Af hverju ekki hjálmaskyldu fyrir alla?

Síðan hvenær er 19 ára manneskju minna hætt við að slasa sig á höfði í óhappi á reiðhjóli heldur en 18 ára? 

Eða hvenær var minni hætta á höfuðmeiðslum á sextugum manni í reiðhjólaóhappi heldur en á 18 ára dreng eða 15 ára dreng?  

Af hverju ekki annað hvort hjálmaskyldu fyrir alla eða engan?  


mbl.is Hjálmaskyldu til 18 ára aldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn hægt að bjarga "neyðarbrautinni" í horn.

Í ár eru liðin 75 ár síðan ákveðið var að hafa flugvöll í Vatnsmýri og þá þegar var byrjað á framkvæmdum við flugvöll. 

Í ljósi þessa ógnarlanga tíma er fráleitur sá hraði, sem nú á að viðhafa við að skerða notagildi vallarins með skyndiákvörðunum.

Lágmarkskrafa er að svonefnd Rögnunefnd fái fyrst að ljúka sínum störfum.

Það er rangt sem haldið er fram í blöðum í dag að Rögnunefndinni komi flugvöllurinn ekki við vegna þess að hún eigi að velja nýtt svæði fyrir flugvöll. Þvert á móti á nefndin að skoða alla möguleika á flugvallarskipan í Vatnsmýri/Skildinganesmelum/Skerjafirði, og er þar með talin skoðun á "núll-lausn" sem er lögbundin í svona málum.

Þess ber og að geta að Bretar gáfu Íslendingum öllum flugvöllinn í heilu lagi eftir stríðið og að það var ekki bæjarstjóri Reykjavíkur sem tók við honum heldur Ólafur Thors, forsætis-og utanríkisráðherra fyrir hönd þjóðarinnar allrar.   

Ekki er nóg að einblína á fjölda þeirra daga sem neyðarbrautin er í notkun því að þeir eru á þeim tíma vetrarins sem veður eru einna verst og landsamgöngur ganga erfiðlegast.

Aðalatriði málsins er að ganga þannig frá hnútum að hægt sé að hafa neyðarbraut áfram í einhverri mynd þrátt fyrir uppbyggingu á svæðinu við Hlíðarenda.

Það má tryggja á nokkra vegu:

1. Með því að lækka byggingar næst brautarendanum svo að aðflug geti farið yfir þær og láta brautina óhreyfða.

2. Með því að hnika til brautarendanum við Skerjafjörð og / eða fjarlægja 2-3 íbúðarhús, sem standa þar og lengja brautina út í Skerjafjörð.

3. Með því að bíða eftir niðurstöðu málsins í heild, en ein lausn þess kynni að verða tilfærsla norður-suðurbrautarinnar þannig að verði hornréttar á núverandi austur-vestur-braut en nú er og neyðarbrautin þar með óþörf.   


mbl.is Gagnrýna leyfisveitingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitirnar endalausu?

Árangurslausar leitir vekja ávallt athygli og óhugnað, einkum mannshvörf. Það var kannski eðilegt fyrr á tið þegar tækni nútímans naut ekki við, að hvörf væru óupplýst, svo sem hvarf séra Odds í Miklabæ.

Sama átti við þegar um óravíðáttur var að ræða eins og þegar Amalíu Erhardt hvarf 1937. 

Þegar þess er gætt hve löng nýleg leit í Bleiksárgljúfri var verður skiljanlegra að þeir Geirfinnur og Guðmundur og fleiri fundust aldrei.  

En á okkar tímum hinnar smásmugulegustu tækni má með ólíkindum heita hve oft það gerist að leitir að fólki og farartækjum reynast árangurslausar, svo sem leitin að malasísku farþegaþotunni og nú síðast óþekktum kafbáti í sænska skerjagarðinum.  

Slíkt magnar upp margs konar samsæriskenningar svo sem þá að nú séu Rússar komnir í eins konar Kaldastríðsham við að sýna Svíum og öðrum þjóðum hvers þeir eru megnugir við að komast í gegnum hvers kyns hindranir með stríðstól sín og njósnir.

Nýlega var haft eftir fyrrum kafbátsmanni í rússneskum kafbáti hve vel hann og félagar hans urðu að sér í íslenskum dægurlögum á tímum Kalda stríðsins  við að hlusta á gömlu Gufuna á meðan þeir leyndust skammt undan landi á felustöðum sínum, að ekki sé nú talað um tónlistina í Kananum. 

Aldrei fundu Kanarnir þessa meintu njósnakafbáta þrátt fyrir mikla hlustunartækni og annan leitarbúnað.

Hermt er að Pútín hafi sagt að hann geti tekið Kænugarð í Úkraínu á tveimur vikum og Varsjá í Póllandi á nokkrum dögum.

Í því ljósi er auðvelt að magna þann kvitt að nú sé hann að sýna Svíum að máttur Rússa og megin séu síst minni en í Kalda stríðinu.  


mbl.is Ekki merki um yfirvofandi árás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband