Gamli vinyllinn, - það eina sem lifir !

Hljóðsnældurnar voru vaktar upp í Kastljósi áðan. Röðin af rafeindadóti til varðveislu hljóðs og mynda hefur lengst sífellt síðustu 60 árin.

Fyrst komu segulböndin og "multitrakkarnir" og myndböndin.

Svo komu litlu hljóðsnældurnar og síðan hljóðdiskar. DAT spólurnar komu á eftir þeim og áttu að verða toppurinn og framtíðarmúsík. Þær duttu upp fyrir á nokkrum árum og þá komu tölvulyklar, kort og fyrirferðalitlir harðir diskar.

Í myndböndunum ruddust fram VHS, Super VHS, Beta og Súper beta, síðan DV, DVcam og afbrigði af þeim, einnig HD og HDV.

Fyrirfram hefur ekki fengist fram með vissu hve lengi þetta dót endist og geymist. Mest af efni sem tekið var upp á myndbandsspólur fyrir 30 árum er orðið ónýtt.

Á tímabili óttuðust Bandaríkjamenn að allt tölvu- og rafeindastýrða dótið þeirra myndi þurrkast út við "magnetic pulse" kjarnorkusprenginga og að Rússarnir myndu hafa betur í kjarnorkustríði, af því að þeir voru enn með gömlu lampatækin.

Eftir stendur neyðarleg staðreynd: Geislahögg hafa engin áhrif á gamla vinylinn. Hann er það eina sem hægt er að treysta til eilífðar, hann blífur og lifir allt af! Yndislegt !    


Glæsileg vél. Slæm tíðindi fyrir áltrúarmenn.

Airbus gefur ekkert eftir í samkeppninni um flugvélamarkaðinn í heiminum.

Nýja A350 þotan nálgast Boeing 747 í stærð, þyngd og farþegafjölda, en munurinn er sá að 747 þarf fjóra hreyfla til að afkasta sínu, en A350 aðeins tvo og stefnir að því að verða sparneytnasta stóra farþegaþotan miðað við afköst.

Mér sýnist A350 skjótast fram úr Boeing 787 Dreamliner og Boeing 777 að mörgu leyti, þótt munurinn sé svo sem ekkert mikill í sjálfu sér. En það munar um allt í hinni hörðu samkeppni, þar sem Airbus sækir sífellt að Boeing um forystu.

Auglýst hefur verið að koltrefjaefni séu meira notuð í vélinni en ál.

Þessi efni sækjast sífellt meira á í flugvélaiðnaðinum, ekki aðeins vegna styrkleika miðað við þyngd og ónæmi fyrir "málmþreytu", heldur einnig fyrir það að spara vinnuafl í flugvélaverksmiðjunum, því að margt fólk þarf til að hnoða saman festingar á álplötum. 

Það eru slæm tíðindi fyrir áltrúarmenn sem saka náttúruverndarfólk um tvískinnung með því að fljúga með flugvélum úr áli.


mbl.is A350 „stjarnan“ í Singapúr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmileg stríð vegna "skipulagðrar vitfirringar".

Fyrri og Seinni heimsstyrjöldin voru óhjákvæmilegt stórstríð í tveimur þáttum vegna óðavígbúnaðar og vopnakapphlaups, sem Lloyd Georg sagði í ræðu á nýjársdag 1914 að væri "skipulögð vitfirring."

Hann sá þetta í réttu ljósi en samtímamenn hans hins vegar ekki vegna þeirrar firringar sem 43ja ára friðarástand milli stórveldanna hafði skapað.

Í styrjöldum 19. aldarinnar höfðu stærstu herir ekki orðið meira en nokkur hundruð þúsund hermenn. 

Síðan þá hafði orðið margþætt bylting í tækni, samgöngum og skipulagi sem gerði kleyft að setja á fót her margra milljón manna með almennri herskyldu.

Hraði vígbúnaðarkapphlaupsins óx með veldishraða. Rússar tilkynntu um þetta leyti fyrir 100 árum að þeir væru að fjórfalda þann fjölda hermanna, sem væri hægt að beita þegar í stað upp í 1,7 milljón manna og að herinn yrði alls 6 milljón manns.

Það var vígbúnaðarkapphlaup um alla álfuna, eins og fréttir frá smáríkinu Albaníu báru með sér.

1914 voru alls um 20 milljónir hermanna tilbúnir til að berast á banaspjótum í komandi styrjöld í stað þess að fyrrum höfðu herir verið taldir í brotum úr milljónum.

Winston Churchill flotamálaráðherra Breta tilkynnti að átta nýjar herdeildir yrðu stofnaðar á móti hverjum fimm nýjum hjá Þjóðverjum.

Keisaraveldið Austurríki-Ungverjaland var dauðanum merkt, samansett af mörgum ólíkum þjóðum.

Vafasamt er að það hefði getað liðast sundur friðsamlega eins og Sovétríkin gerðu 75 árum síðar vegna þess að Rússland, stærsta land heims með 150 milljónir íbúa og miklar auðlindir, var hryggjarstykkið í Sovétríkjunum, en Austurríki var í raun aðeins smáríki nokkurra milljóna manna án nokkurra umtalsverðra auðlinda.

Mest munaði þó um að stóru hernaðarbandalögin tvö, sem stóðu grá fyrir járnum fyrir framan hvort annað 1914, voru búin með gagnkvæmum skuldbindingum að bindast svo miklum böndum í órjúfanlegum fóstbræðralögum, að minnstu væringar gátu skapað keðjuverkun á borð við þá að dráp 2ja manneska leiddi af sér dráp tuga milljóna manna.

Eftir 43j ára frið voru stríð farin að fá á sig rómantískan blæ. Hermennirnir marseruðu syngjandi sigursögna að heima út í opinn dauðann við fagnaðarlæti almennings, enda búið að telja fólki trú um að sigur ynnist fyrir jól.

En framundan var stríð sem var í þremur köflum, Fyrra stríðið, Seinna stríðið og loks Kalda stríðið.

Enn í dag eru óuppgerð átakamál eins og sannast við vestur- og suðvesturlandamæri Rússlands.


mbl.is Tilræðið sem kom styrjöld af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg frétt og að hluta röng um Skódann góða.

1964 urðu tímamót í sögu hinna virtu Skoda verksmiðja í Tékkóslóvakíu. Verksmiðjurnar höfðu smíðað marga góða hluti bæði til hernaðarþarfa og almennra þarfa.

Stór hluti skriðdrekanna, sem Hitler notaði við innrás í Niðurlönd og Frakkland vorið 1940 voru Skoda-skriðdrekar, en Hitler hafði hernumið Tékkóslóvakíu ári fyrr.

Verksmiðjurnar fjöldaframleiddu bíla eftir stríðið og fluttu meira að segja út,  og voru til dæmis keyptir bæði fólksbílar af gerðinni 1101 og strætisvagnar til Íslands á árunum 1946-47.

Það er því rangt í tengdri frétt á mbl.is að Skoda 1000 MB hafi verið fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn hjá verksmiðjunum þótt framleiðslan hafi aukist hjá þeim á áratugunum eftir stríð eins og hjá öðrum bílaframleiðendum.

Hitt er rétt að endurbætur urðu í framleiðsluferlinu með tilkomu 1000MB.

Á sjötta áratugnum hófst aftur innflutningur á Skoda til Íslands á tveimur gerðum, "Blöðru"Skodanum, sem var svipaður í útliti og Kaiser-Frazier og fleiri nýtískulegir bílar fyrstu eftirstríðsáranna, og síðan voru fluttir inn Skoda 440 og 445, sem komu fram 1955 og voru nýtískulegustu Austur-Evrópubílarnir þá.

Þótt Skoda hefði rofið tengsl og samvinnu við vestræna bílaframleiðendur eftir stríðið og landið orðið að kommúnistaríki þótti Skoda einna skásti bíllinn frá þeim löndum hvað gæði snerti.

Hann var allan þennan tíma með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, sem var óvenjulegt, en leið fyrir það að vera með þverfjaðrir í stað gorma.

Alla síðustu öld fram til 1987 framleiddi Skoda eingöngu bíla með drifi á afturhjólunum þannig að fullyrðing um að Skoda 1000MB hafi verið fyrsti Skódinn með drifi á afturhjólunum er algerlega rangt.

Fram á sjöunda áratuginn höfðu gæði Skoda verið viðunandi miðað við lágt verð bílanna, en með tilkomu Skoda 1000MB fór að síga á ógæfuhliðina, ekki endinlega varðandi tæknina sem slíka heldur gæðin, og það svo mjög að í virtum bílabókum er talað um að gæðunum hafi hrakað svo mjög fram undir 1990 að Skodabílar hafi verið "international joke".

Í frétt mbl.is er sagt að það hafi verið mikil nýjung í bílasmíði að Skoda 1000MB hafi verið með vélina aftur í.

Þetta er líka rangt.

1964 voru 26 ár síðan Volkswagen Bjallan kom fram í Þýskalandi og síðan NSU Prinz og BMW 600 1958. 

Í Frakklandi hafði Renault framleitt Renault 4CV, Dauphine og Renault 8 í 18 ár og Simca 1000 var kominn á markað.

Á Ítalíu komu Fiat 600 og 500 fram á árunum 1956 og 57 og í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu höfðu bílar með vélina afturí verið langmest seldu bílarnir í mörg ár áður en Skoda 1000MB kom fram.

Í Bretlandi kom Hillman Imp fram 1963 og í Bandaríkjunum Chevrolet Corvair 1959.

Það er rétt, að miðað við Austur-Evrópu ríkin var Skoda 1000MB nýtískulegasti bíllinn en þó hafði Zhaporotez komið fram í Sovétríkjunum á svipuðum tíma.

Hönnunar- og tæknilega séð gaf hinn "goðsagnakenndi" Skoda 1000MB vestrænum keppinautum sínum lítið eftir. Hann eyddi litlu, var með góða sjálfstæða gormafjöðrun á öllum hjólum, léttbyggða og nægilega kraftmikla vél, ágætt rými og farangurspláss.

Rassvélin tryggði gott veggrip og dugnað í hálku og snjó, en "pendúl"fjöðrunin að aftan gerði hann hættulega yfirstýrðan í kröppum beygjum.

"Rall-Skódinn", Skoda Rapid, stóð sig bara býsna vel í rallakstri og skrifaði nafn sitt í sögu upphafsára rallsins hér á landi. Var kallaður "Porsche fátæka mannsins."

Síðast en ekki síst var Skódinn ódýr.

Skoda 1000MB og arftakar hans, 110 og 120 seldust vel á Íslandi og víðar alveg fram undir 1990.

Ég notaði Skoda 120 1984 módelið í þrjú ár við kvikmyndagerð á austurhálendinu og hann var duglegur og skemmtilegur á sinn hátt á vondum vegum og slóðum þótt á endanum færi svo, að þegar ég ætlaði að láta gera við hann fyrir skoðun og bað um að fá að vita, hvað þyrfti að gera fyrir hann, fékk ég svarið á einu blaði með einu orði: "ALLT!"  

Vélin vildi ofhitna þarna afturí í Skoda 1000MB og arftökunum,  og til að lagfæra það var vatnskassinn fluttur fram í nef á bílnum síðustu árin, svipað eins og gert var á Porsche 911 síðar.

En Skoda var ekki Porsche. Vatnsleiðslurnar í Skodanum voru langar, óaðgengilegar og lélegar og þegar þær byrjuðu að leka eins og á mínum bíl, var komið að endalokum.

Ég skrönglaðist á honum vestur í Ystafell og þar er hann nú á safninu þar við hliðina á Skoda stórvinar míns sáluga, Ingimars Eydals.

Þetta er eini bíllinn, sem ég hef átt, sem er á safni. Ég hneigi mig djúpt fyrir honum og Skoda Ingimars þegar ég kem þarna og á ekkert nema góðar og skemmtilegar minningar um þennan "sérvitring" í líki bíls og um minn nána vin og samstarfsmann, Ingimar Eydal.

Þegar VW keypti Skoda tók þeir Skoda Favorit og gerðu á honum 528 breytingar til að geta haldið áfram að selja hann undir nafninu Skoda Felicia.

Síðustu 20 ár hefur Skoda risið úr öskustó og er nú orðin ein af virtustu bílaverksmiðjum heims.

Bilanatíðnin er meira að segja minni en hjá móðurfyrirtækinu Volkswagen. Tatra_77A_dutch_licence_registration_AM-44-01_pic10[1]

 

P. S. Skelli inn mynd af Tatra 77, 34 módelinu, tékkneskum snilldarbíl, sem á áttræðisafmæli á þessu ári og kemur við sögu í athugasemdum hér á eftir og bloggpistli, skrifuðum á eftir þessum.    


mbl.is Goðsagnakenndur Skoda fimmtugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...að slíta á viðræðurnar", - "...rétt eins og hann hafði lofað."

Eiður Svanberg Guðnason hefur oft í pistlum sínum undrast lélega málkennd fjölmiðlafólks. Hafi hann hlustað á fréttir Bylgjunnar í hádeginu hefur hann áreiðanlega orðið jafn hissa og ég.

Ég heyrði aðeins lestur einnar fréttar í um það bil hálfa mínútu en á þeim örstutta tíma bunuðu minnst tvær málvillur út úr viðkomandi fréttamanni.

Hann var að fjalla um samskipti NATO og Rússa og sagði um samvinnu og viðræður millli þessara aðila:

"...þeir ætla að slíta á viðræðurnar."

Þetta er svo mikil rökvilla að jafnvel nýbúi, sem er að byrja að læra íslensku myndi varla segja þetta.

Í næstu setningu sagði fréttamaðurinn:

"Talsmaður NATO sagði, að ekki sæust nein merki um það að Rússar hefðu fækkað í liðsafnaði sínum við landamærin, rétt eins og Pútín hafði lofað."

Þarna er orðinu "rétt" algerlega ofaukið, og það nægir til að gera þessa setningu að bulli.

Hér um árið hefði Bibbu á Brávallagötunni hefði varla getað látið sér detta svona í hug

Ein skýring á því að færni fjðlmiðlafólks hafi hrakað er sú að Hrunið hafi bitnað illa á fjölmiðlum og mannafla þeirra og að það geti í einhverjum tilfellum valdið því að erfitt sé að ráða fært fólk til starfa. 

En viðunandi meðferð móðurmáls er að sjálfsögðu grundvallaratriði í kröfum til fjölmiðlafólks hvar sem er í heiminum.   

 


Bloggfærslur 2. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband