Rafvæðing bílaflotans verður ekki stöðvuð.

Eftir að hafa setið tvær ráðstefnur með skömmu millibili um orkumál og rafbíla, þá síðari í dag, hef ég styrkst í þeirri trú, að enda þótt rafvæðing bíla gangi hægt, sé þar í gangi þróun sem muni ekki stöðvast úr þessu. 

Þetta sést vel á stórauknu framboði á slíkum bílum hjá helstu bílaframleiðendum heims, sem kom vel fram á ráðstefu Verkfræðingafélagains í dag.

Nefna má nokkrar ástæður, fyrst framþróun í orkugjöfum, sem komu fram á fyrri ráðstefnunni: 

...Kjarnasamrunaorka kann að verða að veruleika innan fárra áratuga.

...Mjög athyglisverðar jákvæðar rannsóknir hafa gerðar á lágorku kjarnahvörfum.

...Ný gerð af sólarorkupanelum gerir mögulega 50% nýtingu sólarorkunnar í stað 7-15% áður og      ódýrar linsur koma til sögunnar í stað silikon. 

...Hvað rafbílana sjálfa varðar má nefna að nýjar gerðir af rafhlöðum eru að birtast,          endingarbetri, léttari, umhverfisvænni, hraðhlaðanlegar og svo mikið orkuríkari en hingað    til, að orkunýtingin verði tvisvar til þrisvar sinnum betri en nú er.

Þetta síðasta er lykilatriði, því að helsti dragbítur rafbíla hefur verið of lítið drægi, í raun aðeins á bilinu 80-160 kílómetrar, og rafmagnslaus bifreið, sem bifast ekki, er auðvitað ekki lengur bifreið, heldur ígildi bilaðs bíls.

Undantekning er Tesla S, sem er hins vegar afar dýr bíll og erfitt að fá hann.

Á ráðstefnunni í dag kom margt athyglisvert fram. Verðið á rafbílum er á niðurleið. Sá ódýrasti og minnsti, Renault Twizy, mest seldi rafbíll í Evrópu, kostar aðeins helming af verði þess næst ódýrasta, sem er Renault Zoe.

Fyrir utan þessa þróun kemur nú hver bíllinn fram af öðrum, þar sem farin er blönduð leið, þannig að bílinn er í grunninn rafknúinn og mest af akstri hans er rafknúinn, en síðan er hægt að nýta bensínvél í bílnum ef drægið þrýtur á lengri leiðum, hægt að hlaða rafhlöðurnar eins og á rafbíl með því að setja í samband, ýmist heima eða á hraðhleðslustöðvum.

Þessir tengil-tvinnbílar eru hins vegar flóknari smíð en rafbílar eða bensín/dísilbílar og þar af leiðandi dýrir, og auk þess hafa rafbílar mun einfaldari vélbúnað og drifbúnað en bílar með bensín-, dísil- eða metanhreyfli.

Þegar allar komandi framfarir varðandi miklu betri orkunýtingu og drægi rafbílanna og miklu hraðari, þægilegri og algengari hleðslu, verða að veruleika, kemur að því að rafbíllinn fær þann byr undir vængi, sem hefur skort fram að þessu.

Í Noregi hefur sala rafbíla stóraukist upp í 13% af sölu nýrra bíla, en Norðmenn eru reyndar langt á undan öðrum þjóðum á þessu sviði.

Hér á landi eru rafbílar enn innan við hálft prósent af bílaflotanum.     

 


mbl.is Enn stöðvast vindstöðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstök staða Styrmis Gunnarssonar.

Staða Styrmis Gunnarssonar í íslenskum stjórnmálum og í íslensku samfélagi hefur verið einstök alla tíð. Leitun er að manni, sem hefur verið eins "innvígður og innmúraður" eins og hann orðaði það sjálfur um tengsl sín við forystu Sjálfstæðisflokksins en jafnframt í góðum samböndum við fólk úr vinstri flokkunum. 

Strax á unglingsaldri sköpuðust tengsl hans við Finnboga Rút Valdimarsson, sem rofnuðu ekki árum saman og manni finnst að þau tengsl og önnur inn í raðir sósíalista hafi um margt haft áhrif á sýn hans á íslensk stjórnmál á þann veg að hann hefur haft meiri skilning á íslenskri verkalýðsbaráttu og réttindamálum alþýðu en títt er um "innmúraða og innvígða" Sjálfstæðismenn. 

Réttlætiskennd Styrmis er sterk eins og kom vel fram í andófi hans gegn göllum kvótakerfisins um árabil. 

Hann og Matthías Jóhannessen mynduðu öflugasta og langlífasta tvíeyki ritstjóra og leiðandi afls í fjölmiðlun sem uppi hefur verið hér á landi.

Þeir sem fengu að njóta leiðsagnar og handleiðslu þeirra á blómaskeiði Morgunblaðsins fá glampa í augun við að minnast þess.

Margt fleira mætti tína til um einstaka stöðu Styrmis Gunnarssonar, allt frá barnsaldri í Laugarnesskólanum þegar hann var í frægasta bekk allra tíma í barnaskóla á Íslandi þar sem meðal annars voru með honum Halldór Blöndal, Jón Baldvin Hannibalsson, Brynja Benediktsdóttir, Ragnar Arnalds og Magnús Jónsson.  


mbl.is Leyniskýrslur um „komma“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband