Bergbrotið (fracking) seinkar tvísýnni sókn í olíu.

Bergbrotið í Ameríku (fracking) hefur heldur betur sett strik í reikninginn í efnahagsmálum heimsins. Bandaríkin hafa í bili náð því að framleiða meira eldsneyti en þeir flytja inn og þetta hefur valdið verðfalli á olíu.

Verðfallið hefur mjög fjölbreytileg áhrif. Það er jafn skelfilegt fyrir Rússland og það sem gerðist á níunda áratugnum þegar Sádarnir og Kanarnir veittu Sovétríkjunum náðarhöggið.

En það veldur því líka að mikið bakslag hefur komið í gullgrafaraæðið, sem reynt hefur verið að blása upp hér á landi og á Grænlandi.

Kostnaðurinn við að ná upp olíu á nýjustu svæðunum er svo mikill að hann er orðinn meiri en nemur tekjunum, - það er tap á dæminu.

Allur hávaðinn útaf Drekasvæði nu hafði að vísu holan hljóm, svo erfitt og tvísýnt sem það er að ætla sér að ná upp olíu af 1100 metra svæði lengst norður í rassgati.

En samt hafa dollaramerkin skinið úr þeim sem hafa séð í hillingum stórfelldan gróða hér á landi í mesta lagi nokkrar áratugi með svipuðum endalokum og urðu á fleiru hér eins og rústir hvalveiðistöðva um allt land bera vitni um. 

 

Bergbrotið vestra gefur jafn óendurnýjanlega og óhreina orku og hefðbundin olíu- og gasvinnsla, lengir aðeins í því ástandi og gerir það verra sem nú hefur sem mest áhrif á lofthjúpinn með gríðarlegum afleiðingum.

Það er aðeins verið að lengja í snörunni hvað varðar óhjákvæmlegri hnignun helstu auðlinda mannkynsins á þessari öld.  


mbl.is Hætta við olíuleit á Drekasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðadómar eru manndráp og forneskja.

Dauðadómar eru manndráp. Skiptir þá engu hvort drepið sé samkvæmt lögum eða ekki.

Tugir dómsmorða eru framin í heiminum á hverju ári. Þeim mun ekki linna fyrr en dauðadómar eru aflagðir og þess vegna á ekki dæma menn til dauða.

Dauðarefsing sem framkvæmd er, er óafturkræf, en lífstíðar fangelsi ekki.  

Ef hinn sakfelldi er hættulegur umhverfi sínu á að dæma hann í ævilangt fangelis eða vistun þar sem komið er í veg fyrir að hann geti orðið skaðlegur.

Fælingarmáttur dauðadóma hefur ekki virkað hjá þeim þjóðum sem mest aðhyllast þá, svo sem Kínverja og Bandaríkjamenn.

Dauðadómar eru aftan úr grárri forneskju þegar í gildi var lögmálið "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" og eru enn fráleitari en það að höggva hendur af þjófum.  


mbl.is Játaði á sig 42 morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngum hægt um gleðinnar dyr. Skoðum staðreyndir.

Í Barcelona á Spáni hefur myndast öflug hreyfing borgarbúa, sem andæfa því að mannlíf í stórum hluta borgarinnar hefur verið deytt að stórum hluta vegna skefjalauss gullgrafaraæði í ferðamennsku. 

Svipað er að gerast gömlu miðborginni okkar í Reykjavík. Nú þegar hefur borgarbragurinn gerbreyst þannig að vissa daga yfir sumartímann er maður hættur að hitta Íslendinga í gamla miðbænum, - þetta er erlend borg.

En margir útlendinganna eru komnir hingað til að kynnast íslensku þjóðlífi.  

Fleira fylgir hinni skefjalausu hótelvæðingu. Sum hótelanna þurfa lóðir, þar sem nú eru bílastæði. Þeim fækkar þegar hótelið er risið, en þriðjungur hótelgestanna er á bílaleigubílum! 

Hvar eiga þeir að fá stæði? Ef útlendingarnir væru á reiðhjólum kæmu nýju hjólastígarnir sér vel. En ferðamannirnir eru ekki á reiðhjólum. 

Við sum hótelin hafa breytingar á götum og gangstéttum komið í veg fyrir að rútur komist að þeim og frá með töskurnar sínar. Þeir sem eru í rútunum eru ekki á reiðhjólum. 

Enn skortir mikið upp á að bílastæðahús borgarinnar séu fullnýtt. Fólk kvartar yfir því að stæðin í þeim séu dýr. 

Í Santa Barbara í Kaliforníu fóru menn þá leið til að endurlífga miðborgina að reisa 15 bílastæðahús og ókeypis er í þau öll í 90 mínútur fyrir hvern bíl. 

Miðborgin lifnaði við og er á ný iðandi af lífi. Þetta var kynnt fyrir mér þegar ég var þar á ferð fyrir nokkrum árum. 


mbl.is Margir vilja í hótelrekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband