Hvað er sem öllu líður er liðið breytt.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að margir erlendir handboltaleikmenn dáist að því hvernig íslensku landsliðsmennirnir fórni sér fyrir liðið og leggi sig fram í ljósi þess hve miklu lakari kjör sé hægt að bjóða þeim en landsliðsmönnum margfalt stærri þjóða. 

Smám saman hefur þessi liðsandi orðið þekktur og árangur liðsins á þessari öld talinn kraftaverki líkastur.

Stærðarmunur íslensku þjóðarinnar og annarra þjóða er í bilinu 15 faldur til 300 faldur.

Þetta á við jafnt um knattspyrnu og handbolta, jafnvel þótt miklu fleiri iðki knattspyrnu en handbolta. 

Þess vegna á það ekki að vera svo mikið erfiðara að komast inn á stórmót í fótboltanum en í handboltanum.

Vitað er hve mikið skipulagsstarf og yfirlega liggur að baki þjálfun handboltalandliðsins fyrir leiki og mót og hve mikið er lagt á leikmennina við það.

Þess vegna ætti vel að vera hæg að ná fram sama aga hjá landsliðunum í báðum greinum.

Hvort sem talið um takmarkaðan aga fyrr á tíð er ýkt eða ekki leynist hitt ekki, að eftir að Lars Lagerback tók við liðinu hefur það breyst smám saman til mikils batnaðar.

Liðið nýtur þess að vísu að vera þróað upp úr yngra landsliðinu, sem kom fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum, en sú skýring hrekkur ekki til.  

Það býr áreiðanlega meira að baki, og sé svo, er það vel.  


mbl.is Snerist um að djamma með strákunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugtakið "jeppi" að verða ónýtt.

Í sókn sinni eftir stærsta markhópi bílakaupenda, þeim sem vilja láta sjá sig á einhvers konar "jeppa", hefur íslensku bílaumboðunum senn tekist að gjöreyðileggja hugtakið "jeppi". 

Allt frá því er fyrstu Willy´s jepparnir komu til Íslands var hugtakið "jeppi" skýrt:  

1. Drif á öllum hjólum.

2. Minnst 20 cm hæð undir bílinn, jafnt hlaðinn sem óhlaðinn.

3. Lágur lægsti gír í krafti þess að hafa hátt og lágt drif.

4. Hærra "aðhorn", "fráhorn" og "undirhorn" (ramp brake over angel) en á fólksbílum til að minnka líkur á að bíllinn tæki niðri fremst, aftast og undir kviðinn, á ósléttu landi.  

Þegar fyrstu Subaru fjórhjóladrifnu fólksbílarnir komu til Íslands, var veghæð þeirra að vísu 18 sm á óhlöðnum bíl en engum datt í hug að kalla þá jeppa.  

Lada Sport 1977 markaði upphaf eyðileggingar "jeppa"-hugtaksins vegna þess að hann var sjálfstæða fjöðrun að framan, sem olli því að þegar bíllinn fjaðraði upp og niður, gat veghæðin minnkað sem snöggast niður í 15 sentimetra.

En að öllu öðru leyti stóðst hann kröfurnar um jeppa.

Hinn fjórhjóladrifni AMC Eagle um 1980 var aldrei kallaður jeppi, en í kjölfar RAV 4 og sífjölgandi bíla, svipuðum honum á tíunda áratugnum, komst heitið "jepplingur" á kreik og slíkir bílar urðu að stöðutákni um allan heim og þeir gefa framleiðendunum mest í aðra hönd vegna þess að kaupendurnir eru í millistéttum, sem hafa meira á milli handanna en lágtekjufólk og því hægt að græða meira á þessum bílum en ódýrustu bílunum.

Smám saman varð ljóst að torfærueiginleikar þessara bíla skiptu æ minna máli en útlitið og aukið rými voru aðalatriðið í huga stærsta markhóps kaupenda á bílamarkaðnum. 

Heitið "sportjeppi" fór að ryðja sér til rúms, en nú er svo komið að bílaumboðin hika ekki við að kalla þessa bíla jeppa, hvorki meira né minna, þótt til dæmis veghæð þeirra sé orðin lítið sem ekkert meiri en á venjulegum fólksbílum, einkum þegar þeir eru hlaðnir. 

Dæmi eru Honda CRV og hinn nýi Korando, sem mynd er af á tengdri mbl.is frétt sem sýnir vel að veghæðin er orðin býsna lítil á þessum bílum.   

Þar að auki færist það í vöxt að þessir "jeppar" séu boðnir án þess að vera með drif á öllum hjólum og þessir framhjóladrifnu bílar seljast mun betur, enda ódýrari og sparneytnari en líta samt alveg eins út og hinir fjórhjóladrifnu bræður þeirra og nýtast sem stöðutákn. 

Nú er svo komi að sumir þeirra eru einungis fáanlegir með framdrifi og ekki fáanlegir með drifi á öllum hjólum !

Gott og vel, en lýsingar bílaumboðanna á þeim halda áfram í öfuga átt og nú eru því fleiri þeirra kallaðir jeppar sem þeir fjarlægjast jeppahugtakið !   

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Renault Captur sé vinsælasti sportjeppinn. Engin furða, því að þessi bíll er alveg einstaklega fallegur og flottur.  Talsmaður umboðsins talaði um hann í bílablaði um helgina sem "smájeppa". 

En enginn Captur er fáanlegur með fjórhjóladrifi !  

 

 


mbl.is Jeppinn orðinn öflugur jepplingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband