Er stutt í að menn "sakni fortíðarinnar" á Sprengisandi?

Af mannavöldum er ýmislegt á hverfanda hveli í nágrannalandi okkar, Grænlandi, og ekki er allt, sem þar á að koma til sögunnar fagnaðarefni, heldur kemur á móti ýmislegt sem fær menn til að segja að þeir sakni fortíðarinnar.  

En á okkar landi er það óseðjandi mannvirkjafíkn sem veldur því að svarið við fyrirsögn þessa pistils virðist vera: Já.

Í Morgunblaðinu í dag og á aðalfundi Landsnets í vor voru lagðar ákveðnar línur (háspennulínur) um það hvernig nú á að hefjast stórsókn gegn þeirri öræfatign, kyrrð og ósnortnum auðnum Sprengisandsleiðar, sem enn eru eftir. 

Á korti í blaðinu má sjá hvernig skera á hálendið í tvennt með uppbyggðum og malbikuðum trukkavegi sem verður samofinn við háspennulínur og virkjanamannvirki svo að þessi leið verði sem líkust þeirri Hellisheiði sem við þekkjum nú.

Í mati á umhverfisáhrifum er gert lítið úr röskuninni af veginum, en auglýstur hámarkshraði, 90 km/klst segir allt sem segja þarf. 

Því er veifað að það komi!  til greina að hafa háspennulínurnar neðan jarðar að hluta en þó engu lofað um það, enda myndi liggja vegur eftir þeirri línuleið. Jafnvel er talað um nær ósýnilegar línur! 

Í athyglisverðri könnun á viðhorfi erlendra ferðamanna til mannvirkja í óbyggðum á Íslandi kemur í ljós, að enda þótt óafturkræf umhverfisáhrif af háspennulínum séu minni en af stíflum sem sökkva stórum landssvæðum og gróðurvinjum í aur, finnist þeim háspennulínurnar af öllum mannvirkjum spilla mest þeirri upplifun af stórbrotinni og einstæðri íslensku náttúru, sem þeir eru komnir um langan veg til að njóta.

Hvergi í Evrópu eða í Bandaríkjunum er að finna neina þá aksturleið sem jafna má við Sprengisandleið og aðrar svipaðar hálendisleiðir á Íslandi.

Með því að leggja 90 kílómetra hraða braut og háspennulínu yfir Sprengisand auk virkjana er einfaldlega verið að eyðileggja það ævintýri sem ferðamenn sækjast eftir að upplifa á þessum öræfaslóðum. 

Nær væri að nota það vegafé sem á að sóa í þessa fásinnu til þess að sinna þeim ferðamannaleiðum um allt land sem eru að grotna niður vegna skorts á viðhaldi, sem aftur stafar af því að Vegagerðin hefur verið rænd 30% af því fé sem þarf til viðhalds vegakerfisins.

Vegna fjárskorts hefur Kjalvegur verið skelfilegur undanfarin ár vegna þvottabretta, - og svo holóttur, að orðið Holuhraun kemur upp í hugann varðandi ástand vegarins.   

Sprengisandsleið er auglýst sem stórfelld stytting milli Suðvesturhornsins og helsta þéttbýlis nyrðra.

Þó mun hún ekki stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Hvernig stendur á því að menn láta svona?  Jú, stóriðjustefnan er enn í fullu gildi, sú stefna að reisa sem allra flestar virkjanir fyrir orkubruðlssýkina sem nefnist "sala á rafmagni til orkufreks iðnaðar."

Enn hefur ríkisstjórnin ekki dregið til baka einróma stuðning sinn við risaálver í Helguvík og fíknin í heldur smærri fyrirtæki í "orkufrekum iðnaði" er jafnvel vaxandi ef eitthvað er.  

 

 


mbl.is Ég sakna fortíðarinnar!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á næturlendingar í gamla daga.

Myndband Ford bílasmiðjanna um bíl, sem bjargar flugvél til lendingar með því að lýsa upp flugbrautina með bílljósum og þessi pistill er tengdur við, vekur upp minningar um svipaða aðferð sem ég notaði fyrir um 40 árum við að lenda í myrkri á flugvelli í myrkri sem ekki var með brautarljós. 

Ég fékk fjóra bíla í verkefnið, sem stilltu sér upp á fjórum hornum flugbrautarinnar og sneru allir baki við flugvélinni, en bílarnir á brautarendanum, sem flogið var að, höfðu háu ljósin á svo að þau lýstu inn eftir brautinni.

Lendingarljós flugvélarinnar voru síðan notuð þegar komið var niður undir brautina og jafnframt voru afturljós bílanna á fjarlægari brautarendanum notuð sem viðmið.  


mbl.is Ford bjargar flugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt fylgirit, sem hreyfir við okkur.

Ég hef stundum sagt í gamni opinberlega að við Íslendingar ættum að taka okkur ímyndaða 200 mílna ferðamannalandhelgi vegna þess að inn í hana myndi falla sá hluti Grænlands sem næstur er Vestfjörðum. 

Ástæðan fyrir þessum ummælum er sú að þessi hluti Grænlands, sem er næst okkur allra annarra landa, býr yfir slíkum fádæmum af náttúruundrum að það er synd hve mikið tómlæti við Íslendingar höfðum sýnt þeim.  

Fylgirit Morgunblaðsins um ferð Ragnars Axelssonar, Haraldar Sigurðssonar og fleiri um Scoresbysund, langstærsta fjarðar heims, er glæsilegt rit, stútfullt af miklum fróðleik og frábæru myndefni og er til mikils sóma fyrir þá sem að því standa.

Þar að auki snertir þessi firnastóra bráðnandi íshöll kvikuna í athæfi mannkynsins við að ausa gróðurhúsalofttegundum út í loftið og ætti að vekja okkur til umhugsunar um það að við sjálfir erum titrandi á beinunum af æsingi og gróðafíkn yfir þeirri draumsýn að geta komist í hóp oliuframleiðsluríkja heims sem standa fyrir loftslagsbreytingunum, sem geta orðið ein mesta ógn við friðog farsæld á jörðinni.

 


mbl.is Veðurfar aldanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjástykki bíður eftir marsförum framtíðarinnar.

Ferðir manna á nýjar slóðir hafa ávallt markað mestu framfarasporin i sögu mannkynsins. Dæmin eru fjölmörg og landafundir víkinganna standa okkur Íslendingum næst.

Þessar ferðir og landkönnanarferðir allra alda hafa ævinlega verið dýrar og mörgum þótt nóg um það.

En ævinlega hefur árangurinn skilað sér um síðir.  

Fyrstu ferðir manna út í geiminn og til tunglsins voru óhemju dýrar og hluti af ímyndarkapphlaupi risaveldanna auk þess sem þær gátu haft hernaðarlegt gildi.

Þótti mörgum þeim gífurlegu fjármunum ekki vel varið og á okkar tímum eru hugmyndir manna um ferðir til mars og jafnvel landnám þar litnar hornauga af mörgum. 

Samt hefur það legið fyrir í meira en áratug að landnám á mars er vel hugsanlegt og alþjóðleg samtök um ferðir þangað sendu leiðangur hingað til lands 2002 til þess að velja sér æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar í Gjástykki þar sem það bíður eftir framtíðarnotum, rétt eins og Askja hafði beðið eftir tunglförum framtíðarinnar að æfa sig þar árið 1967.  


mbl.is Mögulegt Marsfar tilbúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband