Fljótin hafa beðið of lengi.

Fljótin í Skagafirði hafa beðið mjög lengi, allt of lengi, eftir því að möguleikar þessarar byggðar séu uppgötvaðir og nýttir. 

Eldhuginn Trausti Sveinsson að Bjarnagili hefur áratugum saman reynt að opna augu manna fyrir möguleikum þessa svæðis sem útivistarlands allt árið en ævinlega talað fyrir daufum eyrum. 

Hann barðist árangurslaust fyrir svonefndri Fljótaleið fyrir jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar en það hefði tryggt að Héðinsfjörður yrði áfram eini eyðifjörðurinn á öllu svæðinu frá Ófeigsfirði á Ströndum til Loðmundarfjarðar á Austfjörðum.

Fjörðurnar svonefndu, Þorgeirsfjörður og Hvalvatnsfjörður, eru frekar víkur en firðir.

Fljótaleiðin hefði líka leyst endanlega samgönguvanda Siglufjarðar vestur um og suður í stað þess að nú er suðað um göngin milli Siglufjarðar og Fljóta sem hefðu verið komin ef kjördæmapot þingmanna hefði ekki ráðið för.

Aðdráttarafl og gildi Héðinsfjarðar sem eyðifjarðar fyrir ferðafólk hefði verið margfalt meira en það er nú eftir að þangað er greiðfært á bíl.

Það hefur löngum verið talinn Akkilesarhæll Fljótanna að vera snjóþyngsta byggðarlagið á norðanverðu landinu, en þetta er þveröfugt, því að hinn mikli snjór skapar mikla möguleika fyrir skíðafólk og útivist sem tengist snævi þöktu landi og fjöllum.

Töfrar hins stórbrotna bláfjallageims Tröllaskaga eru ekki hvað síst hrífandi á útmánuðum, og flug framhjá hinum hrikalegu Hvanndalabjörgum mögnuð upplifun. 


mbl.is „Íburðurinn verður mikill“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðin kennir naktri konu að spinna ?

Það eru ekki mörg ár síðan fátt virtist vera á döfinni sem gæti leyst orkuvanda mannkyns, sem mun aukast með vaxandi hraða á þessari öld, verði ekkert að gert. 

Eftir kjarnorkuslysið í Fukushima sló verulega allar vonir um aukna kjarnorkuframleiðslu enda ljóst, að úraníum er álíka takmörkuð og jarðefnaeldsneytið og kjarnorkuúrgangurinn vaxandi vandamál. 

Geymsla rafmagns í rafknúnum tækjum virtist geta stöðvað möguleika á að rafvæða samgönguflotann. Lithium er takmarkað á jörðinni og klárast á nokkrum áratugum ef rafvæðingin verður mikil. 

Lífrænt eldsneyti krefst mikilla akra sem þar af leiðandi nýtast ekki til fæðuframleiðslu fyrir soltið mannkyn. 

Nýting vetnis sem orkubera virtist ekki á döfinni.

Fundur nýrra olíulinda á norðurslóðum varð til þess að menn fengu glýju i augun.  

Fyrir nokkrum árum virtust menn ætla að fljóta sofandi að feigðarósi í stað þess að virkja vísindi og fjármagn til að finna lausnir. 

Þeir sem framleiddu og dreifðu olíuvörum og jarðefnaeldsneyti litu skiljanlega á aðra orkugjafa sem ógn við hagsmuni sína.

En nú virðist alþjóðasamfélagið vera að taka við sér. Ástæðan er sú að menn sjá staðreyndir sem ekki er lengur hægt að leyna og að það verður að gera eitthvað í málunum. 

Nú sjá menn möguleika á að nota þóríum í stað úraníums til framleiðslu kjarnorku, en það er miklu hreinni og hættuminni framleiðsla og 

Vinnsla nýrra olíulinda verður æ dýrari og jafnvel þótt "bergbrot" (fracking) létti á ástandinu er það aðeins tímabundið.

Nú sjá menn möguleika á að nota þóríum í stað úraníums til framleiðslu kjarnorku, en framleiðsla með þóríum mun vera miklu hreinni og hættuminni framleiðsluaðgerð auk þess sem þóríum mun endast margfalt lengur. 

Nýjar aðferðir við gerð rafgeyma eru handan við hornið. Og undraefnið grafín vekur miklar vonir auk mikilla framfara í gerð sólarsella sem margfalda orkunýtinguna. 

Já, neyðin kennir naktri konu að spinna og kennir vonandi mannkyninu að nota hugvit sitt og kjark til að leysa orku- og fæðuvanda mannkynsins. 

   

 


mbl.is Grafín gæti framleitt hreina orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmalaus hegðun og óútreiknanleg.

Það er ekki vitað til að í nokkurri eldstöð á Íslandi hafi orðið margra mánaða langa skjálftahrina af því tagi sem Bárðarbunga hefur boðið upp á frá því í ágúst.

Að vísu skortir mælingar frá fyrri tíð hvað snertir Bárðarbungu sjálfa en það er einn hlutinn af þeim skorti upplýsinga sem hamlar því að hægt sé að spá um framhald umbrotanna þar. 

Engum datt Holuhraun í hug þegar skjálftahrinan hófst, enda hölluðust menn þá frekar að því að Holuhraun væri hluti af eldstöðvakerfi Öskju. 

Þess vegna veltu menn vöngum yfir fjölmörgum öðrum möguleikum, svo sem gosum í Bárðarbungu, á Dyngjuhálsi, í Gjálp, eða í eldstöðvakerfinu sem liggu í suður frá Bárðarbungu allt suður í Hrafntinnusker. 

Og allir þessir möguleikar með möguleikum á stórhlaupum á fimm vatnasviðum eða hraunrennsli í tvær höfuðáttir eru enn inni í myndinni. 

 


mbl.is Ekki hægt að útiloka gos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óljós mörk lífs og dauða?

Óljós mörk lífs og dauða hafa verið umhugsunarefni margra hugsuða í gegnum tíðina, eins og til dæmis skáldsins Einars Benediktssonar.

Það er ekkert langt síðan skammmstöfunin DNA birtist í orðaforðanum og enginn veit hvort eða hvenær eitthvað enn nýrra kemur fram á sjónarsviðið sem umbyltir sýn manna á eðli lífsins og tilverunnar.

Lífsmáttur DNA erfðaefnisins virðist opna möguleika á því að hinn "dauði" geimur sé ekki sú hindrun fyrir lífið sem ætla mætti. 

 Hallgrímur Pétursson sagðist ekki óttast afl dauðans né valdið gilt og Einar lét sig dreyma um eina alveldissál þar sem afl andans væri meira og víðtækara en okkur grunaði.

Ég hef reynt að orða þetta í lok sálms um ljúfan Drottin og hinn jarðneska dauða með þessum orðum:

 

Vítt um geim um lífsins lendur

lofuð séu´hans verk.

Felum okkur í hans hendur

æðrulaus og sterk.  


mbl.is DNA lifði af ferð í gegnum lofthjúpinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband