Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í borginni.

Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn er síðan 2010 með aðeins helming þess fylgis sem hann hafði í meira en 80 ár samfleytt þar á undan?

Ástæðurnar geta verið fleiri en ein. Nú er svo mikill hiti í mörgum vegna ESB-málsins að þeir segja að það sé eina ástæðan fyrir litlu fylgi D-listans að oddviti listans sé "ESB-sinni." 

Það má furðu gegna ef þetta álitamál grípur inni í borgarmálin, enda hefur flokkurinn áður verið klofinn í fylkingar í landsmálum án þess að það hafi komið niður á fylginu í byggðakosningum.

Má nefna hatrammar deilur innan flokksins vegna forsetakosninganna 1952 sem komu ekki í veg fyrir það að flokksmenn sneru bökum saman og studdu Gunnar Thoroddsen sem borgarstjóra, þótt hann hefði gert uppreisn gegn flokksforystunni í þessu máli.

Enda kom það mál borgarmálefnum ekkert við.

Síðar skiptust flokksmenn í Gunnarsmenn og Geirsmenn, en aldrei kom það niður á samstöðunni í borginni eins og til dæmis 1982 á tíma mið-vinstristjórnar Gunnars Thoroddsens, þegar flokkurinn var klofinn í herðar niður en vann samt góðan sigur og meirihlutann til baka í Reykjavík.

Lítið gengi flokksins í borginni nú hlýtur að eiga rætur í borgarmálefnunum sjálfum og þar blasir tvennt við:

1.´Sjallarnir áttu stóran þátt í ringulreiðinni í borginni árin 2007 og 2008. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur tókst að vísu vel upp í borgarstjóratíð sinni í lok kjörtímbilsins við að ná góðri samstöðu allra borgarfulltrúa til að koma borgarmálefnum á ónvenju lygnan sjó, en skaðinn var skeður, og 2010 refsuðu kjósendur stjórnmálamönnum almennt fyrir Hrunið og óstjórnina 2007-2008 með því að skapa stórsigur Besta flokksins og ósigur hinna flokkanna. Sjálfstæðismenn hafa ekki komist út úr þessu.

2. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins er klofnir í afstöðu sinni til flugvallarmálsins og það er stórt borgarmálefni, raunar stærsta borgarmálefnið núna.

Á sínum tíma tókst Ólafi F. Magnússyni að koma fylgi Frjálslynda flokksins upp og komast í borgarstjórn með því að nota flugvallarmálið, en þá stóðu aðrir frambjóðendur á listanum einhuga að því að styðja þessa stefnu.

En það gera frambjóðendur D-listans ekki nú.  

Nú er rekin sú stefna hjá meirihluta borgarstjórnar að þrengja sem mest að flugvellinum og skerða svo mjög notagildi hans og öryggi að í raun mun það leiða til þess að hann verði lagður niður.

Sú aðgerð að setja á fót nefnd til að finna flugvellinum annan stað á höfuðborgarsvæðinu kastar ryki í augu fólks og drepur málinu á dreif, því að við blasir, að engir peningar verða til slíks á þessum áratug, vegna þess að við Íslendingar stöndum árið 2016 frammi fyrir því í annað sinn að eiga hættu á þjóðargjaldþroti eða öðru Hruni vegna stórra afborgana af skuldum okkar sem minnst 100 milljarða eða meira vantar upp á að hægt verði að greiða.

Auk þess er ekkert skárra flugvallarstæði eða raunhæft til. Hólmsheiði er glötuð að öllu leyti og flugvöllur á Lönguskerjum eða á Álftanesi mun aldrei fást í gegn á svæði, sem snertir hagsmuni fjögurra sveitarfélaga og friðun Skerjafjarðar og Bessastaðaness.   

Sjálfstæðismenn eru hins vegar sem lamaðir í þessu stóra máli vegna sundurþykkju frambjóðendanna og hafa látið leiða sig í gildru, sem frambjóðendurnir í Reykjavík komast ekki út úr.

Skömmu fyrir kosningarnar 1994 sagði Markús Örn Antonsson sig frá forystu á listanum og Árni Sigfússon tók við, en of seint.

Nú er orðið ennþá seinna að hreyfa við einu eða neinu á D-listanum.  


Til hamingju, Konráð og Afturelding !

Ég hef fylgst með áhuga með gengi liðs Aftureldingar í 1. deildinni í handboltanum eftir að Konráð Olavsson tók við þjálfun þess.

Ég þekki Konráð í gegnum fjölskylduna, - hann er mágur Láru og það hefur ævinlega verið gaman og fróðlegt að spjalla við hann í fjölskylduboðunum.

Konráð var landsliðsmaður í handboltanum á sínum tíma og þeir bræðurnir, Haukur og hann, eru með mikla meðfædda hæfileika í boltaíþróttum.

Það er gaman þegar vel gengur hjá ungum mönnum undir stjórn manns, sem hefur reynslu á handboltavellinum bæði hér á landi og erlendis.

Til hamingju, Konráð og Afturelding !   

 


mbl.is Konráð: Sætur sigur og flottur vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risamannvirkjafíknin lifði Hrunið af.

Glöggur erlendur maður kom til Íslands árið fyrir Hrun, taldi byggingarkranana og spáði Hruninu. 

Það var hlegið að honum og öðrum sem efuðust um dýrð risamannvirkjadýrkunarinnar.

Þeir voru ýmist taldir kverúlantar eða öfundsjúkir útlendingar og einn þeirra, sem taka hefði átt mark á vegna reynslu hans og þekkingar, var talinn þurfa að fara í endurhæfingu.  

"Hálvitinn" stóri turninn við Höfðatorg, sem meðal annars eyðilagði notin af vitanum í Sjómannaskólanum,  er eitt af minnismerkjunum um Hrunið og aðdraganda þess.

Nú kemur í ljós að risamannvirkjafíknin hefur lifað Hrunið af og jafnvel gott betur, og kannski væri gaman að fá aftur til landsins manninn, sem taldi byggingarkranana fyrir Hrunið til að kasta tölu á nýju kranana, svo að við getum aftur haft einhvern, sem "þarf að fara í endurhæfingu" eða er "alger vitleysingur" eða "öfundsjúkur útlendingur".

Ekki aðeins á að reisa turn við Skúlagötu þar sem fermetrinn kostar milljón, heldur er heil nefnd í starfi við að leggja drög að byggingu nýs flugvallar í Reykjavík upp á marga tugi milljarða.

Auðvitað verður enginn peningur til þess á sama tíma og við stefnum inn á brún þjóðargjaldþrots að nýju árið 2016 vegna stórfelldra afborgana af lánum okkar. 

Líka er gælt við lagningu risasæstrengs til Evrópu til að selja þangað rafmagn á þeim tíma árs, sem minnst er þörf fyrir það þar og verðið því lægst.

Jafnframt er haldið áfram að þrýsta á um risaálver í Helguvík sem þarf alla orku hálfs landsins með ómældum náttúruspjöllum og ríkisstjórnin meira að segja "einróma í því að reisa álver í Helguvík."  

Bætt er við meira en 20 nýjum virkjanahugmyndum til að fylla upp í þá draumsýn að meira en 120 virkjanir verði í landinu þegar upp verður staðið og íslenskum náttúruverðmætum endanlega rutt í burtu til að rýma fyrir draumsýnina "Ísland, örum skorið."    


mbl.is Ekki of seint að breyta háhýsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afganistan ´79, Súdetahéruðin ´38 og Serbía 1914.

Ekki hefur farið neinum sögum af því að rússneskumælandi fólk í Úkraínu hafi verð kúgað eða beitt mismunun síðan landið varð sjálfstætt ríki þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. 

Eftir stjórnarskiptin í Kænugarði á dögunum er heldur ekki vitað til þess að slíkt hafi tíðkast.

Greinilegt er að þrýstingur frá hinum stóra nágranna kyndir nú undir óróanum í suðausturhluta Úkraínu á sama hátt og þrýstingur frá stórum nágranna kynti undir óróa meðal þýskumælandi fókst í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu árið 1938.

Sá þrýstingur knúði leiðtoga Bretlands, Frakklands og Ítaliu að samningaborði þar sem Tékkar áttu ekki eini sinni neinn fulltrúa Þjóðverjar fengu nær allt sitt fram og gátu marsérað inní héruðin og lagt þau undir sig án mótspyrnu.

Hitler lék sér að eldinum 1938 og Pútín virðist gera það nú. Rétt er að taka það fram að með því að nefna þessi tvö nöfn í sömu andrá er á engan hátt verið að líkja þessum tveimur mönnum saman, heldur einungis hliðstæðum aðstæðu í megindráttum.

Hertaka Krimskaga var sérstæð að því leyti að Rússar höfðu gefið Úkraínu skagann fyrir hálfri öld og vildu fá hann til baka til sín í ljósi breyttra aðstæðna eftir fall Sovétríkjanna.

Það útskýrir mun veikari viðbrögð annarra þjóða við hernáminu en mátt hefði ætla miðað við það að verið var í fyrsta sinn frá stríðslokum verið að breyta landamærum ríkis, sem lá að Rússlandi.

1979 steyptu hin múslimsku Muhaheddin samtök, fyrirrennarar Talibana,  stjórn, sem var afar hliðholl Rússum í Afganistan, nánast handbendi þeirra. Rússar brugðust við með því að ráðast inn í landið og fara í hernað til að koma hinni hliðhollu stjórn aftur til valda.

Stríðið varð Sovétmönnum ofviða og þeir drógu herliðið til baka sjö árum seinna.

Alþjóðasamfélagið brást við með þvingunum af ýmsu tagi og Sovétríkin féllu.

1938 kom í ljós að friðurinn var aðeins stundarfriður og heimsstyrjöld brást á ári seinna.

1979 braust slíikt stríð ekki út enda um að ræða eitthvert afskekktast fjallaland heims.

Öðru máli gegnir nú. Ukraína er Evrópuríki og stríð milli hennar og Rússa gæti farið á svipaða lund og gerðist fyrir réttum hundrað árum, þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út vegna keðjverkana skuldbindinga og aðgerða þjóðanna sem deildu.

Það yrði hörmulegt og raunar skelfilegra en orð fá lýst ef svipað gerist á aldar afmæli stórstyrjaldar af áður óþekktri stærð.

Því að þriðja heimsstyrjöldin yrði margfalt stærra risastökk en sú fyrsta var fyrir 100 árum.      

 


mbl.is Segir Rússa vilja „kveikja í“ suðausturhlutanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mengun drepur sífellt fleiri dýr og fugla.

Ég sá á facebook í gær óhugnanlega kvikmynd sem tekin var á Midway eyju í Kyrrahafi. Frá eyjunni eru meira en 2000 kílmetrar til lands, en sífellt fleiri fuglar deyja þar vegna þess að magar þeirra eru orðnir fullur af plastdrasli.

Á Kyrrahafinu mun nú vera fljótandi plastrusls-eyja þrisvar sinnum stærri en Ísland.

Plastið þótti mikið bjargræði þegar það ruddi sér til rúms á sínum tíma en er nú smám saman að snúast upp í andhverfu þess og ógn við lífríkið.

Íslenska orðtakið "lengi tekur sjórinn við" er eitt af mörgum dæmum um sinnuleysi okkar gagnvart því sem við erum að gera náttúrunni á ótal sviðum. Ef svo heldur fram sem horfir er ekki bjart yfir framtíðinni og æ meiri þörf er á að spyrnt verði við fótum svo að ein ljóðlínan í ljóðinu "Aðeins ein jörð" rætist ekki:

Aðeins ein jörð.

Afglapa sporin hræða,

því lögmálið grimma lemur og slær

og lætur ei að sér hæða:

Ef deyðirðu jörðina deyðir hún þig

og deyjandi mun þér blæða...  

  


mbl.is Með kynlífsleikfang í maganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband