Nær aldargamalt deiluefni hér á landi.

Á fyrstu árum fullveldisins sóttu kommúnistar og róttækir verkalýðssinnar mjög í sig veðrið hér á landi og átök á milli þeirra og lögreglu urðu tíð. Í kjölfar hinna hatrömmu átaka um útlenda drenginn, sem Ólafur Friðriksson kom með til landsins vildu margir að lögreglan yrði efld á sem víðtækastan hátt. 

Á kreppuárunum urðu þessi átök algengari og hatrammari og stjórnmálamenn deildu um hve langt ætti að ganga í því að efla lögregluna, enda var harðsnúinn hópur innan raða kommúnista sem taldi að til greina kæmi að ná völdum með ofbeldi til að framkalla byltingu.

Þá, eins og nú, kom af og til upp álitaefnið um það hve langt ætti að ganga í því að vopna lögregluna og eins og nú virtust hægri menn öllu hrifnari af vígbúnaði lögreglunnar en aðrir. 

Svipað virðist þetta vera í Bandaríkjunum þar sem hægri menn eru hlynntari almennri byssueign og sterkri og öflugra lögregluvaldi og ríkisvaldi en aðir.  

Þrátt fyrir öll stóryrðin kom þó aldrei til þess þegar ófriðlegast horfði á árunum 1930 til 1950 að byltingarróttæklingar reyndu beitingu ofbeldis til að ná völdum hér á landi, en sagnfræðingar eru ekki á einu máli um það hve litlu munaði að þetta yrði framkvæmt eða hve langt þeir hörðustu voru raunverulega tilbúnir að ganga.

Síðan 1999, þegar íslenskir ráðamenn stóðu fyrir því að NATO æfði sig í viðbrögðum við ógn við íslenska ríkið á þann hátt að æfa beitingu öflugustu orrustu- og sprengjuþotna heims gegn náttúruverndarfólki á hálendi Íslands virðist hin gamla tilhneiging sumra íslenskrar ráðamanna til að heimta aukinn vígbúnað lögreglunnar vera komin hressilega á kreik að nýju.

Trúin á mátt vopnanna í samfélaginu hefur beðið skipbrot í Bandaríkjunum. Það hafa vopn kallað á vopn og hvergi í vestrænum ríkjum eru fleiri drepnir með vopnum og hvergi er ótti við ógn vopnanna meiri.

Eitt af fjórum tegundum frelsis sem Roosevelt Bandaríkjaforseti boðaði að sækja skyldi eftir, er frelsi frá ótta og í ljósi þess er ástandið í Bandaríkjunum enn nöturlegra en ella.

Undarlegt er að sumir þeirra sem réttilega gagnrýndu harðlega lögregluríki í alræðisrikjum kommúnista á dögum Kalda stríðsins virðist nú vera hlynntir því að innleiða vígbúið lögregluríki hér.  

 

  


mbl.is „Vopn kalla á vopn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixin" í Gálgahrauni og Vatnsmýri.

Fyrir ári var sagt að engan tíma mætti missa við framkvæmdir við Álftanesveg vegna þess hve hann væri hættulegur, hve umferðin um hann væri orðin allt of mikil og að þarna væri að rísa 15 þúsund manna ný byggð. 

Þess vegna væri ekki hægt að bíða eftir því að útkljá þau dómsmál og kærumál sem í gangi væru, heldur yrði að byrja strax.  

Svo mikið þótti liggja við að stærsta jarðýta landsins var látin djöflast eftir endilöngu hrauninu og umbylta því sem allra mest með aðstoð 60 manna lögreglu. Vinna eins mikil og óafturkræf spjöll á hrauninu og mögulegt væri á sem allra skemmstum tíma. 

Um þessar mundir bregður hins vegar svo við að lítið sem ekkert virðist vera unnið við vegagerðina.

Allt í einu liggur ekkert á.

Sömu húsin, sem standa við núverandi Álftanesveg og voru auð í fyrra, standa ennþá auð.

Ekkert bólar á nýju stóru byggðinni sem átti að vera í heild næstum því jafn fjölmenn og Hafnarfjörður.

Enda kom í ljós við athugun að núverandi Álftanesvegur alls ekki hættulegasti vegarkaflinn á höfuðborgarsvæðinu heldur eru um 20 aðrar vegarkaflar með meiri slysatíðni.

Umferðin um veginn er enn svipuð og verið hefur, um 6000 bílar á dag, en samkvæmt viðmiðum í vegagerð er ekki ástæða til að breikka veg upp í 2 plús 1 fyrr en umferðin er orðin 15000 bílar.

Hin rosalega umferð var uppspuni einn.  

Við blasir að djöfulgangurinn í fyrra var "túrbínutrix" (sú aðferð stjórnar Laxárvirkjunar 1970 að kaupa strax stórar túrbínur í margfalt stærri virkjun áður en búið var að ganga frá þeim atriðum sem fyrst þurfti að klára).  

Svipað virðist vera freisting fyrir þá sem vilja Reykjavíkurflugvöll í burtu. Áður en Rögnunefndin er búin að ljúka sínu starfi virðist stefnt að því að eyðileggja notagildi flugvallarins á ýmsan hátt þannig að menn standi frammi fyrir gerðum hlut, rétt eins og var með túrbínurnar frægu hér um árið.  

Það er sérkennileg tilviljun að einmitt þessa dagana skulum við minnt á túrbínutrixin skæðu í þessum tveimur málum.  


mbl.is Brjóti gegn anda flugvallarsamkomulags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband