Ekkert að marka útlendingana ?

Eftirminnileg eru ummæli gamla Austfirðingsins sem sagði að ekkert væri varið í víðáttur, fjöll, hraun og eyðisanda, engir ferðamenn vildu sjá svo ömurlegt landslag sem væri einskis virði. "Ég hef átt heima fyrir austan í hálfa öld og veit nákvæmlega hvað er mest er virði að skoða. Það er Hallormsstaðaskógur!" sagði sá gamli um leið hann strunsaði út af ráðstefnu um náttúrverðmæti landsins og gildi þeirra fyrir ferðamennsku og sagðist ekki nenna að sitja undir svona kjaftæði.  

Hann miðaði auðvitað við verðmætamat samlanda sinna af hans kynslóð og stóð í þeirri trú að fólk, sem byggir þéttbýl og að miklu leyti skógi þakin erlend lönd, myndi þyrpast í hundruða þúsunda tali til Íslands til að sjá íslensku skógana.

Þrátt fyrir öll mín ferðalög um land okkar gangandi, akandi, hjólandi, ríðandi og fljúgandi í meira en 60 ár, hafa útlendingar, sem ég hef ferðast með undanfarin ár, opnað augu mín mun betur fyrir landinu en allt mitt flakk.

Allt fram undir síðustu aldamót hafði skoðun mín á náttúru Íslands mótast fyrst og fremst af ferðum hér heima án þess að hafa gert neinn marktækan samanburð við önnur lönd.

Þetta breyttist allt með ferðum til annarra landa og samskiptum við víðförult fólk, þekkta ljósmyndara, kvikmyndagerðarmenn, sjónvarpsmenn og vísindamenn, þar sem loksins kom til sögunnar nauðsynlegur samanburður við aðra heimshluta og lönd til þess að hægt væri að átta sig á raunverulegri sérstöðu náttúru Íslands.  

 

 


mbl.is Ísland er mögnuð upplifun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert súlurit.

Athyglisvert súlurit birtist í frétt á mbl.is sem sýnir hagnað og tap fyrirtækja á Íslandi á þessari öld.

Á því sýna bláar súlur vaxandi gróða fyrirtækja á síðari helmingi slímsetu Sjálfstæðisflokksins í 16 ár frá 1991 til 2009 og nær gróðinn hámarki árið 2007, á árinu sem meirihluti landsmanna vildi í síðustu kosningum fá aftur undir stjórn sömu flokka og stjórnuðu landinu í 12 ár í aðdraganda Hrunsins.  

En árið 2008 blasir við svo stór rauð tapsúla, að sennilega verður að leggja saman marga áratugi blárra súlna til að jafnast á við hana eina.

Þessi rauða tapsúla sýnir fyrirbrigði sem mörgum hugnast vel um þessar mundir að nefna "hið svokallaða hrun".

Úr þessum rauðu rústum byrja síðan að rísa úr brunarústum Hrunsins vaxandi bláar súlur hagnaðar fyrirtækja þegar við völd er rústabjörgunarstjórn sem margir nefna nú "verstu ríkisstjórn í sögu þjóðarinnar", hvorki meira né minna.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að sú ríkisstjórn hafi, frekar en aðrar ríkisstjórnir, verið óskeikul í hvívetna og aldrei gert nein mistök.

En bendir þetta athyglisverða súlurit til þess að ríkisstjórnirnar á undan og eftir henni verði í framtíðinni stimplaðar sem bestu ríkisstjórnir í sögu þjóðarinnar?     


mbl.is Hagnaður fyrirtækja aldrei meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættan nálgast áhættu hermanna í stríðinu.

Stærsta slysið í sögu Everestferða hlýtur að marka einhver tímamót. Svo er að sjá af slysatölum síðustu missera að áhættan af ferðum upp á fjallið sé að nálgast áhættuna, sem tekin var á stríðsárunum við að senda flugmenn til loftárása á Þýskaland.

Varla er hægt að una við slíkt.  

Fyrir rúmum 60 árum las ég bók með nafninu "Undur veraldar" og var stór kafli í bókinni um Everestferðir, afar grípandi kafli og það minnisstæðasta í bókinni.

Þá hafði fjallið ekki verið klifið og menn höfðu ýmist orðið frá að hverfa eða horfið og farist.

Slysin síðustu ár hljóta að kalla á nýja rannsókn og greiningu á áhættunni og jafnframt því, hvort og hvernig sé hægt að minnka hana.

Slysið kemur á tíma þegar Baltasar Kormákur er einmitt að gera myndina Everest. Það er kaldranalegt að hugsanlega geti þetta slys orðið til þess að myndin verði tímabærari en ella og því betri söluvara.

En vonandi verður hægt að líta á það i því ljósi að myndin geti orðið þarfari og gagnlegri en ella.   


mbl.is Hóta að hætta ferðum á Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samúðarkveðjur geta verið viðkvæmt og umdeilanlegt mál.

Samúðarkveðjur vegna fráfalls eða harmleikja, sem snertir heilar þjóðir, eru yfirleitt þess eðlis að það þykir hið eðlilegast og sjálfsagt að senda þær.  

Þjóðhöfðingjar eða æðstu ráðamenn landa sjá um að senda slíkar kveðjur og það er yfirleitt gert, þegar æðstu ráðamenn þjóðanna eða miklar þjóðhetjur falla frá.

Það, að Norður-Kóreumenn endurgjaldi ekki samúðarkveðjur granna sinna og bræðraþjóðar í suðri og taki sig með því út úr hópi nágrannaþjóða, verður því að teljast óvenjulegt.

En það er líka margt óvenjulegt varðandi ráðamenn í Norður-Kóreu og ástandið þar.

Það er þó ekki einsdæmi að umdeilanlegt þyki, hvort samúðarkveðjur séu sendar eða ekki og afar óvenjulegt heimsástand getur ráðið miklu um það.

Þegar Roosevelt Bandaríkjaforseti dó 12. apríl 1945 sendi Hitler til dæmis engar samúðarkveðjur til Bandaríkjamanna. Raunar stökk Göbbels fagnandi á fætur þegar fréttirnar bárust til byrgis Foringjans í Berlín og hrópaði: "Þetta eru tímamótin, umskiptin"( í stríðinu) !" og átti þá við það, að nú yrði ósætti meðal Bandamanna í stríðsrekstrinum og að stríðsgæfan myndi snúast nasistum í vil.

Sýnir það vel þá vaxandi firringu, sem ríkti meðal ráðamanna Þriðja ríkisins síðustu mánuði og daga þess.  

Þegar Hitler síðan dó 18 dögum síðar og tilkynnt var að hann hefði fallið í bardaga við stjórnstöð, streymdu samúðarkveðjur ekki til Þýskalands og heldur ekki til Ítalíu tveimur dögum fyrr þegar Mussolini var drepinn.

Ein undantekning þótti umdeilanleg, en það var að ráðamenn Portúgala og Íra sendu samúðarkveðjur til þýsku þjóðarinnar.  

Af því hlutust samt engin eftirmál að því er séð verður í gögnum frá þessum mjög svo óvenjulegu vordögum 1945. 

Stórir hlutar, jafnvel meirihluta ýmissa þjóða, hafa syrgt harðstjóra sína þegar þeir féllu frá.

Dæmi um það er fráfall Norður-Kóreskra harðstjóra og fráfall Stalíns 1953. Mig minnir að þjóðarleiðtogar heims hafi farið eftir siðvenjum og sent Sovétmönnum samúðarkveðjur við fráfall Stalíns og staðreynd er að stór hópur fólks á Íslandi, sem taldi sig ekki vita betur þá en að hann hefði verið eitt helsta stórmenni og velgjörðarmaður mannkyns, syrgði hann mjög.   


mbl.is Engin samúð frá Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband