Bjartur og hlýr stórafmælisdagur.

Það er búið að vera í nógu að snúast á þessum hálfrar aldar afmælisdegi Sjónvarpsins. 

Í hádeginu kom fólk saman í mötuneytinu og útvarpsstjóri upplýsti, að samkvæmt viðhorfskönn hefði Ríkisútvarpið aldrei notið jafn mikils trausts frá upphafi þeirra kannana. 

Það rímar illa við stanslausan níðsöng á sumum bloggsíðum þar sem RÚV er sakað um flest það sem miður fer í þjóðfélaginu. 

Síðdegis var opnuð sýning í útvarpshúsinu og gamlir starfsmenn, sem kalla sig "svart-hvíta gengið" fjölmenntu og fóru síðan og undu saman fram á kvöld í hótelsal. 

Þar fann maður vel hve sterkum böndum þessi vinnustaður batt fólki á sinni tíð. 

Það var birta og hlýja, bæði veðrið og innilegt viðmót aldavina, sem umvafði þennan stórafmælisdag og gerir hann minnisstæðan. 

Það er mikið lán að hafa fengið að upplifa slíkt.  


mbl.is DR mun selja efni RÚV um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirfram var vitað að aðeins fyrsta sætið var bindandi.

Reglur prófkjörsins í Suðvesturkjördæmi voru þær að allir þátttakendur vissu það fyrirfram, að þeir yrðu að fá ákveðinn hluta atkvæða til þess að kjör þeirra yrðu bindandi. 

Aðeins Bjarni Benediktsson fékk bindandi kosningu. 

Það er auðvitað sárt fyrir þá, sem færðir eru einu sæti neðar að þurfa að sæta því. 

En þegar litið er yfir sviðið hjá Sjálfstæðisflokknum er kynjamismunurinn æpandi og því var þessi sársaukafulla niðurstaða nauðsynleg fyrir flokkinn. 

Á móti kemur að það er ekki gott þegar maður eins og Vilhjálmur Bjarnason er færður niður, því að hann hefur aldrei verið þægur flokkshestur, heldur haldið fram málefnalegri gagnrýni á ýmislegt, og slíkir menn eru nauðsynlegir í flokki sem vill hafa breiða skírskotun. 

En fyrir flokkseigendafélagið er slíkt sennilega grátið þurrum tárum.

Og uppstillingin á myndinni af efsta fólki á listanum er táknræn: Bjarni stendur sér fyrir utan hóp flokkshestanna eins og tamningamaður með hestana sína.  


mbl.is Bryndís færð upp í annað sæti í SV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Keyrt í gegn" - lýsandi orð.

Orðin "keyrt í gegn" eru lýsandi fyrir þann hugsunarhátt, sem hefur gegnsýrt virkjana- og stóriðjustefnuna síðan nokkurs konar áltrú var tekin upp hér á landi fyrir hálfri öld. 

1970 hikstaði þessi aðferð þegar andófsfólk taldi sig, því miður, tilneytt til að beita dínamiti til þess að afstýra einhverjum hrikalegustu umhverfisspjöllum sem Íslendingum hefur látið sér detta í hug að valda, og er þó af nógu að taka.

En afbrigði af þessari túrbínutrixaðferð frá 1970 hafa verið gegnumgangandi síðan og á sama tíma og mikilsverð frumvörp detta upp fyrir á þessu þingi, er raflínufrumvarpið í slikum forgangi í þvílíku óþoli, að hvorki er hugað að því að samþykkja skaplegri leið né bíða ögn eftir því að málið skýrist og leysist á annan veg en með hreinu valdboði.

En skiljanlegt er að núverandi valdhafar sjái og grípi tækifæri, sem getur gefið þeim fordæmi til þess að nota aftur og aftur til að gulltryggja túrbínutrixið:

Fyrst farið af stað með byggingu stóriðjufyrirtækis annars vegar og virkjana hins vegar, og síðan sér Alþingi um  að tryggja, að hægt sé að leggja raflínur sem stystu leið á milli án þess að þurfa að taka tillit til tillagna um skaplegri línulagnir. 

 

 


mbl.is Brjóti ekki í bága við stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi Framsóknarflokksins er samofinn vanda Sigmundar Davíðs.

Nú eru tímar alþóðlegrar fjölmiðlunar og líklega hafa aldrei neitt viðlíka margir jarðarbúar orðið vitni að falli íslensks stjórnmálamanns vegna trúnaðarbrest og þegar traust og trúnaður Sigmundar Davíðs fauk út um gluggann 5, apríl í vor. 

Ekki aðeins vegna myndarinnar af afneitun hans gagnvart Wintris-sjóðnum, heldur líka vegna þess hvernig hann án samráðs við eigin þingflokk eða þingflokk samstarfsflokksins fór einstæða sneypuför til Bessastaða og missti þar á örskotsstund trúnað beggja þingflokka og traust forseta Íslands. 

Í framhaldinu var reynt að bjarga þessum vandræðum í horn með því að flýta kosningum, senda SDG í frí frá þinginu og ríkisstjórninni um sinn, og skipa Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra fram að kosningum. 

Lengi vel var von um að þetta myndi gefa Framsóknarflokknum tækifæri til þess að endurheima eitthvað af meira en helmingi fylgis hans sem hafði horfið í vor. 

En í upphafi umræðuþáttar formanna stjórnmálaflokkanna í Sjónvarpinu á dögunum rústaði Sigmundur Davíð þessu endanlega með því að fullyrða, að hann hefði aldrei átt neitt í Wintris, Bresku jómfrúareyjar væru ekki skilgreindar sem heimili fyrir aflandsfélög, og að gjörðir hans hina örlagaríku apríldaga hefðu alls ekki verið ástæða þess að hann var settur út úr stjórn og í tímabundið frí og Alþíngiskosningunum verið flýtt.

Sjaldgæft er að jafn risavaxinni afneitun sé haldið fram eftir að tæpt hálft ár hefur gefist til þess að horfast í augu við raunveruleikann og bregðast heiðarlega við honum. 

Vandi Framsóknarflokksins er samofinn vanda SDG. Í öllum skoðanakönnunum kemur í ljós að helmingur fylgis hans í síðustu kosningum er hruninn. 

Það er hluti af djúpri afneitun ef menn halda að besta ráðið til að forða flokknum frá miklu fylgistapi sé að hafa Sigmund Davíð áfram við stjórnvöl hans. 

Og einfeldningslegt að halda, að vegna þess að hugsanlega geti meirihluti þeirra fáu sem nú segjast myndu styðja flokkinn vel hugsað sér Sigmund Davíð sem leiðtoga í komandi kosningum, sé það vænlegasti kosturinn að hafa hann áfram í því hlutverki. 

Flokkurinn þarf að endurheimta helming fylgis síns og það er ekki hægt nema að skipta um karl í brúnni, og fá þangað þann mann, hefur sýnt það í störfum sínum sem forsætisráðherra, að hann nýtur vaxandi trausts. 

 


mbl.is Tortryggni eykst þegar traustið hverfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Davíð fór gegn Þorsteini.

Davíð Oddsson þótti vera rísandi stjarna í Sjálfstæðisflokknum frá árinu 1982, þegar hann var valinn til forystu í liði flokksins í Reykjavíkurborg, sem vildi endurheimta hana úr höndum vinstri manna eftir ósigur 1978. 

Davíð sýndi afburða fimi í rökræðum, einn á móti þremur, í kappræðunum fyrir kosningarnar, sem réðu úrslitum um sigur D-listans. 

Úrslitin réðust líkast til á RÚV, en á þeim tíma datt engum í hug að kenna RÚV um þetta. 

Nú virðast hins vegar margir hyllast til að kenna RÚV um allt, sem gerist í stjórnmálunum, í stað þess að skoða hvers vegna einstakir stjórnmálamönnum gengur betur en öðrum að berjast á þeim vettvangi. 

1986 og 1990 vann Davíð síðustu stóru sigra Sjálfstæðisflokksins í borginni og eðlilega var spurt að því hvort flokkurinn ætti að láta hann spreyta sig við landsmálin, eins og borgarstjórarnir Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson hefðu gert á sinni tíð. 

Engin leið var til þess að fá úr þessu skorðið nema að Davíð byði sig fram gegn sitjandi formanni, Þorsteini Pálssyni. 

Að vísu töldu margir það óheppilegt, það myndi skaða flokkinn og valda slíkri úlfúð að það "rifi hann á hol." 

Davíð vann nauman sigur, en í hönd fór mesta blómaskeið flokksins um áratuga skeið, þrettán ára samfelld seta Davíðs í forsætisráðuneytinu. 

Sumir vilja einblína á það að meirihluti þeirra sem nú segjast í skoðanakönnunum myndu vilja kjósa flokkinn, velji frekar Sigmund Davíð en Sigurð Inga. 

En þetta segir ekki alla söguna. Þarna er um að ræða meirihluta þeirra ca 12 prósenta aðspurðra, sem segjast myndu kjósa flokkinn, en með slíkum úrslitum myndi flokkurinn hrynja um helming fylgis síns við síðustu kosningar. 

Ekki liggur fyrir í skoðanakönnunum, hverjir myndu bætast við kjósendur hans ef Sigurður Ingi yrði formaður og þar af leiðandi er spurningunni um árangurs hans í formannssæti ósvarað. 

Yfirlýstur tilgangur þess framboðs er að meiri líkur séu á því að auka fylgið, ef umdeild Wintrismál og önnur axasköft Sigmundar Davíðs yrðu flokknum ekki lengur til trafala, heldur farsæl forsætisráðherratíð Sigurðar Inga. 


mbl.is Farið gegn formanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrðar haustdagar um allt land.

Það er fleira en hin óviðjafnanlegu norðurljós, sem dýrðarveður haustdaganna hefur kallað fram. 

Skreppitúr til Siglufjarðar og til baka í dag bauð upp á myndamótív hvert sem litið var, eins og þessi mynd, sem tekin var nálægt bænum Höfða á Höfðaströnd á bakaleiðinni. 

Raunar hefur sumarið allt og haustið fram að þessu boðið upp á alvega einstaklega rólegt og blítt veðurfar, sem hefur veitt okkur þráðan Höfðavatn, 28.9.16sumarauka. 


mbl.is Slökkt á götuljósum vegna norðurljósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var mikið!

Allt frá því um 1965 og samfell frá 1990 hafa álver verið trúaratriði hér á landi, álver í Eyjafirði til að "bjarga Akureyri," álver á Keilisnesi, álver í Reyðarfirði, álver á Bakka, álver í Hvalfirði, álver í Þorlákshöfn, álver í Helguvík, álver suður af Skagaströnd! 

"Árangur áfram, - ekkert stopp!" var slagorð Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2007. Nýbúið var að taka fyrstu skóflustunguna í Helguvík fyrir komandi risaálveri, sem myndi krefjast samfellds virkjananets frá Reykjanesi um Reykjanesskagann endilangan austur í Skaftafellssýslu og upp á miðhálendið. 

Svo kom Hrunið, en þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, var fyrsta forgangsverkefnið á fyrstu vinnudegi í iðnaðarráðuneytiinu að lýsa yfir því, að ríkisstjórnin stefndi "einróma" að því að reisa álver í Helguvík. 

Í fyrra lét þáverandi forsætisráðherra stilla sér upp í miðjum hópi manna, sem voru búnir að handsala það við Kínverja að reisa álver suður af Skagaströnd.

Kaupfélagsstjórinn í Skagafirði var búinn að kaupa helstu jarðir sem virkjanir í Skagafirði yrðu reistar í.

Að vísu er ekki beint nefnt í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins gamla góða slagorðið "Árangur áfram - ekkert stopp", það hljómar svolítið ankannalega með tilliti til kosningaósigurs Framsóknar 2007, en söm hefur ætlunin verið.

Það er fyrst nú sem Bjarni Benediktsson kveður upp úr með það að álver séu ekki lengur á dagskrá og skilur Framsóknarmenn eftir með sárt ennið.

Það var mikið!   


mbl.is Bjarni: Álverum muni ekki fjölga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað er eiginlega að ske?"

"Hvað er eiginlega að ske?" spurði Prins Póló í samnefndum texta. Hann myndi áreiðanlega spyrja þannig á ný ef hann sæi jafn stórt stökk upp á við í skoðanakönnun og Sjálfstæðisflokkurinn tekur nú á nánast einum degi þegar hann rýkur úr rúmlega 20% í einni könnun upp í tæplega 35% fylgi þeirri næstu.

Að sönnu svarar aðeins helmingur þeirra, sem spurðir eru, spurningunni, en engu að síður er þetta ansi mikill munur.

Skoðanakannanir hafa oft sýnt talsverðar sveiflur fram og til baka, og má sem dæmi nefna aðdraganda kosninganna 1995, þar sem Alþýðuflokkurinn var kominn niður fyrir pilsnerfylgi á tímabili, en hífði sig upp fyrir 10 prósent í kosningunum sjálfum.

Píratar hafa hingað til komið verr út í kosningunum sjálfum en í skoðanakönnunum fyrir þær.

Nú er að bíða og sjá hvað gerist í næstu skoðanakönnun.

"Þið hafið aldrei haft það svona gott" var slagorð, sem Íhaldsflokkurinn breski byggði á þegar hann stjórnaði Bretlandi fyrir hálfri öld.

Ef meirihluti kjósenda finna slíkt á veskinu sínu skiptir ekki máli í kosningunum þótt minnihluti sem ber sannarlega mjög skarðan hlut frá borði eins og aldraðir, öryrkjar og láglaunafólk gerir nú, taki þetta ekki til sín.

Of ef leitað er að orsök velmegunar meirihlutans, blasir ferðaþjónustan við hér á landi nú, rétt eins og almenn uppsveifla í Evrópu gerði á árunum í kringum 1960, fyrir þá, sem "láta veskið ráða."  


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málið rangfært af línulagnarmönnum.

Í fréttaflutningi af raflínumálinu fyrir norðan hefur því verið stillt upp þannig, að náttúruverndarfólk hafi alfarið lagst gegn því að tengja Kröflu og Þeystareyki við Bakka á Húsavík. 

En þetta er ekki rétt. 

Andófsfólk gegn offorsi línulagnarmanna hefur lagt fram tillögur um skaplegri línuleiðir en þær sem hafa mestu möguleg óafturkræf neikvæða umhverfisáhrif í för með sér. 

Það mun að vísu hafa nokkurn aukakostnað í för með sér en þó hvergi nærri svo mikinn að það sé frágangssök. 

En á þetta hefur ekki verið hlustað heldur málið keyrt áfram af offorsi. 

Í stað þess að samþykkja skástu leiðina út frá umhverfissjónarmiður á nú með samþykkt frumvarps á Alþingi að setja fordæmi fyrir því, að í framtíðinni verði þannig staðið að verki, að fyrst verður ákveðið hvar reisa eigi verksmiðju og virkjun, og síðan geti Alþingi látið leggja raflínur stystu leið á milli án tillits til óafturkræfra umhverfisspjalla. 

Raflínumenn komast þar með í stöðu frekra og óþægra krakka sem geta grenjað út allt sem þeir heimta. 


mbl.is Fundað stíft um raflínumálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt og hljótt.

Aðferðinni "hægt og hljótt" verður vafalaust beitt þegar Hvalárvirkjun verður reist. Ófeigsfjarðarheiði með sínum tjörnum og fossarnir í Hvalá eru eitt best varðveitta leyndarmál landsins og reynt verður að varðveita það leyndarmál sem best, svo að helst engir viti hvað verður gert. 

Fyrir 13 árum hitti ég samt þingmann, sem hafði samþykkt Kárahnjúkavirkjum ljúflega.

Ég leiddi talið að öðrum virkjanakostum, til dæmis Hvalárvirkjun, sem hefði í för með sér aðeins brot af þeim stórfelldu óafturkræfu umhverfisáhrifum sem Kárahnjúkavirkjun hefði í för með sér. 

Brá þá svo við að þingmaðurinn sagðist aldrei myndu samþykkja Hvalárvirkjun ef til þess kæmi að hún yrði á dagskrá Alþingis og hann ætti þar sæti. 

Ég undraðist stórum og spurði hann að ástæðu fyrir þessu. 

"Ég hef farið um þetta svæði og þekki það", var svarið. 

Lýsandi fyrir það hvernig ákvarðanir sem snerta milljónir Íslendinga framtíðarinnar, eru teknar. 


mbl.is Möguleikar á nýjum virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband