Tveir möguleikar og hvorugur góður?

Sú nýja staða, sem mælingar sýna að er í Bárðarbungu vekur upp margar spurningar sem vísindamenn hljóta að þurfa að svara. 

Sagt hefur verið að hið mikla magn af gasi, sem kemur upp í gosinu í Holuhrauni, sé vegna þess að uppruni kvikunnar sé svo djúpt í jörðu. 

Einnig hefur verið sagt að kvikan komi suðvestan úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu. 

Nú sýna alveg nýjar mælingar að aðeins séu einn til þrír kílómetrar niður á kvikuna og því meiri líkur en áður hefur verið talið á því að gos hefjist þar.

Fróðlegt verður að fá nýtt mat á ástandið eins og Ármann Höskuldson hefur raunar kallað eftir.

Þar sem enn skelfur undir bungunni og því hefur verið varpað upp að gos geti varað lengi, vaknar spurningin um það hvor möguleikinn sé skárri, áframhaldandi gos í Holuhrauni eða nýtt gos í Bárðarbungu.

Langvinnt gos í Holuhrauni hefur valdið vísindamönnum áhyggjum vegna afleiðinga langvarandi dreifingar á gasi. Birt er ný mynd af gosinu þar á facebook síðu minni.

Gos í Bárðarbungu er líklegt til að verða öskugos ef kvikan kemst upp í gegnum 800 metra þykkan ísinn, og spurning, hvort þaðan komi verri gosefni en í Holuhrauni.

Ef kvikuhólfið undir Bárðarbungu er á eins til þriggja kílómetra dýpi en gasútstreymið í Holuhrauni er samt talið merki um kviku af miklu meira dýpi, er það þá vegna þess að kvikuhólfið sé mun stærra en áður hefur verið talað um, og nái allt frá sjö kílómetra dýpi langleiðina upp undir yfirborðið? 

Og þar með geti stórgos þarna orðið enn stærra og skæðara en hið rólega gos í Holuhrauni, sem spýr út meira en tíu sinnum minna af hrauni á hverri viku heldur en Lakagígar gerðu 1783? 


mbl.is Skjálfti að stærð 5,1 í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en áratugs öfugþróun.

 Fyrir um 15 árum hófst hæg en stöðug þróun varðandi upplýsingagjöf á Íslandi, sem ég vil kalla öfugþróun. Hún fólst í því að stór fyrirtæki, stofnanir og samtök fóru að leggja aukna áherslu á almannatengsl sín og sóttust eftir sem öflugustum og reyndustu fjölmiðlamönnum til að taka það hlutverk að sér. 

Þessi þróun hefur staðið alla tíð síðan og valdið skaðlegum atgerfisflótta frá fjölmiðlunum, af því að í boði hafa verið miklu hærri laun utan þeirra. 

Hættan hefur líka falist í öðru atriði sem mörgum yfirsést.

Fjölmiðlamenn, sem hafa sóst eftir góðum og vel launuðum stöðum, hafa á stundum séð hagræði í því, þó ekki sé nema ómeðvitað, að setja sig vel inn í einstaka málaflokka, þar sem miklir hagsmunir utan fjölmiðlanna eru fólgnir, og þar með aukið líkurnar á því að fá góð tilboð á þessum sérsviðum sínum.

Í ofangreindu ástandi er falin mikin hætta fyrir frjálsa fjölmiðlun og þar með lýðræðið í landinu.

Af þeim sökum er bág staða fjölmiðla og aðför gegn þeim eina þeirra, sem er ekki í eigu einkaaðila, mun stærra mál en sýnist vera í fljótu bragði.  


mbl.is Að segja en ekki þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir sáu og sjá enn ekkert nema stóriðju?

Ríkisstjórn Íslands hefur enn ekki afturkallað einróma yfirlýsingu sína um að risaálver skuli rísa í Helguvík. "Orkufrekur iðnaður" er sama trúaratriðið hjá þeim og það var og hefur verið í hálfa öld. 

Þeir, sem nú væna þá um svartsýni, sem hafa meiri metnað fyrir hönd þjóðarinnar en að fórna einstæðri náttúru hennar fyrir bruðl með orku landsins og sölu hennar á útsöluverði, sáu aldrei neitt annað en stóriðju á vegferð sinni með þjóðina fram af hengiflugi Hrunsins og virðast raunar enn vera með stóriðjuna í forgangi. 

Þeir töluðu árum saman niður möguleika í ferðaþjónustu og skapandi greinum með hæðnisorðum eins og "eitthvað annaða", "fjallagrasatínsla", "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík", "fólk sem er á móti framförum og atvinnuuppbyggingu og vill að við förum aftur inn í torfkofana."

Enda þótt allt þetta svartsýnistal um "eitthvað annað" virki nú hjákátlegt blasir við að núverandi ráðamenn halda enn fast í stóriðjutrú sína og draga stórlega saman framlög til skapandi greina eins og kvikmyndagerðar. 

Þeir eru við svipað heygarðshorn varðandi framhaldsskólana og menntamál og svelta Ríkisútvarpið í viðjum afleiðinga af fyrri gerðum sínum varðandi hinn risastóra myllustein sem Útvarpshúsið er og því að ræna stórum hluta af útvarpsgjaldinu frá RUV. 

Þeir eru alveg blindir á raunveruleikann í heilbrigðismálunum varðandi sístækkandi hóp aldraðra í þjóðfélaginu á sama tíma sem hlutfall hinna yngri fer sífellt minnkandi. 

Þegar bent er á hvernig það þurfi að takast af raunsæi og djörfung á við viðfangsefnin er bara slegið upp orðum eins og "illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal". 

Þegar ástand og hegðun málsaðila í lekamálinu blasir við er talað um að þjóðin þurfi að læra af því, - ekki stjórnmálamennirnir. 

Nei, þeir þurfa ekkert að læra, því að "fámennur hópur" hefur komist upp með illmælgi og sleggjudóma." Væntanlega er dómurinn yfir aðstoðarmanni innanríkisráðherra sleggjudómur?


mbl.is Brengluð sýn náð athyglinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband