Samt lítið brot af Skaftáreldahrauni.

Víst er hið nýja Holuhraun orðið stórt og hraunrennslið það mesta í nokkru eldgosi í meira en öld. En það er þó enn aðeins lítið brot af hrauninu, sem rann í Skaftáreldunum 1783 og varð alls 580 ferkílómetrar, eða næstum tíu sinnum stærra. 

Enn meiri verður munurinn á rúmmáli hraunanna.

Engar mælingar eru fyrir hendi um eiturgas sem kom upp í Skaftáreldunum, en ef miðað er við lýsingar á magni og áhrifum þess bæði hér á landi og um alla heim, var eitrunin í Móðuharðindunum svo margfalt meiri, að þau eru varla sambærileg.

Það breytir því ekki að brennisteinsmengunin í Holuhraunseldum er sú mesta sem dæmi eru um síðan í Skaftáreldunum.  

Rétt er að geta þess að meiri gosefni komu upp í Grímsvatnagosinu 2011 en komin eru upp í Holuhrauni.

Enginn veit hins vegar hve mikið myndi koma upp í gosi í Bárðarbungu sjálfri.  


mbl.is Hraunið orðið 63 ferkílómetrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins eðlileg hönnun.

Stór jeppadekk fyrir jöklajeppa taka margfalt meira rými en venjulegir hjólbarðar.  Stærðin og rýmið eru nauðsynleg til að skapa meiri flotgetu á snjó fyrir bílinn og til þess að það sé hátt undir bílinn og hann geti komist yfir grófara landslag og stærri ójöfnur. 

Þegar venjulegum jeppa er breytt neyðast menn til að láta hin stóru dekk standa út fyrir bílinn vegna þess að rými fyrir þau er takmarkað innan í hjólskálunum og einnig aðþrengt að grind eða grindarbitum.

Þegar felgur eru breikkaðar þannig að þær verða ekki lengur við miðju hjólaleganna vill myndast slit í legunum og þær endast mun skemur en ella. 

Flestir breyttir jeppar eru á bilinu 1,80-1,90 sm breiðir óbreyttir en verða 2,05-2,20 m breiðir þegar dekkin breikka þá og gera verður stærðar brettakanta.

Þar með eru 20-35 sentimetrar af breiddinni ekki notuð fyrir farþegana.

Það er sérstakt gleðiefni að það skuli vera Íslendingar sem hanna svona bíla frá grunni á réttan og rökréttan hátt að öllu leyti.

Sjálfur hef ég verið haldinn ástríðu til að teikna bíla frá barnæsku og síðustu áratugina hafa allir jepparnir mínir verið þannig að breidd þeirra hefur verið fullnýtt fyrir farþega og farangur, hvort sem þeir hafa verið litlir eða stórir.

Ég hlakka til að sjá meira af íslenska bílnum, svo sem útfærslu á drifbúnaði og fjöðrun, einkum að framan þar sem nauðsynlegt er að driföxlarnir séu sem lengstir þannig að fjöðrunarvegalengdin verði nógu löng.   


mbl.is Svona er fyrsti íslenski bíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna þetta pukur hér?

Herir og lögregla allra þjóða þurfa á tækjabúnaði að halda. Talið er eðlilegt að almenningur, sem þessar stofnanir þjóna, viti, hvaða búnaður er keyptur, af hverjum og fyrir hve mikla peninga. 

Það er ekki og hefur yfirleitt ekki verið leyndarmál í öðrum löndum, hve margar herþotur eða hve margar fallbyssur eða herskip hefur verið um að ræða, og það er einnig strax uppi á borðinu hvaða reglum um útboð á kaupunum er fylgt og af hverjum er keypt.

Nú sést sáran kvartað yfir því í netmiðlum að vondir íslenskir fjölmiðlar hafi af óþörfu þyrlað upp moldviðri í sambandi við endurnýjun lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar á byssukosti sínum.

Eins og áður er talið sjálfsagt að skjóta sendiboða tíðindanna.

Þessir gagnrýnendur sjá ekkert athugavert við það að það er búið að taka marga daga að toga upplýsingar um þessi vopnakaup með töngum upp úr yfirvöldum lögreglu og strandgæslu, því að slík hefur upplýsingatregðan verið, að mestallan þennan tíma hefur aðeins hluti upplýsinganna fengist og því aðeins hluti sannleikans í boði hverju sinni, aðeins það allra minnsta sem yfirvöldin hafa drattast til að staðfesta hverju sinni.

Það þýðir í raun, að þessa daga hefur aðeins verið röng mynd af málinu á kreiki, og fjölmiðlum kennt um það.

En fjölmiðlar hafa aðeins verið að vinna vinnuna sína, og hefðu yfirvöld frá upphafi þessa máls greint skýrt og skilmerkilega frá málavöxtum, hefði aldrei orðið til það sem er kallað "stóra byssumálið".

Spurningin er nefnilega þessi: Úr því að aðrar þjóðir telja eðlilegt að viðskipti opinberra aðila með vopn séu uppi á borðinu og þau gerð með fullri vitneskju almennings, hvers vegna er allt þetta pukur hér?

Það eru nefnilega yfirvöld lögreglumála og Landhelgisgæslunnar sem virðast hafa talið þetta svo ofboðslega stórt mál, að það þyrfti að fara með það eins og eitt af stærstu öryggis- og leyndarmálum ríkisins.    


mbl.is Greiddu ekki fyrir vopnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband