Hve margar vikur í viðbót í byssumálinu?

Síðastliðna viku hafa þeir, sem hefðu átt að greina almenningi fá viðskiptunum með byssunurnar frá norska hernum dregið lappirnar í að gefa upplýsingar um málið og með því þvælt því út og suður.

Það var ekki fyrr en greið svör fengust frá Norðmönnum sjálfum að forstjóri Landhelgisgæslunnar kom loks í fjölmiðla í dag og í gær til að segja frá því að "þegjandi samkomulag" hefði verið um það milli aðila þegar kaupsamningu um byssurnar var gerður að Íslendingar þyrftu aldrei að greiða krónu samkvæmt honum. 

Á blogginu hafa fjölmiðlar verið ásakaðir um að draga á langinn og blása upp "herferð" í þessu máli í pólitísku skyni, vinstri menn sakaðir um að vilja veikla lögregluna en á sama tíma talað um Ögmundarskýrsluna, rétt eins og hann, þessi mikli vinstri maður, hafi tekið ákvörðun um þessi viðskipti með vopn. Skemmtileg mótsögn það. 

Enn meiri mótsögn er að kenna fjölmiðlum um það hve lengi málið hefur verið í gangi og saka þá um að eyðileggja með því nauðsynlegt traust, sem þurfi að ríkja í þjóðfélaginu. 

Í öðrum löndum þykir sjálfsagt að greina frá innkaupum hers og lögreglu á vopnum og hafa allar reglur og amninga um það uppi á borðinu, allt frá kaupum á skotvopnum upp í herþotur og herskip.

Með því að fletta upp samtímaheimildum varðandi "Ögmundarskýrsluna" má glögglega finna afgerandi yfirlýsingar hans um að forðast stigmögnun á vopnabúnaði lögreglunnar og ekki kom hann nálægt því að ákveða um viðskipti íslenskrar lögreglu og Landhelgisgæslunnar við Norðmenn.

Enn er því eftir að svara því hver tók ákvörðun um þessi viðskipti. Kannski tekur það aðra viku eða fleiri að fá svar við því og þá má nærri geta hvernig sum skrifin á blogginu verða um áframhaldandi pólitíska herferð fjölmiðla og vondra vinstri manna í þessu máli, sem hefði getað verið upplýst á einni dagstund fyrir viku af þeim sem ferðinni hafa ráðið í þessu máli.   

 


mbl.is Leynd yfir byssum engum til góðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gildi þess að koma andstæðingi á óvart".

Það er erfitt að þýða hugtakið "element of surprise", en það þýðir gildi þess að koma andstæðingi á óvart, oft á afar djarfan og tvísýnan hátt. 

Yfirleitt er fólki ráðlagt að taka enga áhættu þegar glæpamenn ógna því með vopnum, heldur hlýða þeim en reyna jafnframt að halda ró sinni og athygli.

Fyrir um 40 árum var Torremolinos á Sólarströnd Spánar tiltölulega kyrrlátt og öruggt samfélag.

Jón bróðir minn var þar á ferð heim á hótelið að kvöldlagi ásamt nokkrum íslenskum vinum, sem höfðu verið samferða frá Íslandi.

Þegar þeir koma inn í hótelganginn sitja þar fyrir þeim nokkrir Spánverjar sem ógna þeim með hnífum og ætla augsýnlega að ræna þá.

Jón er oft alveg einstaklega fljótur að hugsa, og nú kemur sér vel að geta talað íslensku án þess að útlendingarnir skilji hana, því að hann hrópar eldsnöggt til félaga: "tökum þá strax núna!", og stekkur síðan á foringja glæpagengisins, slær hnífinn úr hönd hans og kemur honum eldsnöggt í gólfið.

Hinir Íslendingarnir stökkva nær samtímis á hina Spánverjana sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið og fallast alveg hendur.  Fyrr en verði liggja allir ræningjarnir í gólfinu og kallað er á lögreglu, sem kemur von bráðar og handtekur glæpagengið.

Spænsku lögreglumennirnir urðu steinhissa að sjá hvað gerst hafði og undruðust fífldirfsku Íslendinganna, hvort þeir hefðu virkilega ekki vitað hve stórhættulegt þetta gat verið fyrir þá.

Enginn Íslendinganna hafði áður lent í neinu svipuðu og því gafst enginn tími fyrirfram til að velta vöngum yfir réttum eða viðurkenndum viðbrögðum við aðstæðum sem þessum.

Ákvörðun, tekin á sekúndubroti, reyndist ganga upp í þetta sinn vegna þess að hugtakið "element of surprise" virkaði, enda voru ræningjarnir spönsku einnig byrjendur og áttu alls ekki von á þessum mjög svo íslensku viðbrögðum.  

Ekki er víst að svona fífldjörf viðbrögð hefðu virkað aftur, því að reikna hefði mátt með því að hið íslenska bragð hefði frést út og því ekki komið á óvart í annað sinn.  

Þessi atburður varð til þess að Spánverjar tóku öryggismál ferðamanna í Torremolinos til endurskoðunar, enda voru þau forsenda fyrir því að ferðamenn kæmi þangað.  


mbl.is Réðist gegn byssumanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve stóran hlut mengunar eiga virkjanir OR ?

Nú eru vikurnar að safnast upp sem gosmengun hefur verið hjá miklum meirihluta landsmanna. Upplýst var um daginn að hún hefði farið drjúgt yfir heilsuverndarmörk í austurhluta Reykjavíkur. 

Mér finnst merkilegt að enginn fjölmiðill skuli hafa reynt að kafa ofan í það, hvort hægt sé að áætla hve mikill hluti þeirrar mengunar var frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun og hve stór hluti frá Holuhraunseldum.

Það hefur áður komið fram að mengun af völdum þessara virkjana hafi komist yfir heilsuverndarmörk í austustu byggð höfuðborgarsvæðisins áður en mengun frá Holuhraunseldum bætist við.

Frá báðum þessum uppsprettum er það austlæg vindátt sem ber mengunina til 70 prósent landsmanna.

Fyrir nokkrum dögum kom mágkona mín suður til Reykjavíkurfrá Bolungarvík. Hún kemur ekki oft suður en í vor sagði hún okkur frá því að þegar hún kom til heimsókn til okkar í Grafarvogshverfinu hefði hún verið að velta því fyrir sér hvort einhver óþverri væri á ströndinni sem gæfi frá sér lykt, sem hún finnur aldrei fyrir vestan.

Síðan uppgötvaði hún að þetta væri fýlan úr virkjunum OR sem hún og maður hennar fyndu svo vel hér syðra en við, sem eigum heima hérna, værum fyrir löngu orðin samdauna.  

Hvers vegna er þetta mál ekki kannað allt til þess aðvið getum áttað okkur á eðli þess til hlítar?

Augljóst hlýtur að vera að gosmengunin frá Holuhrauni verður enn illvígari en ella vegna þess að hún bætist við mengun sem fyrir er og er af mannavöldum. 

En af einhverjum ástæðum er aldrei minnst á það.  

 

  


mbl.is Óttast langtímaáhrif gasmengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband