Þurfum forseta sem getur breytt sögu fortíðarinnar.

Ég var að uppgötva hvað það getur verið dýrmætt að eignast forseta sem getur breytt sögu fortíðarinnar, til dæmis breytt hinni óréttlátu kjördæmaskipan, sem var hér fram á sjötta áratug síðustu aldar.

Því að upplýst er í Morgunblaðinu í dag að þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra hafi hann verið staðráðinn í að breyta eftirfarandi:

Ekkert sjónvarp var í júlí.

Ekkert sjónvarp var á fimmtudögum.

Enga mjólk hægt að kaupa í matvörubúðum.

Sterkur bjór var bannaður í landinu.

Engin epli seld nema á jólunum.

 

Og þetta tókst, sjónvarp kom í júlí 1983, sjónvarp kom á fimmtudögum 1987 (1986 á Stöð 2), mjólk kom í mjólkurbúðir 1977, sterki bjórinn kom 1989 og epli fengust utan jólanna talsvert fyrr en 1991.

Og hvers vegna ekki að bæta því við að kveða niður meira en 100% verðbólgu 1983 og gera Þjóðarsáttina 1990?

Nú opnast möguleiki,úr því að aðeins einu ári skakkar, að DO geti unnið þorskastríðiö 1976 og tryggt 200 mílna landhelgi þótt 39 ár séu liðin.

Við þurfum líka fleiri afrek stjórnmálaprófessors sem breytir sögu fortíðarinnar svo um munar, þurrkar til dæmis út loftárás Þjóðverja á Guernica 1937 og gerir málverk Picassos að umdeilanlegu listaverki, sem ekki var málað vegna Guernica, heldur klístrað á það þessu nafni eftir að það var að mestu klárað.

 


mbl.is Hægt að kjósa utankjörfundar á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engum manni er Kári líkur.

"Engum manni er Kári líkur" voru orð að sönnu þegar þau voru sögð fyrir þúsund árum. 

Og sama má segja um Kára Stefánsson, eina Íslendinginn sem komist hefur á lista yfir 100 áhrifamestu læknavísindamenn heims. 

Það blés ekkert sérlega byrlega í upphafi fyrir undirskriftasöfnuninni, sem hann hratt af stað til stuðnings heilbrigðiskerfiinu, en nú liggur einstæður árangur hennar fyrir.

Mörgum fannst Kári tala djarflega þegar hann skoraði í blaðagrein á Sigmund Davíð Gunnlaugsson að segja af sér, en engu að síður gerðist það undra skömmu síðar.  


mbl.is Afhendir 86.729 undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfelldar úthringingar í óviðkomandi fólk eru hvimleitt fyrirbæri.

Úthringingar eru hvimleitt fyrirbæri og sömuleiðis alls konar sms-skilaboð af svipuðum toga þegar hringt er skipulega út um borg og bý í fólk, sem vill vera í friði fyrir slíku.

Öðru máli gegnir að vísu um það þegar hringt er í fólk, sem er innan ákveðins hóps, sem ætla má að taki slíku vel.

Fjölmiðlarnir og netið eiga að búa yfir nægum möguleikum til þess að auglýsa, upplýsa eða ná sambandi við fólk.


mbl.is Úthringingar fóru ekki vel í landann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færist meira fjör í leikinn?

Svo virðist sem áhyggjur af því að allt of margir frambjóðendur yrðu til embættis forseta Íslands vegna þess að enginn yrði með meira en 15% fylgis, hafi verið dregnar full dökkum litum, því að enda þótt flest nöfnin í pottinum nú hafi verið á sveimi í vikur og jafnvel mánuði, eru það aðeins þrjú önnur en nöfn forsetans sjálfs, sem fá eitthvað fylgi.

Eina konan með meira en 2% fylgi, er Halla Tómasdóttir, svo að það gæti verið spennandi að sjá hvort framboð Berglindar Ásgeirsdóttur eða Sigrúnar Stefánsdóttur myndi breyta einhverju.

Engu að síður er æskilegt að forseti Íslands sé með meirihluta atkvæða, en það hefur aðeins gerst einu sinni, árið 1968.

Og það er hægt að framkvæma með notkun SVT-aðferðinni (singular vote transfer) án þess að kjósa þurfi tvisvar.


Sérkennilegt deiluefni í 60 ár.

Bráðum eru 40 ár síðan umræða um notkun öryggistækja á borð við belti og hjálma hófst hér á landi og liðin eru 60 ár síðan hún hófst erlendis.

Merkilegt er að upplifa ennþá andstöðu margra, þeirra á meðal góðs, gegns og vel menntaðs fólks, gegn einstökum atriðum í þessum málum.

Ég er jafn undrandi nú vegna umræðna um belti og hjálma og ég var vegna umræðnanna fyrir 40 árum.

Í öllum tilfellum snerist umræðan strax um það að viðkomandi öryggistæki væru til skaða og tjóns en ekki gagns.

Og hún snýst enn um þetta, árið 2016.

Í gær átti ég samtal við bæklunarlækni sem hefur langa reynslu af meðhöndlun slasaðra og í ljósi reynslu sinnar lýsti yfir svipaðri undrun sinni og ég varðandi tregðuna til þess að gera notkun belta og hjálma almenna.

Tölur frá rannsóknarnefnd samgönguslysa benda til þess að á þeim 40 árum, sem liðin eru síðan umræðan um bílbeltin hófst, hafi um 200 Íslendingar hafi látist vegna þess að bílbelti voru ekki notuð. Hefðu annars lifað. Reiðhjóla-hjálmur inni í

Óþörf örkuml gætu verið á annað þúsund hið minnsta.

Eftir að farið var að nota hlífðarhjálma á fiskiskipum hafa alvarleg höfuðmeiðsl nær horfið.

Ég hef þegar heyrt dæmi um gagnsemi hjálma á reiðhjólum og vélhjólum.

Myndin hér að ofan er tekin ofan í reiðhjólahjálm á hvolfi, sem braut framrúðu í bíl í slysi um daginn.

Í umræðu um hlífðarhjálma um daginn var því haldið blákalt fram að hjálmurinn hefði ekkert gagn gert í þessu slysi og að þegar allt dæmið væri reiknað, yllu hjálmarnir meira líkamstjóni og fjártjóni en sem næmi gagnsemi þeirra.

Tvö fjaðrandi innlegg eru í hjálminum, hið innra um 1 sentimetri á þykkt og mjúkt, en hið ytra er furðu hart og tæplega 2 sentimetrar á þykkt.

Hið ytra hlífðarefni verður að vera svona hart vegna þess að högg, sem svona hjálmar verða stundum fyrir, eru mun harðari en fólk gerir sér grein fyrir.

Á þessum hjálmi hef ég límt plástur yfir nafn framleiðandans.

Það er gert með tilliti til umræðunnar, sem oft er á því plani að hún er leidd eingöngu að auglýsingagildi hjálmsins og tekna framleiðandans af því að framleiða og selja hann, - eða að illa fengnum hugsanlegum tekjum þess, sem auglýsir vörumerkið með því að sýna mynd af hjálminum.      


mbl.is Dýrt að spenna ekki beltin í rútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en tíu sinnum stærri skekkjur en Laugavegurinn um daginn.

Gaurinn, sem ætlaði frá Leifsstöð til hótels við Laugaveg í Reykjavík í haust gerði tæplega 400 kílómetra skyssu þegar hann lét gps-ið leiða sig norður á samnefnda götu á Siglufirði.

Skyssa bresks pars sem ætlaði frá Birmingham í Bretlandi til Las Vegas, en keypti sér fyrir mistök far frá Birmingham í Alabama í Bandaríkjunum, er meira en tíu sinnum stærri, hvað ferðalengd varðaði.

En líklega er stærsta skyssan sú, sem tengdasonur minn sýndi mér þegar hann var staddur í heimsókn hjá mér.

Hann ætlaði að kenna mér hvernig ég gæti notað gps forrit á snjallsíma sínum til að komast utan af landi heim til mín austast í Spönginni í Grafarvogshverfi.

Hann sagði hróðugur, eftir að hafa stimplað ferilinn inn: "Á skjánum stendur meira að segja stórum stöfum nafnið á staðnum, þangað sem síminn segir að þú sért nú niður kominn."

"Er hann ekki svolítið fljótur á sér?" svaraði ég. "Hér stendur stórum stöfum: Grafarvogskirkjugarður.  Ég á ennþá eftir 300 metra þangað.


mbl.is Keyptu flugferð frá rangri borg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill er máttur "hins helsjúka RÚV."

Hátt hefur verið hrópað hér á blogginu í dag um "hið helsjúka RÚV" sem beri eitt ábyrgð á atburðarásinni að undanförnu sem tengst hefur aflandsfélögunum.

Fyrir þann og þá, sem þessu hafa haldið fram, verður líklega auðvelt að sýna fram á hvernig "hið helsjúka RÚV" gat vélað framkvæmdastjóra alþjóðlegra samtaka gegn spillingu þannig að hann varð líka helsjúkur.

Mikill er máttur hins helsjúka RÚV.     


mbl.is Tími leyndarinnar liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórverkefni í rannsóknarblaðamennsku: Aflandsfélögin.

Framundan er eitt stærsta verkefni íslenskrar og alþjóðlegrar rannsóknarblaðamennsku á síðari árum: Aflandsfélögin, eðli þeirra, umfang og áhrif á efnahagsmál og stjórnmál.

Um leið og listar og upplýsingar birtast um þessi félög og eigendur þeirra, sem og þau fyrirtæki og lönd, sem halda þessari starfsemi í gangi, keppast eigendur reikninganna við að fullyrða að í þeirra tilfelli sé allt eðlilegt, enginn ágóði af tengslunum, allt löglegt.

Eftir situr samt spurningin: Fyrst það skiptir ekki máli, hvorki nú né fyrr, hvort fólk, fyrirtæki og stofnanir stofna aflandsfélög fyrir umsvif sín, af hverju gerði það þetta og gerir enn?

Nú segir Gylfi Magnússon að ekki séu öll aflandsfélög slæm þótt meirihluti þeirra sé það.

Hvernig leggur hann og hvernig leggja aðrir dóm á það í hverju tilfelli?

Gylfi segir að aflandsfélögin hafi gert efnahagslífið helsjúkt. Guðrún Johnsen segir að þau hafi skapað skaðleg ruðningsáhrif sem ryðji burt eðlilegu efnahagslífi.

Ef þetta er rétt hlýtur að þurfa að skoða öll þessi mál miklu nánar. Hér er ekki aðeins heilbrigði efnahagslífs í húfi heldur einnig misrétti meðal þjóðarinnar.

Hluti hennar hefur allt sitt alltaf á hreinu: Stundar viðskipti í erlendum gjaldmiðli í gegnum fyrirtæki í þeirra eigu erlendis sem gefur ekki aðeins möguleika á undanskotum frá sköttum með bókhaldsbrellum, heldur gulltryggir auðinn gagnvart hættunni af gengisfalli krónunnar.

Ef krónan fellur, eins og 2008-2009, heldur þessi forréttindahópur öllu sínu á sama tíma og almenningur í krónuhagkerfinu íslenska verður fyrir stórfelldu eignatjóni.

Og ekki bara það: Forréttindahópurinn og áhangendur þeirra hælist um og mærir krónuna fyrir að "bjarga" íslenska hagkerfinu.

Og björgunin felst meðal annars í því að gengisfelling krónunnar bitnar samstundis á almenningi í formi stórhækkaðs verðlags á erlendum nauðsynjum.


mbl.is Ekki öll aflandsfélög slæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Íslendingum var fjölgað uppi á sviði á sveitaböllunum.

Það kom nokkrum sinnum fyrir á þeim meira en þúsund sveitaböllum, sem ég skemmti á hér í gamla daga, að húsin voru svo troðfull, að nánast hvað sem var, gat gerst, bæði i salnum og jafnvel uppi á sviðinu, þétt upp við hljómsveitarmennina.

Einnig fundust stundum afkimar og skot til hliðar sem lagið fólk gat nýtt sér svo lítið bar á.

Gat hið ástþyrsta ungviði oft komist óátalið og að mestu óséð upp með athæfi sem gat stuðlað að "uppbyggingu" íslenska kynstofnsins, enda minnist ég þess ekki að neitt mál hafi orðið úr þessu, - ja fyrr en níu mánuðum seinna.

Það var því af nógu að taka í lýsingunni í laginu Sveitaballi, svo sem:

"...Sveitaball,

öll kvennagullin elska sveitaball,

því næði gefst þeim til að gramsa þar

og kjamsa þar

á kjömmunum, -

jafnvel á ömmunum..."


mbl.is Stunduðu kynlíf á brautarpallinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í tveggja póla forsetakosningar?

Línur virðast nú skýrast hratt í kosningabaráttunni um Bessastaði. Annars vegar birtist mjög sterk staða Ólafs Ragnars Grímssonar sem byggist á því að hann hefur verið mjög aðsópsmikill forseti og glæsilegur og þarfur fulltrúi landsins á erlendum vettvangi.

Í loftslagsmálum og málefnum Norðurslóða hefur hann unnið firnagott starf.

Hann hefur verið nokkurs konar Kekkonen Íslands, en Kekkonen var forseti Finna í 26 ár.

Þegar mikið lá við í Icesave-málinu komu málflutningur Ólafs Ragnars og aðgerðir sér vel, þegar höfuðnauðsyn var fyrir okkur að vinna tíma og snúa okkur í vil herfilega slæmu viðhorfi nágrannaþjóðanna til okkar. 

En líkt og Kekkonen er Ólafur ekki óumdeildur. Þegar fram líða stundir mun menn sjá að lang stærstu mistök hans voru að beita sér ekki í Kárahnjúkamálinu, þar sem framin voru verstu óafturkræfu spjöll á íslenskri náttúru sem möguleg voru. (Sjá niðurstöðu 1. áfanga rammaáætlunar).

Þau mistök mun bitna á öllum þeim milljónum manna, sem eiga eftir að byggja þetta land.

Eins og aðrir íslenskir ráðamenn mærir forsetinn einhliða "hreina og endurnýjanlega íslenska orku", en stórlega skortir á að svo sé þegar að er gætt. Slíkar alhæfingar byggðar á rangfærslum eiga eftir að koma okkur í koll.

Og forsetinn rígheldur í stjórnarskrá, sem í öllum meginatriðum er samin fyrir danskan konung 1849 til að friða hann með því að hafa fyrstu 30 greinarnar um hann sjálfan.

Í stað þess að Íslendingar fengju að semja nýja stjórnarskrá fyrir sig á Þjóðfundinum 1851 riftu Danir fundinum og þröngvuðu stjórnarskrá úr danska kansellíinu upp á Íslendinga 1874.

Með því að skipta út Danakonungi og íslenskum forseta 1944 var líf þeirrar stjórnarskrár framlengt með hátíðlegu loforði forystumanna íslensku flokkanna um að semja loks þá stjórnarskrá sem til hafði staðið að gera á Þjóðfundinum 1851.

Eftir árangurslausar tilraunir nefnda flokkshesta var loks haldinn þjóðfundur 2009, á grundvelli niðurstaðna hans unnið gríðarmikið starf í sérstakri stjórnlaganefnd og loks samin ný og framsækin, en þó klassísk norræn stjórnarskrá 2011, byggð á því besta sem sjá mátti í stjórnarskrám Norðurlanda og þjóða Norður-Evrópu sem yfirgnæfandi meirihluti var fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Íslenska elítan og valdastéttin hafa afflutt þessa stjórnarskrá einhliða í síbylju án raka.

Nú er að líða fram á 21. öldina með nýjum krefjandi viðfangsefnum okkar og annarra þjóða heims.

Tveir frambjóðendur hafa nú fylgi 82% svaremda í skoðanakönnun. Ólafur Ragnar og Andri Snær Magnason eru sammála um margt, svo sem loftslagsmál, mál norðurslóða og alþjóðlega samvinnu.

En þá greinir áberandi á um stjórnarskrármálið og sýn Andra Snæs á gildi og mikilvægi íslenskrar náttúru er mun skarpari.

Almennt séð eru meginlínurnar hjá Andra Snæ ákall nýrrar aldar á nýja og skarpari framtíðarsýn.

Því fyrr, sem þessi óhjákvæmilegu sjónarmið verða sett í forgang því betra, burtséð frá því hvernig þessar forsetakosningar fara. Ólafur Ragnar mun hvort eð er ekki geta setið mikið lengur en Kekkonen gerði á sínum tíma, og þegar tími Kekkonens var liðinn, sáu menn, að það breytti litlu um það að Finnar gætu spjarað sig án hans.   


mbl.is Frambjóðendur bjartsýnir á framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband