Sigur vanmetinna og vanmegna fjölmiðla.

Í Hruninu hrikti í fjölmiðlum á Íslandi og stórfelld fækkun blaðamanna og uppsagnir voru hættuleg fyrir lýðræði og réttlæti, því að getuleysi fjölmiðla er vatn á myllu þeirra sem vilja fela mál, afvegaleiða umræðu og skekkja hana, og treysta á það að mál sofni eða lognist út af. 

Það er auðséð á því sem sagt var í Kastljósi í kvöld og á öllum ferli lekamálsins í heilt ár, að aðilar málsins töldu litla hættu á ferðum þótt eitthvað kæmi sem snöggvast í fjölmiðlum um þetta mál á sínum tíma.

Sennilega hefði engu verið lekið ef ekki hefðu verið höfð uppi mótmæli við meðferð ráðuneytis og undirstofnunar þess á málefnum hælisleitenda.

Það var freisting að slá á mótmælin með hæfilegum leka og síðan myndi málið sofna.

En Gísli Freyr sagði sjálfur að hann hefði algerlega vanmetið alvöru málsins og aldrei órað fyrir því að það myndi verða jafn stórt og það varð.

Ráðherrann vanmat greinilega málið líka. Ef ég man rétt hafði hún áður lýst yfir vilja til að láta málefni hælisleitenda ganga betur en áður og kannski hefur henni þess vegnan fundist hart ef þetta mál snerist henni í óhag.

Ef hún hefði strax forðast samskipti við lögreglustjórann í Reykjavík á meðan rannsókn á hans vegum stóð og sagt sig frá dómsmálunum tímabundið eins og hún neyddist til að gera síðar og allt of seint, stæði hún hugsanlega miklu betur nú en hún gerir eftir heils árs þrautagöngu.

Allan tímann sem þetta mál hefur verið á dagskrá hafa sumir húðskammað fjölmiðlana og sagt að þeir væru að blása það upp að óþörfu. Annað hefur komið í ljós. 

Mörg af stórum hneykslismálum erlendis byrjuðu næsta smátt en urðu margfalt stærri og alvarlegri eftir því sem á leið þegar fjölmiðlar köfuðu betur ofan í þau og komu aðilum málanna í bobba.

Sem dæmi má nefna mál bresku vændiskonunnar Christine Keeler 1963, sem virtist næsta smátt í byrjun en vatt upp á sig þangað til Profumo ráðherra varð að segja af sér.

Málið varð sérlega erfitt fyrir ríkissstjórnina og Íhaldsflokkinn, tók toll af heilsu Harold Macmillan, forsætisráðherra og skók flokkinn svo mjög að Verkamannaflokksstjórn Harold Wilson tók við völdum árið eftir. 

Enn betra dæmi er næsta lítilfjörlegt innbrot í stöðvar Demókrataflokksins í Watergatebyggingunni í Washington 17. júní 1972, sem fyrir dugnað tveggja hæfra blaðamanna var haldið lifandi þangað til það fór að vinda svo upp á sig, einkum vegna lyga, dómgreindarleysis og óheilinda Nixons forseta, að hann varð á endanum að segja af sér embætti.   


mbl.is Vildi ekki lifa með því að segja ósatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar umræðu um eina helstu orsök svifryks.

Rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að negldir hjólbarðar eru helsta orsök svifryks á götum borgarinnar. En nánast aldrei heyrist minnst á aðra orsök, sem er hið arfa lélega efni, sem notað er í slitlag borgarinnar og endist margfalt minna en kvarsið, sem notað er í nágrannalöndunum. 

Kvarsið er að sönnu miklu dýrara efni en grágrýtið, sem við notum, en ef allir reikningarnir væru gerðir upp, myndi lokaniðurstaðan verða sú að notkun þess er dýrari þegar allt er talið með, margfaldur kostnaður við viðhald gatnanna og hættulegar vatnsrásir, sem myndast í þeim vegna þess hvað íslenska blandan slitnar hratt. 

Hið mikla slit, tjöruelgur, svifryk og vatnsrásir eykur tíðni slysa og óhappa, sem eru firna dýr fyrir þjóðfélagið.

Það hlýtur að vera kominn tími á alvöru umræðu um þessi mál.

Ólafur Kr.Guðmundsson, sem með árunum hefur í starfi sínu öðlast einna mesta þekkingu Íslendinga á þessum málum hefur bent á þetta árum saman án þess að menn vilji hlusta.

Það er fyrir löngu kominn tími til að hlusta á rök hans.  


mbl.is Svifryk yfir heilsuverndarmörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætla menn að flytja 400 lækna frá Svíþjóð hingað heim?

Ef rétt er að 400 íslenskir læknar vinni í Svíþjóð er augljóst að allar upphrópanir sem maður les nú á netinu eru gagnslausar um að læknarnir hér heima séu óalandi og óferjandi hálauna-frekju-stétt sem eigi að skikka í krafti Hippokratesareiðsins til að vinna hér heima og sætta sig við hrun spítalanna og 3-4% launahækkun.

Enda myndi það ekki duga, því að þeir læknar sem eru hér heima eldast og detta úr skaftinu hver af öðrum. Nýliðun er hætt í stéttinni og ný þekking og færni á undanhaldi með öldrun lækna og fækkun þeirra hér heima. Engin leið er að svipta lækna frelsi til að fara úr landi eða að láta handtaka þá erlendis og flytja heim.

Ef óraunsæið sem ræður ríkjum í heilbrigðismálunum fær að ráða svona áfram mun myndast hér á undra skömmum tíma þjóðfélag þess ójafnaðar að aðeins þeir efnameiri geti veitt sér þann munað að fara til útlanda í stórar aðgerðir eða borga þær margföldu verði hér heima hjá einkareknum lækningafyrirtækjum.

Alþýða manna mun verða sett í svipaða aðstöðu og hinir fátæku í Bandaríkjunum, en það land virðast vera draumaríki ótrúlegra margra Íslendinga hvað ójöfnuð og skort á almennri velferð snertir.

Þeir sjást nú fagna sigri Republikana í þingkosningu vestra, sem geti hrundið fyrirætlunum Obama um að fara nokkur hænufet í átt til heilbrigðiskerfis Norðurlandanna og Evrópu.    


mbl.is Páll: „Nú er stund milli stríða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband