Því miður talar sagan hér á landi sínu máli.

Því miður tala saga íslenska stjórnarskrármálsins sína sögu um það af hverju það hefur mistekist í 70 ár hér á landi að efna loforð talsmanna alla allra flokka fyrir lýðveldisstofnun þess efnis að semja nýja íslenska stjórnarskrá frá grunni eftir 1944. 

Í fljótu bragði minnist ég sex stjórnarskrárnefnda sem þingið hefur skipað á þessum sjö áratugum og voru þingmenn í meirihluta í þeim öllum og sóttu umboð sitt ásamt öðrum nefndarmönnum beint til síns flokks, hver um sig. 

Augljóslega töldu þeir sig þurfa að standa reiknisskil fyrir sínu starfi fyrir sínum flokkum og afleiðingarnar blasa við á spjöldum sögunnar. 

Þau rök halda ekki að stjórnarskrár Íslendinga og Dana, sem báðar voru að stofni til frá 1849, hafi verið svo góðar að hvorki hafi þurft né verið hægt að semja nýjar, því Danir gerðu það 1955.

Ég hef áður lýst því hvernig Alþingi sem heild klúðraði málinu frá árinu 2011 til þessa dags, því að ekki sér fyrir endanna á því.  

Eirikur Bergmannlýsir því hvernig stjórnarskrárhópur Íra samanstóð af almennum borgurum í afgerandi meirihluta og það segir líka sína sögu að hann telur það geta vera vænlegt að nota slembiúrtak við val á slíkum afgerandi meirihluta. 

Að því leyti er alls ekki rétt að hann og Þorvaldur Gylfason komist að "gerólíkri" niðurstöðu, - og hvergi hefur vanmáttur þingmanna orðið eins ljós í eins langan tíma og hér á landi. 


mbl.is Komast að gjörólíkri niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að hraða falli heilbrigðiskerfisins?

Ákveðin öfugþróun í heilbrigðiskerfinu fékk nýjan þrýsting í Hruninu. Afleiðingar sveltis þess komu ekki alveg strax fram, af því að fyrst í stað eftir að læknar hætta að koma heim úr námi erlendis eða flytja til útlanda eftir nám hér á landi, héldu hinir, sem fyrir voru, að mestu kyrru fyrir. 

En nú er að gerast hröðun hruns í stéttinni þegar öldrun læknanna, sem eru hér heima, fellir þá æ fleiri úr vinnu með hverju árinu. 

Nú þegar hafa dýrar afleiðingar byrjunar læknaverkfalls hraðað því hruni sem hafið er þegar biðlistar lengjast og það mun kosta viðbótarkostnað að vinna úr þeim töfum og tjóni, sem fer vaxandi með hverjum degi. 

Þeir Íslendingar, sem stunda lengst og mest nám, eru jafnframt þeir sem eiga auðveldast með að fara úr landi og vinna erlendis. Þar tróna læknar efst með allt aðra stöðu en flest annað langskólagengið fólk, sem er "heimalningar." 

Hvorki þjóðin, þingmenn, ráðherrar né aðrir ráðamenn virðast geta skilið þetta, og hjá aðilum vinnumarkaðarins er sífrað um "fordæmi" sem einu ráðin til að komast hjá hruni heilbrigðiskerfisins, veruleg kjarabót umfram aðrar stéttir, muni gefa í komandi kjarasamningum. 

Í stað þessarar afneitunar á eðli málsins ættu allir að snúa bökum saman við að ráðast á raunhæfan hátt gegn vandanum og viðurkenna og staðfesta, að vandinn í kjaradeilu lækna og í heilbrigðiskerfinu á sér enga hliðstæðu að eðli og alvarleika. 

Ef menn telja að umframhækkun launa lækna skapi það fordæmi að slík hækkun þurfi að fara yfir alla línuna, verður hækkunin hjá læknunum eyðilögð og falli heilbrigðiskerfins einungis hraðað. 

Því að það er fall heilbrigðiskerfisins og ekkert annað ef það stefnir í að hér á landi skapist tvöfalt heilbrigðiskerfi, annars vegar takmörkuðu þjónusta fyrir minni háttar sjúkleika, en hins vegar þjónusta fyrir hina ríku, líkt og í Bandaríkjunum, og möguleikar fyrir þá eina til að fara til sérfræðilækninga erlendis. 

Og fátt myndi fara eins illa með möguleika hagkerfis okkar og efnahagslífs og slíkt, því að það myndi valda því að fólk myndi frekar vilja búa erlendis en hér. 


mbl.is Bresta í grát vegna frestunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngunin til að afvegaleiða umræðuna.

Setjum sem svo að það hafi verið rétt sem nýr formaður orkumálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings heldur fram að menginun frá gosinu í Holuhrauni sé jafnmikil og frá öllum bílaflota Evrópu í 1000 ár, þá er engu að síður um það að ræða að reyna að gera lítið úr loftslagsvandanum með því að benda á annað verra, sem enginn ráði við. 

En það, að mennirnir bæti  við loftmengun frá eldgosum, er í raun enn verra en ef engin mengun væri frá eldgosum, því að sé mengunin frá eldgosum slæm, gerir það ástandið enn verra ef menn bæta ofan á hana. 

En fullyrðingar Lísu Mirkowski eru þar að auki víðsfjarri sannleikanum og aldeilis ótrúlegt hver langt margir vilja ganga í að afvegaleiða umræðunu um þessi mikilsverðu mál til að réttlæta ábyrgðarlausa og hættulega hegðun manna í umhverfismálum. 


mbl.is Misskildi hversu mikil/lítil mengunin er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðhengilsháttur.

Það nýjasta í umræðu um Reykjavíkurflugvöll til þess að gera sem minnst úr NA-SV flugbraut vallarins er að segja að hugtakið "neyðarbraut" í löggjöf sé ekki til. 

Þó er þessi flugbraut aðeins notuð þegar ekki er hægt að nota hinar tvær brautirnar og hefur hún algera sérstöðu meðal brauta vallarins hvað reglur um notkun varðar, - til dæmis eru alfarið bönnuð flugtök á henni til norðausturs.

Brautin er notuð í illviðrum á veturna þegar hvöss suðvestanátt, oft með éljum, gerir notkun hinna brautanna ómögulega. Í slíkum tilfellum eru líka oft samgönguvandræði á landi, og vegna þess að NA-SV braut er ekki á Keflavíkurflugvelli getur þessi braut Reykjavíkurflugvallar svo sannarlega verið sannkölluð neyðarbraut . 

Hliðstæða við notkun orðsins "neyðarbraut" er notkun orðanna "vetrarvegur" eða "vetrarleið" sums staðar við íslenska þjóðvegi, þar sem snjór safnast stundum fyrir á leiðina og lögð hefur verið upphækkuð "neyðarleið" fram hjá snjóakistunni.

Ég sæi það fyrir mér að Vegamaálastjóri myndi gera lítið úr svona vegarköflum og samþykkja að rífa þá niður með þeim orðum að að hugtakið "vetrarvegur" eða "vetrarleið" væri ekki til í löggjöf.  

Þetta minnir mig svolítið á það þegar inn í skýrslu um völlinn fyrir rúmum áratug slæddist sú fullyrðing að með því að stytta eina flugbrautina yrði öryggi vallarins aukið.

Veit ég ekki um önnur dæmi þess í flugsögu heimsins að stytting flugbrautar auki flugöryggi.  

Mér sýnist það ryðja sér æ meira til rúms hjá opinberum stjórnendum að þeir hafi fjarlægst veruleikann sem þeir vinna í og séu komnir inn í einhvers konar sýndarveruleika eigin skrifræðis. 

Ég hélt í barnaskap mínum að að sjálfsögðu hlyti það að vera keppikeflli í hönnun og gerð allra samgöngumannvirkja að þau gegni sem best hlutverki sínu. 

En slíku virðast margir vera tilbúnir að gleyma eða bara horfa fram hjá því, af því að það hefur gleymst hverjum þeir eru ráðnir til að þjóna. 


mbl.is Neyðarbraut ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband