Kom fram á réttum tíma.

Sjá má á blogginu spurningu um það hvað sé eiginlega að, þegar Yoko Ono mælir vinsamlega um framlag Jóns Gnarr til nútíma stjórnmála. 

Spurningin lýsir firringu, því að miklu frekar hefði átt að spyrja, hvort ekki hefði ekki verið eitthvað að hér á landi í Hruninu og aðdraganda þess.

Eða að spyrja um það hvað hefði eiginlega verið að á einstæðu róstu- og ringulreiðartímabili í borgarstjórn Reykjavíkur á svipuðum tíma.

Undarlega fljótt hefur margt fólk verið að gleyma því fári sem fólst í Hruninu og aðdraganda þess.

Það skilur ekki, að það var full ástæða til þess að Jón Gnarr gaf sig í stjórnmálin og gerði það á hárréttum tíma þegar brýn þörf var fyrir það.

Svo er að sjá það stefni í það að brýn þörf verði fyrir slíkt aftur.  


mbl.is Yoko: Jón haft áhrif um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Putin syngur "Bluberry Hill" og spilar á píanó.

Hver er hinn rétti og raunverulegii Pútín?  Í ímyndar- og áróðursrstríðinu á milli vestrænna fjölmiðla og rússneskra fjölmiðla eru dregnar upp gerólíkar myndir af honum. 

Á Youtube má sjá Putin syngja lagið "Bluberry Hill" á góðgerðarsamkomu og spila á píanó. Væntanlega til að sýna að hann sé "líbó" og geti verið mjúkur maður.

Hann er líka sýndur í júdói sem glímumaður með svart belti, synda glæsilegt flugsund og vinna táknrænar þrautir Heraklesar. Væntanlega til að sýna styrk hans og traustleika.

Hann er flottur og kraftalegur, næstum eins og frægustu kvikmyndaleikararnir sem léku hetjur og glæsilega menn.  

Það er aðeins aldarfjórðungur síðan Sovétríkin með Rússland sem allsráðandi afl voru annað tveggja risavelda heimsins.

Rússland býr enn yfir kjarnorkuvopnum af því magni sem aðeins Bandaríkin ein státað af.

Í vestrænum fjölmiðlum er greint frá því að Pútín segist geta tekið Varsjá á tveimur dögum.

Rússland er sært ljón og særð ljón geta verið varasöm, segja menn.

Dregnar eru upp myndir af gerðum Pútíns sem minni á svipaðar aðfarir Hitlers, en Þýskaland var sært ljón þegar Hitler nýtti sér það og komst til valda.

Þrátt fyrir alla upplýsingagetu nútíma fjarskipta og fjölmiðlunar er afar erfitt og flókið að lesa hið rétta út úr öllum þeim misvisandi myndum, sem dregnar eru upp af Pútín.  

Lýst er mörgum atriðum í stjórnarháttum hans innalands sem sýna ósvífinn og valdagráðugan mann sem ullar á þá lýðræðisskipan sem sé á yfirborðinu í landinu.

En því er líka lýst að hann hafi afar sterka stöðu meðal þjóðarinnar.

Og þá erum við komin að upphafinu í þessum bloggpistli, spurningunni um það hver sé hinn rétti og raunverulegi Pútín.

 

 


mbl.is Pútín málaður sem Herkúles
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afglöp fortíðarinnar.

Alla pistla um Ríkisútvarpið ætti að hefja á þeirri staðreynd að bygging Útvarpshússins á sínum tíma var dýrasta og stærsta menningarslys síðustu áratuga.  Þetta var hreint monthús og stærð þess, óhagkvæmni og stóraukinn rekstrarkostnaður, bara hússins vegna, er búinn að kosta miklu meiri peninga en nemur þeim fjármunum, sem nemur afborgununum og vöxtum af lánum RÚV.

Einstætt er að á sínum tíma sárbáðu starfsmannasamtök RÚV ráðamenn um að hætta við þessa byggingu og láta RÚV annað hvort frekar vera í sínum gömlu húsakynnum á Skúlagötu og við Laugaveg eða þá að hanna miklu minna, einfaldara og hagkvæmara Útvarpshús.  

Nú hamast óvildarmenn Ríkisútvarpsins og heimta að það sé selt. Sömu menn og stóðu fyrir einkavinavæðingu og gjafsölu banka og fleiri opinberra fyrirtækja í byrjuninni á aðdraganda Hrunsins.

Sömu menn og hamast gegn 365 miðlum vegna einkaeignarhaldsins á þeim.  

Þeir kveina sáran yfir háum greiðslum almennings fyrir afnotin af RÚV. Þó hefur það verið svo undanfarin ár að stórum hluti af útvarpsgjaldinu hefur verið "rænt" til að eyða í önnur og óskyld mál.

Það skyldi þó ekki vera svo, að ef RUV hefði fengið þessa eyrnamerktu peninga væri fjárhagsvandinn ekki sá sem hann er nú.

Sömu menn og heimtuðu að dreifkerfið væri selt kvarta nú yfir ástandi þess og kenna Ríkisútvarpinu um !

Og nú er enn hafinn upp söngurinn um að selja Rás 2 sem þó er sá hluti rekstrarins sem ber sig best.

Persónan Ragnar Reykás var hugarsmíð sem fundin var upp hjá Spaugstofunni og blómstraði hvað best í útsendingum RÚV.  Engu er líkara en Ragnar Reykás hafi ekki aðeins stjórnað ferðinni þegar Útvarpshúsið var byggt, heldur blómstri hann nú sem aldrei fyrr í þeim sem vilja gefa Ríkisútvarpið.   


mbl.is Lánagreiðslur RÚV 593 millj. á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband