"Less is more". "KISS!"

Ofangreind erlend kjörorð um að oft sé minna meira og að gáfulegt sé að hafa hluti einfalda (Keep It Simple, Stupid! koma oft í hugann þegar staðið er frammi fyrir viðfangsefnum, sem verða óleysanleg vegna flækjustigs eða þegar fyrirbæri eru ofhlaðin af flóknum atriðum. 

Þegar ný gerð af BMW 7 var sett á markaðinn fyrir tæpum áratug urðu þau tímamót í bíladómum hjá nokkrum erlendum bílablöðum, að blaðamenn við þau gáfu bílnum aðeins þrjár til fjórar stjörnur í stað fimm, eins og tíðkast hafði fram að því varðandi þennan lúxusbíl og telja hefði mátt eðilegt um bíl, sem keppir um hylli kaupenda við þá allra bestu á markaðnum. 

Ástæðan var sú að tölvunördar fengu því ráðið að í bílnum var svo flókinn tölvubúnaður, sem öllu stýrði, allt frá útvarpstækjum og sæta- og stjórntækjastillingum til miðstöðvarkerfis, að margir kaupendur lentu í stanslausum vandræðum frá þeim degi sem þeir fyrst settust inn í bílinn og komust jafnvel ekki af stað eða urðu að stöðva för. 

Svo flókinn var þessi búnaður, að fyrir óvana þurfti helst að fara á sérstakt námskeið til að framkvæma hina einföldustu hluti, svo sem stillingu miðstöðvar. 

Bílablaðamennirnir ofangreindu töldu þetta svo stóran galla á bíl, sem fólk borgaði stórfé til þess að eignast og njóta þæginda í, að hann verðskuldaði ekki lengur fimm stjörnurnar sem hann hafði haft árum saman. 

Um daginn reynsluók ég tiltölulega ódýrum bíl sem var með þykkustu og stærstu leiðbeiningabók sem ég hef lengi séð og var með ólíkindum flókin og illskiljanleg.

Það kemur ekki á óvart þótt einhver eigi eftir að drepa sig á því að lokast inni í völundarhúsunum sem orðin "hlaðinn aukabúnaði" geta búið til, orðin sem lokka svo marga til þess að kaupa eitthvað margfalt dýrara verði en þörf er á.

Ég á til eina mergjaða sögu í stíl við þá sögu, sem þessi bloggpistil er tengd við, en hún er bara of löng fyrir bloggpistil.  

Þrátt fyrir stærð bókarinnar var engin leið að átta sig á því hvernig skipta skyldi um hjól á bílnum og setja varahjól undir. Ég gafst upp og notaði frekar eigin smátjakk, sem ég hafði meðferðis fyrir einskæra tilviljun. 

Í öðrum bíl var ekki með nokkru móti hægt að finna í leiðbeiningabæklingi hvernig ætti að opna bensínáfyllinguna. 


mbl.is Ekkert spaug að gleyma lykilfjarstýringu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð Kennedys, til umhugsunar um jól og áramót.

Í síðustu frægu ræðunni, sem John F. Kennedy Bandaríkjaforseti hélt áður en honum var banað, mótaði hann hugsun, sem því miður gengur grátlega seint að útbreiða meðal þjóða heims, þótt liðin sé rúm öld síðan þau voru sögð.

Tilefnið var augljóslega Kúbudeilan svonefnda haustið 1962, þar sem litlu munaði, að risaveldin gripu til skelfilega kjarnorkuvopnabúra sinna, sem ómældum fjárhæðum ítrasta hugvits og tækni hafði verið varið í að búa til og aðeins var hægt að nota til að drepa sem flest fólk, helst að risaveldin gereyddu hvort öðru.

 Meðan á deilunni stóð hafði Kennedy meðal annars orðið að ákveða, hvar fjölskylda hans og ríkisstjórn ætluðu að láta fyrir berast ef Sovétmenn gerðu kjarnorkuárás á Bandaríkin og Vestur-Evrópu.

Vitað var að upp í lofthjúpinn myndu berast þvílík kynstur af eiturefnum og geislavirkum efnum, að byrgja myndi sól um alla jörð í nokkur ár og valda "kjarnorkuvetri" auk dauða og sjúkdóma milljaða manna og eyðingu stórra vistkerfa.

Kennedy sagði, lauslega þýtt, og ávarpaði með þessum orðum mannkyn allt: 

"Við eigum öll heima á sömu reikistjörnunni, öndum öll að okkur sama andrúmsloftinu, eigum öll afkomendur, sem okkur er annt um, og erum öll dauðleg."

Einföld sannindi og brýn, síðustu orðin áhrínsorð fyrir hann sjálfan.    


mbl.is Jörðin séð úr geimnum (myndir)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband