Gamalkunnar andstæður blossa upp.

Ógnarstjórn Stalíns kostaði milljónir manna lífið í Úkraínu í hinni miskunnarlausu byltingu kommúnista þar sem færðar voru óheyrilegar fórnir til að koma á ríkisreknum samyrkjubúskap og þungaiðnaði.

Íbúar Úkraínu, sem hafði verið kornforðabúr Sovétríkjanna, urðu illa úti.  

Þegar herir Hitlers réðust inn í Sovétríkin 1941 fögnuðu því margir Úkraínumenn innrásinni og tóku jafnvel hersveitum Hitlers sem frelsurum, en Hitler gerði þau reginmistök í oflæti sínu að gefa hinum morðóðu SS-sveitum lausan tauminn og fá þar með þorra íbúa Sovétríkjanna upp á móti Þjóðverjum. 

Það var mikil mótsögn fólgin í því að þungaiðnaðurinn, sem hafði kostað milljónir manna lífið, varð grunnurinn að sigrinum yfir Hitler. Á stríðsárunum var þó mestu hluti þessa iðnaðar í Rússlandi.

Eftir stríð var mikill þungaiðnaður í Donetsk-héraði í austurhluta Úkraínu og gegndi stóru hlutverki í uppbyggingu hernaðarveldis Sovétríkjanna.ZAZ og Pútín

Pútín hafði til dæmis mikið yndi af því að stilla sér upp við hliðina á úkraínskum fólksvagni Sovétríkjanna á yngri árum hans af gerðinni Zaphorozhets og láta taka mynd af sér,og þarna voru til dæmis framleiddur drjúgur hluti af hergögnum Sovétríkjanna.  

Eftir lát Stalíns 1953 var það vafalítið ætlun "hinnar samhentu forystu" sem fljótlega færðist í hendur Krústjovs, að friðmælast við Úkraínumenn með tilfærslum landamæra, sem færði Krímskaga undir yfirráð Úkraínumanna.

En þarna sá Krústsjov ekki nógu langt fram í tímann og þegar Sovétríkin féllu og "moldin þiðnaði og ormarnir komu upp", bæði langt til hægri og vinstri í hinu pólitíska litrófi birtus gamalkunnar öfgar í landinu.

Öflugur hluti þeirra sem steyptu hinum Rússa-hliðholla Janukovits af stóli voru menn yst á hægri væng stjórnmálanna, með hálffasíska stefnu, sem hafði blundað alla tíð í landinu, þótt í mismiklum mæli væri.

Í austurhéruðunum voru hins vegar rússneskumælandi menn sem höfðu flust þangað á Sovéttímanum og milli þeirra og hægri mannanna í vesturhluta landsins var og er hyldjúp gjá.

Ofan á þetta bætist, að Donetsk svæðið er dýrmætasta iðnaðarsvæði Úkraínu, og á tímum núverandi efnahagsörðugleika bæði í Rússlandi og Úkraínu, láta bæði ríkin sig miklu skipta að hafa þar ítök.

Gamalkunnar andstæður hafa nú blossað upp sem geta gert ástandið þarna enn eldfimara og hættulegra en það hefur verið.    


mbl.is Köstuðu bensínsprengjum að þinghúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef Fljótaleiðin hefði verið valin?

Í umræðum um aurskriðurnar á Siglufirði og vikulanga lokun Siglufjarðarvegar hefur réttilega verið bent á það að Siglfirðingar hefðu verið innilokaðir á landi ef Héðinsfjarðargöng hefðu ekki verið komin. 

Engu að síður er þjóðleiðin frá Siglufirði vestur um til Skagafjarðar og áfram suður tugum kílómetra lengri en ella meðan hin gamla Siglufjarðarleið er lokuð. 

Ef farin hefði verið svonefnd Fljótaleið á sínum tima við að tryggja samöngur til og frá Siglufirði, bæði til suðvesturs og til Eyjafjarðarsvæðisins, hefðu aurskriðurnar engu breytt um það að leiðin frá Siglufirði til Skagafjarðar og Norðvestur- Vesturlands og Suðurlands hefði verið opin allan tímann og meira að segja allmörgum kílómetrum styttri en núverandi Siglufjarðarleið. 


mbl.is Siglufjarðarvegur áfram lokaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarþorpin íslensku áhugaverð fyrir útlendinga.

Við Íslendingar sjáum því miður flestir ekkert merkilegt við sjávarþorpin okkar víðsvegar um landið. Þau hafa jafnvel fengið niðrandi heiti í munni margra eins og "krummaskuð." 

Í nafni hagræðingar í sjávarútvegi hafa þau flest verið svipt því lífi og athöfnum sem fyrrum einkenndi þau.

Þegar erlent skemmtiferðaskip leggst að bryggju í Grindavík telst það stórfrétt að útlendingar skuli sjá nokkuð merkilegt þar.

Það er nú eitthvað annað en glæsileg steinsteyputurnaröðin við Skúlagötu í Reykjavík.

Í þessu viðhorfi okkar birtist landlæg þröngsýni á það hvaða verðmæti á alþjóðavísu felist í þjóðlífi okkar og landfræðilegum aðstæðum.

Við höfum lengi haldið að það sem okkur sjálfum finnst merkilegt og óvenjulegt hljóti ferðamönnum frá fjarlægum þjóðum líka að finnast merkilegast og óvenjulegast, svo sem grösugir dalir, Hallormsstaðaskógur og Fljótshlíðin með sínum græna lit, "bleikum ökrum og slegnu túnum." 

Útlendingar hljóti eins og við að sjá ekkert nema ljótleika í svörtum hraunum og söndum og rytjulegum fiskiþorpum með "slori" og "húskofum." 

En þessu er þveröfugt farið. Í Evrópu eru þúsundir glæsilegri skóga og grösugri dala en finnast á Íslandi,og reynsla mín af því að fara með útlendinga það sem ég nefni "Silfur-hálfhringinn" til aðgreiningar frá "Gullna hringnum" er sú, að þeir töldu sig að sumu leyti hafa séð merkilegri staði á þeirri leið en Gullni hringurinn bauð upp á. 

"Silfur-hálfhringurinn" er leið, sem ég hef farið með útlendinga, sem hafa átt lítinn frítíma á helgarráðstefnum í Reykjavík og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn. 

Í staðinn hef ég brottfarardaginn lengt leiðina suður á Keflavíkurflugvöll með því að fara leiðina Kaldársel-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp - Keflavíkurflugvöllur. 

Að vísu er enginn Geysir, Gullfoss eða Þingvellir á þeirri leið, en í staðinn sjá þeir staði, sem ekki eiga hliðstæðu á Gullna hringnum, svo sem Kaldársel, Grindavík, Bláa lónið og Eldvörp. 

Einkum hefur það hrifið þá þegar þeim hefur verið greint frá lífsbaráttu Grindvíkinga fyrr á tíð, því að útlendingar hrífast af því hvernig íslenska þjóðin gat lifað af við þær erfiðu aðstæður sem hér voru. 

Sambýli þjóðar í stórbrotinni náttúru við erfið skilyrði "á mörkum hins byggilega heims" er þeim hugstætt eftir slíka ferð. 

Mér er minnisstætt þegar í einni svona hálfhrings-silfurferð var farið um Grindavík í suðvestanátt með hvössum skúrum. Ég kveið fyrir því að óhagstætt veður myndi skemma fyrir. 

En það var öðru nær. 

Útlendingarnir tóku andköf þegar staðið var andspænis lemjandi útsynningnum og hvítfyssandi brimgarðinum og því lýst hvernig sjómennirnir á hinum litlu bátum sínum þurftu að komast inn um þrönga innsiglinguna og lentu oft í miklum háska.

Gullni hringurinn býður ekki upp á neina slíka upplifun né upplifun á borð við það að horfa eftir gígaröðinni Eldvörpum, fyrirbæri, sem hvergi sést á jörðinni nema á Íslandi og heyra lýsingarnar á því hvernig slík gígaröð verður til þegar meginlandsflekar Ameríku og Evrópu rifna hvor frá öðrum og jarðeldurinn brýst upp um gjána á milli heimsálfanna.   


mbl.is Óvænt sjón í Grindavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hengja bakara fyrir smið.

Með gagnrýni á flugfélag fyrir að auglýsa verslunarferðir til útlanda er verið að hengja bakara fyrir smið, því að ef allt væri með felldu, væri útilokað að auglýsa á þennan hátt vegna ferðakostnaðarins.

Ástæðan fyrir því að þetta er samt gert er ekki flugfélaginu að kenna heldur þeim sem sjá til þess að ýmsar vörur séu allt að tvöfalt ódýrari erlendis en hér á landi.

Ástæðan fyrir því hlýtur að vera tollafyrirkomulagið og álagningin, nema hvort tveggja sé.

Fyrir þá, sem hafa efni á því að fara svona ferðir, virkar auglýsingin um verslunarferðir sem afsláttur af flugfargjöldum.

Eftir sem áður eru til dæmis tvöfalt dýrari barnaföt hér heima en erlendis þungur baggi fyrir barnafjölskyldur, sem ekki hafa efni á að fara í utanlandsferðir til að nýta sér hagstætt verð á þeim.  


mbl.is „Fólk verslar í auknum mæli í útlöndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristin gildi hafa skilað mannréttindabaráttunni lengst.

Helstu trúarbrögð heims hafa friðsamleg gildi og mannrækt framarlega í boðskap sínum.

Hæstiréttur Bandaríkjanna tók gild rök múslimans Muhammads Ali fyrir því að neita að vera settur í herþjónustu á þeim forsendum að hann hefði í heiðri grunngildi friðarboðskapar Kóransins, - af því að rétturinn hafði áður sýknað Mormóna af svipaðri ákæru vegna þess að hann hafði í heiðri sams konar friðarboðskap Biblíunnar.

Rétturinn taldi, að í báðum tilfellum væri um að ræða megingildi viðkomandi trúarrita, sem vægju þyngra en einstaka atriði annars staðar í þeim sem sumir túlkuðu afar þröngt.

Þetta breytir því ekki að kristin gildi hafa skilað mestu fyrir mannréttindabaráttu heimsins og að nauðsynlegt er að þekkja vel þessi gildi til að skilja hugsjónir hennar og menningu og þjóðfélagsskipan kristinna þjóða.    


mbl.is Verða ekki skilin til hlítar án þekkingar á kristnum fræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt áhugaverðasta viðfangsefni okkar tíma.

Orkuvandamál jarðarbúa má flokka í tvö megin viðfangsefni:

1. Magn orkunnar sem þarf.

2. Umhverfisáhrif orkunnar, sem notuð er. 

Af þessu tvennu hefur atriði númer 1., magn orkunnar, sem þarf, verið vanrækt alla tíð, en samt er tæknileg lausn þess vanda einfaldari og augljósari en það viðfangsefni að finna betri og öflugri orkugjafa.  Meira 80% af orkunotkun í samgöngum felst í daglegu snatti fólks í borgum heimsins og þar er enn gengið út frá þeirri óumbreytanlegu forsendu að það þurfi 1500 kíló af stáli til að flytja til um 100 kíló af mannakjöti. Sðrli og Náttarfi inni

En þess má geta, að rafhjólin Sörli og Náttfari, sem á meðfylgjandi mynd sjást bæði vera samtímis að taka straum úr innstungu í litlu skrifstofuherbergi, eru um 30 kíló að þyngd. 

Lausnin felst augljóslega í það breyta samsetningu farartækjaflotans með fleiri léttari, sparneytnari og umhverfisvænni samgöngutækjum í stað þess að þau þurfi öll að vera jafn stór, þung og orkufrek og raun ber vitni.

Þar gæti tilkoma fleiri eins til tveggja manna rafknúinna smábíla verið hluti lausnarinnar.colibri rafbíll 

Slíkir bílar eru rétt handan við hornið, - á myndinni er rafbíllinn Colibri, sem ætlunin er að setja á markað á næsta ári, nær 120 kílómetra hraða og kemst allt að 100 kílómetra á einni hleðslu. 

Andmælt er með því að segja hvað raffarartæki snerti, að magn rafhlaðanna sé svo rosalega mikið að það skapi óleysanleg umhverfisvandamál. 

Rafhlaðan í venjulegu rafhjóli, sem flytur einn mann á milli staða í þéttbýli er rúmlega þrjú kíló og í hjólinu Sörla, sem fór á milli Akureyrar og Reykjavíkur á dögunum í allt að 159 kílómetra í einum áfanga, var hver hinna sjö rafhlaðpna enn léttari, allt niður í tvö kíló hver, miðað við orkugeymd. 

Rafgeymir eða rafhlaða í íslenska meðalbílnum, sem flytur einn mann á daglega á milli staða, er hins vegar minnst tvöfalt þyngri og þar að auki er slíkur geymir blýgeymir en ekki litíumgeymir. 

Og hver einasti af þeim 238 þúsund bílum, sem er í eigu landsmanna, er með slíkan geymi án þess að menn hafi hingað til talið tilvist þeirra óleysanlegt umhverfisvandamál. Vetnis-rafhlaða, sími

Þarna er um að ræða atriði númer 2., umhverfisáhrifin. Notkun vetnis í samgöngum byggist á því að það sé nýtt sem orkuberi, það er, millilið á milli orkuvers og samgöngutækis, sem skapar betri nýtni orkuuppsprettunnar sjálfrar. 

Framfarir í gerð orkubera eru því afar áhugaverðar, hvort sem um er að ræða vetnisrafhlöður eða rafhlöður, sem nota ál, því að birgðir litíums á jörðinni eru takmarkaðar. 

 

 


mbl.is iPhonerafhlaða sem endist í sjö daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta ber að gera en hitt eigi ógert að láta."

Ofangreind orð mælti séra Emil Björnsson fréttastjóri Sjónvarpsins stundum þegar úrtöluraddir lögðust gegn góðum málefnum með þeim rökum að nær væri að gera annað, sem væri nærtækara. 

Þessar raddir stilltu málum upp sem andstæðum þar sem það yrði að taka eitt mál fram fyrir annað. 

Nú heyrast þessar raddir enn ákveðnari en fyrr, sem og það að við höfum engar skyldur við umheiminn af því að við séum svo fá og smá, að það muni hvort eð er ekkert um okkur eða framlag okkar. 

Við séu svo fá, að það muni ekkert um það þótt við beitum okkur á alþjóðlega vísu í mikilsverðum málum eða séum að sinna brýnustu umhverfismálum okkar tíma, og þess vegna eigum við bara að segja pass og loka okkur af. 

Þarna gleymist alveg, að það eru fáir 330 þúsund manna hópar í veröldinni, sem hafa jafn mikið vægi og við á alþjóðavísu, einfaldlega vegna þess að við höfum á ýmsum vettvangi jafn mikið vægi og jafnmörg atkvæði hjá alþjóðlegum samtökum og stofnunum og þúsund sinnum fjölmennari þjóðir. 

Og sömuleiðis má nefna það sem dæmi, að hver bíll okkar, í mest mengandi bílaflota í vestanverðri Evrópu, skilar að meðaltali meira af koldíoxíði út í sameiginlegt andrúmsloft mannkynsins alls og hver bíll í öðrum löndum. 

Úrtöluraddir fullyrða að flóttafólkið sé upp til hópa glæpahyski, sem flýi til þess eins til Evrópu og Norður-Ameríku til að kollvarpa þjóðfélögum okkar og taka völdin.

Í ofanálag sé þetta ríkt fólk á mælikvarða kjara samlanda sinna í fátæku löndunum, af því að það hafi efni á að kaupa sér far með bátskriflum og hætta með því lífi sínu eins og dauðatölurnar bera vitni um!

Ég hef heyrt hina mætustu Íslendinga mæra Donald Trump fyrir þá skoðun hans að víggirða Bandaríkin gegn innflytjendum og "hreinsa" landið af þeim 11 milljónum innflytjendum frá Rómönsku Ameríku sem þar eru.

Við erum búnir að vera í skussa- og skammarkrók vestrænna þjóðfélaga varðandi þróunaraðstoð við fátækustu þjóðir heims í áratugi og svo er að sjá að sumir telji það vera okkur til sóma og fyrirmyndar. 

 


mbl.is „Getum tekið á móti mun fleiri en 50“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarhátíðirnar, - kærkomin hefð á sumrin.

Það eru ekki mörg ár síðan allar hinar glæsilegu bæjarhátíðir landsins voru ekki til í núverandi búningi. 

Íslenska sumarið er stutt og því orðið þröngt um þær, en þær eru kærkomnar fyrir íslenskt þjóðlíf og menningu. 

Um helmingur afkomenda okkar Helgu á heima eða hefur alist upp í Mosfellsbæ og því er bæjarhátíðin þar ævinlega ljúf og gefandi. DSCN0126

Í dag var gaman að fylgjast með yngsta knattspyrnumanninnum í barnabarnahópnum á strákamóti á íþróttavellinum á Tungubökkum, Hlyni Kristófer Friðrikssyni. 

Sýndi marga góða takta og býr greinilega yfir hæfileikum á þessu sviði.

Varla tilviljun, -  góðir  knattspyrnumenn í báðum ættum foreldranna.

Hinn afi hans, Sigurður Kristján Friðriksson, var einn af máttarstólpunum í gullaldarliði Fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Og langafi hans í hinni ættinni, Ragnar Edvardsson, í gullaldarliði Fram 1939.

DSCN0129

Og Ragnar og Þorfinnur, bræður Iðunnar, móður hans, blómstruðu báðir á sama tíma í yngri flokkunum hjá Fram.  

Þarna spilaði Hlynur af lífi og sál með félögum sínum í Aftureldingu við jafnaldra í öðrum félögum og uppskar sigur í sumum leikjunum en tap í öðrum eins og gengur.

Á meðfylgjandi myndum er hann á fullri ferð með samherjunum upp að marki andstæðinganna í sókn sem skilar boltanum inn í mark mótherjanna, þótt ekki hafi nú náðst mynd af því nákvæmlega.  DSCN0135

Á sama tíma var eldri bróðir hans, Sigurður Kristján Friðriksson, að spila fyrir Frammikilvægan leik við Bolvíkinga sem réði miklu um stöðuna í 1. deild og vannst með þremur mörkum gegn einu.

Já, bæjarhátíðirnar sameina kynslóðirnar og eru dýrmætar fyrir þjóðina. DSCN0127

 

 


mbl.is Í túninu heima - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan, - eitt þriggja megintímabila síðustu 100 árin.

Fyrir um öld eða tæpri öld hófst tímabil í í skemmtanamenningu þjóðarinnar sem stundum hefur verið kennt við revíurnar, sem voru fluttar allt fram undir 1960. 

Fyrirmyndin var dönsk og lögin að mestu komin hingað beint frá Danmörku eða í gegnum Kaupmannahöfn. 

Haraldur Á. Sigurðsson leikari var eitt af helstu nöfnum revíutímabilsins, bæði sem höfundur ásamt mönnum eins og Bjarna Guðmundssyni, Tómasi Guðmundssyni, Emil Thoroddsenn og Indriða Waage, og sem flytjandi ásamt Alfreð Andréssyni, Brynjólfi Jóhannessyni, Árna Tryggvasyni og Nínu Sveinsdóttur frá miðju tímabilsins til enda og Árna Tryggvasyni, Soffíu Karlsdóttur og Baldri og Konna á síðasta áratug revíutímabilsins, auk Karls Guðmundssonar eftirhermu og Gests Þorgrímssonar og Hjálmars Gíslasonar gamanvísnasöngvara. 

Inn í þetta tímabil stigu tvö stór nöfn í skemmtanalífinu á miðjum fjórða áratugnum, Bjarni Björnsson með gamanvísur og eftirhermur, sem kom frá Ameríku, og MA-kvartettinn, sem hafði erlenda kvartetta á borð við Comedian Harmonitz sem fyrirmynd. 

Veturinn 1958 til 1959 urðu snögg umskipti þegar skemmtiatriði spaugs undir alþjóðlegum og þó aðallega bandarískum áhrifum í gegnum rokkbyltinguna ruddu sér braut inn í tómarúmið sem hvarf revíanna skildi eftir. Þetta nýja tímabil stóð í megindráttum til ársins 1986.  

Þennan vetur komu þeir Gunnar Eyjólfsson og Bessi Bjarnason fram með alveg nýja tegund tveggja manna spjallþáttaspaugs sem Gunnar hafði kynnst sem flugþjónn vestanhafs. Rokkbyltingin skolaði mér inn í þetta með spaugi undir alveg nýjum lögum af erlendum vinsældalistum, djörfum háðsádeilum, uppistandi og eftirhermum.

Til urðu tvíeyki eins og Árni (Tryggvason) og Klemenz (Jónsson) og Róbert (Arnfinnsson) og Rúrik (Halldórsson). 

Á næstu árum komu síðan fram söngtríó undir áhrifum bandarískrar þjóðlagatónlistar á borð við Savanna-tríóið og Ríó tríóið, íslensku bítlahljómsveitinni Hljómum og nokkrum nýjum eftirhermum á borð við Karl Einarsson og Jón B. Gunnlaugsson. Fleiri sönghópa má nefna eins og Þrjú á palli, og 1975 stukku Halli og Laddi inn í myndina af miklum krafti með sínu mikla spaugi, sem Laddi hefur haldið áfram fram á þennan dag.  

Í bland við þessi umskipti þróuðust héraðsmót stjórnmálaflokkanna hratt á sjötta áratugnum og fengu framlengingu í Sumargleðinni 1972-86.

1986 urðu enn tímamót þegar stórbætt vegakerfi og tilkoma sólarlandaferða og myndbandaleiga breyttu skemmtanamynstrinu á sumrin og við tók tímabil sem má kenna við Spaugstofuna sem helsta merkisbera grínþáttagerðar á landinu.

Spaugstofan byrjaði að vísu 1985 en eftir gerð tveggja stórkostlegra Áramótaskaupa 1985 og 86 var brautin bein, - og 30 ára ferill, sem í hönd fór, varð einstakur í menningarsögu landsins.

Ásamt Spaugstofunni komu margir góðir skemmtikraftar svo sem Fóstbræður og Radíusbræður og síðustu árin hafa uppistandarar á borð við Jón Gnarr og Ara Eldjárn auk rappara farið mikinn, að ekki sé nú minnst á Baggalút og Hund í óskilum.

Spaugstofan hefur það einkenni margs hins besta, að að þegar lagðir eru saman fimm menn í fremstu röð, - þessu tilfelli fimm af bestu gamanleikurum og þáttagerðamönnum þjóðarinnar, - verður útkoman enn stærri en summan af einstaklingunum.

Árum saman var skrifstofa mín í Útvarpshúsinu í næsta herbergi við herbergi Spaugstofunnar, og ég held ég geti fullyrt eftir að hafa fylgst með þeim í nábýli þessi ár, að þeir unnu kraftaverk vikulega þegar þættir þeirra voru á dagskrá.

Tel að þeir hafi lagt mun meiri og merkilegri skerf til menningarsögu þjóðarinnar en menn gera sér enn grein fyrir.    


mbl.is 30 ára grínafmæli: Spaugstofan krufin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer algerlega eftir aðstæðum.

Gildi og eðli fjármagnshafta fara algerlega eftir aðstæðum. Í kreppunni miklu sem skall á 1930, reyndist óumflýjanlegt að taka upp ströng gjaldeyris- og innflutningshöft auk tolla, sem ollu því að í landinu reis umfangsmikill iðnaður sem var þjóðhagslega óhagkvæmur vegna smæðar sinnar og einangrunar þótt hann skapaði ný störf út af fyrir sig. 

1948 varð nauðsynlegt að herða svo á innflutningshöftum í kjölfar hruns gjaldeyristekna eftir lok stríðsins, að enga hliðstæðu er að finna í hagsögu landsins. 

Á síðari hluta sjötta áratugsins fóru nágrannaþjóðirnar að létta höftunum af en við sátum eftir með höft, sem urðu æ meiri dragbítur í efnahagslífinu. 

Það sem hafði verið "gaglegt tæki" hafi breyst í andhverfu sína og á árum Viðreisnarstjórnarinnar var jafn nauðsynlegt að létta höftum og tollum af og framkvæma sársaukafullan niðurskurð á tollvernduðum iðnaði með inngöngu í EFTA og það hafði verið nauðsynlegt 1930 og 1948 að koma höftunum á. 


mbl.is Höftin virkuðu fyrir Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband