Gengur ekki upp.

Gísli Marteinn Baldursson segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hrapað úr rúmum 40% fylgi í borginni niður í um 24% af því að hann hafi tekið upp þá stefnu að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki fluttur.

Að vísu kallar þá stefnu, sem flokkurinn boðar núna, bílaborgarstefnu, og spyrðir flugvallarmálið og bílaborgarstefnuna saman með því að halda því fram að íbúðabyggð í staðinn fyrir flugvöll jafngildi bílaborgarstefnu.

Það er röng nálgun, af því að hún er svo einstrengisleg og þröng. Í borgarlandinu gefast mörg fleiri tækifæir fyrir þéttingu byggðar og nýja íbúðabyggð en í Vatnsmýri, og meira að segja nær núverandi þungamiðju íbúðarbyggðar höfuðborgarsvæðisins, sem er austast í Fossvogi.  

 Gísli Marteinn virðist vera búinn að gleyma því að fylgi flokksins hrundi fyrir fjórum árum með tilkomu Besta flokksins og fylgið hefur ekki náð sér á strik síðan. 

Ástæðan var tvíþætt: Annars vegar almennt vantraust á fjólflokknum vegna Hrunsins og hins vegar vegna dæmalauss klúðurs í borgarmálefnum frá REI-klúðrinu haustið 2007 þar til ró komst á 2009.

En það var of seint því að sú staðreynd stóð eftir að fjórir borgarstjórar höfðu setið á einu kjörtímabili í borginni, - nokkuð sem aldrei hafði fyrr gerst í sögu borgarinnar og meira að segja einsdæmi á landsvísu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu átt aðild að kollsteypunum og guldu þess, jafnvel þótt það tækist vel í stuttri borgarstjóratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að koma á stöðugleika og friði í borgarstjórn.

Allan þennan tíma, sem flokkurinn hefur verið í þessari lægð hafa framboðin í borginni verið nokkuð samstíga um það að flugvallarmálið félli í skuggann af öðrum málum.

Kenning Gísla Marteins um að flugvallarmálið valdi litlu fylgi flokksins gengur því ekki upp.  

Það er fyrst nú síðasta misserið sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa byrjað að taka flugvallarmálið upp ásamt Framsóknarmönnum og Dögun,  en þó ekki meira en svo, að húsnæðismálin og meginlínurnar í borgarmálum, sem lagðar voru með innkomu Besta flokksins 2010, hafa haldist og haldast enn í umræðunni, hvað sem gerast kann vikurnar fram að kosningum.  

Ef flugvallarmálið verður að aðal kosningamálinu ætti Sjálfstæðisflokkurinn ekki að verða í vandræðum með að nýta sér það, að yfir 70% Reykvíkinga vilja flugvöll áfram á Reykjavíkursvæðinu.

  


mbl.is Tapa á bílaborgarstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver græðir á upplausnarástandi í Úkraínu? Enginn.

Hver hefði grætt á því ef Kúbudeilan 1962 hefði stigmagnast og hleypt af stað 3ju heimsstyrjöldinni? Enginn.

Kúbudeilan leystist af því að báðir aðilar hennar sýndu blöndu af staðfestu, sveigjanleika og raunsæi.

Annar aðili deilunnar, Nikita Krústjoff, gerði að vísu ýmis mistök á öðrum sviðum, og ein þeirra hafa kynt undir því ástandi sem nú hefur myndast við norðanvert Svartahaf.  

Á okkar tímum eru hefur svonefnd alþjóðavæðing orðið til þess að skapa bæði jákvæð og neikvæð fyrirbæri.

Neikvæðu fyrirbærin felast í ofurvaldi risafyrirtækja til að stunda rányrkju og arðrán og í veikleikum í fjármálakerfi heimsins sem hrinda af stað fyrirbærum eins og fjármálakreppunni 2008.

Jákvæðu fyrirbærin eru til dæmis þau að menning, efnhagslíf og fjármálakerfi ríkja heims eru orðin svo samtvinnuð og samofin að þau ná inn í alla kima hjá hverri þjóð.

Af þeim sökum tapa allir ef upplausnarástand eða stórfelld átök brjótast út. 

En ástandið á þessu svæði minnir á ástandið sem skapaðist í Júgóslavíu eftir lát Títós og falls kommúnismans í Austur-Evrópu.

Í ljós kom að gömlum ásteytingarefnum og átökum menningarheima, trúarbragða og þjóða, hafði einungis verið sópað undir teppið en ekki leyst til frambúðar.  

Þá brutust út gamlar væringar, sumar margra alda gamlar, sem þrýstu á uppgjör. Vonandi verður svipað uppgjör í Úkraníu ekki eins blóðugt og illvígt eins og þar.    


mbl.is Hafa „engan áhuga“ á að senda hermenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Af því hann er þarna, - bara af því."

Ævinlega þegar slys verða í ferðalögum fólks, ekki hvað síst þegar þau eru á hættulegum slóðum, vaknar spurningin, hvers vegna fólk sé að hætta lífi sínu og limum að því er virðist af óþörfu.

Þessar spurningar hafa verið eðlilegar allt frá upphafi vegferðar mannkynsins.

Hvers vegna sigldu norrænir menn út á að því er virtist endalaust úthafið? Af hverju gátu þeir ekki verið kyrrir á heimaslóðum sínum?

Hve margir skyldu hafa siglt og horfið áður en Naddoður og Hrafna-Flóki færu löndum sínum fregnir af óbyggðri (?) eyju langt vestur í hafi?

Allar svona ferðir hafa skapað þessar spurningar og vettvangur háskaferðanna hefur verið jörðin öll, heimskauta millum.

Lungann af síðustu öld fórust menn í tilraunum sínum til þess að klífa hæsta fjall veraldar og fleiri fjöll, og Everest var ekki sigraður fyrr en árið 1953.

Að sjálfsögðu liggur ævinlega lína á milli þess sem verjandi er að leggja í og þess sem teljast verður hreina og forkastanlega fífldirfsku. Vandinn er bara sá hvað það getur verið erfitt að draga þessa línu, hvort sem um er að ræða göngu upp á fjall eða ferð til tunglsins.  

Ég átti þess kost að fara í tvær af brautryðjendaferðum Íslendinga á jöklajeppum, annars vegar fyrstu og einu slíkri ferðinni upp á Hvannadalshnjúk, og hins vegar fyrstu og einu ferðinni fram og til baka yfir Grænlandsjökul.

Fyrri ferðin, upp á Hvannadalshnjúk í maí 1991,  skapaði mikil hughrif, enda lenti ég í þeirri sérstöðu að þurfa að yfirgefa leiðangurinn tvívegis á meðan á honum stóð og fara til að skemmta í Reykjavík.

Hnjúkurinn hafði skapað hughrif mín allt frá frumbernsku, því að á heimili afa og ömmu var mynd af Öræfajökli, eins og hann blasti við frá fyrra æskuheimili hennar, Hólmi í Landbroti, en frá sjö ára aldri ólst hún síðan upp á Svínfelli í Öræfum, undir þessu hæsta fjalli Íslands. 

Þetta fjall hefur kostað mannslíf. Þar fórust breskir stúdentar, að mig minnir árið 1954 og átti ég þess kost að ræða við Jack D´Ives fyrir nokkrum árum, en hann var á ferð með þessum Bretum en fór sjálfur ekki í þessa örlagaríku fjallgöngu.  

Afrakstur ferðarinnar 1991 var lag og ljóð með nafninu "Hnjúkurinn gnæfir", sem Pálmi Gunnarsson söng með undirleik Péturs Hjaltested, svo hljóðandi:

 

HNJÚKURINN GNÆFIR.

 

Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir, -

hamraþil þverbrýnt, ísað stál.

Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir, -

inn í þig smýgur hans seiðandi mál.

 

Bjartur sem engill andartak er hann, -

alheiður berar sig blámanum í.

Á sömu stundu í fötin sín fer hann;

frostkalda þoku og óveðursský.

 

Hvers vegna að klirfa´hann?

Hvers vegna að sigra´hann?

Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?

Hví eru, góði, að gera þig digran?

Gættu þín, vinur. Skortir þig vit?

 

Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?

Af hverju´að hætta þér klærnar hans í?

Svarið er einfalt og allta það sama:

Af því hann er þarna, - bara af því.

 

Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir.

Hríslast um makka hans óveðursský.

Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir

ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.

 

Sýnist hann reiður, áfram vill ögra.

Á þá hann skorar sem líta hans mynd.

Þolraunin bíður þeirra sem skjögra

þreyttir á Íslalands hæsta tind.

 

Hvers vegna að klifra´hann?

Hvers vegna að sigra´hann?

Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?

Hví varstu, góði, að gera þig digran?

Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?

 

Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?

Af hverju að hætta sér klærnar hans í?

Svarið er einfalt en alltaf það sama:

Af því hann er þarna,-  bara af því.    


mbl.is Þurftu að hlaupa frá snjóflóðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband