Jákvætt skref, en gildir í alltof stuttan tíma.

Uppbygging á rafbílavæðingu hér á landi rekst á margar hindranir. Sumar þeirra eru óþarfar, svo sem það að bíða þurfi fram á síðustu stundu eftir því að teknar séu ákvarðanir um skattaumhverfi bílanna.

Það er almennt viðurkennt að rekstrarumhverfi starfsemi verði að vera sæmilega stöðugt til þess að viðkomandi starfsemi geti þrifist og að það þarf miklu lengri gildistíma en eitt ár til þess að hægt sé að gera áætlanir fram í tímann.  


mbl.is Rafbílar áfram án skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullfoss og Geysir fallnir af stalli?

G er fyrsti stafurinn í Gullna hringnum. G er líka fyrsti stafurinn í nafni tveggja af þremur stöðum í hringnum sem helst hafa verið taldir gefa honum frægð, Gullfoss og Geysir, oftast nefndir báðir í sömu andránni. 

Nú hafa aðdáendur mannanna verka nefnt til sögu tvö mannerð íslensk fyrirbæri sem skáki Geysi og Gullfossi. 

Annað er gufustrókur upp úr niðurennslisholu við Þeystareyki, sem nær 30 metra hærri goshæð en Geysir á meðan hann var upp á sitt besta. 

Hitt er fossinn Hverfandi, sem fellur fram af Kárahnjúkastíflu niður í Hafrahvammagljúfu, og er langhæsti stórfoss landsins þær 2-3 vikur á hausti, sem vatn rennur um hann. 

Heildarhæð fossins er um 160 metrar, þar af lóðbeint fall meira en 100 metrar, en til samanburðar er fallhæð Dettifoss 44 metrar og Gullfoss um 30 metrar.

Ekki einasta eru Gullfoss og Geysir fallnir af stalli í augum aðdáenda verkfræðilegrar snilli, heldur væntanlega líka Drottinn allsherjar, sem greinilega hefur mistekist að skapa fyrirbæri í fremstu röð. 

Af frásögnum manna af þessum stórkostlegu manngerðu fyrirbærum má ráða það, að aðdáun okkar og erlendra ferðamanna, sem hingað koma, ætti að beinast að þeim frekar en miklu slappari náttúrulegum fyrirbærum, sem hingað til hafa skapað gjaldeyristekjur með aðdráttarafli sínu.

Raunar hefur því í fullri alvöru verið haldið fram að vegna þess að maðurinn sé hluti af náttúrunni beri honum skylda til að setja sem mest mark sitt á hana, enda sé náttúran sjálf hvort eð er alltaf að breyta landi og lífi og maðurinn sem náttúruafl eigi að láta til sín taka.

Sagt er að neðsti hluti Hjalladals hafi verið þakinn sléttum leirum Jöklu fyrir 11 þúsund árum og ofan á þessum leirum hafi legið langt og mjótt, grunnt vatn.

Því sé hið besta mál að "endurheimta" hið forna lón með því að gera Hálslón. 

Raunar er Hálslón um fjórum sinnum stærra en hið forna lón var, en einmitt það sýni hve miklu framar maðurinn standi skaparanum í mótun náttúrunnar.

Þessi stefna gæti borið heitið "hvort eð er" stefnan. 

 

Samkvæmt þessu mati væri hið besta mál að gera stíflu við suðurenda Þingvallavatns og stækka Steingrímsstöð um helming, vegna þess að talið er líklegt að hvort eð er muni Þingvellir og næsta umhverfi Þingvallavatns sökkva undir vatn í næstu landssigum á því svæði.

Eyðilegging Rauðhólanna skipti ekki máli, því að hvort eð er má búast við því að einhvern tíma í framtíðinni muni renna hraun ofan úr Bláfjöllum yfir Elliðavatn og búa til nýja Rauðhóla.

Að vísu segjast erlendir ferðamenn sækjast eftir því að sjá einstæða og ósnortna náttúru hér á landi, svo sem eins og í Kerlingarfjöllum og í nágrenni Landmannalauga, svo dæmi séu tekin, en með nógu stórkarlalegum manngerðum fyrirbærum á þessum svæðum og öðrum verði hægt að skáka skaparanum hressilega þar og viðar á þeim svæðum sem enn er eftir að umturna til dýrðar okkur mönnunum.

Afrek mannanna geta að vísu farið fram úr stærstu náttúrufyrirbærum þegar þau hafa verið þróuð og stækkuð. 

Sem dæmi má nefna kjarnorkusprengjuna, sem drap 80 þúsund manns í einu vetfangi í Híróshima, og stútaði þar með tvöfalt fleirum á skemmri tíma en sambærilegt fyrirbæri í líki eldgoss á Martinique eyju fyrir rúmri öld.

Í framhaldi af þessari atómsprengju hefur verið veitt þúsundum milljarða króna til að framleiða 100 sinnum öflugri sprengjur í hundraðatali, sem hver um sig getur drepið minnst tíu sinnum fleiri í einu vetfangi en nemur öllum íbúafjölda Íslands.    


mbl.is „Örugglega fallegra en Geysir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve margir urðu fyrir hnjaski í morgun?

Í gær voru tvær lægðir á sveimi við landið og gerðu mönnum skráveifu með því að búa til snögga umhleypinga sem erfitt var að sjá fyrir. 

4,5 stiga frost var um sex leytið í gærkvöldi og spáð hafði verið að hann gengi í norðanátt með auknum kulda, en skyndilega brast á með 2ja stiga hiti rétt fyrir miðnætti. 

Þetta var snöggur sex stiga hitamunur. 

Allt í einu byrjaði hríðarmugga sem snerist snarlega í úða og rigningu um eittleytið. 

Þegar fólk vaknaði í morgun var síðan hitinn dotttinn niður undir frostmark og úti var víða glæra svell eftir rigninguna, sem fór fram hjá flestum og fólk sá ekki í myrkrinu í morgun. 

Margir hafa áreiðanlega dottið og "orðið fyrir hjaski", jafnvel beinbrotum eða fengið slæm höfuðhögg.  

Tvenn vandræði vegna þessa sköpuðust í minni fjölskyldu um svipað leyti í morgun.

Bæði einstaklingar og þeir, sem sjá eiga um götur og gangstéttir þurfa að hafa alveg sérstakan vara á í svona skilyrðum.  


mbl.is Enn ein lægðin hringsólar við landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt verkefni fyrir Kínverja.

Þegar langfjölmennustu mótmælin fór fram í Austur-Þýskalandi með meira en 100 þúsund manns, sagði Eric Honnecker forsætisráðherra hin fleygu orð: "Þið eruð ekki þjóðin". 

Það sýndi vel firringu valdhafans, sem þó var aðeins brot af núvverandi firringu valdhafanna í Norður-Kóreu. 

Skömmu síðar létu stjórnvöldin undan þrýstingi um að rjúfa Berlínarmúrinn, enda var það gert með samþykki Gorbatsjovs, sem Ronald Reagan hafði beðið um að "rífa þennan múr" í ræðu sinni við Brandenborgarhliðið. 

Í fyrstu var Gorbatsjov tregur til að láta Austur-Þýskaland af hendi yfir í sameinað Þýskaland og að það gengi þar með úr Varsjárbandalaginu beint yfir í NATO. 

Hann taldi sig hafa loforð leiðtoga Vesturveldanna á fundum með þeim fyrir því að lengra myndu þau ekki ganga í útþenslu NATO í austurátt en annað átti eftir að koma í ljós, enda þessi loforð aðeins munnleg.  

Kínverjar eru áreiðanlega vel meðvitaðir um það að þeir megi ekki detta í sama pyttinn og Sovétmenn við að snúa baki við kommúnistastjórn í landi, sem á landamæri að Kína. 

Þeir munu telja sig verða að hafa skriflega og bindandi samninga í hendi, ef þeir steypa Kim Jong-Un, að minnsta kosti leynilega samninga líkt og Hitler og Stalín og síðar Churchill og Stalín gerðu í Evrópu 1939 og 1945, en þeir samningar héldu. 


mbl.is Breytt viðhorf í Kína til N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband