Komið mál til hjá 11. forsetanum í tíð Kastrós.

Síðan Fidel Castro og menn hans steyptu Batista einræðisherra á Kúbu af stóli á gamlársdag 1959 hafa ellefu menn verið við völd í Bandaríkjunum. 

Ekki verður tölu komið á þau morðtilræði, sem Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur reynt til að drepa karlinn og hann tórir þó enn, en sex af ellefu forsetum Kananna á þessum tíma eru látnir. 

Ekki er aðeins fullreynt að þessi óskaplegi fjandskapur við Kúbverja hefur ekki gert neitt gagn fyrir Bandaríkjamenn og því síður Kúbverja, heldur var hann fyrir löngu búinn að ganga sér til húðar.

Því harðar sem Kanar gengu fram, þvi auðveldara var fyrir ráðamenn á Kúbu til að benda á sameiginlegan erlendan óvin þjóðarinnar.  

Eftir því sem styttist í því að Fidel haldi á vit feðra sinna aukast líkurnar á því smám saman sé hægt að losa um ýmis þau heljartök, sem yfirvöld í landinu hafa haft á þjóðlífinu. 

Þíða í frostinu á milli Bandaríkjanna og Kúbu mun einungis geta flýtt fyrir því, en áframhaldandi frost hefði bara haldið áfram að gera illt verra eins og hingað til. 


mbl.is „Ég held að allt muni breytast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleitt á farsímaöld.

Það, að ferðafólk sjái ekki lokunarskilti við fjallvegi, gefur ekki minnstu afsökun fyrir því að æða inn á heiði, sem er lokuð vegna ófærðar.

Á farsímaöld eru auðvelt að fá upplýsingar um færð á vegum  og lokanir þeirra, bæði með því að hringja í sjálfvirka símsvara eða fara inn á netið og sjá upplýsingarnar þar á kortum. 

Undanfarna daga hefur hver lægðin eftir aðra riðið yfir landið og stundum verið margar tegundir óveðurs sama daginn. 

Í lögum eru ákvæði um ábyrgð bílstjóra á ökutækinu og akstri þess sem gera það alveg kristaltært, að engar afsakanir á að taka gildar í eins afgerandi aðstæðum og tengd frétt fjallar um. 


mbl.is Segjast ekki hafa séð lokunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi ófærð í lokin?

Nú berast fréttir af erfiðleikum við að komast til grafar í kirkjugörðunum fyrir þá sem hafa fengið lokaútkallið. Um það mætti segja þetta: 

 

Sem til grafar sækjast fer 

seint að vilja himnasmiðsins 

fyrir marga alveg er

ófært upp til Gullna hliðsins.


mbl.is Ófærð í kirkjugörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vertu þægur."

Ofangreind orð sagði einn af ráðamönnum þjóðarinnar við mig eftir að ég hafði tekið við hann eitt af nokkrum viðtölum mínum við þennan ráðamann um málefni, sem undir hann heyrðu. 

Hann var með þessu að láta mig vita af óánægju þáverandi ráðamanna með það að ég væri ekki nógu leiðitamur heldur dirfðist til dæmis að sýna þau svæði, þar sem komandi virkjanir ættu að rísa. 

Söngurinn um vonda og óþæga fjölmiðla hefur verið kunnuglegur undanfarin misseri.

Sáran var kvartað yfir því að upplýst væri um "lekamálið" svonefnda og talað um að þar væri "leikinn ljótur pólitískur leikur" og að málið væri allt "blásið upp" af vinstri sinnuðu fjölmiðlafólki. 

Beitt var þrýstingi til að láta reka blaðamennina sem hreyfðu málinu fyrst.

Eðlilegar fyrirspurnir fjölmiðlamanna varðandi byssumálið svonefnda voru túlkaðar sem ofsóknir á hendur ráðamönnum. Áberandi var að greið svör fengust strax hjá upplýsingafulltrúa norska hersins á sama tíma að það tók hálfan mánuð að toga endanleg svör upp úr íslenskum ráðamönnnum. 

Enn er í minni þegar allt fór á annan endann út af sjónavarpsviðtali við forsætisráðherra en í því tilfelli var þó ekki auðvelt að núa fjölmiðlamanninum því um nasir að vera vinstrisinnaður, því að hann hafði verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í áraraðir.

Ég var að horfa á sjónvarpsþáttinn 60 mínútur þar sem Lesley Stahl tók fyrir framferði kolafyrirtækis í Suður-Karólínuríki sem á 14 kolaver og hefur árum saman látið kolasalla menga jarðveg og vatn á stórum svæðum.

Hún átti viðtal við forsvarskonu fyrirtæksins sem var alveg sérstaklega sleip og erfið við að eiga. Hún mærði einstkalega þroskaða umhverfisvitund fyrirtækisins og fyrirmyndar rekstur þess, - tvöfeldnin og flærðin svo uppmáluð að hrollur fór um mann.

En Stahl lét hana ekki komast upp með neitt múður og rak lygina og undanfærslurnar jafnharðan ofan í hana. Hún var heldur ekkert feimin við að upplýsa um það hvernig fyrirtækið hefur árum saman borið fé í þingmenn og ráðamenn, sem hafa sofið á verðinum.

 Hér á landi myndi svona blaðamennska verið talin pólitísk "herför" gegn ráðamönnum. 

Svör kolaorkuverskonunnar um að allt væri í fína lagi og að fyrirtækið væri í þann veginn að ljúka við að leysa málin með hjálp vísindamanna í árangursríkum rannsóknum hljómuðu kunnuglega, því að svipað hefur verið sagt hér á landi í meira en áratug varðandi jarðvarmavirkjanir.

 

    

 


mbl.is Sagði fjölmiðlamenn „hundelta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband