Harpa, plúsar og mínusar.

Harpa, stórglæsilegt mannvirki, eitt af helstu táknum Reykjavíkur og vekur aðdáun útlendinga.

Kostaði 20,9 milljarða. Hverjir eru plúsarnir og mínusarnir?:

Plúsarnir:

Með tilkomu Hörpu urðu tímamót í menningarlífi Íslendinga og það er hennar stærsti plús. Margra áratuga barátta fyrir tónlistarhúsi í Reykjavík bar loksins árangur, eftir að skortur á slíku húsi hafði verið helsti dragbítur íslensks tónlistarlífs.

Það vekur bæði undrun og depurð að þetta tæki svona langan tíma.

Mikilvægi Hörpu sést best á hinni miklu notkun hússins, sem einnig byggist á aðstöðunni, sem þar er til ráðstefnuhalds.

Mikilvægi Hörpu fyrir lífi og fjöri í gamla miðbænum í Reykjavík verður seint ofmetið.

En mínusarnir?

Kostnaðurinn.

Í Þrándheimi, sem er álíka stór borg og Reykjavík, - og Þrændalög álíka fjölmenn og suðvesturland hér heima, ekkert svæði í heimi eins sambærilegt, á sömu breiddargráðu, svipuð menning og veðurfar og svipuð kjör, - var reist Ólafshöllin fyrir allmörgum árum, tónlistarhöll sem rúmar allt það sem Harpa rúmar og meira að segja fullkomna aðstöðu fyrir óperuflutning, en samt kostaði Ólafshöllin aðeins hluta af verði Hörpu.

Siðfræðín.

40 prósent af byggingarkostnaði Hörpu fékkst í gegnum fé frá útlendingum, sem ekki voru spurðir um það fyrirfram hvert myndu renna í darraðardansi Græðgisbólunnar sem endaði með Hruninu.    


mbl.is Harpa kostaði 20,9 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Elmar slapp við martröð.

Elmar Geirsson var með allra fljótustu og spretthörðustu landsliðsmönnum Íslands, og hann og Baldvin Baldvinsson voru yfirgengilega "fljótir á fimm metrunum" á sjöunda áratugnum eins og stundum er sagt um fljóta framherja.

Sagt var að Baldvin gæti sent sjálfum sér boltann og hraði hans færði KR-ingum meistaratitil 1968.

Hvorugur þeirra var með sérstaka boltameðferð eða leikni með boltann, enda þurftu þeir yfirleitt ekki á henni að halda.

Undantekning var þegar Elmar fékk boltann í frægum sigurleik Íslendinga yfir Austur-Þjóðverjum 1975 á svipaðan hátt og Ásgeir Sigurvinsson í sama leik, - snilld Ásgeirs skóp mark en Elmar náði ekki að nýta hraða sinn til að skora.

Þegar Gunnar Thoroddsen þáverandi sendiherra í Kaupmannahöfn, heilsaði upp á íslensku landsliðsmennina áður en landsleikur við Dani byrjaði á Idrætsparken 1967, þar á meðal Elmar, hné Elmar skyndilega niður og missti við það af leiknum.

Elmar skallaði helst aldrei boltann, þoldi ekki slík höfuðhögg, og einhver sem var að leika sér með bolta þegar sendiherrann ætlaði að taka í hönd Elmars, spyrnti honum óvart í höfuð hins snjalla framherja.

Það var alveg óborganlegt að heyra Hermann Gunnarsson, sem var í liðinu, segja frá þessu atviki og öðrum varðandi þennan einstaða landsleik.

Landsliðið lék því þennan leik án Elmars, en á móti kom, að hann slapp við þá einstæðu martröð sem 14:2 úrslitin voru.

Þau úrslit hefðu varla breyst mikið með Elmar um borð, því að það er enginn grundvallarmunur á 14:2 og 14:3 eða 14:4.


mbl.is Fékk boltann í höfuðið – myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mosfellsheiði er ekki undir Hafnarfjalli.

Með frétt af lokun Þingvallavegar af því að vélhjólamaður missti stjórn á hjóli sínu og lenti utan vegar er birt mynd frá hringveginum í Melasveit þar sem Hafnarfjall sést hægra megin en hluti Snæfellsnesfjallgarðarins í baksýn.

Sjá má tvo bíla sem lent hafa í árekstri en hvergi nein merki um lokun hringvegarins.

Engin skýring er gefin á því af hverju þessi mynd er birt í frétt um allt annan atburð á allt öðrum þjóðvegi uppi á heiði í meira en 60 kílómetra fjarlægð.

Nokkrum grundvallarspurningum þarf að svara í fréttaflutningi svo sem: Hvar? Hvenær? Hvernig? Hvers vegna?

Svörin þurfa að vera rétt og birtar viðeigandi myndir.


mbl.is Þingvallavegur lokaður eftir mótorhjólaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eiturefni og þungmálmar" í trjánum?

Í Yellowstone þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum urðu gríðarlegir skógareldar 1988. Slíkir stórbrunar verða þar með um aldar millibili en stundum styttra millibili.

Ákveðið var að láta eldana afskiptalausa nema ef hægt væri að bjarga mannvirkjum.

Ástæðan var sú, að ætlunin með þjóðgarðinum var sú að náttúran nyti vafans og inngrip í gang hennar væri í lágmarki.

Tvær ferðir þangað, 1998 og 2008 voru eftirminnileg upplifun. Í ljós hefur komið að eldarnir eru nauðsynlegir til þess að sjá um endurnýjun skógarins og sjálfkrafa grisjun hans.

Þeir hlutar hans, sem brunnu, voru gömul tré, sem orðin voru þurr og feyskin, en hins vegar sluppu yngri og safaríkari tré frekar undan eldunum.

1998 voru tíu ára gömul tré að byrja að spretta upp af brunarústum eldri trjánna og 2008 voru þau orðin miklu stærri.

Nú verður hægt að fylgjast með uppvexti hins nýja skógar og því, hvernig rotnandi leifar hinna föllnu eldri kynslóða verða að næringu fyrir yngri og uppvaxandi kynslóðir.

Hringrás náttúrunnar birtist þarna á einstakan hátt. Hún sér sjálf um það að nýju trén mun standa hæfilega þétt og að maðurinn þurfi ekki að grípa neitt inn í það ferli með grisjun.

Fyrirbæri eins og "mengun vegna eiturefna og þungmálma" eru víðsfjarri í Yellowstone, en hins vegar alvarlegt vandamál í brunarústunum í Fort McMurrey heldur norðar við Klettafjöllin.

Hvernig skyldi standa á því? Gott íhugunarefni.   


mbl.is Geta ekki snúið til Fort McMurray vegna mengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég hélt að Eyjabakkar væru gata í Breiðholtinu."

Sagan um strútinn sem stingur höfðinu í sandinn og heldur, að þar með sé hann úr allri hættu, er þekkt. Hann losnar við allt sem er óþægilegt og dæmir allt út frá vanþekkingu sína í myrkrinu.

Þeir sem hafa barist fyrir og berjast enn fyrir því að troða sem stórkarlalegustu mannvirkjum á allt hálendi Íslands hafa eðlilega amast við því að almenningur vissi eitthvað um það.

Þess vegna var þess krafist að ég yrði rekinn úr starfi í Sjónvarpinu fyrir það eitt að hafa sýnt virkjanasvæðin áður en þeim yrði umturnað og sýna jafnvel landsvæði sem síðar voru eyðilögð gersamlega til eilífðar eins og Hjalladalur, sem meira að segja var nafnlaus þangað til setja varð á hann nafn eins og allt annað sem fjalla þarf um eða veita upplýsingar um.

Í sjónvarpi sagðist Davíð Oddsson hafa haldið, eins og velflestir landsmenn, að Eyjabakkar væru ekki til nema sem gata í Breiðholtinu.

Þessi röksemd átti að duga til þess að réttlæta að þeim yrði sökkt, - þeir væru svo ómerkilegir að enginn þekkti þá nema örfáir sérvitringar.

Áfram hafa þessi rök verið notuð og málið einfaldað með því að segja að aðeins sé um að ræða ómerkilegar urðir og sanda, sem væri þjóðþrifamál að drekkja í "snyrtileg og falleg miðlunarlón."

Svo vill reyndar til að bestu svæðin fyrir miðlunarlón hafa verið og eru í dölum, sem eru oftast einu grænu og grónu svæðin á hálendinu.

Ætla að setja inn nokkrar myndir af slíkum svæðum í kvöld og kannski með mynd af Hálslóni eins og það er á þessum árstíma. .

En ef menn vilja endilega afgreiða "grjót" sem einskis vert fyrirbæri, liggur beint við að vaða inn í Öskju, Jökulsárgljúfur, Friðland að Fjallabaki og hvaða annað náttúruverðmæti sem er gert úr grjóti. 

Ef út í það er farið er skilgreiningin "grjót" ansi víðtæk. Gígar, eldvörp, stuðlaberg, tindar, fjöll og víðerni um allt land.  


mbl.is Hálendið betra heilt en gróið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjúgverplum kastað á loft til að hefja "steingelt þras".

Sjónvarpsþátturinn Eyjan skiptist í tvö horn í gær. Í fyrri hlutanum komu fram tveir ungir og hæfileikaríkir frambjóðendur með jákvæðum, uppörvandi, framsýnum og víðsýnum málflutningi í formi innihaldsríkra umræðna frekar en "kappræðna" sem lúta lögmálum hanaslags og skítkasts.

Andri Snær Magnason hefur skýra framtíðarsýn, sem lífsnauðsyn er fyrir þjóðir heims að tileinka sér þegar við blasir og ég vil túlka svona:

"Aðeins ein jörð  /

á henni plágur mæða  / 

auðlindir þverra ef að þeim er sótt  /

aðeins til skamms tíma að græða...", -

og að við blasa tröllaukin verkefni á 21. öldinni  við að vinda ofan af slæmum umhverfisáhrifum af völdum núlifandi jarðarbúa og þess verks að efla lýðræði og jafnrétti.  

Í síðari hluta Eyjunnar var annar tveggja frambjóðenda hins vegar bergmál af hasar og átakastjórnmálum liðinnar aldar, sem Halldór Laxness lýsti svo vel í frægum þætti með orðunum "þetta steingelda þras".

Nóbelskáldið lýsti þessu steingelda þrasi sem böli á borð við hallæri, eldgos og hungur liðinna alda, og væri að því leyti sýnu verra, að þrasið væri af mannavöldum.

"Stjórnandi," bað Laxness, "er til of mikils mælst að reynt sé að lyfta þessum umræðum á bara örlítið hærra plan, - bara örlítið hærra plan?"

Í viðtalsbók við Ásdísi Höllu Bragadóttur lýsti Davíð Oddsson því vel hvaða aðferðir hann notaði meðan hann var í stjórnarandstöðu í borgarstjórn, í aðdraganda kosninganna 1982.

Hann kvaðst hafa leitað uppi alls konar atriði, sem jafnvel kæmu valdsviði borgarstjórnar ekkert við, en væri þó með síbylju hægt að klína á hana. 

Á öðrum vettvangi lýsti Davíð þessari aðferð með smíði nýyrðis, "smjörklípuaðferðin."

Davíð hóf kosningabaráttu sína á dögunum á nokkuð þekkilegan hátt með yfirvegðum blæ góðsemi og kímni. Hefðí betur haldið áfram á þeirri braut.

En fljótlega fór hann í sitt gamla far, að "leita að einhverju á hann".

Í gær sakaði hann Guðna Th. til dæmis um það að hafa sagt, Þorskastríðin hefðu bara verið þjóðsaga og ekki hið minnsta afrek hjá þjóðinni "allt saman".

Gamalt trix sem lýst var forðum daga með vísunni:

 

"Lastaranum líkar ei neitt. /

Lætur hann ganga róginn. /

Finni hann laufblað fölnað eitt / 

fordæmir hann skóginn.

 

Laufblöðin voru þau að Guðni hefði dirfst að greina frá þeirri staðreynd , að enda þótt þjóðin stæði sem órofa fylking að baki hverri útfærslu landhelginnar, þann dag sem hún tók gildi, hefði stundum verið ágreiningur í aðdragandanum og einnig varðandi framkvæmd íslensku baráttunnar.

Það er staðreynd, að rétt eins og í sjálfstæðisbaráttunni forðum voru menn sammála um lokatakmarkið, voru samt svo hatrömm átök innanlands um útfærslu landhelginnar 1958, að litlu munaði að ríkisstjórnin spryngi út af þeim síðsumars eins og Lúðvík Jósepsson lýsti frá sínu sjónarhorni í bæklingi sem hann gaf út um málið.

1961 myndaðist djúp gjá milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan lýsti samningnum við Breta sem landráðum og lýsti yfir því, að hún teldi sig óbundna af loforði Íslendinga í samningnum um að bera álitamál um landhelgismálið framvegis undir Alþjóðadómstólinn í Haag.

Í heilan áratug var tekist á um þetta og heil kosningabarátta fyrir Alþingiskosningarnar 1971 og kosningarnar sjálfar snerust um landhelgismálið, sem felldi Viðreisnarstjórnina.

Í kjölfarið kom síðan útfærslan 1972 í 50 mílur.

Ásakanir Davíðs um óþjóðhollustu Guðna eru bjúgverplar (bjúgverpill=boomerang) sem hann kastar, því að flokkur hans sjálfs stóð á tíu ára tímabili frammi fyrir ásökunum þáverandi stjórnarandstöðu á hendur Viðreisnarstjórninni um "landráð" með samningunum 1961.

Enn fleiri bjúgverplum hafa Davíð og fylgismenn hans verið að kasta að þeim forsetaframbjóðendum, sem Davíð sækir nú að og vænir um óþjóðhollustu í ESB og Icesavemálum.

Sjálfur Davíð var sem formaður áramótanefndar Sjálfstæðisflokksins 1989 eindreginn fylgjandi aðildarumsóknar að ESB, varði Landsbankann og Icesave 2008 og lýsti yfir því opinberlega innanlands sem utan að bankakerfið íslenska væri traust og á bjargi byggt.

Hafnaði tilboði breska seðlabankans á útmánuðum um samvinnu við að hemja Icesave og útþensluævintýri íslensku bankanna.

Að vísu talaði Davíð á annan veg í nokkrum einkasamtölum inn á við, en út á við alls ekki, heldur þverneitaði því að nokkuð væri að og nokkuð þyrfti að gera.

Sem Seðlabankastjóri stóð hann með ríkisstjórn Geirs Haarde að því að leita samninga við Breta og Hollendinga um Icesave, sem á þeim tímapunkti var á verri nótum en Icesave I, og Ólafur Ragnar Grímsson undirritaði raunar þann samning.

Ásakanir Davíðs á hendur mótframbjóðendum sínum eru því bjúgverplar í anda smjörklípuaðferðarinnar.

Nú spyr ég eins og gert var forðum í sjónvarpssal: "Er til of mikils mælst að reynt sé að lyfta þessari umræðu á örlítið plan?"

Ég lýsi eftir þeim Davíð Oddssyni, sem mér hefur alltaf líkað best við og hefur margt ágætt gert um tíðina þrátt fyrir ýmis mistök, sanngjörnum, málefnalegum, jákvæðum og skemmtilegum Davíð.

Umræða þeirra Davíðs og Guðna hefði getað orðið jafn uppbyggjandi og umræða þeirra Höllu og Andra Snæs ef hið "steingelda þras" til að búa til leðjuslag hefði ekki verið keyrt af stað af öðrum þátttakandanum í síðari hluta forsetaþáttar Eyjunnar.   


mbl.is Hart tekist á í forsetakappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langur friður er gulls ígildi, en getur slævt árveknina.

Lön friðartímabil í sögunnu hafa verið mikilsverð fyrir framfarir og betri kjör þjóða og velferð mannkynsins.

En þau hafa líka einn galla: Þegar ríkjandi kynslóð man ekki lengur eftir síðasta stríðinu og afleiðingum þess, getur slaknað á árvekninni varðandi það að uppfylla hugsjón Krists: Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guð sjá.

1914 hafði í meginatriðum ríkt friður í Evrópu í 43 ár. Fólksfjölgun hafði verið mikil í álfunni og mikill minnihluti þjóðanna mundi eftir stríði Frakka og Þjóðverja 1870-71, sem batt enda á svo langt tímabil styrjalda og óróa í álfunni, að árið 1871 mundi enginn Evrópubúi eftir tímum þegar oftar var friður en ófriður.

Stórfelldustu manndráp mannkynssögunnar í Heimsstyrjöldunum tveimur ollu því, að Evrópuþjóðirnar, sem fyrst og fremst höfðu komið höfðu þeim af stað, kristnar þjóðir í ofanálag, hlutu að gera friðarviðleitni að höfuðverkefni sínu.

Nú hefur engin stórstyrjöld verið háð í Evrópu í 71 ár, sem er svo miklu lengra friðartímabil en 1871-1914, að þeir allra síðustu og örfáu, sem muna eftir seinna stríðinu og nokkrum fáum erfiðum árum allra næst á eftir því, eru við grafarbakkann.

Aðrar núlifandi kynslóðir muna í grófum dráttum aðeins eftir efnahagsuppgangi og stórfelldum tækniframförum.  

Hætta er á að slíkt slævi árveknina, sem nauðsynleg er, til þess að afstýra ófriði og átökum.


mbl.is Verdun tákni sameinaða Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er heilinn ekki líffæri?

Öll líffæri líkamans geta orðið fyrir áföllum eða starfsemi þeirra raskast. En svo er að sjá, að eitt líffæri, heilinn, teljist ekki vera líffæri þegar um er að ræða endurhæfingu vegna þess að starfsemi hans hafi raskast.

Þar með vaknar önnur spurning, hvar endar heilinn? Er það við efsta hálslið og utan höfuðkúpuna eða á að telja mænuna og taugakerfið með heilanum?

Eða teljast skjálfti, óstyrkur, magnleysi, meltingartruflanir og önnur taugaviðbrögð sem stafa út frá heilanum eða leiða inn í hann, til dæmis sársauki, lenda utan við mörk þess sem skilgreint er sem ástand líffæra?  


mbl.is Sálfræðiþjónusta ekki talin endurhæfing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikalegt dæmi um grimmd styrjalda.

Þeir staðir eru margir í veröldinni, þar sem reist hafa verið minnismerki um blóðbað fyrri tíma þar sem herir mættust í frægum orrustum.

Patton, hershöfðingi, var mærður af mörgum fyrir snilli og mikinn eldmóð í herförum sínum á skriðdrekasveitum 7. hersins sem þóttu einkar glæsilegar.  

En hann var ómyrkur í máli um "göfugan tilgang og fórnarlund hermannanna":

"Þú ferð ekki í stríð til að fórna lífi þínu fyrir föðurlandið, heldur til þess að hinn brjálæðingurinn fórni sínu lífi fyrir sitt föðurland."

Það lætur engan ósnortinn að koma til Verdun, og upplifa landslag, þar sem grafreitir með krossum fallinna hermanna, ungra manna í blóma lífsins, eru það eina sem blasir við, svo langt sem augað eygir í allar áttir.

Áhlaup Þjóðverja á það safn af virkjum, sem áttu að verja Verdun, stóð mánuðum saman og í lokin, eftir að mörg hundruð þúsund hermenn höfðu fallið, var víglínan í meginatriðum sú sama og hún hafði verið í upphafi.

Frakkar töldu, og í sumum fræðibókum stendur, að niðurstaðan hafi verið franskur sigur, en það byggist aðeins á því, að markmið Þjóðverja var að knýja fram úrslitasigur, og að Frökkum tókst að koma í veg fyrir það.

Í raun höfðu hins vegar allar þessar hundruð þúsunda hermanna, sem féllu, verið leiddir í sláturhús, þar sem hver um sig hafði það eina hlutverk að sjá til þess að "hinn brjálæðingurinn" fórnaði lífi sínu fyrir föðurlandið.

Og öll þessi yfirþyrmandi fórn, orrusta, sem stóð í tíu mánuði,  bar í raun ekki hinn minnsta árangur hvað snerti það að færa víglínuna til að neinu ráði frá því sem hún hafði verið fyrir áhlaup Þjóðverja, heldur þvert á móti, leiddi hún til skelfilegra hörmunga.

Sumir halda því fram að árangur þessara mannfórna hafi skilað sér tveimur árum síðar til Frakka, en það er svona álíka röksemd eins og sú sem einn hershöfðingja Breta setti fram: "Ef við þurfum að fórna öllum herafla okkar þannig að á endanum standi eftir þúsund hermenn okkar en enginn hermaður andstæðinganna, er það þess virði."

Orrustan við Somme var háð með öfugum formerkjum, Bretar réðust á Þjóðverja, seinna á árinu 1916, fyrst með ægilegri stórskotahríð og síðan voru tugþúsundir hermanna sendir fram í bylgjum til þess eins að vera brytjaðir niður af vélbyssum Þjóðverja.

Þeir Bretar, sem lengst komust, hlupu inn í stórskotahríð eigin hers og voru brytjaðir niður af henni! 

Orrustan stóð vikum saman, næstum 60 þúsund breskir hermenn féllu bara fyrsta daginn, og þegar orrustan fjaraði út eftir hálfan fimmta mánuð,  var viglínan að mestu óbreytt, árangurinn enginn, aðeins hörmungar og manndráp og örkuml á báða bóga.

Árið 1916 var ár samræmdra sókna Bandamanna, því að á austurvígstöðvunum hófu Rússar svonefnda Brusilov-sókn, sem neyddi Þjóðverja til að flytja herlið þangað frá vesturvígstöðvunum.

Brusilovsóknin gekk vel í byrjun. Þetta var eina sóknin í Heimstyrjöldunum tveimur sem kennd var við hershöfðinga.

Hún var upplyfting fyrir Rússa um sinn, en á endanum varð hún til þess eins að veikja svo rússneska herinn, að eftir hana var styrjaldarreksturinn hrein hörmung, sem endaði með algerum ósigri og uppgjöf árið eftir.


mbl.is Minntust orrustunnar við Verdun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tórtóla og fleira rifjast upp við sýningu Áramótaskaupsins 2009.

Við það að horfa á Áramótaskaupið 2009 í sjónvarpinu í kvöld kom vel í ljós hvað atburðir undanfarinna vikna, einkum þó Panamaskjölin, eru náskyldir atburðum áranna 2008-2009, svo sem fræg spurningu Egils Helgasonar um Tortólu í þætti hans.

Einstaka atriði eru þó eðlilega gleymd flestum eins og ummæli Margrétar Tryggvadóttur.

2009 og 2016 kallast á, mótmælafundir, Tortóla, Icesave, loforð SDG, forsetinn, stjórnarsamstarf Sf og Vg o. s. frv.

Meira að segja þyrluslys fyrir nokkrum dögum tengist atburðum Hrunsins.

Örstutt atriði með þjónustufulltrúum í banka lýsti upp það, sem nú hefur komið enn betur fram en fyrr, að á meðan forréttindafólkið bjargaði sínum eignum óskertum og vel það til aflandsfélaga, sáu bankarnir skilmerkilega um að skuldum heimilanna í bönkunum væri "bjargað", það er að borga þyrfti þær, ekki bara að fullu, heldur miklu hærra verði.

Og frammistaða Páls Óskars og annarra í lokalaginu var hrein snilld og texti þessa lags á eins vel við í dag og 2009.    


mbl.is Í þyrlu á meðan aðrir greiði bílalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband