Sparnaður upp á innan við þúsund dollara hefnir sín.

Það er einkennandi fyrir leitir að flökum flugvéla, sem týnst hafa í gegnum tíðina, að leitarmenn hafa orðið að hamast við leitirnar í kapphlaupi við þann knappa tíma sem þeim er skammtaður á meðan svörtu kassarnir senda út merki sín.

Þessi tími hefur um í áratugi verið aðeins 30 dagar þótt komin sé bætt tækni og betri rafhlöður sem ættu að geta minnsta kosti þrefaldað þennan tíma.

Sparnaðurinn af því að viðhalda gamla laginu er hugsanlega ekki meiri en þúsund dollarar á hverja flugvél eða rúmlega 100 þúsund krónur í þotum sem kosta tugi milljarða króna.

Reynslan af flugslysarannsóknum allt frá því er fyrstu Cometþoturnar fórust 1953 er sú, að niðurstöður rannsóknanna hafa leitt til endurbóta í öryggisátt sem hefur sparað tugþúsundir mannslífa og óheyrilegar fjárhæðir.

Þegar um er að ræða jafn dularfullt pg óupplýst slys og hvarf MH370 geta verið milljarðatugir í húfi að finna út orsakirnar svo að hægt sé að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.  


mbl.is Hringnum lokað um flug MH370
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylting hugarfars allra jarðarbúa.

Það yrði mikil bylting fyrir Búrma ef hugarfari þjóðarinnar yrði bylt. En sú bylting er aðeins örlítið brot af þeirri nauðsyn á 21. öld að bylta hugarfari mannkynsins í heild, en það er eina leiðin til þess að leysa þau viðfangsefni sem blasa við.

Nú, þegar sjöttungur aldarinnar er liðinn, skýrast æ betur þær staðreyndir, sem knýja á um hugarfarsbreytinguna sem verður æ brýnni.

Hún felst fyrst og fremst í því að hverfa frá þeirri rányrkjuhugsun, sem gegnsýrir þjóðir heims og er knúin áfram af skilyrðislausri dýrkun á hinum ótakmarkaða og veldisvaxandi hagvexti sem knýr áfram neysluna, sem er drifkraftur rányrkjunnar.

Helstu auðlindir jarðar fram að þessu, svo sem olía, fosfór og helstu málmar, eru nú fullnýttar og munu fara niður á við á þessari öld, missnemma að vísu en þó allar fyrir víst.

Héðan af finnast ekki olíulindir nema þær sem miklu dýrara og erfiðara er að nýta en þær sem nú eru notaðar.

Hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum bætist ofan á þessi tröllauknu viðfangsefni.

En  róðurinn til að breyta hugsuninni er erfiður. Þeir milljarðar jarðarbúa sem líða örbirgð, skort og hungur, eiga ekkert fjármagn til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Það hugsjónafólk víða um heim, sem berjast vill fyrir umbótum í umhverfismálum, stjórnmálum og efnahagsmálum, er rægt miskunnarlaust af þeim sem ráða yfir fjármagni og völdum til að koma fram þröngum hagsmunum sínum.

Orðræðan ber þessa merki. Þannig er búið með síbylju að festa í sessi hugtökin "atvinnumótmælandi" og "öfgafólk" um þá sem fórna öllu sínu til að reyna að andæfa feigðarflani rányrkjunnar.

Það er athyglisvert að hugtakið "atvinnumeðmælandi" er ekki nefnt og virðist ekki vera til.

Eru þó helstu meðmælendur óbreytts hugarfars yfirleitt hálaunafólk, sem hefur fasta atvinnu af því að halda helstefnunni fram.

Þeir sem vilja keyra fram þá framtiðarskipan hér á landi að reistar verði alls um 120 stórar virkjanir um allt land á kostnað einstæðra náttúruverðmæta landsins kalla sig "hófsemdarmenn" og framtiðaráform sín "skynsamlega nýtingu", en þeir, sem vilja ekki feta þennan veg í botn eru kallaðir "öfgamenn."

Þessi stefna og hugarfarið að baki henni náði nýjum hæðum síðasta áratuginn fyrir Hrun og virðist vera að sækja í sig veðrið á ný.  

San Suu Kyi berst fyrir lýðræðisumbótum í landi sínu en verður lítið sem ekkert ágengt.

Þrátt fyrir að á okkar landi ríki að lýðræðisfyrirkomulag, sem gerir ástandið í Búrma lítt sambærilegt, er samt verk að vinna hjá okkur til að efla lýðræði og bæta löggjöfina sem til þess þarf.

En ráðandi öfl í þjóðfélaginu gera hvað þau geta til að koma í veg fyrir það og það virðist stefna í það að sá vilji sem kom greinilega fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október árið 2011, verði hunsaður.    

  

 

  

 

  


mbl.is Boðar byltingu hugarfarsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það getur allt gerst í beinni útsendingu."

Ofnagreind orð voru höfð með réttu eða röngu eftir Agnesi Bragadóttur eftir nokkur mögnuð viðtöl, sem voru tekin í þættinum "Á líðandi stundu" 1986. Þátturinn var alger nýjung í íslenskum fjölmiðlum varðandi efni og efnistök og því viðbúið að rennt væri að sumu leyti blint í sjóinn.

Lífið gerist í beinni útsendingu, ef svo má að orði komast, og það gerðist í bæði fyrirséðum og ófyrirséðum uppákomum í þættinum og viðbrögðum þáttagesta eða sjónvarpsáhorfenda.

Ætlunin með þættinum var að þannig yrði hann, sem hann og varð.

Sem dæmi má nefna óvæntar uppákomur með gestunum Davíð Oddssyni, Guðmund Jaka, Buba Morthens, Halldóri Ásgrímssyni, Bryndísi Schram, Ingimari Eydal, Sigga Gúmm og Steingrími Hermannssyni þar sem gerðust ófyrirséð og óvænt atvik og ummæli féllu, sem urðu á allra vörum um hríð en hurfu síðan smám saman inn í móðu tímans eins og gengur.

Sumu var þó haldið lifandi eins og til dæmis í höndum Sigmunds teiknara Morgunblaðsins, sem teiknaði Jón Baldvin Hannibalsson ævinlega eftir þetta með drullusokk í höndum eða hafði þetta áhald einhverns staðar í myndinni.

Að beiðni Hrafns Gunnlaugssonar gerði ég einn sérstakan sjónvarpsþátt með stuttum glefsum úr þáttunum og blaðafyrirsögnum og ummælum eftir þá, sem ef til vill yrði fróðlegt að endursýna einhvern tíma til að rifja upp þessa tíma í þjóðlífinu.

Sem betur fer er þetta eðli beinna útsendinga í sjónvarpi og ég kannast vel við þá tilfinningu, sem Gísli Marteinn hefur eftir þáttinn með forsætisráðherra, sem stendur upp úr hjá honum, hvað þetta varðar.

Af ferli mínum standa uppúr ummælin "það gengur betur næst" í viðtali við sótugan slökkviliðsmann eftir stórbruna, en þau vöktu mikil viðbrögð sem komu mér í fyrstu á óvart og í opna skjöldu en ég hef síðan lært mikið og raunar gert þau að einum af kjörorðum mínum.

Einhvern tímann gefst vonandi tækifæri til að fara nánar í gegnum málið, sem var á dagskrá í þessari beinu útsendingu, því að eftir á er það eitt af þeim erfiðu málum, sem í ljós kom að full ástæða var til að hjóla í af alvöru og festu þótt með því yrði tekin áhætta á því að lenda í ólgusjó um sinn.

Því að þegar rykið settist bar þessi umfjöllun þó þann árangur að gerðar voru ráðstafanir í slökkviliðsmálum sem brýn nauðsyn hafði verið á að gera lengi.

Viðtalið við SDG, sem er Gísla Marteini svo minnisstætt, gerði visst gagn þrátt fyrir allt, því að eftir á sést að það markaði ákveðið hámark í karpi og útúrsnúningum, og hafði þess vegna jákvæð áhrif hvað það varðaði að forsætisráðherra og hans menn fóru að minnka við sig þá stífni og þrjósku í viðtölum, sem voru þeim ekki til almenns framdráttar.    


mbl.is Aldrei fengið jafnmikil viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkmaður ef hann fer fram.

Það hefur verið sagt að ef maður sé sokkinn niður á botn i sundlaug sé ekki nema ein leið fyrir sundmanninn, að fara upp.

Framsóknarmenn í Reykjavík eru á botninum hvað fylgi framboðs þeirra í borginni áhrærir. Þeir komast ekki neðar og aðeins tvær leiðir eru til, að vera áfram á botninum eða stefna upp á v.ið

Ástæðan fyrir litlu fylgi Framsóknar er svipuð og fyrir helmings fylgishruni hjá sjálfstæðismönnum: Þessir tveir flokkar tengdust REI-klúðrinu 2007, sem hratt af stað mestu ringulreið í borgarmálum í sögu borgarinnar þegar fjórir borgarstjórar sátu við völd á aðeins einu kjörtímabili.

Þótt sagt sé að kjósendur séu með gullfiskaminni muna þeir eftir þessu af því tilvist Besta flokksins / Bjartrar framtíðar minnir daglega á það.

Guðni Ágústsson nýtur vinsælda langt út fyrir raðir Framsóknarmanna og hefur persónulegan þokka.  og kjörþokka. Hvort það sé það sama og kjörþokki í Reykjavík er hins vegar óráðið.

Ef hann fer í oddvitasætið hjá Framsókn, fær með sér fólk á listann sem hefur hvergi komið nærri klúðri síðasta kjörtímabils og leggur hreinni áherslu á flugvallarmálið en önnur framboð er aldrei að vita hvað gerist.

Guðni hefur búið í Reykjavík síðustu ár og eftir að borgin hefur verið hans starfsvettvangur áratugum saman ætti hann að þekkja nógu vel til borgarmálanna og getað skapað sér nógu góðan grundvöll til starfs fyrir borgina með því að nýta sér reynslu af stjórnmálastarfi.

Mér er vel við Guðna og óska honum persónulega alls hins besta. En vissulega er hann kjarkmaður ef hann ætlar að fara í þetta framboð og mér óar við tilhugsuninni um hve tvísýnt það gæti orðið.

Ég held að enginn myndi væna hann um kjarkleysi þótt hann gæfi framboðið frá sér. Hann myndi standa jafnréttur eftir þótt hann hætti við það, og gæti yljað sér við það sem hann hefur þegar vel gert.   


mbl.is Hefur rætt við Sigmund um framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband