Tyrkir horfa á 2014. Rússar horfðu á 1944.

Þegar Rauði herinn var kominn að Varsjá í júlílok 1944 hófu borgarbúar uppreisn gegn Þjóðverjum. 

Þá höfðu Rússar sótt samfellt á breiðri víglínu í vesturátt í eitt og hálft ár og við blasti að ekkert gæti stöðvað sókn þeirra.  

En Rauði herinn aðhafðist ekkert til aðstoðar Varsjárbúum, þótt aðeins væri 5 mínútna flug frá næsta flugvelli, sem Rússar höfðu á valdi sínu, til borgarinnar.

Þjóðverjar fengu að murka niður uppreisnarmenn óáreittir, meðal annars með risastórum Tiger skriðdrekum sínum og fallbyssum, án þess að Stalín skeytti hið minnsta um sárbeiðni Churchills um að leyfa Bretum og Bandaríkjamönnum að hjálpa Pólverjum í samstarfi við Rússa.

Það var ekki fyrr en eftir fimm mánaða kyrrstöðu við borgina sem Rússar sóttu loks inn í hana og 85% borgarinnar var þá í rúst. Mannfall Pólverja í stríðinu var hlutfallslega hið langmesta hjá nokkurri Evrópuþjóð, sex milljónir manna. 

Þessi hegðun Stalíns og Rússa er af mörgum talin ein skammarlegasta aðgerð stríðsins, svo einkennilega sem það kann að hljóma að aðgerðarleysi sé í raun jafngild aðgerðar, vegna þess að hún þjónaði þröngum hagsmunum Rússa um að ráða lögum og lofum í Póllandi eftir stríðið og þá yrði það auðveldara eftir hina miklu pólsku fórn, sem varð til einskis, veiklaði þjóðina og felldi hugdjörfustu baráttumenn hennar.

Þjóðverjar höfðu árið áður brytjað niður Gyðinga í Varsjá og Adolf Eichmann sagði að takmark Hitlers hefði verið alger útrýming Gyðinga, alls 10,5 milljóna manna.

Stalín varð æ hræddari við Gyðinga á síðustu árum sínum, og var því feginn hve margir rússneskir Gyðingar fluttu til Ísraels.  Þess vegna studdu Rússar stofnun Ísraelsríkis og báru jafn mikla ábyrgð á því að Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn, þótt fáir muni eftir því nú

Líkt og Gyðingar hafa búið í mörgum löndum hafa Kúrdar ekki búið í einu landi heldur fjórum og eru illa séðir af valdhöfunum í þeim öllum, af því að þeir vilja viðhalda yfirráðum sínum yfir búsvæðum Kúrda og auðlindum þeirra. 

Kúrdar eru um eða yfir þrisvar sinnum fleiri en Gyðingar voru og flækja því alla pólitík á búsvæðum sínum verulega.  

Níðþröng og miskunnarlaus sjónarmið ráða hegðun ríkisstjórna þessara landa varðandi Kúrda.

Þeim kann í afmörkuðum tilfellum að vera ósárt um þótt Kúrdar veiki stjórnvöld nágrannaríkjanna, ef það aðeins styrkir þeirra eigin stöðu. Svipuð hugsun og hjá Stalín varðandi Pólverja.

Hverju ríki um sig hentar það vel að Kúrdar hafi sig hæga innan sinna landamæra en að hin þrjú ríkin berjist við Kúrda þannig að bæði Kúrdar og þessi þrjú ríki veiklist við það.

Þetta er eigingjörn og ljót utanríkispólitík eins og hún verður verst.  Bandaríkjamenn og NATO sárbiðja Tyrki um hjálp til handa Kúrdum og Bandaríkjamenn og Bretar sárbáðu Rússa um hjálp 1944.

Í báðum tilfellum er beiðnunum neitað af miskunnarleysi.  

Þess vegna horfa Tyrkir aðgerðarlausir á það að Kúrdar séu murkaðir niður af villimennsku íslamistanna rétt eins og Rússar voru aðgerðarlausir þegar Pólverjar voru murkaðir niður af villimennsku nasistanna.

Þessi ljóti leikur er leikur að eldi þar sem tekin er mikil áhætta, en samt viðgengst hann nú, rétt eins og fyrir réttum 70 árum.   


mbl.is Ofsótt þjóð á braut sjálfstæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...og ekki var sólarlagið í kvöld síðra.

Það var áhrifamikið að fylgjast með sólarupprásinni á níunda tímanum í morgun og taka myndir af því. 

Sólarlagið í kvöld gaf sólarupprásinni lítið eftir og ég er búinn að setja eina mynd af því inn á facebook síðu mína.

Nú er það svo að á langri ævi hafa blasað við svipuð fyrirbæri fjölmörg kvöld, einkum á vorin og þá með Snæfellsjökul eða Snæfellsnesfjallgarðinn í baksýn.

En gasið úr Holuhrauni breytir litunum þannig að rauði liturinn verður öðruvísi og birtist á öðrum stöðum í litrófinu og móðunni en venjulega.

Rauði liturinn í sólarlaginu í kvöld var útaf fyrir sig nokkuð hefðbundinn en samt óvenjulegur.

En um það getur hver um sig dæmt sem sér myndina á facebook síðunni.

Hana birti ég með viðeigandi texta um þá ranglátu dóma sem í dag voru kveðnir upp yfir fólki, sem vann sér það til sakar að unna fegurstu smíðum íslenskrar náttúru og setjast niður í faðmi hennar í Gálgahrauni fyrir tæpu ári.

Því máli er ekki lokið, þótt stærsta skriðbeltatæki Íslands, 60 víkingarsveitarmönnum vopnuðum gasbrúsum, handjárnum og kylfum hefði verið beitt gegn 25 friðsömum einstaklingum sem hreyfðu hvorki legg né lið.  


mbl.is Rauð sól yfir Reykjavík - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn vilja ekki læra af reynslunni.

Það ætti vel að vera hægt að læra af reynslunni miðað við getu upplýsingasamfélags nútímans til að gaumgæfa mál og koma nýtilegustu staðreyndum á framfæri. 

En enda þótt það hafi þegar komið í ljós í kreppunni miklu sem skall á um þetta leyti árs 1929, að efnahagsvöxtur sem byggðist á uppskrúfuðum verðamætatölum, sem áttu í raun enga innistæðu, gat ekki staðist til lengdar, virtist sá lærdómur gleymdur og grafinn í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008.

Nú varar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn við svipuðu og varað var árangurslaust við 2007 og 2008.  

Og það virðist ekki þurfa langan tíma til þess að menn kjósi að gleyma hlutunum.

Ef litið er á helstu upphrópanirnar hér á landi og þær bornar saman við upphrópanirnar á árunum 2002 til 2008, væri hægt að skipta flestum þeirra út fram og til baka án þess að tekið yfir eftir því, samanber:

"Traust efnahagsstjórn!" - 

"Áfram, ekkert stopp!" -

"Traust og hækkandi gengi krónunnar !"

"Stöðugleiki og meiri hagvöxtur en annars staðar!" -  

"Tvöföld hækkun arðgreiðslna í sjávarútveginum!"

"Auknar fjárfestingar í stóriðjunni!"  

 


mbl.is Vara við nýrri kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband