Slæm þjónusta á of mörgum bensínstöðvum.

Í dag hefur verið þriggja til fjögurra stiga hiti í Reykjavík en samt hafa þau þvottaplon í Reykjavík sem ég hef komið á, einmitt þegar rík ástæða er til að þvo brennisteinssambönd af bílum, verið lokuð eins og sjá má af tengdri frétt á mbl.is. 

Súrt regn hefur slæm áhrif á bílalakk og þar að auki sat saltpækill á bílum eftir norðanrok í fyrradag. 

Ef einhver svarar því til að önnur bílaplön hafi verið opin en þau sem ég athugaði er því til að svara það er óviðunandi að bílaeigendur þurfi að leita út um allt að opnum bílaplönum án þess að hafa hugmynd um hvort sú leit verði árangurslaus. 


mbl.is Súrt regn hefur slæm áhrif á bílalakk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarað með útúrsnúningum og talað niður til mótmælendanna.

Sérkennileg eru tilsvör forsætisráðherra við spurningum um það hvaða skýringar hann hafi á því að hátt í fimm þúsund manna skyldu koma á mótmælafund gegn gjörðum ríkisstjórnarinnar á Austurvelli síðdegis. 

Hann segist skilja það að tónlistarkennarar vilji fá svipuð laun og aðrir kennarar og skilja það að kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna mótmæli því að þeirra flokkar séu ekki við völd.  

Með svona útúrsnúningum og skætingi er talað niður til þeirra sem mótmæla. Þeir eru afgreiddir sem einsleitur söfnuður fylgismanna annarra flokka en stjórnarflokkanna, og að auk þess væri helst tilefni til mótmæla að samingar skuli ekki hafa náðst í kjaradeilu tónlistarkennara við borgarstjórn Reykjavíkur, sem þó er aðeins eitt af þeim sveitarfélögum, sem sameiginlega eiga í þessari kjaradeilu. 

Honum væri hollt að fara yfir lista af 30 atriðum, sem fór á flakk um facebook í gær.

Nefni aðeins 4 sem mér eru ofarlega í huga og standa mér nærri:

1. Sú forgangsröðun stjórnarinnar að dreifa alls um 80 milljörðum króna til útgerðarinnar og hluta þess fólks sem varð fyrir forsendubresti vegna Hrunsins en skilja þá, sem minnst máttu sín í þessum forsendubresti, eftir, og svelta bæði heilbrigðiskerfið og menntakerfið. 

2. Að valta yfir flokkun virkjanakosta í rammaáætlun og stefna ákveðið að því að virkja í trássi við röðun í biðflokk og verndarflokk.

3. Að stefna með látum að því að fara hamförum í mannvirkjagerð yfir þvert hálendi Íslands með hraðbraut, háspennulínum og virkjunum.

4. Að stefna ákveðið í þá átt að hunsa afgerandi vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 um nýja stjórnarskrá Íslands.  

5. Að beita blekkingum, fráleitlega harkalegu lögregluvaldi og ranglæti á öllum þremur stigum valdsins, löggjafarvalds, framkvæmdavalds, bæði á sveitarstjórnarstigi og landsstjórnarstigi, og hjá dómsvaldinu til að knýja fram með offorsi ranglátar og óþarfar framkvæmdir með óafturkræfum náttúruspjöllum í Gálgahrauni og neita náttúrruverndarfólki um að sækja rétt sinn samkvæmt Árósasáttmálanum, sem í orði kveðnu á að hafa verið lögfestur hér á landi, en er virtur að vettugi.  

6. Það nýjasta, að hafa fyrir því heimildir að hafa verið settur á svartan lista lögreglunnar árið 2008 fyrir það að eitt að sækja með friðsemd og taka heimildarmyndir eins og fleiri kvikmyndargerðarmann á útifundi frá október 2008 fram í fyrri hluta janúar 2009 (var ekki á síðustu fundunum). Og heyra það einnig utan að mér að skyldmenni mín, sem hvergi komu nálægt þessum útifundum, séu fyrir tengsl við mig, komin á þennan svarta lista. 

Sé svo, dettur manni í hug að nafn svona fyrirbæris hér á landi gæti verið:  

"Svartur Tökulisti Aðgerðarsinna og Skyldmenna Íslenskra", skammstafað "STASÍ"  

Ekkert af þessum atriðum finnst forsætisráðherra geta verið ástæða til mótmæla heldur afgreiðir fólkið sem dirfist nota rétt sinn til að koma saman á friðsamlegan útifund, sem kjána og pólitískar leikbrúður.    

  

 

 


mbl.is Nokkur þúsund manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband