Dagur jarðar. Þörf á sjálfbærri þróun.

Í dag er alþjóðlegur Dagur jarðar og þar með dagur jarðargæða.

Ég og ýmsir fræðimenn höfum lengi gagnrýnt rangfærslur, sem Íslendingar halda fram bæði hér heima og einkum gagnvart útlendingum þess efnis að nýting jarðvarmans á Íslandi falli almennt undir skilgreininguna "endurnýjanleg, hrein orka" og sjálfbær þróun og sé því ekki rányrkja.

Nú hafa þrír vísindamenn hjá ÍSOR fengið viðurkenningu fyrir fræðigrein um þetta efni og er það vel.

einn þeirra, Guðni Axelsson, setti ásamt Ólafi Flóvenz í Morgunblaðsgreinum fram þá skilgreiningu, að hægt eigi að vera að nýta jarðvarmann á sjálfbæran hátt ef nógu varlega er farið af stað og niðurstöður rannsókna á ástandi svæðisins notaðar til að draga úr vinnslunni ef sýnt þyki að hún sé of ágeng.

Skilgreiningin var að vísu sett fram í aðeins einni setningu í langri framhaldsgrein og fór því sennilega fram hjá lang flestum lesendum.

En hún sýndi samt hve óralangt frá þessari aðferð nýtingin til raforkuframleiðslu í á flestum jarðvarmasvæðunum hefur verið og er enn hér á landi.

Nefnt er að í stað 50 ára nýtingarendingu, eins og nú er lagt upp með, sé eðlilegra að miða við 100-300 ára endingu.

Í raun er það líka of stutt tímabil nema að menn geri það sem alveg hefur vantað: Ákveði fyrst fyrirfram um öll þau virkjanasvæði sem i pottinum eru, áætli gróft hvernig hægt sé að nýta þau í heild þannig að endingartíminn verði eilífur, því að vitað er að svæði "jafna sig" á ákveðnum tíma eftir að búið er að kreista úr þeim allan varmann.

Frumrannsóknir Braga Árnasonar bentu til þess að sá tími væri tvöfalt lengri en endingartíminn á Nesjavalla-Hengilssvæðinu, en ganga verður miklu lengra í rannsóknum til þess að hægt sé að komast hjá rányrkju.

Miðað við hina stuttu endingu á núverandi jarðvarmavirkjunum ætti skilyrðislaust að hætta við allar áætlanir um frekari jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu og stefna að raunverulegri sjálfbærri nýtingu með því að fara eftir því sem þeir Guðni og Ólafur lögðu til í Morgunblaðsgreinum sínum.  

Á allri þessari nýtingu þarf að verða gagnger bragarbót.  

   

 

 


mbl.is Áttu bestu fræðigreinar ársins 2014
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknræn myndin af vélinni í þokunni: Röng vél.

Hvarf malasísku þotunnar verður æ dularfyllra.

Kannski er myndbirtingin af skugga vélar í þokukenndu umhverfi, sem kemur frá AFP, táknræn, því að hún er af fjögurra hreyfla skrúfuþotu en ekki af tveggja hreyfla þotu eins og Boeing 777 vél malasíska flugfélagsins var.

Undir myndinni stendur: "Hvar er hún", en ætti kannski að standa: "Hver er hún?"  

Kannski er verið að leita með röngum aðferðum að rangri vél á röngum stað.   


mbl.is Er leitað á röngum stað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feluleikurinn og þöggunin varðandi jarðvegseyðinguna.

Um síðustu aldamót var gerð úttekt á vegum Sameinuðu þjóðanna á jarðvegsmálum þjóða heims.

Hér á Íslandi var síðan mikið gert úr því að við hefðum komið afar vel út úr þessari rannsókn og verið meðal efstu þjóða á listanum yfir það að vera umhverfisvæn. Um sama leyti var uppi að framkvæma mestu óafturkræfu neikvæðu umhverfisspjöll, sem möguleg eru í þessu landi.  

Þetta kom mér á óvart af því að rannsókn Ólafs Arnalds á ástandi jarðvegsmála á Íslandi, sem hann fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir, sýndi, að hvergi í nokkru landi var og er ástandið jafn slæmt.

Í krafti upplýsingaskyldu stjórnvalda fékk ég að skoða skýrsluna. Þá kom í ljós hver var ástæðan. Örfá lönd, mestu skussarnir, höfðu skilað auðu varðandi jarðvegsmálin og sett stafina NA í dáilkinn sem þau voru í.

Meðal landanna var til dæmis Úkraína með sínar afleiðingar Chernobylslyssins, og fleiri skussalönd Austur-Evrópu höfðu þetta svona.

En Ísland setti líka stafina NA í sinn dálk og komst upp með það að ljúga því upp í opið geðið á umheiminum hvernig ástandi var og er hér, þótt ekkert annað land byggi yfir verðlaunaúttekt á ástandinu.

Þegar Steingrímur Hermannsson tók við embætti landbúnaðarráðherra um hríð lagði hann til að þessi mál yrðu tekin fyrir af festu og bændur í héruðum, þar sem afréttir og lönd voru sannanlega óbeitarhæf, yrðu styrktir til þess að hætta að beita þá, enda mikil önnur atvinnutækifæri í þeim héruðum,  en í staðinn fengju bændur á svæðum, þar sem landbúnaður var grunnatvinnuvegur og beitarlönd í þokkalegu ástandi, aukinn kvóta.

Sem dæmi má nefna Vestur-Húnavatnssýslu og Strandir.

Steingrímur segir í ævisögu sinni að bændasamtökin og landsbyggðarþingmenn hafi brugðist ókvæða við og hann hafi ekki þorað að minnast á þetta framar.

Svipað gerðist þegar Hjálmar Jónsson varð formaður landbúnaðarnefndar Alþingis um 20 árum síðar, að hann viðraði þessa hugmynd óvart í viðtali í fjölmiðli og allt varð vitlaust.

Með sömu tímalengd á milli svona umtals má búast við að einhver ráðamaður orði þetta í þriðja sinn í kringum árið 2020, allt verði vitlaust og síðan líði næstu 20 ár til ársins 2040 með sama feluleiknum, fram að næsta upphlaupi og þöggun í kjölfarið.   


mbl.is Þörf á breyttu viðhorfi í landgræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband