Hvað gerist vindmegin við glóandi jarðeld í 12 stiga frosti?

Þegar verið er nálægt jarðeldi, glóðandi hrauni eða eldgosi, og stífur frostkaldur vindur stendur af manni í átt að jarðeldinum gerist dálítið sérstakt, sem er svolítið ruglingslegt. 

Þetta var til dæmis hægt að upplifa í Kröflugosi í janúar 1981 þegar tólf stiga frost var á gosstöðvunum og stífur norðvestanvindurinn var þetta kaldur.

Svipað gerðist í tökum á loftmyndum nýlega af gígnum Baugi í Holuhrauni. IMG_3834

Loftið, sem skall á manni var sannanlega frostkalt og tryggði að hægt væri að fara miklu nær jarðeldinum en ella í þessum kalda loftmassa. 

Ef gluggi var opnaður fannst hins vegar heit geislun koma inn um hann. 

Enn magnaðra var þetta fyrirbæri í Kröflugosinu fyrrnefnda. 

Þar var á einum stað hægt að standa á þverhníptum gjábakka og horfa ofan í glóandi hraunelfuna beint fyrir neðan sig og hafa glóandi eldtungur gígsins á bak við sig, en samt að njóta þess að mínus tólf stiga heitur loftstraumur norðvestanvindsins skall á manni.

En þrátt fyrir þetta fannst vel fyrir heitri geislun frá eldvegg gígsins og hraunsins enda þótt sú geislun þyrfti að fara í gegnum hinn frostkalda loftstraum.

Ég hugðist taka uppistand á þessum stað og var í kolsvörtum leðurjakka utan yfir ullarfatnaði. Þarna var heldur hlýrra en fjær gosinu. 

Sneri baki í eldinn og stóð þar kyrr nokkra stund. En þá hrópaði Haraldur Friðriksson kvikmyndatökumaður til mín: "Það er að kvikna í jakkanum!" 

Mikið rétt. Reyk lagði upp frá bakinu vegna þess hve vel kolsvartur jakkinn dró í sig geislun eldsins. Samt var frost í vindinum sem stóð framan á mig. Ég flýtti mér að snúa mér við og færa mig fjær. Og það mátti sjá minna: Ysta byrði jakkans var sviðnað!

Lára Ómarsdóttir fréttamaður lýsti þessu fyrirbæri stuttlega þar sem hún stóð við Holuhraun um daginn og svo sannarlega er þetta ótrúlega fyrirbæri fyrir hendi. 


mbl.is Þetta gerist þegar gengið er á hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta ólíkindatól íslenskra eldstöðva.

Bárðarbunga er ein af þeim höfuðeldstöðvum landsins sem liggur lengst frá byggð. Kverkfjöll sjást í nágrenni Möðrudals en Bárðarbunga sést hvergi úr byggð.Bárðarbunga 3.8.14 nærm

Á myndinni sést hluti hennar við norðvestrurbrún öskjunnar, en þessi mynd var tekin aðeins tveimur vikum fyrir upphaf skjálftahrinunnar, sem stendur enn, og flaug þess vegna um fjölmiðla hér og erlendis.

Vísa einnig í stutt myndskeið á facebook síðu minni.  

Afleiðingin af því hve afskekkt Bárðarbunga er, er sú að ákaflega lítið er vitað um það sem gerst hefur í þessari mögnuðu eldstöð á sögulegum tíma og því ekki vitað um hvort nokkrar beinar hliðstæður eru um það, hvort áður hefur verið í gangi svipað fyrirbæri og nú virðist blasa við með nýrri mælitækni og gosið í Holuhrauni.

Spurningin er hvort hið eldra Holuhraun, sem myndaðist í gosi 1797, hafi komið úr Bárðarbungu, en allt fram undir nýja gosið höfðu vísindamenn hallast að því að tveir gjallgígar við jaðar Dyngjujökuls og gígaröð Holuhrauns og hraunið tengdust eldstöðvakerfi Öskju.Holuhraun, syðsti gígur, hrauntrðð, besta mynd, Dyngjujökull

Þremur dögum áður en að athygli fjölmiðla barst að Holuhrauni ákvað ég að taka sérstakar myndir af fyrrnefndum gígum vegna gruns míns um að Holuhraun tengdist Bárðarbungu og að þar gæti gosið.

Um þetta bloggaði ég undir rós á meðan beðið var umsagnar eins af okkar fremstu jarðvísindamönnum.

Hafi hið eldra Holuhraun myndast á svipaðan hátt og nýja hraunið, hafa þeir eldar verið eitthvað minni en hinir nýju.Holuhraun. gígaröð. norðurendi, Dyngjujökull

Ég hafði áður séð Holuhraun alloft en ekki gert mér til fulls grein fyrir umfangi þessarar eldstöðvar fyrr en í fyrrnefndri myndatökuferð, bæði hvað snerti gígaröðina og ekki síður hinn myndarlega gíg og hrauntröðina úr honum, sem sjá má á myndum hér á síðunni.  

Vegna þess hve langt Bárðarbunga er frá byggð hafa menn ekki orðið varir við skjálftahrinu í bungunni á þeim tíma, enda verða menn lítið varir við hana nú nema á skjálftamælum.Holuhraun, gígur.

Og fróðlegt hefði verið að sjá hvernig Bárðarbunga bar ábyrgð á tveimur stórgosum um 871 og 1480 í suðvesturhluta eldstöðvakerfis hennar, sem náði allt suður í Friðland að Fjallabaki. Holuhraun, gígaröð, Kverkfjöll, Dyngjujökull.  


mbl.is Varpa ljósi á myndun kvikugangsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flytja sig að heiman er alþjóðlegt fyrirbæri í íþróttum.

Nær allir þeir, sem vilja komast eins langt í bardagaíþróttum og hugsanlegt er, flytja sig og starfsemi sína til þeirra landa þar sem allt umhverfið er þeim hagstæðast. 

Dæmin eru óteljandi. Tveir bestu þungavigtarmenn í hnefaleikun síðasta áratug, yfirburðamennirnir Klitscko-bræður, fluttust ungir frá Úkraínu til Þýskalands vegna þess að allt umhverfið fyrir feril þeirra var vonlaust í heimalandinu með alla sína spillingu og höft. 

Mexíkóskir hnefaleikarar, sem hafa átt fjölmarga í fremstu röð, flytjast langflestir til Bandaríkjanna til að ná eins langt í íþrótt sinni og mögulegt er, því að aðstaða öll og skattaumhverfi eru svo margfalt betri en í heimalandinu. 

Svipað er að segja um íþróttamenn frá öðrum ríkjum Ameríku og Afríku. 

Íbúar Mexíkó, Puerto Rico og Ukrainu fyrirgefa þessum afreksmönnum, því að þeir halda á lofti uppruna sínum og eru stoltir af honum og landar þeirra heima vita vel um spillingu, höft og ósamkeppnisfært umhverfi, sem þeir geta kennt sjálfum sér um. 

Þeir vita að ef þessi afreksmenn hefðu reynt að halda áfram að gera út heiman frá hefðu þeir aldrei náð eins langt, orðið eins frægir og varpað jafnmiklum ljóma á upprunalegt þjóðerni sitt. 

Við þurfum að sýna Gunnari Nelson og öðrum skilning þótt auðvitað hafi það verið sætt að eiga besta leikmanninn í þýsku Bundesligunni eins og Ásgeir Sigurvinsson var án þess að hann skipti um ríkisfang. 

Þýskir sögðu að hann hefði orðið fyrirliði þýska landsliðsins ef hann hefði skipt um ríkisfang.

Þetta er rétt að hafa í huga þegar hér rísa bylgjur vandlætingar á borð við þá sem reis þegar landi okkar tók þátttöku sína á HM í knattspyrnu í sumar og fá að vera þar spilandi inni á vellinum fyrir Bandaríkin fram yfir það að sitja áfram á varamannabekk í landsleikjum hjá íslenska landsliðinu, sem ekki komst á HM.  


mbl.is Gunnari Nelson ráðlagt að flytja út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband