Svona lagað heyrðist yfirleitt ekki á ljósvakanum áður fyrr.

Þegar heimsstyrjöldinni lauk 1945 fóru aftur að heyrast veðurfregnir í Ríkisútvarpinu, en þær voru bannaðar á stríðsárunum af hernaðarástæðum. 

Ég minnist þess að spurningar mínar dundu á afa mínum Ebba um þetta nýjabrum í eyrum mínum og einkum um það, þegar sagt var: "Rok undir Eyjafjöllum." 

Afi reyndi að útskýra það fyrir mér. 

Svo liðu árin og það var alveg hætt að taka það fram að rok gæti orðið undir Eyjafjöllum. 

Greinilega reiknað með því að þegar hann yrði hvass á austan á Suðurlandi yrði rok þar. 

Síðan leið ríflega hálf öld þar til að byrjað var að vara við hvössum vindi undir Kjalarnesi, Hafnarfjalli, á sunnanverðu Snæfellsnesi og undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit þegar svo bar undir. 

Þetta er orðið svo algengt að einhverjir kunna að álykta sem svo að þetta veðdurlag sé miklu algengara en áður var. 

Hvað Öræfin snerti þurfti svosem ekki að segja fólkinu þar neitt um veðrið meðan sveitin var ekki í vegasambandi við aðra landshluta, fyrst við Austurland 1964 og síðan vestur yfir 1974.

Í gærkvöldi fór ég upp í Borgarnes til að flytja dagskrána "Unglingurinn alls staðar" og þá fór vindurinn upp í 49 m/sek í hviðum á Kjalarnesi, sem samsvarar 100 hnútum, sem er 50% meiri vindur en fárviðri.

Ekkert markvert gerðist samt þar og þetta þótti ekki fréttnæmt.

Fyrir 20 árum var oft miklu hvassara í Botnsvogi og við Hjarðarnes en var á Kjalarnesin í gærkvöldi án þess að það þætti fréttnæmt, sjórinn rauk og skrúfaðist hátt upp í loftið í hvirflum, en engir voru mælarnir sem hægt var að lesa af eins og nú eru komnir í bak og fyrir á svona roksvæðum.

Líklega er veðurfarið búið að vera nokkuð svipað í meginatriðum síðan 1945.

Umferðin er bara margfalt meiri sem og upplýsingatæknin.   


mbl.is Mikill vindur undir Vatnajökli og á Austfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforðin við Gorbatsjov voru svikin.

George Bush eldri Bandaríkjaforseti lofaði Mikhaila Gorbatsjov því að að NATO myndi ekki færa sig til austurs lengra en að taka Austur-Þýskaland með inn í Bandarlagið þegar það sameinaðist Vestur-Þýskalandi. 

Þetta var hluti af viðleitni Bush og Kohl kanslara Þýskalands til þess að koma á tryggum friði og trausti á milli áður stríðandi aðila í Kalda stríðinu. 

Að vísu er deilt um það hvort þessi loforð hafi haft nokkra tryggingu til framtíðar vegna þess að þau voru ekki innsigluð í skriflegum friðarsamningum eins oft er gert í hefðbundnum samningum eftir styrjaldarátök.

Sagt er að Vladimir Putín þáverandi yfirmaður KGB, hafi gengið vonsvikinn út af niðurlægingu Rússa af einum funda ráðamanna stórveldanna og heitið því að gera sitt til að rétta hlut þeirra, þótt síðar yrði.

Sé svo, rímar það við allar aðgerðir Pútíns nú, sem fá aukna afsökun hans vegna þess hvernig NATO lét eftir þrýstingi fyrrum leppríkja Sovétríkjanna um að komast undir verndarvæng NAT0-sáttmálans varðandi það að árás á eitt þeirra teldist árás á þau öll. 

Hins vegar er spurning hvort sú aukna spenna sem þessi vestræna sókn í austur veldur með minningu um kenningu Hitlers um "drang nach osten" sé friðvænleg eða skynsamleg. 


mbl.is Varar við öðru köldu stríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Airwaves, eitt af mörgum dæmum dæmi um "eitthvað annað".

Það eru ekki mörg ár síðan við vorum talin galin, sem spáðum því að innan fárra ára myndi vera til gjaldeyrisskapandi listsköpun og listflutningur sem mokaði gjaldeyrisborgandi útlendingum inn í landið í tugþúsunda tali við að skapa og flytja sína list hérlendis. 

Enn fjarlægara hefði það verið talið að þúsundiir starfa myndu skapast hér heima í kringum þetta og hundruð íslenskra listamanna væru á faraldsfæti um heimsbyggðina við að kynna og markaðssetja sköpunarverk sín. Að ferðaþjónusta væri orðinn aðalatvinnugrein og mest gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar. 

Allt slíkt tal var nefnt "bara eitthvað annað" í háðungarskyni og talað um "fjallagrasatínslu", "lopaprjón", "lattelepjandi afætur", fólk sem væri "á móti rafmagni" og "vildi fara aftur inn í torfkofana", - öll þessi ónefni og rangfærslur færðar fram til þess eins að sanna, "eitthvað annað" væri rugl, en hins vegar stóriðja, áfram stóriðja og ekkert stopp það eina sem gæti "bjargað þjóðinni" þótt aðeins 2% af vinnuafli landsmanna fengju þar vinnu við dýrustu störf, sem hægt væri að skapa og gæfu aðeins rúman þriðjung af virðisaukanum, sem skapast í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. 


mbl.is Kraftmikið kvöld á þriðja í Airwaves
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sem fyrr stærsti dragbíturinn.

Það hefur verið algengt að kenna Kína, Indlandi og öðrum þriðja heims þjóðum aðallega um það hvernig mannkynið flýtur sofandi að feigðarósi í loftslagsmálum. 

Þetta er auðvelt því að þessar þjóðir eru fyrst nú að koma inn í orkuneysluhópinn sem iðþróuðu þjóðirnar hafa verið í frá upphafi iðnsbyltingar. 

En í raun hafa Bandaríkin verið stærsti dragbíturinn á aðgerðir þegar miðað er við það hve lengi og hve mikið þau hafa dregið lappirnar og hve miklu meiri burði og tekjur þau hafa til þess að láta sitt af mörkum. 

Eini ríkjahópurinn sem virðist ætla að geta dregið úr losun á næstu árum er ESB á sama tíma og Kanarnir horfa bara á skyndilausnir orkavanda síns með aukinni framleiðslu gass og olíu úr jarðlögum með svonefndri "fracking" aðferð. 

Sú vinnsla er eins og að pissa í skóinn hvað varðar orkuöflun og mun varla duga nema í nokkra áratugi, en verst er að hún fellur undir notkun jarðefnaeldsneytis sem er aðalvandamálið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. 

Fram að þessu hafa Bandaríkin ásamt Rússlandi og fleiri löndum staðið í vegi fyrir öllum tilraunum til alþjóðasamvinnu um að ráðast gegn loftslagsvandanum.

Það er nöturlegt hlutskipti þjóðar sem telur sig vera í fararbroddi þjóða heims fyrir frelsi, mannréttindum og betri lífskjörum en bregst þegar á hólminn er komið.  


mbl.is Loftslagsaðgerðir í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband