Að vera samkvæmur sjálfum sér.

Allt frá fjórða áratug síðustu aldar hefur það vafist fyrir mönnum, í hverju það felist að vera samkvæmur sjálfum sér í utanríkismálum. Á tímum Komintern og "Moskvulínu" sveifluðust íslenskir kommúnistar til og frá eftir línunni að austan og því hvað hentaði best alheimskomúnismanum. 

Þetta leit í flestra augum út sem hámark ósamkvæmninnar en kommarnir sjálfir voru þó samkvæmir sjálfum sér hvað snerti stuðning við heimsbyltinguna.

Við undirritun Keflavíkursamningsins 1947 og NATO samningsins 1949 var því lýst yfir að Ísland væri og yrði herlaust land á friðartímum og Íslendingar hefðu sjálfir aldrei her. Andstæðingum þeirra samninga þótti ósamkvæmni gæta í þessum yfirlýsingum af því að Keflavíkurflugvöllur yrði augljóslega notaður fyrir flutninga á hergögnum og herliði ef Bandaríkjamönnum þætti nauðsyn bera til þess.

Fylgjendum samninganna fannst þeir vera samkvæmir sjálfum sér, bentu á skilyrði Íslendinga væri einstakt, og að kommúnistar hefðu viljað fá stórveldin, Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin til að ábyrgjast saman hlutleysi Íslands, en það myndi augljóslega geta kostað hið sama og gerðist í upphafi Fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar slíkur samningur dró Belgíu og Breta inn í stríðið.

Þegar Varnarliðið kom 1951 var það á grundvelli þess að vegna Kóreustríðsins og vaxandi stríðshættu væru ekki lengur friðartímar.

Þegar þíða varð um stund 1955-56 í Kalda stríðinu vildu allir flokkar á þingi nema Sjálfstæðisflokkurinn skilgreina heimsástandið sem friðartíma og reka herinn.

En innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland og Breta, Frakka og Ísraelsmanna inn í Egyptaland gaf Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum átyllu til að draga það að reka herinn burt.  

Svipað gerðist hjá Vinstri stjórninni 1971-74 án þess að séð væri umtalsverð breyting í ófriðarátt í heiminum þá.

Tveir menn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, ákváðu í raun 2003 að Íslendingar skyldu styðja innrás og ólöglegan hernað á hendur Írökum og nokkrir einstaklingar vou sendir þangað og til Afganistan til að lúta heraga NATO.

Í sáttmála NATO er sagt að árás á eitt ríki í bandalaginu skoðist sem árás á þau öll. En ekkert ákvæði er um það að öll rikin séu skuldbundin til að taka þátt í árásum ríkja í bandalaginu á önnur ríki.

Fordæmi er fyrir svipuðu í sögunni. Þrátt fyrir hernaðarbandalag Öxulveldanna töldu Ítalir sér ekki skylt að lýsa yfir stríði þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 og Japanir töldu sér ekki skylt að ráðast á Sovétríkin þegar Þjóðverjar réðust á þau. Hefðu hins vegar verið skuldbundnir er Sovétríkin hefðu ráðist á Þjóðverja.

Þjóðverjar voru ekki skuldbundnir til að segja BNA stríð á hendur þegar Japanir réðust á Perluhöfn, en Hitler gerði það samt, og það voru mikil mistök af hans hálfu.

Ögmundur Jónasson er samkvæmur sjálfum sér í prinsippinu í andstöðu sinni gegn því að Íslendingar styðji hernaðarárásir á samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.  

En þá vakna ýmsar spurningar. Verður ekki að rísa gegn svo villimannlegri hreyfingu af öllu afli, rétt eins og risið var gegn nasistum á sínum tíma?

Og þá vaknar aftur spurning, í þetta sinn um skilgreiningu á villimennsku.

Hvort eru meiri villimennska, hótanir íslamistanna að hálshöggva fólk og limlesta í nafni trúarbragða, eða sú hótun risaveldanna í Kalda stríðinu að eyða öllu lífi í eldi kjarnorkustríðs í ríki andstæðinganna?  

 


mbl.is Ögmundur styður ekki árásir á Ríki íslam
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary er ekki sama og Bill.

Það yrði flott fyrir Bandaríkin ef Hillary Clinton yrði næsti forseti þeirra. Þá er búið að sjá bæði þeldökkan mann og konu við völd þar. 

Bill Clinton og Al Gore komust að 1992 af því að þeir voru frjálslyndir, framsæknir og umbótasinnaðir.

Eins og hjá öllum forsetum dofnaði yfir þeim þegar þeir fóru að reka sig á veggi og fást við raunveruleika stjórnmálanna, en Clinton tókst til dæmis að ná langt í áttina að samkomulagi milli Ísraelsmanna og Palestínumanna þótt aftur hrykki í baklás.

Um glæsileika og persónutöfra Bills þarf ekki að hafa mörg orð.

En það, að hann og Hillary eru hjón, og hafi því orðið samferða í gegnum hið pólitíska líf, segir í raun ekkert um það hvernig forseti Hillary muni verða.

Víst er hún framsækin og frjálslynd í jafnréttismálum en ýmislegt sem hún hefur sagt og gert bendir til þess að skoðanir hennar á ýmsum öðrum viðfangsefnum á sviði heimsstjórnmálanna, svo sem ástandinu í Miðausturlöndum,  séu mun íhaldssamari og stirðari en var hjá manni hennar.

Það er aldrei að vita nema einhver yngri,  sem nú er nær óþekktur, eins og Obama var árið 2006, komi fram á sjónarsviðið og bjóði upp á framsæknari hugmyndir á víðari grundvelli en Hillary hefur.      


mbl.is Buffett veðjar á Hillary Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það kostar orku og fjármuni að lyfta þunga.

Flug byggist á því að lyfta þyngd og fær hana til. Því meiri þyngd, því meira afl og því meira eldsneyti þarf. 

Flestar þotur sem fljúga á milli Íslands og annarra landa eru í kringu 100 tonn fullhlaðnar.

Til þess að geta flogið sem hraðast með sem minnstri eyðslu og tekið sem flesta borgandi farþega er flugvélunum klifrað upp í um 10 kílómetra hæð, en þar er loftið mun þynnra en niðri við jörð og veitir því minni loftmótstöðu þarna uppi en niðri við láglendið.

Það gefur auga leið að þynging farmsins í svona miklu klifri kostar bæði aukaorku og fjármuni. Segjum að 180 farþegar séu að meðaltali 20 kílóum þyngri hver um sig en áður var og með 10 kílóum þyngri handfarangur, felst ofangreint verkefni í því að lyfta um 5 tonnum aukalega frá sjávarmáli upp i 10 kílómetra hæð.  

Það að auki hægist á flugvélum í láréttu flugi með auknum þunga, því að þunginn kostar það að meira loft þarf til að lyfta undir vængina.

Það getur því verið liður í að bjóða lægri fargjöld ef hamlað er gegn aukaþunga með því að láta greiða fyrir hann. Og oft neyðast flugfélög til að henda út varningi þegar leggja þarf í flug á þunghlöðnum flugvélum. 

Þegar um er að ræða litlar fjögurra sæta flugvélar getur þungi farþega ráðið úrslitum um það hve margir komast um borð.

Ef tveir farþeganna eru  30 kilóum þyngri hvor en meðalmaður, þarf að létta flugvélina um 60 kíló til mótvægis, til dæmsi með því að minnka eldsneytið fyrir flugtak á henni.

Þá minnkar flugþolið um 2,5 klukkustundir hvorki meira né minna, þannig að valið kann að snúast um að hætta við flugið eða skilja annan manninn eftir.

Af þessu leiðir að það er alltaf álitamál hvernig brugðist er við aukinni þyngd farþega og farangurs, því að framhjá viðbrögðum við henni verður ekki komist.   


mbl.is Ferðalög: Þyngdin skiptir máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumherjinn Sigurgeir lögreglustjóri.

Sú var tíðin að eingöngu karlar gegndu störfum lögregluþjóna. Kona var tekin inn í lögregluna í stríðsbyrjun en þá í því augnamiði að láta "ástandið" svonefnda til sín taka.

Þegar Sigurgeir Sigurðsson varð lögreglustjóri man ég vel eftir því að honum var núið því um nasir að hafa haft óæskilegar róttækar stjórnmálaskoðanir sem ungur maður.

Ég hygg að bæði ég og margir hafi fengið ranga mynd af honum, sem lögreglustjóra í þá veru að hann gæti væri fordómafullur afturhaldsseggur. 

Þess vegna kom það þægilega á óvart í sjónvarpsþáttum um fyrstu lögreglukonurnar í fyrravetur þegar það var upplýst, að Sigurgeir hefði þvert á móti verið umbótasinnaður og jafnréttissinnaður í starfi, til dæmis með því að ganga þvert gegn ríkjandi venjum og mótbárum undirmanna sinna með því að gera lögreglukonu að varðstjóra.

Hann benti á að hann hefði fyrirfram gefið út þá stefnu, að þegar ráðið væri í stöður ættu þeir sem stæðu sig best í lögregluskólanum að njóta þess. 

Og hann léti ekki hrekja sig frá því og var laginn og góður yfirmaður að sögn þeirra lögregumanna, sem ég hef rætt við um þetta.

Ferill Sigurgeirs sýnir líka að það er ósanngjarft að meta fólk nær eingöngu eftir því hvernig það var á unglingsárum heldur líta til þess hvernig það þroskast og eflist með aldrinum.   

 

 

 


Frumherjinn Sigurgeir Sigurðsson.

Sú var tíðin að eingöngu karlar gegndu störfum lögregluþjóna. Kona var tekin inn í lögregluna í stríðsbyrjun en þá í því augnamiði að láta "ástandið" svonefnda til sín taka.

Þegar Sigurgeir Sigurðsson varð lögreglustjóri man ég vel eftir því að honum var núið því um nasir að hafa haft óæskilegar róttækar stjórnmálaskoðanir sem ungur maður.

Ég hygg að bæði ég og margir hafi fengið ranga mynd af honum, sem lögreglustjóra í þá veru að hann gæti væri fordómafullur afturhaldsseggur. 

Þess vegna kom það þægilega á óvart í sjónvarpsþáttum um fyrstu lögreglukonurnar í fyrravetur var upplýst, að Sigurgeir hefði þvert á móti verið umbótasinnaður og jafnréttissinnaður í starfi, til dæmis með því að ganga þvert gegn ríkjandi venjum og mótbárum undirmanna sinna með því að gera lögreglukonu að varðstjóra.

Hann benti á að hann hefði fyrirfram gefið út þá stefnu, að þegar ráðið væri í stöður ættu þeir sem stæðu sig best í lögregluskólanum að njóta þess. 

Og hann léti ekki hrekja sig frá því og var laginn og góður yfirmaður að sögn þeirra lögregumanna, sem ég hef rætt við um þetta.

Ferill Sigurgeirs sýnir líka að það er ósanngjarft að meta fólk nær eingöngu eftir því hvernig það var á unglingsárum heldur líta til þess hvernig það þroskast og eflist með aldrinum.   

 

 

 


mbl.is Mikilvægt að kona gegni embættinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband