Afar lúmskur sjúkdómur: Bakflæði.

Það var ekki fyrr en fyrir um tuttugu árum sem orðið bakflæði varð skyndilega að einhvers konar tískuorði í umræðunni hér á landi um sjúkdóma og heilsufar. 

Hér á landi var talað um brjóstsviða eða nábít ef mönnum varð illt á þann hátt sem fylgir bakflæði. 

Tveir nákomnir ættingjar mínir hafa greinst með bakflæði og í bæði skiptin var fyrst farið að leita að einhverju í hálsi sem orsök þess hvernig einkennini birtust í raddböndum og hálsi. 

Í fyrra tilfellinu var hafin leit að krabbameini þegar hið sanna uppgötvaðist. 

Ástæðan var sú að í láréttri legustöðu í svefni á næturnar rann magasýra upp í kok og brenndi raddbönd og háls. 

Ætla má að læknar Bandaríkjaforseta séu í fremstu röð, en svo er að sjá að sjúkdómsgreiningin hafi samt vafist fyrir þeim í fyrstu. 

1996 uppgötvaðist að ég væri með þennan fjanda og þá kom í ljós að ég hafði verið með bakflæðið allt frá tíu ára aldri þegar ég var í sveit í Langadalnum og hljóp til að ná í kýrnar eftir kvöldmat. 

Þá fékk ég svo slæmar magakveisur að engu lagi var líkt. Bóndinn á bænum, Björg,ömmusystir mín, var systir hins fræga smáskammtalæknis (hómópata) Bjarna Runólfssonar, og kunni ráð við þessu. Hún gaf mér natron og kveisan rénaði. 

1986 fékk ég þetta aftur en fékk ekki alveg rétta greiningu. Aftur var ég slæmur um hríð 1993 en hin endanlega sjúkdómsgreining kom ekki fyrr en eftir miklar meltingartruflanir upp úr og niður úr 1996.

Þá var fyrst með speglun á ristli, maga og vélinda hægt að taka á þessu með lyfjagjöf að einhverju gagni.

Bakflæðissjúklingar eiga kost á uppskurði þar sem neðsti hluti vélindans er þrengdur og gefst það flestum afar vel.

Þó eru dæmi þess að þetta hefur ekki tekist og orðið að endurtaka uppskurðinn.

Ég hef látið lyfjanotkun ásamt aðgát í mataræði nægja fram að þessu hvað sem síðar verður.  

Við speglun gefst manni færi á að sjá innyfli sín sjálfur, og vélindað var heldur betur eldrautt eins og svöðusár allan hringinn neðst við magaopið. 


mbl.is Obama þjáist af bakflæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul saga af strætisvagni og slökkvibíl.

Við það að lesa um tengda frétt á mbl.is um stefnumót brennandi strætisvagns og slökkvibíls kemur upp í hugann gamalt atvik, þar sem strætisvagn og slökkvibíll áttu óvenjulegt stefnumót.

Á síðari hluta sjötta áratugs síðustu aldar stóð nýinnfluttur slökkvibíll alllengi óhreyfður niðri í porti Eimskipafélagsins við Borgartún vegna fjárskorts. Á meðan varð slökkviliðið að notast við gamla og úrelta bíla og var einn af gamanbrögum mínum á þessum tíma svonefndur Brunabragur, sem sá þetta ástand í skoplegu ljósi. Það var efnahagslægð á Íslandi vegna hruns síldarstofnsins og verðfalls á útflutningsafurðum. Loks kom þó að því að slökkvibíllinn góði yrði leystur út og honum ekið í fyrsta sinn.

Strætisvagnabílstjóri var´á leið á vagni sínum eftir Lönguhlíð þegar nýi slökkvibíllinn fer fram úr honum og stendur reykur aftur úr slökkvibílnum.

Strætóbílstjórinn þenur flautuna og sér að bílstjóri slökkvibílsins virðist ekki taka eftir því að kviknað er í bílnum, enda vandséð hvernig búast megi við því að það kvikni eldur í slökkvibílum.

Þegar vagnstjórinn sér að reykurinn magnast og bílstjóri slökkvibílsins verður hans ekki var, eykur hann hraðann á strætisvagninum, fer flautandi fram úr slökkvibílnum bendandi með höndunum og tekst loks að þvinga hann út í kant og leggja strætisvagninum á ská fyrir framan hann til að stöðva hann.

Bílstjóri slökkvibílsins kemur ævareiður út úr bílnum og hleypur með hnefa á lofti að strætisvagninum án þess að líta til baka.

Stætóbílstjórinn opnar framdyrnar í mestu rólegheitum og slökkvibílstjórinn æðir þar inn fokreiður, sem von von er og spyr hvern andskotann þessi frekjuakstur eigi að þýða með strætisvagn fullan af farþegum sem settir séu í hættu sem og allir aðrir vegfarendur.

"Það er kviknað í" svarar vagnstjórinn.

"Kviknað í?" svarar slökkvibílstjórinn sótrauður af bræði. "Hvaða bull er þetta?"

"Líttu til baka" svarar vagnstjórinn með mestu hægð og bendir með hendinni í átt að slökkvibílnum. 

Slökkvibílstjórinn lítur til baka og verður svo bilt við að hann er næstum dottinn út úr vagninum.

"Það er kviknað í!" hrópar hann æstur. "Hvað á ég að gera?!"

"Nú, kallaðu á slökkviliðið, - kallaðu á liðsauka, -  ertu ekki slökkviðliðsmaður og á slökkvibíl?" svarar vagnstjórinn með ítrustu hægð sem stingur í stúf við æsing slökkvibílstjórans, enda sér vagnstjórinn í baksýnisspeglinum að reykurinn, sem stendur aftur úr slökkvibílnum, er farinn að minnka. 

"Já, en það er kviknað í honum!" hrópar slökkviliðsbílstjórinn í örvinglan.  

"Svona, engan æsing, taktu þessu rólega, það á að vera handslökkvitæki í vagninum. 

"Hvar? Hvar?! æpir slökkvibílstjórinn, skimar aftur í vagninn og rýkur af stað til að leita að því. 

"Svona, rólegur!" kallar vagnstjórinn, "það er hérna frammi í, - þú stóðst rétt fyrir framan það!" 

Slökkvibílstjórinn snýst á hæli, veður að tækin og byrjar að hamast við að reyna að losa það á svo broslega klaufalegan hátt að farþegar strætisvagnsins veltast um af hlátri. 

Á meðan á þessu stendur hefur reykurinn minnkað enn frekar og er alveg horfinn þegar slökkvibílstjórinn getur loksins brotið festingarnar sem halda tækinu og vaðið með það út úr vagninum.

En hann finnur engan eld og kemur sneyptur til baka. 

Í ljós kemur að eftir nokkurra ára stöðu slökkvibílsins niðri í porti hafði handbremsan fest og stóð það mikið á sér þegar ekið var af stað, að smám saman sjóðhitnaði hún svo að það rauk úr henni heljarmikill reykur.

En um leið og bíllinn var stöðvaður kólnaði bremsan og hætti að rjúka úr henni.  


mbl.is „Fundum allt í einu brunalykt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vörn fjarlægðarinnar að bresta?

Svonefndar mósasýkingar eru eitt dæmið um það hvernig sýklar verða sífellt ónæmari fyrir sýklalyfjunum, en mósasýklarnir eru einna verstir viðureignar.

Ísland hefur um furðu langt árabil notið þess að vera eyland, langt frá öðrum löndum, og með einbeitni og árvekni hefur að mestu tekist að verja landsmenn gegn þessum verstu sýkingum.

Þó hefur eitt og eitt tilfelli komið upp, og minnist ég í því sambandi þess að dótturdóttir mín fékk slíka sýkingu fyrir nokkrum árum og varð að fara langa og stranga einangrun út af henni.

Það er þess vegna hið versta mál ef þessar varnir eru að bresta, ekki hvað síst ef það er vegna skorts á aðstöðu eða húsnæði.

Fleiri sýklar en mósasýklar eru illvígir og ég varð fyrir barðinu á slíku fyrir sex árum.

Ég var svo óheppinn að fá heiftarlega sýkingu og risastórt graftarkýli í bakið á leiðinni út til Bandaríkjanna. Þar reyndust venjuleg sýklalyf gagnslaus og valið stóð um það að leggjast þar inn á spítala og verða kannski innlyksa þar vikum eða mánuðum saman vegna þess hve allt umhverfið varðandi sýkla og sýkingar er verra þar en hér, -  eða að taka þá áhættu að draga aðgerðir í þrjá daga og fara undir hnífinn hér heima.

Ég ákvað að bíða og láta gera þetta hér heima og það munaði litlu að það hefði verið kolröng ákvörðun, því að með ólíkindum var hve mikið kýlið blés út þessa daga, sem töpuðust.

Velja varð svo sterkt sýklalyf að það olli lifrarbresti, stíflugulu og ofsakláða með svefnleysi, sem stóð í þrjá mánuði og veikindin stóðu alls í fjóra mánuði.

Þarna kom í ljós hve lifrin er mikilvægt grunnlífæri mannsins og kannski það upprunalegasta, líkt elstu frumusamfélögunum. Þegar hún brast og varð að miklu leyti óvirk, var ekki hægt að taka nein lyf, svo sem svefnlyf eða verkjalyf, gegn ofsakláðanum.

Ég rifja þetta hér upp vegna þess að um er að ræða eitthvert alvarlegasta og brýnasta verkefnið í heilbrigðiskerfinu, baráttuna við sífellt öflugri og ónæmari sýkla, sem kalla smám saman á svo sterk sýklalyf, að þau út af fyrir sig fara að verða hættuleg í ákveðnum tilfellum.

Þess vegna er það áhyggjuefni ef vörn fjarlægðar eylandsins okkar frá öðrum löndum er að bresta.  


mbl.is Enn ein mósasýkingin á LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband