Hver hefði trúað því að nokkur vörn fyndist gegn alnæmi?

Enn er í minni hrollvekjan sem birtist heiminum þegar alnæmi fór að breiðast út og virtist gersamlega óstöðvandi. Lengi vel var svo að sjá að engin ráð myndu finnast við þessum skelfilega sjúkdómi.

En smám saman hefur læknavísindunum tekist að veita þessum skaðvaldi mótspyrnu sem veitir mörgum vonir, sem áður hefðu þótt fjarstæðukenndar.

Alnæmi herjar nú einna verst á fátækt ungt fólk í þróunarlöndunum, einkum í fátækrahverfum borganna, þar sem fjárskortur veldur skortir þekkingu til forvarna og úrræða.

Það virðist oft tilviljunum háð hvernig læknavísindunum gengur í baráttu við sjúkdóma.

Ef nú er að finnast nýtt ráð við krabbameini í blöðruhálskirtli eru það ekki lítil tíðindi, svo mjög sem sá sjúkdómur hefur færst í aukana á síðustu árum.  

Stundum jaðrar árangurinn í baráttu við einstaka sjúkdóma við kraftaverk en síðan koma upp tilfelli eins og það að ekki skuli enn hafa fundist nein ráð við eins algengum og "aumingjalegum" kvilla eins og kvefi.

Sjúklingur með kvef sem kemur til Saxa læknis fær áreiðanlega fram í sig hin þekktu orð hans: "Þú ert alveg ómögulegur sjúklingur, - það er aldrei neitt almennilegt að þér."     


mbl.is Ný meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir meistarar hafa átt erfiða daga.

Grettir sterki var rómaður fyrir afl og hreysti. Samt mætti hann eitt sinn ofjarli sínum í Hallmundarhrauni. Dagsformið var greinilega ekki nógu gott.

Allir meistarar eiga erfiða daga. Jussi Björling hélt tónleika í Reykjavík á leið sinni frá Ameríku til Svíþjóðar á miðjum sjötta áratugnum og þótti næstum því hneyksli hve lélegur hann hefði verið.

Var reyndar ósofinn eftir óralanga flugferð í "öfuga átt" á þeim tíma sem millilent var i Gander og flogið þrisvar sinnum hægar en nú á tímum.

Margsinnis á löngum ferli sínum var fullyrt að Muhammad Ali væri búinn að vera, fyrst eftir ósigur fyrir Frazier, síðan fyrir Norton, þar næst fyrir hneykslanlega frammistöðu gegn Jimmy Yong og loks eftir tap fyrir Leon Spinx.

Í öll skiptin reis hann til nýrra hæða.

Helstu meistarar í öllum greinum, líka Messi, hafa ekki öðlast sess sinn fyrir afburða frammistöðu þegar best hefur vegnað heldur frekar vegna þess hvernig þeir hafa unnið úr ósigrunum, sem hafa verið óhjákvæmilegir og eru óhjákvæmilegir hjá mönnum, sem getur mistekist eða átt slæmt "dagsform."

"Það er erfitt að vera Messi" og það var erfitt að vera Grettir og vera Ali.    


mbl.is „Það er erfitt að vera Messi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rústa öllu bótalaust og sjá svo til.

Nú hefur það verið gefið út að á næsta ári verði allt kennslu- og einkaflug útlægt gert af Reykjavíkurflugvelli og að ágætt væri að það flyttist til útlanda.

Innan árs á að rífa bótalaust niður 8000 fermetra húsnæði í Fluggörðum og einnig eyðilagðar bótalaust akbrautir um svæðið og rafmagns-, síma- og klóakleiðslur, sem lagðar voru á kostnað eigenda skýlanna á sínum tíma.

85 flugvélum verður hent í burtu svo og kennslustarfi, sem snertir hundruð fólks án þess að þess sjáist nokkurn stað að neitt verði gert til að koma því fyrir annars staðar nema þá að farið sé til útlanda með það allt.

Í besta falli á kannski að sjá til hvort uppfyllt verði innistæðulaust loforð um að finna starfseminni annan stað, sem augljóslega á að svíkja.

Það er engin furða þótt bæði Reykjanesbær og Árborg lýsi yfir áhuga á að fá flugstarfsemi til sín því að báðir aðilar vita að  slík starfsemi sogar til sín aðra starfsemi og byggð, þvert ofan í það sem ráðamenn í Reykjavík virðast halda.

Eins og sést fyrir tilviljun á myndinni, sem mbl.is hefur látið taka fyrir sig af Selfossflugvelli í tilefni fréttarinnar, er ég þegar flúinn með TF-FRÚ þangað eftir háveturinn hér í Reykjavík, en flugvélin hefur reyndar verið fyrir austan fjall nær samfellt síðustu þrjú ár. ´

Þetta sést betur ef tvísmellt er á mynd mbl.is og þá sést líka hve stutt er í næstu byggð við völlinn.

Ætlaði að birta nýjar myndir mínar af vellinum, en einhver tæknihindrun kom upp sem hindrar það. Samt hefur mér tekist að setja hana á facebook-síðuna.  

Það getur að vísu kostað það að þurfa að fara daglega austur til að snúa henni rétt upp í vindinn, svo hún skemmist ekki en þannig er það bara, sennilega gott fordæmi fyrir þá kennara og nemendur sem eiga að aka fram og til baka til flugkennslu framtíðarinnar, ef hún verður ekki farin úr landi.

Flugklúbbur Selfoss á að baki stórvirki við að leggja þennan flugvöll, reisa þar þrjú skýli, og lítið hús, ígildi flugstöðvar og flugturn.

Ég sé hins vegar ekki hvar á að koma fyrir 85 flugvélum þarna, enda sést á myndinni að FRÚin er öðrum megin bundin niður í 33ja ára gamlan fornbíl til að halda henni fastri.

Það er styttra í næstu byggð frá þessum velli en í Reykjavík en samt er flugið velkomið eins og það er annars staðar á landinu, nema í Reykjavík, hvað snertir valdamenn borgarinnar.

Yfir 70% borgarbúa vilja að vísu að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í borginni samkvæmt skoðanakönnunum, en valdamenn hafa þann vilja að engu þótt þeir biðli nú til borgarbúa um að fá að vera þjónar almennings.   

  


mbl.is Kennsluflugið velkomið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaðurinn við skýrsluna gerður að aðalatriði.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum stórs hluta íslensku þjóðarinnar við Hruninu og því sem reynt hefur verið að gera síðan til að gera upp við það og orsakir þess.

Í fyrstu virtist mikill og yfirgnæfandi stuðningur við uppgjör og úrbætur og reiðin var mikil.

En smám saman fór dæmið að snúast við. Smám saman hefur fyrsta skýrslan á vegum Alþingis, skýrsla rannsóknarnefndarinnar um aðdraganda Hrunsins horfið af sjónarsviðinum.

Þótt yfirgnæfandi meirihluti atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs vildi láta leggja það til grundvallar hefur "elítan" eins og einn af andstæðingum þess í háskólasamfélaginu kallaði sjálfan sig og skoðanasystkin sín ásamt fyrrverandi stjórnarandstöðu og slöppum stjórnarþingmönnum þess tíma tekist að kalla yfir okkur ástand, sem er alveg hliðstætt því sem ríkti á tímum ótal fyrri stjórnarskrárnefnda í 70 ár, sem ekki tókst að efna loforðið sem gefið var við lýðveldisstofnun um nýja stjórnarskrá.

Síðan kom rannsóknarskýrslan um Íbúðarlánasjóð, og þá tókst að blása það upp sem aðalatriði hvað skýrslan og rannsóknin hefðu kostað og að jafnvel yrði nauðsynlegt að skipa rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á þeim kostnaði og starfi nefndarinar.

Sami söngur hófst samstundis á útvarpsrásunum í dag varðandi skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sparisjóðina.

Þannig tekst að eyða og drepa á dreif flestu því sem læra hefði mátt af Hruninu og í staðinn grátbeðið um sömu valdaöfl og sama ástand og var í aðdraganda Hrunsins.   


mbl.is Ákveðnir aðilar nutu fyrirgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband