Skásti leikurinn í stöðunni hjá Bjarna, en þó ekki nýjung.

Bjarni Benediktsson stóð frammi fyrir erfiðu vali á ráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Í þingflokknum stóð valdið á milli nokkurra sterkra kandídata og líklegt mátti telja var að þeir þeirra, sem ekki fengju djobbið, yrðu ekki ánægðir með það og því síður fylgismenn þeirra.

Konur yrðu óánægðar með það ef slagsíða á milli karla og kvenna í ríkisstjórninni ykist og ekki yrði ánægja með það að enginn ráðherra kæmi úr Reykjavík úr því að Hanna Birna hafði komið þaðan.

Í bollaleggingum manna um málið datt engum í hug að Bjarni myndi leita út fyrir þingflokkinn.

Samt var fordæmi fyrir hliðstæðu þegar Davíð Oddsson leitaði út fyrir borgarstjórnaflokk Sjálfstæðismanna 1991 til að velja sem eftirmann sinn á borgarstjórnarstóli.

Valið núna var hliðstætt valinu 1991 að í bæði skiptin var leitað til manneskju, sem hafði áður verið framarlega í forystu flokksins en þó ekki gegnt embættinu sem í boði var.

Markús Örn Antonsson hafði verið forseti borgarstjórnar en farið úr borgarpólitíkinn yfir í starf útvarpsstjóra. Innan borgarstjórnarflokksins stóð valið einkum á milli Árna Sigfússonar og Katrínar Fjeldsted, gott ef Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kom ekki líka til greina, en Davíð átti erfitt með valið og virðist hafa óttast, að ef hann gerði upp á milli þeirra kynni það að valda sárindum. 

Ef ekkert þeirra var valið gat gamla máltækið gilt að "sætt er sameiginlegt skipbrot." 

Og það er ekki langt síðan Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður auk þess sem hún hafði setið í þingnefndum þar sem málefni innanríkisráðuneytisins komu inn á borðið. Einnig starfað um hríð í samgönguráðuneytinu.

Hún er lögfræðingur og heppileg til þess að skila dómsmálaráðuneytinu á tryggan hátt að nýju í hendur Sjálfstæðismanna. 

Sem sagt: Öflugur stjórnmálamaður. 

 

Auðveldara var að ná algerri samstöðu í þingflokknum ef komist var hjá því að gera upp á milli þingmanna.

Þótt aðferðin nú sé svipuð og hjá Davíð 1991 er ekki víst að það spilist eins úr henni nú og þá.

1991 spilaðist ekki vel úr stöðunni því að þá sá enginn það fyrir, að fyrsta sameiginlega framboð minnihlutaflokkanna myndi verða til og gerbreyta hinu pólitíska landslagi í Reykjavík svo mjög til frambúðar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei borið sitt bar þar eftir það í höfuðborginni.

Ekki ætti að vera ástæða til þess nú að óttast neitt hliðstætt nú þótt auðvitað sé ævinlega erfitt að spá fyrir framvindu í stjórnmálum.   

 


mbl.is Ólöf: Ákvörðunin lá fyrir í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnugleg sýn rússnesks ráðamanns.

Vladímír Pútín telur sig upplifa ákveðna sýn á heimsstjórnmálin sem knýi hann til þeirra aðgerða og réttlætingar þeirrar utanríkisstefnu sem hann fylgir.

Hver er þessi upplifun? Á hún við rök að styðjast eða ekki? Og hverju er um að kenna? Aðgerðum hans sjálfs eða annarra?  Eða beggja aðila? 

Setjum okkur á sjónarhól hans til að reyna að skilja þessa sýn. 

Jú, hann viðraði kunnuglega sýn rússnesks ráðamanns úr sögu landsins í ræðu sinni á þingi landsins í morgun, sem sé þá, að óvinir landsins væru í óða önn að umkringja landið og sækja að því.

Þetta er í þriðja sinn í 70 ár sem forystumaður landsins sér hlutina með þessum augum.

Hið fyrsta sinn var sú sýn sem Stalín hafði á stöðu landsins á árunum fyrir innrás Þjóðverja í landið 1941. Þá horfði hann upp á hvert landið af öðru í austurhluta Evrópu ýmist hertekið af þjóðverjum eða gert að stuðningsríki þeirra.

Hin herteknu voru Tékkóslóvakía og Pólland 1939 og Júgóslavía og Grikkland 1940 en bandalagsríki Þjóðverja voru Búlgaría, Rúmenía og Ungverjaland.

Þótt Hitler og Stalín hefðu gert griðasamning rauf Hitler griðin og 20 milljónir Rússa voru drepnir auk gríðarlegra hervirkja í landinu. Þessu geta Rússar aldrei gleymt. 

 

Aftur fannst Stalín hann upplifa umkringingu landsins í upphafi Kalda stríðsins þegar NATO var stofnað og grundvöllur stefnu John Foster Dulles, utanríkisráðherra Eisenhowers á sjötta áratugnum, var að stofna hliðstæð hernaðarbandalög við þjóðir í Asíu, allt austur til Japans.

Hernaðarbandalagið í Suðaustur-Asíu, SEATO, var hliðstæða NATO.

NATO var stofnað vegna þess að Rússar höfðu gengið harðar fram í því en Vesturveldin höfðu gert ráð fyrir að þeir myndu gera í krafti hervalds, að gera lönd Austur-Evrópu að kúguðum leppríkjum sínum og töldu að það ógnaði allri Vestur-Evrópu.

Stalín gerði þetta hins vegar í skjóli umsamdrar uppskiptingar álfunnar í áhrifasvæði þeirra í austanverðri álfunni og áhrifasvæði Vesturveldanna í vestanverðri álfunni og eftir á að hyggja er spurningin hvort nokkurn tíma var raunveruleg hætta á að Sovétmenn hefðu látið til skarar skríða gegn Vestur-Evrópu. 

Að minnsta kosti héldu þeir sig til hlés 1946 þegar grískir kommúnistar reyndu valdatöku í Grikklandi, af því að Stalín og Churchill höfðu samið um það að Grikkland væri á áhrifasvæði Breta. 

Í innrásum Rússa í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968 kom í ljós að þessi skipting Evrópu var grundvöllur þessara afskipta þeirra.   

Þegar verið er að kanna ákveðnar aðstæður, sem koma upp í samskiptum manna og þjóða, getur verið upplýsandi að setja sig í spor þeirra, sem eiga aðild að málum, til að reyna að skilja af hverju hún er slík sem raun ber vitni, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Putin telur sig upplifa umkringingu landins og aðför að því með sókn NATO og ESB til austurs í Evrópu og þeirri pólitík, sem Bandaríkjamenn og NATO reka gagnvart grannríkjum Rússlands í suðri, þ.á.m. hernaði NATO í Afganistan.

Meðal þeirra sem hafa varað við afleiðingunum af því, að þessi sviðsmynd hefur komið upp, eru Mikhail Gorbatsjov og Henry Kissinger.   


mbl.is Pútín varar við erfiðum tímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega algengur galli á byggingum.

Það á að vera hægt að reisa byggingar á Íslandi sem halda vatni, jafnvel þótt veðráttan sé rysjótt.  Tæknin og þekkingin eru fyrir hendi en hinn ótrúlegi fjöldi bygginga sem lekur og liggur undir skemmdum bendir til þess að það skorti á að menn fari rétt að. 

Á miklum nýbyggingatímum á síðari hluta 20. aldar voru reist hús í þúsunda tali hér á landi sem héldu ekki vatni. Tískufyrirbrigði áttu meðal annars hlut að þessu. 

Má sem dæmi nefna hina vinsælu hornglugga á íbúðarhúsum, sem komust í tísku í kringum 1940 og reyndust afar dýrir í viðhaldi og einnig flötu þökin sem mörg hver voru beinlínis hriplek.

Ég gerði eitt sinn Kastljósþátt í Sjónvarpi um eitt af þessum þökum þar sem lekinn var yfirgengilegur á nýju húsi.

Sérfræðingur á þessu sviði hefur lýst því fyrir mér hvernig þessi leki var eingöngu vegna vanþekkingar eða tæknilegra mistaka, sem gerð voru í smíði húsþaka á þessum árum.

Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson skrifaði stórkostlega skemmtilega ádeilugrein um þetta á sínum tíma þar sem hann sagði meðal annars að enda þótt Bakkabræður hefðu verið svo vitlausir að reyna að bera ljós inn í hús sín í höfuðfötum sínum hefði þeim aldrei dottið í hug að gera flöt húsþök.  

Margt mætti upp telja.

Í kringum aldamótin voru reist hér kanadísk hús sem aðeins munu endast í fáa áratugi, vegna þess að þau eru hönnuð fyrir allt annað veðurlag en hér er. 

Selfosskaupstaður, sem er á þekktu jarðskjálftasvæði, stendur ofan á mold að mestu leyti, sem er arfa slæmt fyrir byggð, sem á að þola jarðskjálfta sem best.

Á okkar misviðrasama landi á að vera til þekking og geta til að smíða hús sem halda vatni og vindi og endast sæmilega og misbrestur á þessu hefur þegar kostað okkur tugi milljarða og mun eiga eftir að kosta okkur hundruð milljarða króna að óþörfu áður en yfir lýkur.  


mbl.is Kirkjan lekur og sóknin ráðþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög smækkuð útgáfa af Skaftáreldunum.

Í Skaftáreldum féllu meira en 70 prósent af búsmala landsmanna og 25 prósent íbúa landsins. 

Ekki eru til tölur um efnasamsetningu þeirra lofttegunda sem eldarnir sendu frá sér en hraunrennslið var 15 sinnum meira en frá gosinu í Holuhraun og flatarmál Skaftáreldahraunanna átta sinnum meira.

Auk brennisteinslofttegunda kom flúor frá gosstöðvunum. Flúorinn olli svonefndum gaddi í sauðfénu svo að kjálkar og tennur þess urðu ónýt og skepnurnar féllu úr hor.

En auk þess eru til magnaðar lýsingar á dauða jarðargróða og dauðastríði dýra og jafnvel fiska vegna gaseitrunar.

Hegðun smádýra fyrir norðan rímar við þessar frásagnir og gefa smækkaða mynd af þeim hamförum og skaðræði sem Móðuharðindin fólu í sér.   


mbl.is Mýs flýja mengun frá eldgosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband