Í mesta lagi einn svona á öld.

Í hópi 100 mestu snillinga 20. aldarinnar, sem sérfræðingahópur á vegum tímaritsins Time valdi um síðustu aldamót, var aðeins einn íþróttamaður, Muhammad Ali. Og jafnvel þótt aðeins íþróttaferill hans væri tekinn og öllu öðru sleppt, sem hann afrekaði og gaf af sér, hefði hann átt skilið að vera í hópnum. 

Enn hefur enginn jafn stór hnefaleikari getað komist nálægt honum þeirri í blöndu af hreyfingum, hraða, snerpu og úthaldi sem hann bjó yfir á árunum 1964-1967, áður en hann var gerður útlægur úr íþróttinni í 3 og hálft ár, en þá var hann á aldrinum 25-28 ára og hefði verið á hátindi getu sinnar, ef hann hefði ekki fórnað öllu fyrir málstað mannréttinda og friðar og risið gegn því sem virtist ofurefli árið 1966 þegar hann var kvaddur til herþjónustu.

Tilsvör hans eru fleyg: "Viet Kong hefur ekki gert neitt á hluta minn. Enginn Viet Kong liði hefur kallað mig "nigger". "Hvers vegna ætti ég, svartur maður, að fara yfir hálfan hnöttinn til að drepa gulan mann fyrir hvítan mann, sem rændi landi af rauðum manni?"

Hann þurfti að berjast hatrammlega í nokkur ár fyrir því að fá að ráða nafni sínu, leggja niður "þrælsnafnið" Cassius Clay og taka upp nafnið Muhammad Ali. Jafnt fjölmiðlar, mótherjar og yfirvöld neituðu að nota nýja nafnið.  

Ef einhver vill sjá smá brot af snillinni í hringnum má benda á Youtube með bardaga hans við Brian London í heild, en hann tók aðeins þrjár lotur, að ekki sé minnst á bardagann við Cleveland Williams, sem var álíka stuttur.

Þegar alhæft er um illsku múslima er ágætt að geta nefnt Ali og baráttu hans fyrir mannréttindum og friði sem dæmi um það hve slíkar alhæfingar geta verið hæpnar.

Hetjuleg barátta hans við Parkinson sjúkdóminn hefur verið fordæmi fyrir milljónir manna með þann sjúkdóm og fleiri sjúkdóma.

Ali hafði sína bresti og beitti stundum lúalegum brögðum í sálfræðistríði við hörðustu andstæðinga sína.

Íþróttafréttaritarinn Howard Cosell og Ali bjuggu til einstæð samskipti fréttamanns og íþróttahetju þar sem Cosell var ekkert að hlífa Ali, sem á móti gat oft notað orðheppni sína til að skapa minnisverð samtöl.

Eitt sinn sótti Cosell að Ali og notaði orð, sem best er að hafa hér á ensku :

"Þú ert ásakaður um að vera "truculent" (grimmur, árásargjarn) í garð mótherja þinna. Hverju svararðu því?"

Ali svaraði samstundis:  "Ég veit ekki hvað orðið "truculent" þýðir, en ef það á við mig er það gott."

Ali var aðeins skugginn af sjálfum sér í síðustu tveimur bardögum sínum sem hann háði eftir að Parkinson veikin var farin að bíta á hann.

Nú er hann víst aðeins skugginn af þessum skugga, en sannur meistari er aðeins sá sem sýnir það í ósigrum sínum og því, hvernig hann vinnur úr þeim. 


mbl.is Muhammed Ali skugginn af sjálfum sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverja er þjónusta og reglur um hana?

Tilgangur opinberrar þjónustu og eðli ættu að liggja í augum uppi en vilja oft gleymast.

Opinberir starfsmenn eru í vinnu hjá almenningi en ekki öfugt. Það virðist oft gleymast. Umfang og vöxtur opinberrar þjónustu á ekki að vera takmark í sjálfu sér, heldur þörfin á henni. 

Reglur eru settar af nauðsyn til þess að gera ferli viðkomandi þjónustu eða starfsemi skýrt, skilvirkt, öruggt og hagkvæmt.

Oft liggur mikil vinna að baki reglum, sem reynt er að hafa þannig úr garði gerðar, að þær gildi um öll afbrigði sem upp kunna að koma.  

Eðlilegt er að þeir, sem hafa búið til regluverk og lagt í það mikla vinnu, hugkvæmni og útsjónarsemi séu stoltir af þeim.

Í gerð slíkra reglna gleymist það hins vegar oft, að það er ekki alltaf hægt að sjá allt það fyrir, sem kann að koma upp og að ævinlega má búast við því að mannanna verk séu ekki gallalaus. 

Í slíkum tilfellum ætti að vera ljós nauðsyn þess að beita almennri skynsemi til að gera undantekningar, veita afbrigði eða breyta reglunum.

En þá er oft eins og óbreyttar reglur séu orðnar að óumbreytanlegum helgidómum eða náttúrulögmálum.

Ástæðan er mannleg: Það getur verið erfitt að viðurkenna galla á regluverki, sem gríðarleg vinna, metnaður og stolt hafa verið lögð í og,  -  

- það er svo þægilegt fyrir þá, sem hafa samið reglurnar og nota þær, - einfaldast að beita valdi sínu og gleyma því um leið fyrir hverja er verið að vinna og fyrir hverja reglurnar eru samdar.

Stundum getur verið álitamál um galla á regluverki og takmörk fyrir því hve langt eigi að ganga í að flækja málin með endalausum þrætum um einstök atriði þess.

En þegar gallar liggja í augum uppi og skera í augu, eru til trafala og gera mál erfiðari og flóknari, verður stolt hins opinbera að víkja fyrir þeirri staðreynd, að starfsmenn stofnana ríkis og sveitarfélaga eru í vinnu hjá almenningi en ekki öfugt.   


mbl.is Tölvan segir nei!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband