðar í verkfallssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstæður eru misjafnar.

Eitt af því sem flækir kjaramálin er hve aðstæður fyrirtækja og launþega eru misjafnar. 

Lengi vel hefur það verið talin þumalfingursregla að launakostnaður fyrirtækja sé um 70% af veltu þeirra. En þetta er afar misjafnt. 

Misjöfn staða fyrirtækja getur líka truflað skattheimtu af þeim, samanber veiðigjöldin, en það var notað sem helsta röksemd fyrir lækkun þeirra að lítil sjávarútvegsfyrirtæki þyldu þau ekki jafn vel og stærstu fyrirtækin sem eru rekin með stórgróða, bæði vegna stórlækkunar á eldsneytisverði og lágs gengis krónunnar, sem kemur þeim til góða sem þurfa að selja vöru eða þjónustu útlendingum.

Það flækir málin líka að fyrirtækin eru ýmist einkafyrirtæki eða opinber fyrirtæki.

Reynslan sýnir, að forsvarsmenn opinberra fyrirtækja eru gjarnir á að velta launahækkunum út í verðlagið með því að hækka þjónustugjöldin, en það bitnar oftast verst á þeim sem lélegust hafa launin. Þessi varð raunin eftir hið mikla verkfall BSRB 1984. 

Núna er uppgangur á svæði Framsýnar og verið að vinna í nýjum stórframkvæmdum.

Það skapar oft mikla bjartsýni sem verður til þess að launagreiðendur vilja komast hjá því mikla bakslagi sem verkföll valda.

Sú bjartsýni getur hins vegar komið mönnum í koll, eins og kom vel í ljós við Kárahnjúkavirkjun þar sem flest helstu verktakafyrirtækin urðu gjaldþrota og sum þeirra augljóslega vegna gríðarlegra væntinga, sem ekki rættust. 


mbl.is Þrír kjarasamningar undirritaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hið kalda hjarta hafanna."

Enn er hafin umræða um það hvort kólnandi veðurfar sé í vændum hér á landi og hvort nýtt kuldaskeið, allt að 30 ára langt, gæti hafist. 

Þessi spurning var viðfangsefni sjónvarpsþáttar sem ég gerði nokkru fyrir síðustu aldamót og bar nafnið "Hið kalda hjarta hafanna."

Þátturinn var að meginstofni danskur en blandað í hann íslenskum köflum, viðtölum og myndum. 

Nánar tiltekið er "hið kalda hjarta hafanna" sterkur hafstraumur sem hlykkjast eins og ormur um Atlantshaf og Indlandshaf. 

Megin drifkrafturinn er hlýr Golfstraumurinn sem þeytist út úr Karíbahafi framhjá Flórída til norðaustur og komast nyrstu greinar hans allt til Murmansk og Svalbarða, en einnig er lítil grein norður með vesturströnd Grænlands og önnur öllu öflugri grein hringar sig sólarsinnis í kringum Ísland. 

Þegar hinn salti Golfstraumur kælist á nyrstu slóðum hans, sekkur hann til botns og fer með botninum til baka suður Atlantshaf yfir í Indlandshaf og til baka aftur og lokar þar með hringekjunni. 

Danir stunda þjóða mest sjómælingar á Norður-Atlantshafi vegna yfirráða sinna yfir Færeyjum og Grænlandi og byggðu sjónvarpsmyndina um þetta á þeim. 

Þeir vörpuðu því fram að ef mjög mikið magn af tæru bræðsluvatni jökla kæmi út í hafið, væri það tæra vatn léttara en kólnandi Golfstraumurinn og myndi valda því að Golfstraumurinn sykki  sunnar en áður og það drægi úr afli hans og þar með hringekjunnar, hins kalda hjarta hafanna, sem knýr áfram æðaslátt hennar. 

Af því drógu þeir þá ályktun, að allt of hröð hlýnun loftslags með stórfelldri bráðnun jökla á norðurhveli gæti orðið til þess að kalla fram kuldaskeið og það jafnvel vísi að nýrri ísöld. 

Einnig var á þessum tíma hægt að sjá á tölvulíkönum að heildarhlýnun lofthjúps jarðar gæti valdið kólnun á afmörkuðum svæðum og til dæmis gæti orðið mun svalara og rakara veðurfar í Norður-Evrópu en áður. 

Undanfarin ár hefur sjór verið mun hlýrri fyrir norðan Ísland en áður og það hefur valdið hlýrra og úrkomusamara veðurfari á norðanverðu landinu en áður. 

Sjórinn nokkru fyrir sunnan landið er hins vegar kaldari núna en undanfarin ár, hvað sem því nú veldur. 


mbl.is Nýtt kuldaskeið gæti tekið við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var stjórnvitringur. Hann hét Bjarni Benediktsson.

Einu sinni var stjórnvitringur. Hann hét Bjarni Benediktsson og var forsætisráðherra frá 1963 til 1970. 

Áður en hann varð forsætisráðherra fór misjöfnum sögum af stjórnmálastörfum hans eins og gengur.

Hann var einn af helstu lögspekingum landsins og átti stóran þátt í lýðveldisstofnuninni og í utanríkisstefnu Íslendinga.

Sem borgarstjóri í Reykjavík til 1947 lagði hann grunn að þeirri félagslegu þjónustu í borginni sem tryggði Sjálfstæðisflokknum meirihluta borgarstjórnar langt fram eftir öldinni.

Í stóli ritstjóra Morgunblaðsins 1956-1960 var hann harðskeyttur svo að mörgum þótti nóg um.

Þegar hann tók við embætti forsætisráðherra 1963 voru blikur á lofti í kjaramálum.

Í hörðu verkfalli 1961 höfðu laun verið hækkuð um 13% og strax í kjölfarið felldi ríkisstjórnin gengi krónunnar um 13% og af stað fóru víxlhækkanir launa og verðlags.

Bjarni sá, að við svo búið mátti ekki standa og nýtti sér alla stjórnvisku sína, kænsku og áunna lipurð til að koma á það góðu trúnaðarsambandi og persónulegum samskiptum milli ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar að verkföllum var afstýrt 1964 með svonefndu júnísamkomulagi og síðan aftur með nýju júnísamkomulagi árið eftir.

Bjarna tókst að stýra þjóðarskútunni í gegnum gríðarleg áföll á árunum 1967-70 af lagni og stjórnvisku.

Við hörmulegt fráfall hans 10. júlí 1970 skynjaði þjóðin sterkt, að hún hafði misst einn af mikilhæfustu stjórnmálamönnum aldarinnar, mann sem hafði komist í stöðu landsföður.

Nú er uppi válegt ástand í kjaramálum. Annar Bjarni, Benediktsson eins og frændi hans, er í raun límið í ríkisstjórninni og heldur henni saman. Hann á möguleika til að komast í svipaða stöðu og nafni hans forðum.

En tími hans er ekki kominn og enginn veit enn hvort hann hefur það sem þarf, til þess að endurtaka leikinn frá 1964. Staða hans er önnur og umhverfið annað en var hjá frænda hans 1963-1970.

Ekkert trúnaðartraust ríkir milli ríkisstjórnar og launþegahreyfinganna og ringulreið er á vinnumarkaði.

Hvorki hillir undir júnísamkomulag né nýja Þjóðarsátt líka þeirri, sem menn afrekuðu að ná fram 1990. Ríkisstjórnin og valdaöflin, sem að henni standa, hafa storkað almenningi með því að nota endurheimt vald til að hygla þeim sem mest hafa, oft upp í opið geðið á alþýðu manna.

Einu sinni var talsmaður svipaðra afla sem hét Bjarni Benediktsson. En hann var stjórnvitringur.   


mbl.is Verkföllin bíta marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Carl Möller fannst í ruslatunnu.

Þótt ótrúlegt megi virðast eru ofangreind fyrirsögn dagsönn. Ungar dætur mínar heyrðu undraveikt mjálm í öskutunnu nálægt heimili okkar og reyndist þar vera lítill kettlingur, sem greinilega hafði verið ætlunin að "koma fyrir kattarnef" á þennan hátt.

Þær björguðu kettlingnum, sem hlaut nafnið Carl Möller í höfuðið á hljómborðsleikara Sumargleðinnar.

Þetta var stórmerkilegt dýr og varð að fullgildum meðlim í stórfjölskyldunni eins og um mennska veru væri að ræða. Hef ég sagt ýmsar sögur af honum hér á bloggsíðunni en veit þó ekki hvort þessi hefur áður birst:

Kalli, eins og hann var alltaf kallaður, týndist einu sinni í nokkra daga. Eftirfarandi símtal átti sér stað nokkrum kvöldum síðar þegar síminn hringdi hjá okkur og rödd sagði í símann:

"Á Carl Möller heima þarna?"

"Já," svaraði ég.

"Get ég fengið að tala við hann?"

"Nei, því miður, hann er ekki heima og jafnvel þótt hann væri heima, gætirðu að vísu talað við hann en hann gæti alls ekki talað við þig."

"Hvernig stendur á því?"

"Það er vegna þess að hann er köttur." 

"Nú, það er þá nafnið hans, sem stendur hér á spjaldinu sem er hengt um hálsinn á honum?"

"Hvað stendur á spjaldinu? Ég var búinn að gleyma því."

"Það stendur: Carl Möller. Sími 553 1211."


mbl.is Hitti manninn sem fann hann í rusli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband