Hvað þýða fylgistölur Framsóknar? "Sáuð þið hvernig ég tók hann"?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fór á bak við þjóðina og flokk sinn varðandi eignir í aflandsfélagi, laug framan í allan heiminn í sjónvarpsviðtali, fór áfram á bak við þingflokkinn með því að fara án samráðs við eigin þingmenn og þingflokk samstarfsflokksins eindæma sneypuför til Bessastaða og var þar með orðinn svo rúinn trausti, að hann hraktist úr forsætisráðherrastóli og fór í timabundna útlegð.

Fylgi Framsóknarflokksins hrapaði af þessum orsökum niður í 6 prósent.

En Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við forsætisráðherraembættinu, var strax í upphafi með allt annað yfirbragð að öllu leyti en SDG.

Eitt lítið dæmi um það var 17. júní ræða á allt öðrum nótum en hafði verið hjá SDG. 

Við tók friðsamlegt vorþing og eins og er stefnir í haustkosningar án stórkostlegra átaka á þingi.

Í samræmi við þetta eykst fylgi Framsóknarflokksins og er hún komið yfir 10 prósent, augljóslega mest Sigurði Inga að þakka.

Eða það hefði maður haldið.  

Nú þarf hann og stuðningsmenn hans að þekkja sinn vitjunartíma og fylgja þessu eftir. 

Mjög sérkennilegt er þegar fylgismenn Sigmundar Davíðs segja, að það sé vegna "endurkomu" hans úr útlegðinni sem fylgi Framsóknarflokksins hefur náð sér á strik og kalla framboð Höskuldar Þórhallssonar til fyrsta sætis í prófkjöri flokksis í Norðvesturkjördæmi "pólitískt ólæsi."

Slíkt minnir á Jón sterka í Skugga-Sveini þegar hann var felldur en spratt á fætur og sagði: "Sáuð þið hvernig ég tók hann?" 

  


mbl.is Býður sig fram gegn Sigmundi Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stalín þurfti ekkert svona.

Harðsnúnustu einræðisherrar heims beita ýmsum ráðum til þess að tryggja alræðisvöld sín og víla ekkert fyrir sér. 

Sagt er að Kim Yong-Jin hafi verið líflátinn fyrir að dotta undir ræðu Kom Jong-un, en eitthvað fleira var tínt til af því sem hefði brotið af sér. En uppgefnar ástæður voru 

Fjöldi þeirra sem Stalín lét drepa var slíkur, að það er óhugsandi að þeir hafi allir verið sekir um það sem þeim var refsað fyrir.

Hann lét fjarlægja meira en 70 prósent yfirmanna í Rauða hernum, og þessi blóðtaka, sem hafði lamandi áhrif á herinn, var ein af ástæðum þess hve herfilega Rússum gekk að verjast innrás Hitlers 1941, svo að við lá að stríðið tapaðist. 

Það var aldrei gefið nákvæmlega upp hvað Ernst Röhm, foringi SA-sveitanna, sem höfðu fram til ársins 1934 verið hryggjarstykkið í þeim liðsafla, sem stóð að baki Hitler, hefði gert af sér.

En "nótt hinna löngu hnífa" voru hann og fjölmargir aðrir í sveitunum, drepnir af útsendurum Hitlers á miskunnarlausan hátt, að því er virtist eingöngu vegna sjúklegrar vænisýki Foringjans.

Og í kjölfarið gat Hitler látið stofna þúsund manna lífvarðaveit og láta SS-sveitirnar undir stjórn hins viðbjóðslega Heinrich Himmlers verða að hrikalegustu morðsveitum allra tíma.

Svona "hreinsanir" eins og þær eru oft kallaðar, eru aðferð harðstjóra til þess að skapa svo mikinn ótta, að ekki sé hætta á því að harðstjórninni verði hrundið.

Í leyniræðu Nikita Krústjoffs 1956 var aðferðum Stalíns lýst fyrir lokuðum hópi forystumanna sovéska kommúnistaflokksins til þess að leggja grunn að því að reynt yrði að lina á kúguninni og ógnarstjórninni.   


mbl.is Sofnaði á fundi og tekinn af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virtist vonlaust og galið í upphafi en lifir samt 30 árum síðar.

Ég hygg að það hafi verið nokkuð almenn skoðun þegar stöð 2 var stofnuð fyrir þremur áratugum, að það væri alveg vonlaust og galið fyrirtæki. 

Okkar örsmái markaður bæri ekki tvær sjónvarpsstöðvar. 

Stöðin fór reyndar á hausinn rúmum þremur árum síðar og gjaldþrotin og eigendaskiptin urðu fleiri. 

En alltaf lifði þetta ótrúlega fífldirskulega fyrirtæki, og stórhugur stofnenda Stöðvar 2 sýndi að þeir hlutu að hafa haft rétt fyrir sér, annars hefði það ekki hjarað og fengið framhaldslíf. 

Og kannski var þetta ekki svona vonlaust, vegna þess að menn hafa skynjað mikilvægi fjölbreyttrar fjölmiðlunar og að tilvist fjölmiðla utan ríkiseignar er afar mikilvæg á svo marga lund. 

Nú herja erlendir ljósvakamiðlar af nýju tagi og fjarskiptaþjónusta á innlenda miðla. 

Það hefði átt að vera búið að bregðast fyrr við með því, til dæmis með því að létta gjöldum af íslensku miðlunum, sem hinir erlendu sleppa við að borga. 

Það er engin lausn að veikja RÚV. Þvert á móti hefur mikilvægi þess miðils sem kjölfestu og tryggingu fyrir viðgang íslenskrar menningar aldrei verið meiri. 


mbl.is Kaupa ljós- og fjarskiptahluta 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti bæði í borginni og utan hennar.

Munurinn á því að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram þar sem hann er eða að reisa byggð á svæðinu er sá, að það að ef völlurinn fær að vera áfram, kemur það ekki í veg fyrir það að einhvern tíma rísi þar byggð ef meirihluti verður því í framtíðinni, -  en ef hins vegar völlurinn er lagður niður og reist þar byggð, verður ekki aftur snúið með það. 

Í mörg undanfarin ár hafa skoðanakannanir sýnt, að bæði er drjúgur meirihluti hjá borgarbúum sjálfum og á landsbyggðinni fyrir því að völlurinn verði áfram þar sem hann er. 

Það á að heita lýðræði í landinu, og hvers vegna má þjóðin ekki taka ákvörðun um þetta mál sjálf í þjóðaratkvæðagreiðslu?


mbl.is Vilja aðkomu þjóðar að flugvallarmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

4,03 á bíl. 2,6 jafnhratt á vespuhjóli, vannýttur möguleiki.

Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu, sem haldin var fyrir helgi, leiddi ýmislegt í ljós eins og sjá má í fréttum á vefnum fib.is. DSCN8015

Almennt kom í ljós að uppgefnar eyðslutölur frá framleiðendum eru of lágar miðað við almenn not hér á landi. Virðist það gilda jafnt um bíla og vélhjól. 

Sjá má í bílabókum upplýsingar um bíla í stórum bunkum, þar sem uppgefnar eyðslutölur framleiðenda í blönduðum akstri eru milli 3 og 4 lítrar á hundraðið, en eru miklu hærri í raunverulegri notkun. 

Hjólið mitt, 125 cc vespuhjól, á samkvæmt upplýsingum framleiðandans að komast niður í 1,8 á hundraðið, en eyðir í raun 2,2-2,7 lítrum eftir aðstæðum. DSCN8018

Enginn þátttakendanna í sparaksturskeppninni komst niður fyrir fjóra lítra og er eyðsla bíla þó minni í þjóðvegaakstri en í blönduðum akstri. 

Sigurvegarinn, á Renault Clio með dísilvél, eyddi 4,03 lítrum á hverja hundrað kílómetra, en í keppninni var líkt eftir venjulegum ferðamáta og ekið á eðlilegum þjóðvegahraða, sem þýddi, að það tók þá 5 og hálfa klukkustund að fara á milli Reykjavíkur og Akureyrar að meðtöldu 30 mínútna stoppi á miðri leið. DSCN7958

Uppgefin eyðsla á Clio frá´framleiðanda er 3,3 til 3,5 lítrar, svo að 4,03 er út af fyrir sig hin fínasta útkoma á bíl, sem er næstum 1300 kíló á þyngd. 

Viku fyrr hafði þessi leið verið farin á vespuhjólinu Honda PCX á svipuðum hraða og tíma og bílarnir í sparaksturskeppninni, og var eyðslan 2,6 lítrar á hundraðið. Farinn var allur hringvegurinn í beinu framhaldi á svipuðum ökuhraða og var eyðslan á öllum hringnum, 1341 kílómetra vegalengd, að meðaltali 2,65 lítrar á hundraðið. 

Hjólið hefur reynst eyða minna í innabæjarakstri, 2,2 til 2,3 lítrum, vegna þess að það er með einum manni um borð fjórum sinnum léttara en bíll á borð við Renault Clio með einn mann um borð og þarf þess vegna fjórum sinnum minni orku til að fara af stað á umferðarljósum og aka upp brekkur.DSCN7873

Vélin í hjólinu er 125 cc að rúmtaki en 1461 cc í Clio. 

Verð hjólsins er átta sinnum lægra en bílsins. Allar þessar tölur sýna yfirburði hjólsins gagnvart bílunum, sem ódýrs og einfalds samgöngumáta, enda er allt morandi í svona hjólum erlendis. 

Auðvitað hefur bíllinn yfirburði hvað snertir rými og þægindi, en í innanbæjarumferð er hjólið miklu handhægara og meðfærilegra, - alltaf fljótara en bíllinn frá A til B vegna þess hvernig það smýgur áfram þar sem umferð er mikil og engin vandræði eru við að fá stæði.

Sá bensínknúinn bíll, sem sparneytnastur var í keppninni, var Toyota Prius tvinnbíll með 4,67 lítra á hundraðíð, en þar hjálpar rafmótor við að auka sparneytnina. 

Kia Niro, líka tvinnbíll, eyddi 5,2 á hundraðið, eða tvöfalt meira en hjólið "Léttir".  

Verðmunurinn á hjólinu og sparneytnustu bílum er fimmfaldur til tífaldur. 

Þegar meta á vistvænleika farartækja verður að huga að öllum ferlinum við gerð þeirra og förgun. Þar er oftast um að ræða efni og hluta frá mörgum löndum um víða veröld með tilheyrandi flutningum í skipum og flugvélum, sem menga og eyða, og við bætast flutningar bílanna frá verksmiðju til kaupenda. 

Því flóknara sem farartækið er og því flóknara og erfiðara sem er að farga því, því verra út frá umhverfislegu sjónarmiði. 

Því vekja há innflutningsgjöld á hjólin undrun á sama tíma sem afar flókin farartæki fá mikla afslætti. 

Þar sem ég á heima legg ég hjólinu þversum í sama stæði og bíll, sem ég á, er í. 

Það er kostur bíls, miðað við hjólið, að sæti í bíl eru fjögur til fimm, en á móti kemur að í meira en 90 prósent innanbæjaraksturs er aðeins einn um borð. 

Og reyndar er hjólið tveggja sæta ef út í það er farið. 

Þegar ég hjólaði frá Akureyri til Reykjavíkur í fyrrasumar á rafhjóli, gafst gott næði á hinni rólegu ferð til að sjá, hve margir væru um borð í bílunum, sem ég mætti. 

Í meira en 80 prósent tilfella var aðeins einn um borð og viðburður, ef það voru fleiri en tveir.

Í ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar í ágúst 2015 og ágúst 2026 voru eðal annars sett tvö met:

Minnsti orkukostnaðurinn milli þessara staða:    115 krónur á rafreiðhjólinu Sörla.

Minnsta eyðsla farartækja með jarðefnaeldsneyti: 2,6 lítrar/100 km, vespuhjólið "Léttir", Honda PCX ".  

 

Niðurstaða: Farartæki, sem gefa möguleika á miklum sparnaði og vistvænni samgöngum en tíðkast hafa, eru stórlega vannýtt hér á landi. 

Þar að auki eru léttu vélhjólin og rafhjólin, sem hafa yfirburði hvað snertir einfalda gerð,og sparneytni, ekki látin njóta þess í skattlagningu og innflutningsgjöldum.  

Vegna skorts á hraðhleðslustöðvum var ekki hægt að láta hreina rafbíla spreyta sig í fyrrnefndum sparakstri, og einnig útilokað að tengiltvinnbílar gætu látið (raf)ljós sitt skína.

Og hringvegurinn og mestallt þjóðvegakerfið er í raun lokað fyrir hreinum rafbílum.  

 

 

 


mbl.is Keppa í sparakstri til Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komst í erlenda fjölmiðla 2010. Orðin löng bið.

Þegar Éyjafjallajökull gaus 2010 og öskufallið úr honum lamaði flugsamgöngur víða um lönd og raskaði flugáætlunum um allan heim, kom hingað fjöldi erlendra fjölmiðlamanna, sem voru þyrstir í fróðleik um íslensk eldfjöll. 

Í viðtölum við tugi erlendra sjónvarpsmanna og ferðum með þeim vegna gossins, nefndi ég ævinlega, að enda þótt Eyjafjallajökull byggi yfir þeim áhrifamætti, sem nú kæmi í ljós, væri annað sýnu öflugra og hættulegra eldfjall austur af honum, hún Katla gamla. 

Einkum væri varhugaverður sá möguleiki, þótt sjaldgæfur væri, að hlaup félli til vesturs úr Mýrdalsjökli, sem gæti þurrkað út víðlenda byggð.

Margir útlendinganna tóku myndir af Mýrdalsjökli og einnig af Heklu, sem ljóst er, að getur gosið hvenær sem er með aðeins klukkustundar fyrirvara.

Katla og Hekla voru mér í barnsminni, því að þegar Hekla gaus 1947, sagði Ólöf amma, sem ættuð var frá Hólmi í Landbroti, mér frá upplifun sinni af Kötlugosinu 1918.   

Þegar erlendir fjölmiðlamenn voru aftur á ferðinni árið eftir vegna gossins í Grímsvötnum, sem einnig olli búsifjum´í alþjóðlegu flugi, mundu margir þeirra, sem verið höfðu hér árið áður, eftir Kötlu og spurðust fyrir um hana. 

Þegar síðan Katla lætur vita af sér, eins og nú, er því eðlilegt að tilvist hennar sé rifjuð upp.

Segja má að eftir magnaðar frásagnir ömmu minnar af Kötlu hafi ég verið að bíða eftir Kötlugosi í bráðum 70 ár.

Er það orðin ærið löng bið og óvíst að mér endist ævin til þess að eiga stefnumót við þennan forna fjanda Skaftfellinga.  


mbl.is Erlendir miðlar fjalla um Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur yfirvegaður.

Það hefði verið freistandi fyrir Guðmund Guðmundsson að taka slaginn við Ulrik Wilbek á áberandi hátt og láta hann finna til tevatnsins vegna hinnar ótrúlegu framkomu hins fyrrverandi landsliðsþjálfara. 

En Guðmundur þurfti þess ekki og kemur því algerlega óskaddaður út úr hinni furðulegu uppákomu. 

Þetta sýnir rósemi hugans, yfirvegun og ískalt stöðumat hjá Guðmundi, sem gerði sér grein fyrir firnasterkri stöðu sinni, lyfti sér yfir deilurnar og forðaðist að taka undir gagnrýnisraddir og ádeilu á Wilbek.

Með því lét hann Wilbek einan um að grafa sína gröf.  


mbl.is Wilbek er hættur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörn gegn ósköpunum: Barnamatur fyrir hringferð um Ísland.

Að mörgu þurfti að hyggja þegar ég fór snögga hringferð eftir hringveginum um daginn á rúmum sólarhring.Léttir á Djæpavogi

 

Þrjár leiðir komu til greina milli Egilsstaða og Djúpavogs, Öxi, þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði og Fjarðaleið um Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð og Berufjörð. 

Öxi 61 kílómetra styttri en þjóðvegur 1 og Fjarðaleið 10 kílómetrum lengri en þjóðvegur 1. 

Öryggissjónarmið réðu því að Fjarðaleið varð fyrir valinu, langstysti malarkaflinn. DSCN7954

Á bifhjóli með litlum hjólum getur verið varasamt að mæta bílum í bröttum malarbrekkum. 

Annað sjónarmið var að sýna hve miklu ódýrara var að fara á hjóli en á bíl og vera samt á þjóðvegahraða. 

Þessi krafa náði líka til matarins, sem krefst orku, peninga og tíma í biðröðum í sjoppum. 

Ég ákvað því að nærast nær eingöngu á mat, sem ég hefði með mér að heiman og kostaði mun minna fyrir þessa 31 klukkustund en ef ég hefði verið heima og borðað heima hjá mér. 

Fyrir valinu urðu tveir pakkar af barnamat, sem ég drakk "dry" úr pökkunum og blandaði með vatni úr flösku á staðnum. Hafði lika með mér einn lítra af Kóki og einn rúsínupakka. DSCN7953

Svo mikil orka er í barnamatspakka, að einn hefði farið langt með að duga alla leiðina.  

Ég nærðist aðeins á fjórun stöðum á leiðinni, Akureyri, Egilsstöðum, Djúpavogi og Nesjum í Hornafirði. Bloggaði og sinnti netsamskiptum á Akureyri, Egilsstöðum og í Hornafirði.

Græðgisokrið, sem hefur gripið þjóðina og speglast í að rukka um 100 þúsund kall þá sem fara um eyðisand að flugvélarflaki, er víða yfirgengilegt.

Stundum er engu líkara en að fólk sé að ganga af göflunum.

Sumir myndu kannski segja, að sá, sem raðaði jafn fáránlegu nesti í fararskjóta sinn og sjá má á myndunum hér á síðunni, sem teknar voru við bensínstöðina á Djúpavogi áður en sjoppan var opnuð, hafi sjálfur verið genginn af göflunum, en öðruvísi var ekki hægt að tryggja það að fara hringinn á lágmarkstíma og jafnframt fyrir lágmarkskostnað.  

 

 

 

 


mbl.is Krafinn um 100.000 á Sólheimasandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarsendar eru ekki alfullkomnir.

Þegar neyðarsendar voru settir um borð í íslenskar flugvélar fyrir rúmlega 40 árum, var mikill framför fólgin í því. Þeir fara sjálfvirkt í gang við högg af ákveðnum styrkleika. 

Einnig geta flugmenn gangsett þá, ef þeir komast að þeim. 

En sendarnir eru ekki alfullkomnir. 

Þegar flugvélin TF-ROM fórst við Þverárvötn á Tvídægru vorið 1973, fór neyðarsendirinn ekki í gang og torveldaði það leit að vélinni mjög og dreifði henni yfir feiknastórt svæði, svo að það dróst í marga daga að finna vélina. 

Í ljós kom að sendirinn lenti í vatni og því komst engin sending frá honum. 

Í öðru alvarlegu flugslysi, þar sem flugvél rak niður lendingarbúnað og fór á hvolf, fór neyðarsendir heldur ekki í gang, og hefur ekki fengist nákvæm skýring á því. 

Þegar sendir fer í gang í flugvél, verður oft hljóðræn truflun af því í gegnum fjarskiptatæki, en ekki er að sjá að það hafi gerst í flugvélinni, sem sendi frá sér neyðrmerki í gær. 


mbl.is Harkaleg lending, ókyrrð eða mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað að gerast og í heimskreppunni miklu.

Mikill uppgangstími í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinanar var kallaður "The roaring twenties." Síðari hluta áratugarins var svipuð uppsveifla í Evrópum, meira að segja í Þýskalandi eftir gerð svonefndra Locarnosamninga. 

Hér á landi var meira innflutningsfrelsi en nokkru sinni á hálfri öld eftir 1930. 

Það var engin tilviljun að 1930 var mikið umleikis hér á landi með smíði Landsspítala, brúa, glæsilegri Alþingishátíð og stofnun ríkisútvarps. 

Uppgangurinn skilaði sér víða um lönd en þá, eins og undanfarna áratugi, voru það einkum hinir ríkustu sem urðu enn ríkari og fleiri en áður. 

Eftir hrunið á Wall Street haustið 1929 skall á heimskreppa sem hafði geigvænleg áhrif.

Í stað áframhaldandi kjarabóta flestra, þótt mismiklar væru, kom skelfilegt atvinnuleysi og öfgaflokkar á borð við nasista og falangista tóku völdin í mörgum ríkjum Evrópu með afleiðingum, sem ekki þarf að tíunda. 

Höft og einangrunarstefna tóku völdin og það er fróðlegt að sjá til dæmis, hve gríðarmörg iðnaðarfyrirtæki voru stofnuð hér á landi í skjóli innflutningshafta og tolla. 

Á yfirborðinu sýndist það jákvætt að sem flest væri framleitt innanlands, en eftir Seinni heimsstyrjöldina kom í ljós að í raun óhagkvæmt að framleiða allar vörur í hverju landi fyrir sig í stað þess að losa um höftin og leyfa framleiðslunni að leita þangað sem hún naut hagkvæmustu skilyrða. 

Með losun hafta í tíð Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971 og inngöngu í EFTA var stefnt í átt til meira frjálsræðis og í lok aldarinnar og fram til hrunsins 2008 varð hagvöxtur um mestallan heim í takt við aukins frelsis og alþjóðavæðingar og samvinnu. 

Ekki verður á móti mælt að hundruð milljóna manna í þriðja heiminum hefur lyfst úr algerum svelti og örbirgð upp í ögn skaplegri kjör, og sárt hungur hefur minnkað. 

En rétt eins og í aðdraganda heimskreppunnar eru það stór alþjóðafyrirtæki og hinir ríkustu sem hafa hagnast langmest, en fólk með minna en meðaltekjur hefur ekki fengið í sinn hlut sama skerf af hagræðingunni, sem fylgir frjálsari heimsviðskiptum, og hinir ríkari. 

Þetta er nú að skapa svipaða óánægju og breiddist út í heimskreppunni 1930-1940.

Og á ný sækja jaðaröfl og öfgaöfl í sig veðrið og atvinnuleysið í mörgum löndum, einkum hjá ungu fólki, er svakalegt og skapar rótleysi, óánægju og illindi.  

Í hverju ríki fyrir sig líta menn ekki á mannkynið sem heild, heldur snúast stjórnmálin um ástandið heima fyrir út frá þröngu sjónarhorni. 

Alþjóðavæðingin hefur líka dulda ókosti, sem felast í því að hinir gríðarlegu flutningar á hráefnum og vörum fram og aftur um allan hnöttinn valda miklum umhverfisáhrifum vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda og auka þannig á stærsta vanda mannkyns, ofnýtingu og rányrkju á auðlindum og hlýnun lofthjúps jarðar.  


mbl.is Segir fríverslunarviðræður hafa mistekist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband