"Séríslenskar aðstæður".

Margt á landi okkar er sérstakt og um sumt af því gildir það, sem svo oft er sagt, að þar séu að verki "séríslenskar aðstæður." Rúðuþurrkur frosnar

Andstaða við notkun bílbelta á sínum tíma var til dæmis byggð á því að hér væru "séríslenskar aðstæður" sem gerðu það nauðsynlegt að spenna ekki bílbelti. 

Ýmis hegðan okkar er næsta séríslensk. Þessa dagana koma kannski þrjár tegundir af veðri á hverjum sólarhring, hringekjan norðanátt og frost-suðaustanátt og snjókoma-slydda-rigning-suðvestanátt og éljaganggur-norðanátt og frost. 

Snjór sest á framrúður, verður blautur, frýs aftur og rúðuþurrkurnar eru eins og límdar við framrúðuna. Kostar heilmikið vesen og jafnvel skemmdir á þurrkunum að losa þær upp úr klakanum. 

Í Svíþjóð og Noregi er þetta ekki svona. Þegar menn ganga frá bílunum á kvöldin eru þurrkurnar réttar upp í loftið eins og sést á myndRúðuþurrkur upp í loft á facebook síðu minni. 

Morguninn eftir þarf ekki að berja klaka og djöflast á þurrkunum frosnum föstum við bílrúðuna, sama hvað veður hefur verið um nóttina. Aðeins þarf að skafa af rúðunni og leggja þurrkurnar niður. 
Þetta sér maður hvergi hér á landi og eru þó miklu magnaðri og meiri umlhleypingar hér en í Svíþjóð og Noregi. 

Hér eru þurrkurnar látnar frjósa fastar við rúðuna þegar bíllinn stendur nógu lengi til þess að þær festist. 

Þegar ég ræði þetta koma menn með alls konar viðbárur. "Það er meiri hætta á að þurrkunum verði stolið ef þær eru látnar standa uppréttar" er algengast viðbáran. 

Samkvæmt því er fólgin þjófavörn í því að þurrkurnar séu frosnar við rúðurnar. 

En hvað um mikinn meirihluta ársins þegar ekki er frost og ekki þau skilyrði að þurrkurnar frjósi fastar í rökkri eða myrkri? 

Þá er jafn fljótlegt að stela þurrkum liggjandi eða standandi? Af hverju er ekki stundaður stórfelldur þurrkuþjófnaður þegar slíkar aðstæður eru? 

Reynslan í Svíþjóð og í Noregi er sú að þurrkum er ekkert frekar stolið þótt þær séu uppréttar en þegar þær eru liggjandi. 

Það hljóta því að vera "séríslenskar aðstæður" sem valda því að þjófar fara því aðeins á kreik til að stela þurrkum þegar eru uppréttar í rysjóttum vetrarveðrum. 

Í raun er allt tal um séríslenskar aðstæður þvi frekar í vil að láta þurrkurnar standa uppréttar á Íslandi í rysjóttri tíð vetrarins heldur en í Sviþjóð og Noregi, einfaldlega vegna þess að hinar einu "séríslensku aðstæður" eru þær hve miklu meiri umhleypingarnir eru hér á landi en í hinum löndunum. 

En okkur reynist auðvelt að nota séríslenska rökfimi til þess að snúa röksemdafærsluni á haus. Það eru sko "séríslenskar aðstæður". 


mbl.is Spá 60 m/s í hviðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttar aðstæður ráða miklu.

Það er rétt hjá Árna Þór Guðjónssyni í hljómsveitinni Made in sveitin að margt fer í hringi í þjóðfélaginu hvað snertir tónlist og vinsældir. 

Nýjar kynslóðir koma með nýja tísku og nýjan smekk. 

Bogomil Font, Sixties og margt fleira var dæmi um þetta á sínum tíma, að ekki sé nú talað um Ragga Bjarna. 

Hugsanlega er hægt að fá upp einhverja stemningu á sveitaballi sem haldið er með gamla laginu, en samt sem áður eru aðstæður það breyttar frá því sem var þegar sveitaböllin, héraðsmótin og Sumargleðin réðu ríkjum í félagsheimilum landsins á sumrin, að það mætti teljast kraftaverk ef eitthvað slíkt gæti komið aftur. 

Myndbandaleigurnar, miklu betri samgöngur, utanlandsferðir og tilkoma bjórsins voru miklar breytingar sem gerðu það að verkum að undirstöðunum var kippt undan sveitasamkomum af þeirri stærð og tíðni sem tíðkuðust frá 1950 til 1990.  


mbl.is Sveitaböllin að snúa aftur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jólastemning", mótuð á norðlægum slóðum.

Hvernig gengur Suður-Evrópuþjóðum og Suðurríkjamönnum í Bandaríkjunum að fanga þá miklu Norðurríkjastemningu sem birtist ótal jólalögum og sálmum?

Bara býsna vel, ótrúlegt en satt.

Mest selda plata síns tíma var með laginu "White Christmas" sem Bing Crosby söng. Ég kemst varla í hina endanlegu jólastemningu nema að heyra Dolly Parton syngja og blanda saman lögunum "Winter Wonderland" og "Sleig Bells".

"Snjókorn falla," "Jólasnjór" og ótal aðrir söngvar reyna að fanga jólastemninguna í Norðurríkjunum.

Þetta er Pollyanna í sínu æðsta veldi, að snúa hundleiðinlegum kulda, myrkri og hríð upp í dýrð og dásemd. Heilagur Kláus er orðinn að sleðastjóra og gjafadreifara þar sem klingjandi sleðabjöllurnar hringja inn jólastemninguna í marauðum Suðurríkjunum og Miðjarðarhafslöndum Evrópu. 

Á Íslandi klæða hinir þjóðlegu og fornu jólasveinar okkar sig í búning Santa Claus og gefa gott í skóinn, þessir fyrrum óknyttadrengir og synir Grýlu og Leppalúða.  

Og það er vel að lífga upp á skammdegið og víkja burt vetrardrunganum í stórhríðum með jákvæðri stemningu, tónlist, jólaljósum og öllu galleríinu.

Á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í dag verður frumflutt hér á landi lagið og textinn "Jólastemning", íslensk staðfærsla á ljóðinu "Christmas Time" sem hefur verið vinsælt jólalag í Bandaríkjunum í hálfa öld án þess að það hafi skolast hingað til lands, svo ég viti til.  

Stúlknakór Reykjavíkur og Hulda Garðarsdóttir syngja lagið, en höfundar þess eru Lee Mendelson og Vince Guaraldi. 

Í bandaríska textanum eru snjókornin, arineldurinn og allt það dásamað í lýsingu á hinni sönnu jólastemningu. Svona hljóðar það á íslensku. Lýst sameiginlegum atriðum stemningarinnar, hinu séríslenska, en bandaríska arineldinum sleppt : 

 

JÓLASTEMNING. (Christms Time is here)  

 

Jólastemning er

yfir öllu hér; 

gleðitíð sem börnin blíð

nú biðja´að veitist sér. 

 

Snjókorn blærinn ber. 

Boðskap flytja mér 

dýrðarsöngvar dægrin löng

sem dilla mér og þér. 

 

Söngur, ljóð og ljóð, 

ljúft við tónaflóð

mitt í dróma myrkurs ljómar 

minninganna flóð. 

 

Jólastemning ber

birtu; ósk mín er 

að alla tíð, já ár og síð

allt árið ríki´hún hér, -

að einlæg gleði´og ástargeð

æ gefist mér og þér.  

 

 

 

 


mbl.is Hvaða jólasveinn ert þú?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband