Af hverju ekki útskiptanlegir rafgeymar?

Þegar rafbílsútgáfa af Peugeot 106 var kynntur hér á landi fyrir 17 árum var tæknin skammt á veg komin miðað við það sem núna er að gerast. Bíllinn var mjög þungur og drægnin eða drægið lítið, en það atriði var augljóslega alger dragbítur á gengi svona bíla.  

Þá strax kom mér það í hug að framtíðarrafbilarnir yrðu þannig hannaðir, að þegar maður kæmi inn á hleðslustöð, sem væri hliðstæð við bensínstöð fyrir bíla, sem knúnir væru jarðefnaeldsneyti, tæki afgreiðslumaður rafgeymana úr bílnum og setti aðra hlaðna geyma í staðinn. 

Jafnvel væri hönnunin þannig að ökumaðurinn gæti sjálfur skipt um geyma með þar til hannaðri tækni, líkt og á sjálfsafgreiðsludælum núverandi bensínstöðva.

 

Kosturinn við þetta væri auðsjáanlegur: Það væri margfalt fljótlegra að skipta geymunum út heldur en að bíða eftir því að hlaða tóma rafgeyma bílsin, jafnvel þótt um svonefnda hraðhleðslu yrði að ræða.

Einhverra hluta vegna hefur þessi hugmynd um útskiptanlega geyma ekki birst fyrr en nú, og þá í Dakarrallinu.

Afl rafvéla miðað við brunavélar er feykinóg nú orðið. Þannig er kraftmesti Tesla bíllinn tæplega 600 hestöfl og vegna þess að togið byrjar frá strax á fyrstu snúningum, nýtist það mun betur en í brunavélum.   

Rafbílarnir koma, á því er varla nokkur vafi. Ný tækni við efnið í rafgeymum sem kemur í stað lithiums og ný tækni við hraðhleðslu og hagkvæmni vegna vaxandi fjöldframleiðslu mun gera rafbíla sérlega áhugaverða fyrir okkur Íslendinga. 

Ef 17 ára gamall draumur minn um útskiptanlega geyma gæti ræst yrði stærstu tæknilegu hindruninni fyrir rafbílum rutt úr vegi. 


mbl.is Rafbíll í Dakarrallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að giska á magn eiturefnanna í Skaftáreldunum?

Gosið í Holuhrauni leiðir hugann að Skaftáreldunum 1783 sem drápu 70% búfjár, 25% landsmanna og milljónir manna í þremur heimsálfum. 

Þótt erfitt sé um vik við samanburð á þeim ósköpum og eldgosinu í Holuhrauni nú held ég að það væri fyrirhafnarinnar virði að vísindamenn reyndu að finna út hve mikið magn af eiturefnum fóru þá út í loftið. 

Vitað er að hraunið var átta sinnum stærra að flatarmáli og magnið eða rúmmálið 16 sinnum meira. Fróðlegt gæti verið að giska út frá því á magn eiturefnanna, sem þá fóru út í andrúmsloftið.   


mbl.is Áhrif af gosinu geta orðið hrikaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stjórnmál snúast um traust."

"Stjórnmál snúast um traust." Þetta svar gaf þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir rúmum áratug þegar hann var spurður um hvort einn af þingmönnum flokksins ætti að segja af sér þingmennsku vegna þess að hann væri í slæmum málum. Þingmaðurinn sagði af sér. 

Sama gildir nú. Það heyrist sagt að í gangi sé "ljótur pólitískur leikur" og "herferð og einelti" vondra fjölmiðla.

Þeir sem þannig tala líta fram hjá því að enda þótt margir héldu að lekamálinu væri lokið við dómsuppkvaðningu í því nú á dögunum héldu aðilar málsins áfram að bæta gráu ofan á svart með því að halda áfram að verða margsaga og með undanbrögð um málið og nýjar upplýsingar, sem komu fram í því.

Nú hefur núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu bæst við sem málsaðili með veiklulegan framburð og fyrrum aðstoðarmaður ráðherra heldur áfram að vera margsaga í því.

Ráðherrann er sá aðili sem réði tvo þessa embætismenn.

Og í miðjum fersli málsins sagði lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins af sér embætti og fékk annað starf og fékk annað starf utan ráðuneytisins  

 Þetta mál hefði aldrei orðið að því sem það er orðið ef aðilar þess hefðu komið hreint fram í upphafi og upplýst það allt og hreinsað þá þegar.

Og það hefði heldur ekki haldið áfram að malla,ef samviskusamir og hugrakkir blaðamenn hefðu látið bugast undan þrýstingi um að hætta að fjalla um það.

Að því leyti til minnir þetta mál á margfalt stærra mál í Bandaríkjunum 1972-73, sem varð svo stórt sem raun bar vitni af því yfirhilming, undanbrögð og margsaga aðilar þess ollu því í lokum að forseti landsins varð að segja af sér.

Það mál hefði annars aldrei orðið annað en smáfrétt. 

Nú hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir sagt af sér ráðherradómi og það minnir okkur á það að hún er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn hér á landi í sögunnar rás, sem hefði betur gert slíkt. 

Allt of oft hafa pólitíkusar komist upp með það að sitja sem fastast. 

Hún sagði sjálf í viðtali að sjálfsagt hefði hún gert mörg mistök í þessu máli og með afsögn sinni nú hefur hún ákveðið að axla ábyrgð af þessum mistökum.  

Öll gerum við mistök og getum verið breysk. "Dæmið ekki því að þér munuð sjálfir dæmdir verða" sagði meistarinn frá Nazaret. Þess vegna er afsögn Hönnu Birnu ekki niðurlæging fyrir hana heldur henni til sóma, svo einkennilega sem það kann að hljóma í eyrum dómharðra manna. 


mbl.is Hanna Birna hættir sem ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrun í sextíu ár útaf sömu kynslóðinni.

Hér á landi hafa menn alla tíð verið afar seinir til að átta sig á því hve mikil áhrif samsetning íbúanna eftir aldri hefur á þjóðlíf og efnahag. 

Á uppgangsárum stríðsáranna stórfjölgaði barnsfæðingum eftir mun minni fjölgun á kreppuárunum milli 1930 og 1940. 

Tæpum tíu árum síðar virtist það koma mönnum mjög á óvart að skyndilega glímdu grunnskólar landsins við mikinn húsnæðisvanda. Á tímabili voru til dæmis tæplega 1852 nemendur í Laugarnesskólanum. 

Nokkrum árum eftir það urðu menn enn meira hissa á óvæntri stórfjölgun nemenda í framhaldsskólum. Í M.R. var til dæmis kennt bæði fyrir hádegi og eftir hádegi til þess að anna stórfjölgun, sem samt var reynt að hamla gegn með því að sía úr þeim stóraukna fjölda, sem kom í skólann úr landsprófi. 

Svona gekk þetta áfram því að ekki liðu mörg ár þangað til mikla undrun vakti hin óvænta stórfjölgun í háskólanámi sem virtist koma mönnum algerlega á óvart og í opna skjöldu. 

"Barnabólan" (baby boom) á stríðsárunum er enn ekki hætt að hafa áhrif þótt allir virðist vera svo undrandi á stórvaxandi útgjöldum til heilbrigðismála. 

Barnabólubörnin eru nefnilega enn á ferð og eru nú að flykkjast á eftirlaun og í alls konar aðgerðir á sjúkrahúsum sem leiða af öldrun. 

Og enn einu sinni eru menn ekki aðeins hissa, heldur viðast koma alveg af fjöllum. 

Dæmi um það er þegar fjármálaráðherra segir að aldrei hafi jafnmiklu fé verið varið til heilbrigðismála og nú og að þess vegna þurfi ekki frekari fjárútlát í þann málaflokk.

Þetta sýnir að hann er alveg blindur á það að stórfjölgun aldraðra veldur því að miklu meiri fjármuni þarf í heilbrigðisþjónustuna en áður, bara vegna þessarar fjölgunar. 

Satt að segja er ástæða til að verða hissa á því hve menn eru enn hissa á afleiðingum barnabólunnar í stríðinu og svipaðrar fjölgunar síðar á þeim tímabilum þegar vel hefur árað síðar í þjóðarbúskapnum. 

Á sama tíma hefur fæðingum fækkað síðustu áratugi þannig að sífellt verða þeir færri, sem eru á besta aldri og verða að vinna fyrir útgjöldum vegna stórfjölgunar þeirra eldri. 

Þetta virðist alveg fara fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar. 

Með sama áframhaldi þarf varla að efast um það að menn eigi eftir að verða hissa í enn eitt sinn hér á landi þegar stríðsárabörnin fara að valda stórauknum útgjöldum vegna fjölgunar dauðsfalla og aukinnar þörf á rými í kirkjugörðum. 


mbl.is Hin óhugnanlega mannfjöldaþróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband