Íslenska nafnahefðin vekur aðdáun margra.

Yfirleitt vekur íslenska nafnahefðin, að kenna sig til föður eða móður, hrifningu hjá útlendingum, sem spyrja mann um hana og fá útskýringar á henni. 

En viðgengur þessarar hefðar er ekki sjálfgefinn, því að ættarnöfnin hafa forskot hvað varðar það, að það er erfiðara að breyta út frá henni yfir í foreldranafnahefðina heldur en að breyta foreldranafnahefðinni yfir í ættarnöfn. 

Yfir foreldranafnahefðinni er ákveðinn jafnréttisblær varðandi það að kona sé ekki tilneydd að taka upp ættarnafn manns síns og það atriði vekur athygli margra útlendinga. 


mbl.is Ísland, land laust við ættarnöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Torfi tvöfaldur sigurvegari, - með hálsbólgu og hita.

Í gær voru rétt 65 ár liðin frá degi frækilegasta sigurs Íslendinga íþróttum, þegar Íslendingar báru sigurorð af Dönum og Norðmönnum í frjálsum íþróttum í þriggja landa keppni í Osló og unnu Svía í landsleik í knattspyrnu á Melavellinum sama dag, 4:3. 

Sigurinn yfir Svíum var einstaklega óvæntur vegna þess að þeir voru með eitt af sterkustu landsliðum heims á þessum tíma.

Við ýmsa erfiðleika var að etja í Osló. Haukur Clausen meiddist en þá sannaðist hið fornkveðna að ber er hver að baki nema sér bróður eigi, og tvíburabróðir Hauks, Örn, hljóp í skarðið í bókstaflegri merkingu og varð lang stigahæsti maðurinn í keppninni.

Torfi Bryngeirsson reyndist vera með hálsbólgu og hita, en fyrir Norðmenn keppti einn af bestu stangarstökkvurum Evrópu.

Því verður ekki svarað, hvort Torfi hefði getað náð árangri í langhlaupi svona á sig kominn, en hann gerði sér lítið fyrir og vann stangarstökkið með yfirburðum á nýju Íslandsmeti og hirti síðan annað gull með félögum sínum í 4x100 metra boðhlaupi. 


mbl.is Var látinn spila veikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

80 ára gömul sýn Jónasar frá Hriflu hefur enn gildi.

Jónas Jónsson frá Hriflu, áhrifamesti og framsýnasti stjórnmálamaður Íslands á árunum 1916-1940, var næstu eins og tveir ólíkir menn í heimssýn sinni fyrir 80 árum.

Í aðra röndina hafði hafði hann óskaplega íhaldssamar skoðanir á listum og hafði draumkennda sýn á gildi smábænda í þjóðfélaginu.

Hann var því afar gagnrýninn á Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.

Á hinn bóginn var hann sér á parti varðandi aðra íslenska stjórnmálamenn hvað snerti víða sýn í heimsmálum. 

Á þessum tímum voru engir flugvellir á landinu og eina samgönguleiðin til útlanda var sjóleiðin.

Íslenskir ráðamenn voru því ósköp heimóttarlegir flestir hverjir á sama tíma sem Jónas fór að minnsta kosti í eina siglingu til útlanda á ári og bæði í austur- og vesturveg.

Hann var fyrstur áhrifamanna í stjórnmálum til að átta sig á því, að þjóðirnar, sem hann kallaði Engilsaxa, Bretar og Bandaríkjamenn, voru orðnir þvílíkir örlagavaldar Íslendinga, að öryggi landsins og hlutleysi þess yrði með engu móti tryggt nema að hafa náið samráð og samstarf við þessi miklu sjóveldi.

Jónas gekk svo langt í stríðslok að mæla með því að Íslendingar samþykktu beiðni Bandaríkjamanna 1945 um þrjár herstöðvar á Íslandi til 99 ára.

Með þessu taldi Jónas öryggi landsins best tryggt auk þess að í staðinn fengju Íslendingar fríverslunarsamstarf.

Eftir 1960 kom í ljós hvað bylting í samgöngum þýddi varðandi útflutning íslenskra fiskafurða til Bandaríkjanna og hve viðskipti við Engilsaxa voru orðin mikilvæg.

Jónas var einangraður, því að í kjölfar lýðveldisstofnunar 1944 var um það samstaða með öllum flokkum að hafna beiðni Bandaríkjamanna eindregið.

Þessi beiðni sýndi raunar mikið vanmat Kana á íslenskum aðstæðum og hugsunarhætti og var mikið klaufaspark gagnvart nýfrjálsri þjóð.

En Jónas hafði samt séð fyrir það sem í hönd fór, aðild að NATO 1949 og varnarsamninginn við Bandaríkin 1951.

Þótt Kalda stríðinu lyki um 1990 og Kanar færu frá Keflavíkurflugvelli 2006, og það liti út fyrir að sýn Jónasar væri ekki lengur í gildi, hefur annað komið á daginn nú síðustu árin.

Staða ríkja á norðurslóðum með tilliti til vaxandi togstreitu Rússa og Vesturveldanna hefur endurvakið þessa sýn hans um hernaðarástandið á Norður-Atlantshafi.

Ef Bretar ganga í EFTA og auka með því mjög samstarf við Íslendinga er að nýju hægt að tala um áhrif Engilsaxa varðandi stöðu Íslands.     


mbl.is Undirrituðu yfirlýsingu um varnarsamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem munað verður eftir varðandi EM 2016.

Íslenska landsliðið hefur afhjúpað veikleika tveggja af frægustu fyrirliðum heims, Wayne Rooney hjá Englandi og Ronaldo hjá Portúgölum. 

Báðir hafa látið stórgóða frammistöðu "leikmanna örþjóðar" komið sér úr jafnvægi, Ronaldo þó sýnu verr ef eitthvað er. 

Þegar litið er til baka til EM 2008 stendur eitt upp úr: Stórkostleg frammistaða rússneska liðsins fram að undanúrslitaleiknum, áður em liðið hafði keyrt sig út með einhverjum mesta hraða, samleik og yfirferð, sem sést hafði á knattspyrnuvellinum fram að því. 

Nú þegar hefur þátttaka Íslendinga sett meiri svip á EM 2016 en nokkuð annað atriði, jafnt á áhorfendapöllunum sem á leikvellinum. 

Þessi frammistaða okkar fólks mun lifa lengi í minningunni. 

Í leiknum við Englendinga sást aftur og aftur að ensku leikmennirnir virtust ekki geta skilið það að þeir voru að leika við betra lið, og að lið smælingjanna -ar ekki lélegt lið, eins og sumir voru að segja, heldur hreinlega þrusugott lið, bæði í vörn og sókn. 

Nú er bara að vona að liðið verði jafnvel betra á móti Frökkum. 

Mikið veltur á því að í þeim "æfinga"-landsleikjum, sem farið hafa fram síðan undankeppninni lauk, hafi þeim Lars og Heimi tekist að búa til innáskiptingar sem ekki riðlar hinu feiknarlega góða skipulagi leiks liðsins. 

Vonandi hafa þeir getað unnið úr því sem aflaga fór í fyrrnefndum leikjum á þann hátt að allar tilraunirnar, sem þá voru gerðar, og kostuðu sumar sigur, hafi skapað reynslu sem blómstrar ef á þarf að halda næsta sunnudag. ---


mbl.is Þegar Rooney kýldi Gylfa - myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleyg ummæli Olivers Cromwells og Leo Amery.

Setningin "í guðs bænum, farðu!", "in the name of god, go,"  er fræg í sögu Bretlands, en í svonefndri Noregs-kappræðu í neðri málstofunni 7. og 8. maí 1940, þar sem rætt var um ófarir Breta í Noregi, sagði Amery lávarður þetta við Neville Chamberlain þáverandi forsætisráðherra.

Amery notaði þarna orð Olivers Cromvells sem hann notaði aftur á hið svonefnda Langa þing á 17. öld.

Á ensku er orðalag Camerons ekki alveg upp á orð það sama, en meiningin eru sú sama.

Í kjölfarið af ummælum, Leo Amery sagði Chamberlain af sér og Winston Churchill tók við.


mbl.is „Í guðs bænum, farðu!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ígildi rafmagns, síma og útvarps á sinni tíð.

Fjarskipti á borð við nettengingu er forsenda byggðar á okkar tímum líkt og rafmagn, sími og útvarp voru á fyrri hluta síðustu aldar.

Án möguleika á aðstöðu til menntunar pg nútíma samskipta helst unga fólkið ekki heima og kemur ekki heim frá námi "fyrir sunnan." Ungar konur eru forsenda byggðar, og nútímakonur mennta sig og sætta sig ekki við að geta ekki notað menntun sína.

Hávær kór um að einkavæðing sé eina ráðið til þess að rétt sé að fjarskiptum staðið um allt land fékk því meðal annars framgengt að dreifikerfi Ríkisútvarpsins var einkavætt á þeim forsendum að RUV stæði sig svo illa í þeim efnum.

Þegar síðan hefur ýmislegt hallast á verri veg í þeim efnum hófu sömu menn upp einróma gagnrýniskór um það að þetta sýndi gagnsleysi Ríkisútvarps og nauðsyn þess að leggja það niður.

Þegar þeir voru minntir á það að dreifikerfið hefði verið einkavætt þögnuðu þessar raddir smám saman.

Og nú neyðist sveitarstjórn Rangárþings ytra til þess að ganga sjálf í ljósleiðaravæðingu sveitarfélags, sem stóru fjarkiptafyrirtækin "hafa ekki áhuga á."

Þetta er sveitarfélag í aðeins 90 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík í stærsta landbúnaðar- og ferðaþjónustusvæði landsins en er samt ekki "áhugavert" eða þess virði að sinna því hjá fjarskiptafyrirtækjunum.


mbl.is Rangárþing ytra verður ljósvætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EG, EJ og EM.

Það er kannski ekki alveg rétt orðað að tala um að Eyjafjallajökull eða Ísland hafi verið "vinsælt" meðal annarra þjóða, en fram að því hafði þó ekkert annað orð komið Íslandi jafn rækilega á kortið um allan heim.

Eyjafjallajökulsgosið olli stórfelldum truflunum á samgöngum um allan heim, en fyrir bragðið varð eftirsóknarverðara að fara til þessarar eyju nyrst í höfum og setja með því af stað hina stórfelldu fjölgun ferðamanna, sem hefur nánast ein og sér skapað hér kærkomina uppsveiflu efnahagslífsins eftir Hrunið.

Á því sást, að bölmóður í gosinu og fyrst eftir það  vegna afleiðinga af því var á algerum misskilningi byggður, því að aldrei fyrr í sögu Íslands hafði nafn landsins fengið eins rækilega kynningu og auglýsingu.

EM-ævintýrið er jákvæðara en eldgos og þegar nafninu Eyjafjallajökuli er bætt við EM og eldgos koma út þrjár skammstafanir sem byrja á stafnum E.

 


Hættan sem fljótfærni og of hörð viðbrögð skapa.

Þegar Tyrkir skutu niður rússneska herþotu við landamæri sín í fyrra og Rússar sögði að hún hefði verið utan lofthelgi Tyrklands en Tyrkir sögðu að hún hefði verið í sinni lofthelgi, skóp það harkaleg viðbrögð.

NATÓ lýsti yfir eindregnum stuðningi við málstað Tyrkja en Rússar gripu til refsiaðgerða gegn Tyrkjum.

Á tímabili óttuðust margir að þetta gæti undið upp á sig og stigmagnað hernaðarástand myndast.

Ef Tyrkir hefðu þá gefið út sams konar yfirlýsingu og þeir gefa nú, ári síðar, hefði slíkt ekki gerst.

Þetta minnir á það hve viðkvæmt ástand getur orðið vegna aðgerða, sem snerta hernaðarlegt öryggi þjóða og mikilvægt það er að hrapa ekki að stórum yfirlýsingum og aðgerðum.

Á þeim tímum þar sem hagsmunir öflugra hernaðarbandalaga og þjóða rekast á, og tilvist kjarnorkuvopna, sem búa yfir gereyðingarmætti, er staðreynd, er þetta sérstaklega mikilvægt.

Raunar átti þetta fyrirbæri, harkaleg viðbrögð vegna hryðjuverks, sem skópu á keðjuverkandi hátt heila heimsstyrjöld, aldar afmæli í hitteðfyrra.   


mbl.is Biðst afsökunar á árás á herþotu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stade de France 2000, - hvað nú? Rússarnir 2008.

Þegar úr vöndu var að ráða fyrir þáttaröðina "Fréttir aldarinnar" árið 2001 vegna vals á 100 mestu íslensku fréttunum á 20. öldinni, varð árangur íslenska karlalandsliðsins í EM 2000 fyrir valinu sem ein af þeim.

Ástæðan var sú, að á Stade de France í landsleik við heimsmeistara Frakka, þar sem Íslendingar höfðu lent í riðli með þeim, gerðist það í fyrsta sinn í íslenskri knattspyrnusögu, að íslenskt landslið hafði í fullu tré við sjálfa heimsmeistarana í alvöru landsleik, þýðingarmiklum leik í undanfara stórmóts.

Í leiknum hér heima höfðum við gert magnað jafntefli við heimsmeistarana og á Stade de France að viðstöddum tugþúsundum áhorfenda á þessum þjóðarleikvangi Frakka, reyndist íslenska liðið eiga fullt erindi og standa að öllu leyti gullaldarliðið stórþjóðarinnar á sporði.

Frökkum tókst að merja eins marks sigur í lok leiksins og Íslendinga var heiðurinn.

EM draumurinn, að komast í úrslitakeppni á stórmóti, rættist að vísu ekki það sinn, en nú hefur hann ræst, og nú verður Stade de Franca að nýju örlagavettvangurinn.

Íslenska liðið núna minnnir að því leyti á rússneska liðið á EM 2008, að það á hug og hjörtu knattspyrnuáhugafólks um víða veröld.

Knattspyrnan, sem Rússarnir léku 2008 var sú skemmtilegasta og besta um áraraðir og fleytti þeim upp í undanúrslit.

Það var einkum sóknarleikur þeirra með Arzhavin sem skærustu stjörnuna, sem gladdi mann og sýndi fram á að ekki væri hægt að drepa góða sóknarknattspyrnu með því að gera leikinn að langdregnu tafli, þar sem annað liðið spilar aðeins upp á að fá ekki á sig mark.

Það sem er svo æðislegt við leik íslenska liðsins í gær, var hvað sóknarleikurinn var beittur hjá íslenska liðinu.

Eitt mikilvægt atriði er sameiginlegt íslenska liðinu og því rússneska 2008, gífurleg yfirferð leikmanna.

Sagt var að að meðaltali hefðu íslensku leikmennirnir hlaupið 50% lengri vegalengd samanlagt í leiknum en hver leikmaður enska liðsins.

Rússarnir léku einnig svona 2008, en af einnþá meiri hraða en nokkurt annað lið sem ég man eftir.

Í undanúrslitunum kom hins vegar í ljós, að þeir höfðu gengið fram af sér, og að of mikið hafði verið lagt á of fáa menn.

Þetta verður aðalatriðið varðandi leikinn á Stade de France næsta sunnudag.

Þess vegna var það afar dýrmætt að leikurinn i gær fór ekki í framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Innáskiptingarnar í lok tveggja síðustu leikja gefa vonir um að hægt verði að dreifa álaginu meira en hingað til, þar sem sama byrjunarliðið hefur leikið nánast alla leikina.

Í vináttulandsleikjunum í ár hafa Lars og Heimir reynt að prófa sem flestar útfærslur af samsetningu liðsins og leikaðferðum.

Vonandi tekst þeim að leysa úr komandi vandamálum af sömu færni og þeir hafa gert hingað til.


mbl.is Ísland ekki jafn vinsælt frá eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærra en "leikur aldarinnar"? Vítaspyrnukeppni hvað?

Þegar ungverska knattspyrnulandsliðið niðurlægði Englendinga tvívegis á fyrri hluta sjötta áratugarins fékk fyrri leikurinn heitið "leikur aldarinnar".

Það þarf því svolítið til þegar ein af helstu knattspyrnuhetjum Englendinga segir að leikurinn í kvöld hafi verið þeirra versta tap frá upphafi.

Björtustu vonir þeirra sem gældu við íslenskan sigur, voru bundnar við þann möguleika eftir framlengdan leik, að við ynnum Englendinga í vítaspyrnukeppni.

Nú er hægt að segja: Vítaspyrnukeppni hvað?

Í vor var skrifað hér á síðuna að rétt væri hafa í huga hið fornkveðna að spyrja skuli að leikslokum en ekki vopnaviðskiptum.

Var það skrifað í tilefni af slakri útkomu landsliðsins í vináttulandsleikjum en voru hjá þjálfurunum æfingaleikir til þess að móta liðið og fá allan landsliðshópinn til þess að vera í takt og tilbúnir, sama á hverju gengi, þegar komið væri á EM.

En ljóst var að landsliðsþjálfararnir voru fjarri því að fara á taugum á þessum tíma, heldur allan tíman með hugann við það sem máli skipti.

Það er nefnilega einn stærsti kostur landsliðsþjálfaranna hve yfirvegaðir þeir eru pollrólegir.

 

 


mbl.is „Okkar versta tap frá upphafi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband