"Þetta reddast"- hugarfarið.

Ég dvaldi í Helsinki í viku í desember 1966. Þá vakti það athygli mína að enda þótt handmoka þyrfti snjóinn, voru allar götur og gangstéttir hreinsaðar jafnharðan og snjórinn féll. 

Var Finnland þó fjarri því að vera jafn ríkt þjóðfélag og Ísland hvað snerti þjóðartekjur á mann.

Þess vegna tróðst snjórinn ekki niður og harðnaði og varð síðan að klakabunkum eins og gerist hér á landi. 

Hér virðist ríkja sá hugsunarháttur að það hljóti að koma hláka sem taki ómakið af snjóruðningsmönnum. 

Undanfarna vetur hafa hins vegar komið það langir snjóakaflar að biðin hefur tekið allt að tvo mánuði.

Og afleiðingarnar eru dýrar í formi ótal beinbrota og hnjasks á fólki og farartækjum.

Nú er meðalhitinn í Helsinki að vísu heldur lægri yfir háveturinn en hér á landi og hlákurnar því færri en hér. En eina lausnin til að losna við hvimleiðan klakann er að koma í veg fyrir að hann myndist. Og finnska dæmið sýnir að þetta er vel hægt.   

 


mbl.is Skelfilegt ástand í hliðargötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtublessun snjóþekjunnar.

"Hvít jól" var vinsælasta jólaplata sinnar tíðar þegar Bing Crosby söng um það hve heitt hann dreymdi um hvít jól.

Og mikið er látið af fegurð snjókomunnar og snjóþekjunnar á þessum árstíma í ræðu, riti og tónlist, þótt snjórinn út af fyrir sig sé tákn kulda og vetrar og að því leyti óæskilegur. 

Alveg er óhætt að meta birtuna sem snjórinn gefur til nokkurra auka klukkustunda dagsbirtunnar þá daga sem jörð er hvít því það er nú einu sinni birtan sem fólki finnst dýrmætust í skammdeginu.

Þegar snjór er á jörðu virðist sólin koma upp mun fyrr en ella, dagurinn vera bjartari og sól setjast seinna.

Þessi desember ætlar að verða heldur kaldari en í meðalári og gleður það kuldatrúarmenn mjög, sem fagna því að árið í heild verði ekki það hlýjasta í manna minnum.  


mbl.is Útlit fyrir hvít jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve oft hafa verið gerðar kvikmyndir um tilræði við Bandaríkjaforseta?

Hvað skyldu hafa verið gerðar margar kvikmyndir um tilræði við Bandaríkjaforseta eða valdarán í BNA? Jú, ansi margar. 

Þess vegna kemur viðkvæmni valdamanna Norður-Kóreu gagnvart mynd á svipuðum nótum varðandi einræðisherrann þar spánskt fyrir sjónir.

En það er erfitt að átta sig á því hvort þessi viðkvæmni stafar eingöngu af einræðis- og kúgunarviðleitni valdhafanna þar eða hvort þetta liggur eitthvað dýpra í siðum og viðhorfum þjóðarinnar.

1945 beygðu Bandamenn sig fyrir því að japanska þjóðin leit á keisarann sem guðlega veru og það hefði verið hræðilegt glapræði á þeim tíma að handtaka hann og jafnvel ákæra fyrir stríðsglæpi. Því var fallið frá því að hrófla við keisaranum. 

 

Nú vantar einhvern sem getur útskýrt nánar, hvort eitthvað dýpra sé að baki hótunum Norður-Kóreskra yfirvalda en hreinn ofstopi valdasjúkra manna.  

 


mbl.is Sony hyggst gefa myndina út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krímskaganum verður aldrei "skilað".

Sú hugmynd, að Rússa muni bara rétt si svona "skila" Krímskaganum til Úkraínumanna, er fráleit. Krímskaginn var hluti af Rússlandi frá 1783 til 1954 eða í 171 ár, og þegar Rússar "gáfu" svæðið yfir til Úkraínu var Úkraína hluti af Sovétríkjunum sem var með Rússland sem svo yfirþyrmandi ráðandi afl í sambandinu, að staðsetning Krímskagans innan þeirra breytti nánast engu um stöðu skagans.

Þar að auki er yfirgnæfandi meirihluti íbúa skagans hlynntur því að tilheyra Rússlandi á ný, enda hefðu Rússar aldrei getað náð völdum jafn auðveldlega og raun var á, ef bitastæð andstæða gegn því hefði verið þar af hendi íbúanna.

Eftir fall Berlínarmúrsins lofaði Bush eldri forseti Bandaríkjanna Gorbatsjov því að NATÓ myndi ekki seilast til útþenslu í Austur-Evrópu. 

Síðan hafa bandalagið og ESB þanist út til austurs í átt til Rússlands og það skapar óþægilegar minningar hjá Rússum frá þeim tíma þegar Hitler gerði nágrannaríkin við vesturlandamæri Sovétríkjanna að bandalagsríkjum sínum 1939-41 og rauf síðan griðasamninginn við Stalín og réðist inn í Sovétríkin með þeim  afleiðingum að um 20 milljón Sovétmanna féllu.

Þegar deila er í gangi er mikilvægt að báðir aðilar sýni viðhorfum hins skilning.

Burtséð frá gölluðu stjórnarfari í Rússlandi Pútíns þurfa Vesturlönd að meta stöðuna á þann hátt.

Litlu munaði 1945 að Bandaríkjamenn gerðu þau arfamistök að varpa kjarnorkusprengju á Kyoto og steypa keisaranum af stóli og fangelsa hann. Sem betur fór tóku vitrir menn þá í taumana.

Hér á síðunni voru strax síðastliðið vor sett spurningarmerki við sum atriði stefnu Vesturveldanna gagnvart Rússum og það hvort þar sé í öllu haldið skynsamlega á spilum. 

Síðan þá hefur Henry Kissinger, fyrrum mótandi utanríkisstefnu Bandaríkjamanna, komið fram með svipaða gagnrýni. 

Það þarf ekki annað en að líta á landakort og skoða söguna til að sjá, að landamæri og nábýli Rússlands og Úkraínu eru afar hliðstæð landamærum og nábýli Bandaríkjannan og Kanada.

Sagt er að meirihluti Úkraínumanna vilji ganga í ESB og jafnvel NATO.  

En Úkraína horfir svipað við Rússum og Kanada við Bandaríkjamönnum og hætt er við að Bandaríkjamönnum hnykkti við ef Kanadamenn vildu til dæmis ganga í efnahagsbandalag og jafnvel hernaðarbandalag með Rússum og vilja skila Rússum aftur Alaska, sem Rússar seldu Bandaríkjamönnum fyrir gjafverð og afhentu í raun á silfurfati árið 1867. 

Nafnið Alaska er meira að segja rússneskt. 


mbl.is Herða refsiaðgerðir gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband