Þinginu hefur mistekist í 70 ár að efna loforð sitt.

Starfið í stjórnlagaráði kom mér á óvart vegna þess hve jákvætt og gefandi það var, þvert ofan í aðra upplifun mína og afspurn af stjórnmálastarfi. 

Allir fulltrúarnir í ráðinu urðu mér afar kærir, ekki síst Eiríkur Bergmann. Samt komum við úr öllum áttum úr samfélaginu með mikið litróf skoðana. Skiptar skoðanir voru um hlutverk forsetans, þingsins og vægi beins lýðræðis og Eiríkur var í hópi þeirra sem vildi að fulltrúalýðræðið og þar með Alþingi væri sterkt. 

Það er fyllilega gilt sjónarmið en ég held að hann hafi ofmetið möguleika þingsins til að leysa úr öllum hlutum og ofmeti það enn, ef hann telur að samráð við þingið hefði leyst málið árið 2011.

Stjórnlagaráði tókst að ljúka vinnu sinni einróma á fjórum mánuðum og ég tel að drögin að stjórnarskránni muni standast dóm framtíðarinnar.

Hins vegar velktist málið fyrir þinginu í 20 mánuði eftir það enda hver höndin þar upp á móti annarri eins og svo sorglega oft.

Málið fór ofan í skotgrafir í þinginu og andstæðingar frumvarpsins þar töfðu fyrir afgreiðslu málsins á alla lund, til dæmis með því að raða inn endalaust umsaganaraðilum sem þyrftu að koma á fund nefndarinnar og trufla einlægan vilja formanns nefndarinnar til að afgreiða málið.

Staðreynd er að þingnefndin hafnaði beiðni stjórnlagaráðs í júlí 2011 um að fá svonefnda Feneyjanefnd og fleiri erlenda sérfræðinga til að leggja þá mat á drögin að frumvarpinu svo að hægt væri að skoða það sem best þá strax og nýta 20 mánuðina sem framundan voru.

Þegar við, nokkrir stjórnlagaráðsfulltrúar, vorum kallaðir á fund nefndarinnar í mars 2012, sjö mánuðum eftir að drögin voru tilbúin, fengum við sjokk við það að uppgötva, að nær ekkert hafði gerst í málinu allan þennan tíma.  

Í stað þess var þetta gert allt of seint þegar þingið var búið að klúðra málinu og það var ekki í fyrsta sinn og ekki það síðasta sem Alþingi Íslendinga hefur koksað á því að efna loforð talsmanna allra flokka á Alþingi 1943 um að setja landinu nýja stjórnarskrá strax eftir lýðveldisstofnunina.  

Fyrsta stjórnarskrárnefnd eftir 1944 komst ekkert áleiðis, þrátt fyrir að þáverandi forseti Íslands brýndi hana í áramótaræðu 1949 að efna loforðið við þjóðina.

Stjórnarskrárnefnd þingsins á fyrri hluta sjötta áratugarins undir formennsku Bjarna Benediktssonar var með nokkrar góðar tillögur, en allt strandaði aftur.

Nokkrum sinnum síðar voru stofnaðar nefndir, til dæmis 1983 undir forsæti Gunnars Thoroddsens, enda höfðu bæði hann og Bjarni Ben mikinn áhuga á því að sinna þessu máli. Í nefnd Gunnars voru reifuð ýmis umbótamál en allt kom fyrir ekki.

Klúður þingsins 2011-2013 og nýjasta klúðrið, þegar formaður núverandi stjórnarskrárnefndar hefur sagt sig frá málinu, er það enn eitt dæmið um að þinginu virðist vera gersamlega um megn að efna hið 70 ára gamla loforð landfeðranna og í því ljósi fæ ég ekki séð að samráð við þingið hefði gert neitt 2011 nema að skemma fyrir þeim góða jákvæða vinnuanda sem ríkti í stjórnlagaráði.  


mbl.is Stjórnlagaráðið gerði mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær hliðar á þessum peningi.

Tvær hliðar eru á þeim peningi sem nú er veifað nánast í viku hverri á áberandi hátt að okkur Íslendingum.

Annars vegar viðfangsefni okkar sem eru fólgin í jákvæðri þátttöku okkar og áhrif á stefnumótun varðandi stórvaxandi áhuga forysturíkja í efnahagslífi veraldar á málefnum Norðurslóða, sem getur fært okkur heillandi tækifæri til rannsókna og starfa vegna nýs ástands á Norðurslóðum auk mikilla umsvif og ábata fyrir okkur.

Hin hlið peningsins er dekkri og lýtur að umhverfisáhrifum af vinnslu olíu, gass og ýmis konar jarðefna auk valdatafls og hernaðarlegs brölts stórveldanna.

Dekksta hliðin lýtur að þeirri samstöðu sem hingað til hefur ríkt hér á landi um dýrð þess og dásemd að við skipum okkur í hóp olíuvinnsluþjóða og stefnum að því að fara út í risavaxið olíuævintýri á Drekasvæðinu og umbylta atvinnulífi og mannlífi á Norðausturlandi með byggingu stórra hafna og gríðarlegra mannvirkja í landi með þúsundir starfa sem lýtur að þjónustu og vinnu í sambandi við alla þessa dýrð.

Þetta yrði starfsemi, sem krefðist svo mikil fjölda manna með sérþekkingu, að mikill innflutningur á vinnuafli yrði óhjákvæmilegur.

Er skondið að sumir þeir sem mest mæla fyrir olíuævintýrinu eru sömu mennirnir og bölsótast mest út af innflutningi á útlendingum.  

Á fróðlegum alhliða fræðslufundi um þessi mál í dag komu öllu helstu atriði, jákvæð og neikvæð, í sambandi við þessa stefnu vel í ljós, bæði gríðarlegt umfang, áhætta og erfiðleikar, sem vinna þarf bug á, en ekki síður hitt, hve tæpt þetta verkefni getur orðið hvað varðar ábata og hve tiltölulega stuttan tíma þessi uppgangur getur staðið, aðeins 20-30 ár.

Að þeim tíma liðnum sætum við uppi með hin hrikalegu stóru mannvirki sem reist voru fyrir umsvif sem rutt hefðu flestu öðru í burtu á meðan á olíuárunum stóð.

Verst yrði þó að þrátt fyrir allt skrum okkar um "forystu í umhverfismálum og nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkulinda" myndum við í staðinn vera í forystu þeirra sem vilja sem mestan skammtímagróða við að auka notkun jarðefnaeldsneytis, sem nú ógnar mörgu á Norðurslóðum með gróðurhúsaáhrifum sínum og er enn meiri ógn við fátækar þjóðir í heitu löndunum.  

Hin auknu umsvif verða drifin áfram að langmestu leyti á vinnslu takmarkðra auðlinda í formi olíu, gass og ýmissa málma, sem alls ekki getur fallið undir sjálfbæra þróun.  

      


mbl.is Norðurslóðir í nýrri heimsmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband