5-15 ferkílómetra lón við Lönguhlíð? Varla.

Af því að aðeins rúm vika er síðan ég var á sveimi yfir gosstöðvunum í Holuhrauni er ég spurður, hvað líði átökum Jökulsár og nýja hraunsins, hvort lón sé að myndast. 

Einnig er spurt um það hvort Svartá geti stíflast.

Ég ætla að setja mynd og kort á facebook sem útskýrir ástandið en vísir að mjóu lóni sást á myndum, sem voru sýndar í fréttum Sjónvarpsins.

Á ljósmynd af norðausturenda hraunsins má sjá, að enda þótt hraunið sé búið að ýta ánni upp í hallann á vesturhlið Lönguhlíðar, er áin furðu dugleg að sverfa sig niður inn í hallann.

Þótt lítið vatn sé í ánni á þessum tíma árs tekst henni halda enn í horfinu og nýtur þess, að hraunið kólnar í snertingunni við hana og storknar fyrr en ella. Það leitast því við að flæða frekar í aðrar áttir. 

Enn er á annan kílómetra að Svartá neðst til hægri á myndinni, svo að varla er hún í bráðri hættu.  

Vinur minn sendi mér kort sem hann gerði af mögulegu lóni, sem gæti myndast milli hrauns og hlíðar ef hraunflæðið heldur áfram af óbreyttum krafti og þrengir Jökulsá upp í meiri hæð utan í halla Lönguhlíðar.

Kortið sýnir 19 ferkílómetra lón hið stærsta (merkt með rauðum lit). 

Það myndi teljst talsverð frétt en þess ber samt að gæta, að yfirleitt eiga íslensku árnar síðasta orðið í baráttu af þessu tagi.

Þegar mun meira vatn verður í Jökulsá næsta sumar en nú, mun hún verða dugleg við að grafa sig niður og hún á tímann frekar fyrir sér en hraunflæði í gosi, sem Haraldur Sigurðsson giskar á að muni verða hætt fyrir næsta vor.  

 


mbl.is Skjálftavirkni mikil í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu Kveldúlfshúsin og Völundur.

Engar fjálgar yfirlýsingar um dýrmætar minjar úr atvinnusögu þjóðarinnar líkt og nú heyrast á Grandagarði heyrðust þegar gömlu Kveldúlfshúsin og hús Timburverslunarinnar Völundar við Skúlagötu voru rifin. 

Þessi hús skiptu engum sköpum um það hvort hægt yrði að reisa nýjar íbúðablokkir í Skuggahverfinu af slikum ákafa að sú nýjasta lokar fyrir dýmætt útsýni frá Klapparstíg til Esjunnar.

Háhýsin og blokkirnar gátu alveg orðið nógu margar þótt Kveldúlfshúsið og hús Völundar fengju að standa.  

Kveldúlfshúsið hlaut nafnið Skúlaskáli eftir að blómaskeiði Kveldúlfs lauk og varð í raun enn verðmætari fyrir bragðið.  Það hús og Hús Völundar voru söguleg verðmæti rétt eins og Franski spítalinn sem seinna varð að Gagnfræðaskólanum við Lindargötu, og var sem betur fór ekki rifinn.  

Hús Völundar var fallegt timburhús, sem tók sáralítið rými.  


mbl.is Gamalt hús lítur dagsins ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokia, Pontiac, Oldsmobile, Plymouth, BMC....

Það er ekki langt síðan Nokia var stolt og nokkurs konar tákn Finnlands. Á furðu skömmum tíma hefur þetta stolt hrunið. Ég var viðskiptavinur fyrirtækisins frá upphafi farsíma hér á landi, en bellibrögð varðandi ábyrgð á framleiðslunni og hröð hnignun gæða ollu fráhvarfi mínu.

Nokia er í hópi hundruða þekktra vörumerkja, sem hafa orðið andvaraleysi stjórnendanna að bráð.

Hér á landi voru mörg stöndug fyrirtæki sem hurfu undra skjótt af sjónarsviðinu á síðustu öld þegar eldmóðs, ráðvendni og dugnaðar frumherjanna naut ekki lengur við. Það er langur nafnalisti.

Sú var tið Packard og síðar Cadillac voru "Standard of the world."

Um 1990 komu hinar sigruðu þjóðir í stríðinu, Japanir og Þjóðverjar og tóku forystuna í bílaframleiðslu heimsins með Benz S, Lexus og BMW 7 sem flaggskip.

Ástæðan var einföld: Andvaraleysi, horfin vöruvöndun og of hæg framþróun hjá bandarísku framleiðendunum.

Plymouth var árum saman þriðja mest selda bíltegund heims. Nú heyrir merkið sögunni ásamt fyrrum eðalbílum á borð Oldsmobile, Pontiac og De Soto.

Saab er í dauðateygjunum.

BMC, sem var stolt bresks bílaiðnaðar, hreinlega hrundi seint á síðustu öld.

Fáa óraði fyrir því fyrir áratug að árið 2008 yrði bílarisinn General Motors tæknilega gjaldþrota.

Obama bjargaði GM af því að fyrirtækið var of stórt til að hægt væri að láta það fara í þrot.

Á svipaðan hátt var mörgum fyrirtækjum bjargað hér í Hruninu.  

 


mbl.is Framleiðslu Nokia farsíma hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband