Fárviðrið komið á mörgum veðurstöðvum.

Fárviðrið, sem spáð var á Vestfjörðum er þegar þetta er skrifað komið á mörgum veðurstöðvum vestra. 

Á sumum, eins og í Æðey er samfellt fárviðri eða 33 m/sek eða meira en á veðurstöðvum allt frá Bjargtöngum til Hjallaháls og Gjögurs er fárviðri í hviðunum. 

Vindurinn komst í 47 m/sek í hviðum í Æðey klukkan 20:00 og fór yfir 40 m/sek á nokkrum öðrum stöðum. Það hefðu verið talin 14 vindstig í gamla skalanun. 

Allt þetta og meira er hægt að sjá á vedur.is. 

 


mbl.is Sjáðu fárviðrið „í beinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svona slæmt síðan 1995 ?

Á undan snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri fóru alveg dæmalaus slæmar veðurspár, sem gengu eftir. 

Vindáttin var að vísu norðvestanstæðari en spáð er nú, ásamt gífurlegri snjókomu, sem varð til þess að snjóflóðin féllu á þessar byggðir og voru miklu stærri en áður hafði þekkst. 

Ég minnist þess ekki að hafa séð svona slæma veðurspá fyrir Vestfirði síðan þá. 

Það þarf ekki að þýða að önnur eins snjóflóð falli núna og 1995, og þar að auki er búið að gera ráðstafanir með snjóflóðavörnum, rýmingaráætlunum og niðurfellingu vetrarbyggðar þar sem það á við. 

Í aðdraganda Súðavíkursnjóflóðsins var spáð versta veðrinu á Norðvesturlandi, og því fór ég kvöldið áður akandi upp á Laxárdalsheiði til þess að vera kominn tímanlega á svæðið. 

Víst varð snælduvitlaust veður þar en fyrir bragðið ekki hægt að komast þaðan fyrr en daginn eftir og þá var ljóst að veðrið hafði orðið illvígast á Vestfjörðum. 

Þannig er ævinlega nokkur óvissa um það hvar óveður, sem spáð er, verða verst, og einnig hvort þau verða skárri eða jafnvel verri en spáð er. 

Vonandi fer þetta betur nú en á horfist þannig að þetta verði verst á Halamiðum, þar sem engin skip ættu að vera núna. 


mbl.is Ekki batnar spáin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymda orsökin.

Eldsneytisverð vegur mjög þungt í þjóðarbúskap nútímaþjóða og hefur miklu meiri áhrif á hann en oft er látið í veðri vaka, til dæmis núna. 

Jafn mikil lækkun og orðið hefur á eldsneytisverðinu er líkast til aðalástæðan fyrir minnstu verðbólgu í áraraðir og þeim stöðugleika, sem gumað er af.

Ef horft er til baka má sjá hið gagnstæða á árunum í kringum 1980. 

Uppreisn klerkanna í Íran og fall Íranskeisara 1979 olli mestu verðhækkun á olíu, sem orðið hafði síðan í kjölfar Yom Kippur stríðsins 1973. Og bæði 1979 og 1973 misstu íslenskar ríkisstjórnir tökin á verðbólgunni. 

Þótt margir hafi talið ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980 einhverja þá slökustu í lýðveldissögunni verður að virða henni það til vorkunnar að eldsneytishækkunin, sem dundi yfir nokkurn veginn á sama tíma og ríkisstjórn hans tók við völdum, hafði alveg sérstaklega slæm áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga. 

Hafa verður í huga að á þessum tíma vorum við enn afar háðir innflutningi á eldsneyti til húshitunar í viðbót við eldsneytið á samgönguflotann á sjó og landi. 

Ríkisstjórn Gunnar réðist í miklar framkvæmdir við hitaveitur víða um land og það kostaði fjárútlát. Það var ekki fyrr en síðar sem landsmenn fóru að njóta góðs af þessum framkvæmdum. 

Í landinu ríkti kapphlaup milli verðlags og kaupgjalds sem öllum ríkisstjórnum á þessum tíma reyndist óyfirstíganleg hindrun við að reyna að ná verðbólgunni niður. 

Fyrri hluta árs 1983 var svo komið að verðbólgan hér á landi sló öll met, komst yfir 100%. 

Hafi einhvern tíma orðið "forsendubrestur" á lánamarkaði var það þá. 

Svo aftur sé litið til nútímans sýnist skortur á trúnaði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vera helsta ógnunin við það að hægt sé að halda verðbólgunni áfram niðri og koma í veg fyrir að verðbólguskrúfan fari aftur að stað. 

Núverandi "stöðugleiki" kann því miður að vera logn á undan storminum þótt vonandi sé að slík hrakspá rætist ekki. 

 


mbl.is Bensínið hefur lækkað um 33 kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband