Hvað um íslensku ævintýrin?

Grænlendingar eru "komnir aftur niður á jörðina" segir í frétt en þeir sáu í hillingum stórkostlegar framkvæmdir vegna námavinnslu, sem nú hafa gufað upp. 

En þeir eru bara eitt dæmið af mörgum þar sem menn rjúka upp til handa og fóta í anda gullæðisins sem greip Bandaríkjamenn og kennt er við Klondyke. 

Í frétt einni í sjónvarpi fyrir þremur árum var viðtal við bóndann á Hvestu við Arnarfjörð. 

Hann lýsti því að hann hefði verið með marga möguleika í huga í sambandi við atvinnumöguleika og ný tækifæri, en væri búinn að fresta þeim öllum og hefði ákveðið að bíða frekar eftir olíuhreinsistöðinni risavöxnu, sem hlyti að fara að koma. 

Hér á landi hefur hálgert olíuævintýrisæði runnið á menn. Ekki var fyrr búið að ympra á málinu en menn fóru að eyða stórfé í að skipuleggja og undirbúa stórar olíuhafnir á Norðausturlandi, meira að segja í eyðifirðinum Loðmundarfirði með tilheyrandi jarðgöngum yfir til Fljótsdalshéraðs og hraðbraut nánast beina reglustikuleið til Reykjavíkur yfir hálendi og fjöll. 

Nú þegar er búið að slá olíuævintýrinu föstu með því að gera bindandi samning við útlend fyrirtæki um rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu án þess að nokkur bitastæð eða upplýst umræða hafi farið fram um það. 

Kostnaður við vinnslu á því dýpi sem olían kann að verða fimmfalt meiri en kostnaðurinn af vinnslu olíu í Suðurlöndum, svo að olíuverðið myndi varla duga fyrir kostnaðinum. 

Búið er að negla það niður að Íslendingar gerist olíuvinnsluþjóð, klári olíu Drekasvæðisins á nokkrum áratugum og leggi fram hámarks skerf sinn til mengunar lofthjúpsins og loftslagsbreytinga á sama tíma og íslensku þjóðinni veitt alþjóðleg viðurkenning fyrir sjálfbæra þróun, afrek í umhverfismálum og nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa. 

Og þetta gerist á sama tíma og þriðjungur af raforkuframleiðslu landsins fæst með rányrkju á jarðvarma og með mest mengandi fyrirtæki landsins á Hellisheiði, sem mengar meira en nokkurt álver.  

Umskipunarhafnaævintýri er þegar byrjað að heilla menn svo mjög að þeir fá ofbirtu í augun. 

Talað er um heimshöfn í Finnafirði á borð við Bremerhaven. Liggja þó siglingarleiðirnar um norðvesturleiðina og norðausturleiðina hvorugar um Ísland, heldur norður með vesturströnd Grænlands og norður með strönd Noregs og við blasir að einasta svæðið á Íslandi, sem gæti skapað nauðsynlegt bakland "heimshafnar" er við sunnanverðan Faxaflóa.  

 


mbl.is Komnir aftur niður á jörðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar tölur í hreingerningamálinu.

Nokkrar tölur hafa verið nefndar í hreingerningamálinu á Landsspítalanum. 

1. Þær kosta 100 milljónir á ári núna eftir að verkið var boðið út og 12 Pólverjar vinna það. 

2. Þær kostuðu 67 milljónir áður en verkið var boðið út og 35 Íslendingar unnu það. 

Sagt var í frétt um málið að verkefnið hefði verið aukið eitthvað þegar skipt var um form á vinnunni við það. Ekki var þó svo að skilja að það hafi verið aukið um 50%, jafnmikið og kostnaðaraukinn varð. Fróðlegt væri samt að fá að vita hve mikil þessi aukning var. 

Eftir stendur að 12 Pólverjar vinna verk sem 35 Íslendingar unnu áður, og að verkefnið hafi samt verið aukið. 

Gagnlegt gæti verið að kafa betur ofan í þetta þríliðudæmi og tryggja að allar forsendurnar séu réttar, því að í fljótu bragði virðist sem verktakafyrirtækið græði drjúgum á því að píska útlendingum út og brjóta jafnvel á þeim lög. 

Kannski finnst mönnum það hið besta mál að íslenskir eigendur verktakafyrirtækja eigi möguleika á því að efnast vel og leggja sitt af mörkum í aukna neyslu og hagvöxt sem fylgir gróða með því að innleiða hálfgert þrælahald útlendinga. 

Að hér aukist stéttaskipting í nýlendustíl þar sem herraþjóðin efnist vel en undirþjóðinni sé þrælað út á lægsta tekjuþrepi eða jafnvel fyrir neðan það.

Vissulega hafa útboð og einkavæðing ákveðna kosti, hrista upp í málum og auka á útsjónarsemi til hagræðingar og betri nýtingar vinnuafls og peninga þar sem áður var komin ákveðin stöðnun sem oft fylgir opinberum rekstri.

En á móti kemur, að mörg dæmi eru um það að eftirliti og eftirfylgni hin opinbera með verktökunum er afar víða áfátt enda skorið við nögl sér með það.

Ég hef áður nefnt dæmi um það eins og til dæmis við gatnaframkvæmdir í Reykjavík þar sem verktakar hafa komist upp með að brjóta skilmála og við framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli sem urðu ónýtar með margra tuga milljóna kostnað fyrir skattgreiðendur.      

 


mbl.is Milljarður í Landspítalann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg afleiðing af skotvopnadýrkun Bandaríkjamanna.

Hvíti maðurinn ruddi sér braut og valtaði yfir rauða menn í tveimur heimsálfum og þetta vald spratt fram úr byssuhlaupunum sem bogar og örvar indíánanna máttu sín litils gegn. 

Sé kýrin heilagt dýr á Indlandi og sauðkindin jafnvel enn hér á landi er byssan dýrkuð sem aldrei fyrr vestra. Bandaríkjamenn bera fyrir sig að í "frontier"landi, landnámssvæði, sé almenn byssueign eðlileg. 

Það eru falsrök, því að hvorki Kanadamenn né Ástralíumenn búa við neitt viðlíka böl af völdum mannvíga með skotvopnum og Bandaríkjamenn. 

Ungi drengurinn sem tók upp leikfangabyssuna gæti hafa orðið fórnarlamb þeirrar takamarkalausu dýrkunar á byssunni sem er innrætt strax í frumbernsku. Það leit kannski út í hans augum eins og skemmtilegur byssuleikur þegar lögreglumaður skipaði honum að setja hendur upp fyrir höfuð.

Lögreglumaðurinn tilheyrði stétt manna þar sem ítrasta tortryggni var nauðsynleg til að vera ekki skotinn af einhverjum sem beitti lymskulegu bragði.

Báðir voru fórnarlömb óeðlilegs ástand í þjóðfélagi þeirra, ef marka má fréttir af því að lögreglumaðurinn sé niðurbrotinn maður.  

Á mörgum sviðum nútímalífs bæði í Bandaríkjunum og annars staðar virðist sem ákveðin valdaöfl hafi kverkatak á þjóðfélögum með því að nýta sér yfirburði fjármagns og aðstöðu. 

Þeir sem hagnast á vopnasölunni og eigendur vopnanna vestra koma ævinlega í veg fyrir breytingar og á öðrum sviðum má víða sjá víða um lönd hvernig yfirburðir fjármagns, valda og aðstöðu standa í vegi fyrir umbótum á ýmsum sviðum. 


mbl.is Varði framgöngu lögreglumannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband